Fréttir
16. desember 2022Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur enn og aftur brugðist mannréttindaskyldum sínum með því að skuldbinda sig ekki til að tryggja bætur handa farandverkafólki og fjölskyldum þess vegna mannréttindabrota í tengslum við undirbúning fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2022 í Katar. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá Amnesty International, Human Rights Watch, FairSquare og Equidem í aðdraganda úrslitaleikja í HM.
Frá því í júní á þessu ári hafa samtökin kallað eftir bótum fyrir farandverkafólk. Í kjölfarið gaf FIFA til kynna að sambandið myndi skuldbinda sig til að finna leiðir til að greiða bætur vegna dauðsfalla, líkamstjóns og útbreidds launaþjófnaðs og styðja við uppbyggingu stuðningsmiðstöðvar fyrir farandverkafólk. Rétt fyrir mótið hafði FIFA aftur á móti ekki sett fram neina áætlun um að fara í slíka vinnu og tilkynnti í staðinn nýjan sjóð (e.Legacy fund) þar sem ekki er ákvæði um bætur fyrir verkafólk. Sjóðurinn er gerður til þess að styrkja menntun í þróunarlöndum.
Erfitt fyrir farandverkafólk að fá bætur í Katar
„Verkafólk í þúsundum talið hefur þurft að borga ólöglegt þóknunargjald, launum þess stolið og það jafnvel látið lífið til að arðbærasti íþróttaviðburðurinn gæti orðið að veruleika. Það væri svívirðilegt ef sjóður FIFA legði ekki sitt af mörkum og veiti bætur fyrir skaða verkafólksins.“
Steve Cockburn hjá Amnesty International.
Gianni Infantino, forseti FIFA, viðhafði einnig misvísandi ummæli um að verkafólk gæti einfaldlega fengið bætur í gegnum núverandi kerfi í Katar. Það kerfi ræður þó ekki við að greiða bætur af þessari stærðargráðu vegna dauðsfalla, líkamstjóns og launaþjófnaðar.
Frá 2020 hefur stuðnings- og tryggingasjóður verkafólks í Katar greitt bætur til verkafólks vegna launaþjófnaðar atvinnuveitanda í kjölfar niðurstöðu dómstóla. Þessi sjóður getur þó ekki að neinu ráði bætt fyrir dauðsföll, líkamstjón og launaþjófnað sem áttu sér stað allt að áratug áður en sjóðurinn varð til.
Auk þess er mikill meirihluti dauðsfalla skráður af völdum náttúrulegra orsaka eða hjartastopps sem er ein stærsta hindrunin fyrir fjölskyldur hinna látnu til að sækja bætur. Samkvæmt vinnulöggjöf Katar er atvinnuveitendum aðeins skylt að greiða bætur fyrir vinnutengd dauðsföll og líkamstjón.
FIFA getur enn brugðist rétt við með því að nota Legacy-sjóðinn í þágu verkafólks og fjölskyldu þess, styðja af heilum hug við stuðningsmiðstöð fyrir verkafólk og tryggja að verkafólkið hafi aðgang að bótum sem það á skilið. Með breyttri stefnu gæti FIFA skipt sköpum í lífi verkafólks sem eru hinar sönnu hetjur heimsmeistaramótsins. Að neita því er hrikalegur áfellisdómur um skuldbindingu FIFA í þágu vinnuréttar verkafólks.“
Steve Cockburn hjá Amnesty International.
Skyldur FIFA
Áætlað er að tekjur FIFA vegna heimsmeistaramótsins verði 7,5 milljarður bandaríkjadollara og samkvæmt leiðbeinandi meginreglum Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og mannréttindi ber sambandinu skylda til að sinna mannréttindaskyldum sínum óháð því hvort að viðkomandi ríki geti eða vilji sinna sínum skyldum. FIFA hefur ekki gefið út opinbera skýringu á því hvers vegna sambandið hefur vísað tillögum um bætur á bug.
Alþjóðaknattspyrnusambandið brást skyldu sinni árið 2010 þegar Katar var valið án þess að framkvæma mat um áhrif á mannréttindi þar í landi. Auk þess hefur sambandið ekki gripið til skilvirkra aðgerða með tímanlegum hætti til að draga úr og bæta fyrir mannréttindabrot.
Nú í lok heimsmeistaramótsins kallar Amnesty International í samstarfi við Human Rights Watch, FairSquare og Equidem eftir því að nýi Legacy–sjóður á vegum FIFA verði einnig notaður til að fjármagna bætur fyrir verkafólk og fjölskyldur hinna látnu.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu