Fréttir
31. janúar 2025Innan aðeins örfárra klukkustunda eftir að Donald Trump tók við forsetaembætti Bandaríkjanna skrifaði hann undir fjölda forsetatilskipana sem margar hverjar grafa undan mannréttindum fólks og geta komið til með að hafa skaðleg áhrif á líf, heilsu og velferð milljóna í Bandaríkjunum og víðar.
Tilskipanir forsetans sem byggja á skaðlegum hugmyndum um yfirráð hvítra, gera innflytjendur að blórabögglum fyrir pólitíska misbresti kjörinna leiðtoga. Hann beinir athygli fólks í ranga átt því það eru ekki flóttafólk og innflytjendur sem bera ábyrgð á húsnæðisleysi, fátækt, hækkandi matvöruverði, loftslagsvánni, nánast óheftum aðgangi að skotvopnum eða ópíóðafaraldri þar í landi heldur er það stjórnmálafólkið sem ber ábyrgðina.
(Mynd: Andrew Harnik/Getty Images)
Dauðarefsingin
Á síðustu dögum Biden á valdastóli náðaði hann 37 alríkisfanga af 40 sem sátu á dauðadeild í Bandaríkjunum.
Trump aftur á móti setti af stað aftökuhrinu á síðustu 6 mánuðum fyrri forsetatíðar sinnar sem lauk árið 2021 þegar 13 alríkisfangar voru teknir af lífi. Þannig lauk 130 ára gamalli hefð að gert væri aftökuhlé í aðdraganda forsetaskipta.
Það kemur því miður ekki á óvart að Trump hafi skrifað undir tilskipun um endurreisn dauðarefsingarinnar og almannaöryggi.
Tilskipuninni er ætlað að hvetja til beitingar dauðarefsingarinnar og að henni verði beitt með ákafari hætti en áður undir því yfirskini að hún stuðli að almannaöryggi.
Raunin er hins vegar sú að slík refsistefna er ógn við almannaöryggi þar sem ríkinu er heimilt að taka einstaklinga af lífi. Dauðarefsingin fækkar ekki glæpum og er því ekki aðeins vonlaus leið í baráttunni gegn glæpum heldur á saklaust fólk á það á hættu að vera ranglega dæmt og tekið af lífi.
Dauðarefsingunni er oftar beitt gegn minnihlutahópum og jaðarhópum eins og lituðu og fátæku fólki og þeim sem eru með alvarlega þroskahömlun eða geðræn vandamál. Rétturinn til lífs eru mannréttindi sem við öll eigum rétt á að njóta og þennan rétt má ekki skerða jafnvel þó við gerumst sek um glæpi.
Amnesty fordæmir dauðarefsinguna í öllum tilvikum og án undantekninga.
Lýðheilsa og loftlagsvá
Trump sýndi alþjóðlegri lýðheilsu bersýnilega lítilsvirðingu þegar hann tók þá skammsýnu ákvörðun að fella niður aðild Bandaríkjanna að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (e. WHO). Sögulega hafa Bandaríkin verið einn stærsti fjármögnunaraðili Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og mikilvægur samstarfsaðili til að tryggja alþjóðlegt samstarf sem stuðlar að bættu heilbrigði innan aðildarríkjanna sem vinnur að því að allt fólk óháð aðstæðum geti fengið aðgang að bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu.
Þessi tilskipun grefur undan lýðheilsu í Bandaríkjunum og um heim allan. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er best í stakk búin til að bregðast við alþjóðlegum neyðartilvikum í heilbrigðismálum með samræmdum aðgerðum og því skaðar úrsögn Bandaríkjanna réttindi fólks um heim allan þar sem fjármagn til stofnunarinnar verður skert.
Trump lét sér þetta ekki nægja heldur skrifaði hann einnig undir tilskipun um að Bandaríkin segi sig frá Parísarsáttmálanum.
Loftslagsváin er ein stærsta ógnin við mannréttindi í dag. Loftslagsbreytingar leiða til hungursneyðar, aukins fjölda flóttafólks, fátæktar og heimilisleysis um heim allan.
Ákvörðun Trumps veldur skaða um heim allan. Það er jaðarsettasta fólkið sem verður verst úti, þó að við þurfum ekki að leita lengra en til eldanna í Kaliforníu og flóðanna í Norður-Karólínu til að átta okkur á því að loftslagsváin hefur nú þegar áhrif á alla.
Bandaríkin losa einna mest kolefni af ríkjum heims Bandaríkin bera því ábyrgð á að sýna forystu og færa sig frá og hætta notkun á jarðefnaeldsneyti og styðja við græna orku á þann hátt sem virðir og verndar mannréttindi. Trump skautar algjörlega fram hjá þessari ábyrgð og hættan er að fleiri ríki fari sömu leið.
Réttindi hinsegin fólks
Forsetatilskipunin um tvö kyn er ætlað að „verja réttindi kvenna“ og „samviskufrelsi“ með því að nota skýrt tungumál og viðurkenna aðeins tvö líffræðileg kyn. Tilskipunin gengur í berhögg við þá þróun sem hefur átt sér stað þar sem mörg ríki og Bandaríkin þar á meðal hafa tekið skref, stundum þó fá og hægfara, í átt að virða réttindi hinsegin fólks og trans fólks þá sérstaklega. Heimurinn þarf á leiðtogum að halda sem styðja við mannréttindi og mannúð.
Tilskipun Trump brýtur þvert gegn þeim sigrum sem hafa átt sér stað á síðustu árum og áratugum.
Sem elstu og stærstu mannréttindasamtök í heimi þá minnum við Donald Trump á skyldur hans að vernda og virða mannréttindi. Það gildir einu hver gegna æðstu embættisstöðum heims þá höldum við áfram að berjast fyrir mannréttindum fyrir alla.
Í sameiningu, með félögum okkar, styrktaraðilum og öðrum félagasamtökum um heim allan munum við kalla eftir ábyrgðarskyldu bandarískra stjórnvalda. Baráttunni er hvergi nærri lokið.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu