Fréttir

22. nóvember 2007

Dauðarefs­ingar: mikil­vægt skref í barátt­unni gegn dauðarefs­ingum

Á alls­herj­ar­þingi Sameinuðu þjóð­anna hinn 15. nóvember s.l. var samþykkt tillaga í þriðju nefnd þingsins um að aftökur verði stöðv­aðar um heim allan. Það er stór áfangi í barátt­unni fyrir heimi án dauðarefs­inga að á vett­vangi Sameinuðu þjóð­anna hafi tillaga náð fram að ganga þar sem samþykkt er að stöðva aftökur á heimsvísu. Amnesty Internati­onal og Alþjóða­samtök gegn dauðarefs­ing­unni (World Coalition Against the Death Penalty) leituðu eftir stuðn­ingi almenn­ings við tillöguna og skrifuðu rúmar 5 millj­ónir manna undir alþjóð­lega bæna­skrá samtak­anna.

Íslands­deild Amnesty Internati­onal vill þakka þeim félögum Íslands­deild­ar­innar og öðrum, sem skrifuðu undir bæna­skrána.

Samþykktin var lögð fram af 87 ríkjum. 99 ríki studdu hana, 52 voru á móti og 33 sátu hjá.

Samþykktin er ekki laga­lega bind­andi en hún endur­speglar aukinn alþjóð­legan stuðning við afnám dauðarefs­inga og hefur ríkt stjórn­mála­legt og siðferði­legt vægi.

Mikil­vægt er að þau ríki sem enn beita dauðarefs­ingum virði ákvörð­unina.

Árið 1971 og árið 1977 samþykkti alls­herj­ar­þing Sameinuðu þjóð­anna tillögu þar sem sagði að það væri „æski­legt“ að ríki heims afnæmu dauðarefs­ingar. Tillagan sem nú hefur verið samþykkt gengur lengra, en í henni eru ríki hvött til að stöðva aftökur með það að mark­miði að afnema dauðarefs­ingar.

Tillögur um stöðvun aftaka voru lagðar fram  á alls­herj­ar­þingi Sameinuðu þjóð­anna árin 1994 og 1999. Í fyrra skiptið var tillagan felld með átta atkvæða mun og í síðara skiptið var hún dregin til baka.

Á síðasta ári er vitað um 1.591 aftökur í 25 löndum. 91% allra aftaka fara fram í sex löndum: Kína, Íran, Pakistan, Írak, Súdan og Banda­ríkj­unum.

Horfið á umfjöllun um dauðarefs­inguna hér.  Þulur er breski leik­arinn Colin Firth.

Lestu einnig