Fréttir

31. janúar 2025

Banda­ríkin: Forseta­til­skip­anir Trump skerða mann­rétt­indi

Innan aðeins örfárra klukku­stunda eftir að Donald Trump tók við forseta­embætti Banda­ríkj­anna skrifaði hann undir fjölda forseta­til­skipana sem margar hverjar grafa undan mann­rétt­indum fólks og geta komið til með að hafa skaðleg áhrif á líf, heilsu og velferð milljóna í Banda­ríkj­unum og víðar.  

Tilskip­anir forsetans sem byggja á skað­legum hugmyndum um yfirráð hvítra, gera innflytj­endur að blóra­bögglum fyrir póli­tíska misbresti kjör­inna leið­toga. Hann beinir athygli fólks í ranga átt því það eru ekki flótta­fólk og innflytj­endur sem bera ábyrgð á húsnæð­is­leysi, fátækt, hækk­andi matvöru­verði, lofts­lags­vánni, nánast óheftum aðgangi að skot­vopnum eða ópíóðafar­aldri þar í landi heldur er það stjórn­mála­fólkið sem ber ábyrgðina. 

(Mynd: Andrew Harnik/Getty Images)

Dauðarefsingin

Á síðustu dögum Biden á valda­stóli náðaði hann 37 alrík­is­fanga af 40 sem sátu á dauða­deild í Banda­ríkj­unum. 

Trump aftur á móti setti af stað aftöku­hrinu á síðustu 6 mánuðum fyrri forseta­tíðar sinnar sem lauk árið 2021 þegar 13 alrík­is­fangar voru teknir af lífi. Þannig lauk 130 ára gamalli hefð að gert væri aftökuhlé í aðdrag­anda forseta­skipta.

Það kemur því miður ekki á óvart að Trump hafi skrifað undir tilskipun um endur­reisn dauðarefs­ing­ar­innar og almanna­ör­yggi.

Tilskip­un­inni er ætlað að hvetja til beit­ingar dauðarefs­ing­ar­innar og að henni verði beitt með ákafari hætti en áður undir því yfir­skini að hún stuðli að almanna­ör­yggi. 

Raunin er hins vegar sú að slík refs­i­stefna er ógn við almanna­ör­yggi þar sem ríkinu er heimilt að taka einstak­linga af lífi. Dauðarefs­ingin fækkar ekki glæpum og er því ekki aðeins vonlaus leið í barátt­unni gegn glæpum heldur á saklaust fólk á það á hættu að vera rang­lega dæmt og tekið af lífi.

Dauðarefs­ing­unni er oftar beitt gegn minni­hluta­hópum og jaðar­hópum eins og lituðu og fátæku fólki og þeim sem eru með alvar­lega þroska­hömlun eða geðræn vandamál. Rétt­urinn til lífs eru mann­rétt­indi sem við öll eigum rétt á að njóta og þennan rétt má ekki skerða jafnvel þó við gerumst sek um glæpi.

Amnesty fordæmir dauðarefs­inguna í öllum tilvikum og án undan­tekn­inga. 

Lýðheilsa og loftlagsvá

Trump sýndi alþjóð­legri lýðheilsu bersýni­lega lítilsvirð­ingu þegar hann tók þá skamm­sýnu ákvörðun að fella niður aðild Banda­ríkj­anna að Alþjóða­heil­brigð­is­mála­stofn­un­inni (e. WHO). Sögu­lega hafa Banda­ríkin verið einn stærsti fjár­mögn­un­ar­aðili Alþjóða­heil­brigð­is­mála­stofn­un­ar­innar og mikil­vægur samstarfs­aðili til að tryggja alþjóð­legt samstarf sem stuðlar að bættu heil­brigði innan aðild­ar­ríkj­anna sem vinnur að því að allt fólk óháð aðstæðum geti fengið aðgang að bestu mögu­legu heil­brigð­is­þjón­ustu.  

Þessi tilskipun grefur undan lýðheilsu í Banda­ríkj­unum og um heim allan. Alþjóða­heil­brigð­is­mála­stofn­unin er best í stakk búin til að bregðast við alþjóð­legum neyð­ar­til­vikum í heil­brigð­is­málum með samræmdum aðgerðum og því skaðar úrsögn Banda­ríkj­anna rétt­indi fólks um heim allan þar sem fjár­magn til stofn­un­ar­innar verður skert. 

Trump lét sér þetta ekki nægja heldur skrifaði hann einnig undir tilskipun um að Banda­ríkin segi sig frá París­arsátt­mál­anum.

Lofts­lags­váin er ein stærsta ógnin við mann­rétt­indi í dag. Lofts­lags­breyt­ingar leiða til hung­urs­neyðar, aukins fjölda flótta­fólks, fátæktar og heimilisleysis um heim allan.

Ákvörðun Trumps veldur skaða um heim allan. Það er jaðar­sett­asta fólkið sem verður verst úti, þó við þurfum ekki leita lengra en til eldanna í Kali­forníu og flóð­anna í Norður-Karólínu til átta okkur á því að lofts­lags­váin hefur nú þegar áhrif á alla.

Banda­ríkin losa einna mest kolefni af ríkjum heims Bandaríkin bera því ábyrgð á sýna forystu og færa sig frá og hætta notkun á jarðefna­eldsneyti og styðja við græna orku á þann hátt sem virðir og verndar mann­rétt­indi. Trump skautar algjör­lega fram hjá þessari ábyrgð og hættan er fleiri ríki fari sömu leið. 

Réttindi hinsegin fólks

Forsetatil­skipunin um tvö kyn er ætlað að verja rétt­indi kvenna ogsamviskufrelsi“ með því að nota skýrt tungumál og viður­kenna aðeins tvö líffræðileg kyn. Tilskip­unin gengur í berhögg við þá þróun sem hefur átt sér stað þar sem mörg ríki og Banda­ríkin þar á meðal hafa tekið skref, stundum þó fá og hægfara, í átt að virða rétt­indi hinsegin fólks og trans fólks þá sérstak­lega. Heim­urinn þarf á leiðtogum að halda sem styðja við mann­rétt­indi og mannúð.

Tilskipun Trump brýtur þvert gegn þeim  sigrum sem hafa átt sér stað á síðustu árum og áratugum. 

Sem elstu og stærstu mann­rétt­inda­samtök í heimi þá minnum við Donald Trump á skyldur hans að vernda og virða mann­rétt­indi. Það gildir einu hver gegna æðstu embætt­is­stöðum heims þá höldum við áfram að berjast fyrir mann­rétt­indum fyrir alla.

Í samein­ingu, með félögum okkar, styrktarað­ilum og öðrum félaga­sam­tökum um heim allan munum við kalla eftir ábyrgð­ar­skyldu banda­rískra stjórn­valda. Barátt­unni er hvergi nærri lokið.  

Lestu einnig