Skýrslur
9. júní 2025Ríkisstjórn Trump skar snögglega niður erlenda aðstoð Bandaríkjanna. Amnesty International rannsakaði áhrif þessa niðurskurðar á verkefnum víðs vegar um heiminn sem miða meðal annars að því að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, tryggja fæðuöryggi, athvarf, heilbrigðisþjónustu og mannúðaraðstoð til fólks í viðkvæmri stöðu. Frá þessu er greint í nýlegri skýrslu Amnesty International, Lives at risk.
Niðurskurðurinn er tilkominn vegna forsetatilskipunar um endurmat og endurskipulagningu á erlendri aðstoð frá Bandaríkjunum sem Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði undir 20. janúar 2025 auk annarra tilskipana sem beindust að ákveðnum hópum og verkefnum.
Niðurskurðurinn hefur valdið skaða á heimsvísu á tveimur sviðum. Skorið hefur verið niður eða lokað fyrir verkefni sem tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir jaðarsetta einstaklinga annars vegar og hins vegar verkefni sem styðja við farandfólk og fólk í leit að öryggi um heim allan.
Réttinum til lífs og heilsu er ógnað
Bandarísk stjórnvöld hafa gegnt lykilhlutverki í að fjármagna verkefni sem tengjast heilsu á heimsvísu, með því að styrkja meðal annars verkefni tengd forvörnum gegn HIV, bólusetningum, mæðraheilsu og mannúðaraðstoð.
Frá því að Trump forseti dró skyndilega úr erlendri aðstoð hefur eftirfarandi verkefnum verið lokað tímabundið eða alfarið:
Gvatemala: Niðurskurður hefur valdið truflun á verkefnum sem styðja við þolendur kynferðisofbeldis, þar á meðal að tryggja þunguðum stúlkum sem var nauðgað næringu og veita þolendum ofbeldis stuðning til að byggja upp líf sitt með því að veita þeim læknisþjónustu ásamt sálrænum og lagalegum stuðningi. Niðurskurðurinn hefur einnig haft áhrif á verkefni tengd forvörnum og meðferð við HIV.
Haítí: Niðurskurður á HIV-verkefnum hefur leitt til þess að konur, stúlkur og hinsegin fólk hafa skertari aðgang að forvörnum og meðferð.
Suður-Afríka: Eitt hæsta hlutfall HIV-smitaðra er í landinu en stöðvað hefur verið fjármagn til verkefna sem stuðla að forvörnum gegn HIV og verkefna sem styðja við munaðarlaus börn og börn í viðkvæmri stöðu, þar á meðal þolendur nauðgana, sem veldur því að fólk er án þjónustu.
Sýrland: Lokað var á grunnþjónustu í varðhaldsbúðunum Al-Hol þar sem 36 þúsund einstaklingar, í flestum tilfellum börn, hafa verið handteknir að geðþótta um óákveðinn tíma vegna þess að þeir eru taldir tengjast vopnaða hópnum Íslamska ríkið. Draga hefur þurft úr þjónustu sjúkrabíla og heilsugæslustöðva á svæðinu.
Jemen: Lífsnauðsynlegri þjónustu hefur verið hætt, þar á meðal meðferðum fyrir vannærð börn, þungaðar konur og mæður með barn á brjósti, veitingu öruggs skjóls fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem þjást vegna kóleru og annarra sjúkdóma.
Suður-Súdan: Lokað hefur verið fyrir verkefni sem veittu víðtæka heilbrigðisþjónustu, þar á meðal endurhæfingu fyrir þolendur vopnaðra átaka, meðferðarþjónustu fyrir þolendur kynbundins ofbeldis, sálrænan stuðning fyrir þolendur nauðgana og næringu fyrir börn í neyð.
Fólk í leit að öryggi án stuðnings um heim allan
Niðurskurður til athvarfa og hópa sem veita grunnþjónustu fyrir flótta– og farandfólk, vegalaust fólk í eigin landi og alþjóðlega umsækjendur um vernd, þá sérstaklega sem voru í hættulegum og erfiðum aðstæðum. Áhrif þess eru víðtæk og hrikaleg.
Afganistan: 12 af 23 svæðismiðstöðvum hefur verið lokað sem þjónustuðu um það bil 120 þúsund Afgana sem hafa snúið aftur til síns heima eða eru vegalausir í eigin landi. Miðstöðvarnar veittu húsnæði, mataraðstoð, lagalega aðstoð og tilvísun til heilbrigðisstarfsfólks. Hjálparsamtök sem gegna lykilhlutverki í Afganistan hafa hætt við verkefni tengd heilsu og vatni, sem hefur hlutfallslega mest áhrif á konur og stúlkur.
Kosta Ríka: Samtök sem aðstoðuðu umsækjendur um alþjóðlega vernd og farandfólk, margir frá nágrannalandinu Níkaragva, hafa neyðst til að minnka við sig eða loka fyrir verkefni sem tengjast fæðu, athvarfi og sálrænum stuðningi. Þessi niðurskurður á sér stað á sama tíma og Kosta Ríka tekur á móti enn fleira fólki í leit að öryggi eftir að því var
Landamæri Haítí og Dóminíska lýðveldisins: Þjónustuaðilar fyrir brottvísaða einstaklinga hafa þegar neyðst til að draga úr aðstoð, meðal annars aðstoð tengt fæðu, athvarfi og samgöngum. Brátt mun tímabundin vernd fyrir Haítíbúa í Bandaríkjunum renna út og því má gera ráð fyrir auknum brottvísunum sem mun valda auknu álagi á stuðningsþjónustu sem er nú þegar skert.
Mexíkó: Niðurskurður hefur leitt til stöðvunar á verkefnum tengdum fæðu, athvarfi og lagalegum stuðningi fyrir fólk í leit að öryggi sem hafa engan stað til að fara til í kjölfar þess að ekki er lengur hægt að sækja um alþjóðlega vernd á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Landamæri Mjanmar og Taílands: Verkefni tengd heilsu- og mannúð sem veita vegalausu fólki og flóttafólki stuðning og voru styrkt af Bandaríkjunum hafa hætt eða dregið úr umsvifum þeirra. Heilsugæslu í búðum við landamærin í Taílandi var skyndilega lokað eftir skipun um að leggja niður störf sem að sögn leiddi til dauðsfalla.
Einhliða ákvörðun
Þessi ákvörðun var tekin einhliða af stjórnvöldum undir stjórn Trump án þess að fara í gegnum Bandaríkjaþing eins og bandarísk lög gera ráð fyrir.
Þetta gerist á sama tíma og Bandaríkin hafa dregið aðild sína að alþjóðlegum stofnunum til baka, þar á Parísarsáttmálanum, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna ásamt því að endurmeta aðild sína að Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA).
Tilmæli Amnesty International
Amnesty International hvetur ríkisstjórn Trumps að hefja á ný erlenda aðstoð til stuðnings verkefnum þar sem niðurskurðurinn hefur valdið skaða á mannréttindum og tryggja að aðstoð sé veitt í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög.
Kallað er eftir því að Bandaríkjaþing haldi áfram að fjármagna erlenda aðstoð.
Ríkisstjórn Trumps og Bandaríkjaþing verða að vinna saman til að tryggja að breytingar á erlendri aðstoð séu gerðar með gagnsæjum hætti og í samráði við alla aðila sem koma að aðstoðinni og njóta hennar og sjá til þess að breytingarnar séu í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og -staðla, þar á meðal að hugað sé að meginreglum um lögmæti, nauðsyn og bann gegn mismunun.
Öll ríki sem hafa burði til verða að uppfylla þær kröfur samkvæmt ályktun 2626 sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um að veita 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu í erlenda aðstoð án mismunar.
Þau lönd sem geta veitt umframframlög verða eftir bestu getu að bæta upp það fjármagn sem vantar upp á eftir að Bandaríkin hættu skyndilega að fjármagna erlenda aðstoð.
Erlend aðstoð er um 1 % af fjárlögum Bandaríkjanna og þeim ber alþjóðleg skylda til að veita stuðning til að hjálpa þeim verst settu í heiminum. Bandaríkin eru eitt ríkasta land í heimi og á sér langa sögu að veita miklar fjárhæðir í erlenda aðstoð. Greining Amnesty International sýnir glögglega að það er grimmilegt að draga sig frá alþjóðlegri samvinnu með þessum hætti og setur líf og réttindi milljóna einstaklinga í hættu, sérstaklega kvenna og stúlkna í Afganistan, flóttafólks á landamærum Taílands og Mjanmar, barna sem eru þolendur kynferðisofbeldis í Haítí og annarra jaðarsettra hópa í erfiðri stöðu.
Bandarísk stjórnvöld geta og verða að gera betur.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu