Skýrslur

29. maí 2024

Dauðarefs­ingin: Mesti fjöldi aftaka í næstum áratug

Fjöldi aftaka rauk upp árið 2023 en á árinu var fjöldi aftaka sá mesti í næstum áratug. Ástæðan er veruleg aukning í Miðaust­ur­löndum. Þetta kemur fram í nýút­gef­inni skýrslu Amnesty Internati­onal um beit­ingu dauðarefs­ing­ar­innar á heimsvísu árið 2023. Í heildina fóru fram 1.153 aftökur á árinu að undan­skildum þeim aftökum sem áttu sér stað í Kína sem eru taldar skipta þúsundum. Þetta er rúmlega 30% aukning frá árinu 2022.

Að sama skapi er þetta mesti fjöldi aftaka frá árinu 2015 en á því ári voru 1.634 einstak­lingar teknir af lífi. Þrátt fyrir þessa aukn­ingu hefur fjöldi landa sem fram­kvæmdu aftökur aldrei verið færri samkvæmt skrán­ingum Amnesty Internati­onal.

Skýrsla Amnesty Internati­onal um dauðarefs­ingar 2023

  • Mikil aukning á aftökum í Íran veldur mesta fjölda aftaka í heim­inum frá 2015.
  • Dregur úr fram­förum í Banda­ríkj­unum vegna aukn­ingar á aftökum.
  • Kína heldur áfram að taka þúsundir af lífi og rekur stefnu sem hótar dauðarefs­ingu fyrir glæp.
  • Fjöldi landa sem fram­kvæma aftökur hefur aldrei verið færri samkvæmt skrán­ingum Amnesty Internati­onal.

Dauðarefsingarskýrsla Amnesty International

Kína, Íran, Sádi-Arabía, Sómalía og Banda­ríkin eru þau fimm lönd sem fram­kvæmdu flestar aftökur árið 2023. Íran fram­kvæmdi 74% af öllum skráðum aftökum en Sádi-Arabía 15%. Aftökum fjölgaði bæði í Sómalíu og Banda­ríkj­unum árið 2023. Á heimsvísu var 20% aukning á dauða­dómum í saman­burði við árið 2022, samtals 2.428 dómar voru kveðnir upp í fyrra.

„Þrátt fyrir þetta bakslag, aðal­lega í Miðaust­ur­löndum, fer þeim löndum sem fram­kvæma enn aftökur sífækk­andi. Herferð okkar um afnám þess­arar grimmi­legu refs­ingar virkar. Við höldum áfram þar til við höfum náð því að binda algjöran enda á dauðarefs­inguna.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal

Aftökum snarfjölgaði í Íran

Írönsk yfir­völd beittu dauðarefs­ing­unni í auknum mæli til að vekja ótta hjá almenn­ingi og ríghalda í völd sín. Fjöl­margar aftökur voru fram­kvæmdar um allt landið. Að minnsta kosti 853 einstak­lingar voru teknir af lífi í landinu árið 2023, sem er 48% aukning frá árinu áður þegar fjöldinn var 576.

„Þessi gífur­lega aukning á fjölda skráðra aftaka má rekja til Íran. Írönsk yfir­völd sýndu manns­lífum algjöra vanvirð­ingu þar sem aftökum vegna vímu­efna­brota fjölgaði til muna og undir­strikar þá mismunun sem beiting dauðarefs­ing­ar­innar leiðir til því hún bitnar mest á jaðar­hópum og fátækum samfé­lögum.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal

Minni­hluta­hóp­urinn Baluchi fann mest fyrir áhrif­unum þar sem hlut­fall aftaka á einstak­lingum úr þeim hópi var í engu samræmi við fjölda þeirra. Baluchi-minni­hluta­hóp­urinn er um 5% af íbúa­fjölda Íran en hlut­fall einstak­linga sem teknir voru af lífi úr hópi Baluchi var um 20%. Að minnsta kosti 24 konur voru teknar af lífi og fimm einstak­lingar voru teknir af líf fyrir glæp sem átti sér stað þegar viðkom­andi var barn undir 18 ára aldri.

Af skráðum aftökum í Íran voru að minnsta kosti 545 sem voru ólög­mætar þar sem þær voru fram­kvæmdar fyrir brot sem samkvæmt alþjóða­lögum má ekki refsa með dauðarefs­ingu, þar á meðal vímu­efna­brot, rán og njósnir. Mikil fjölgun var á aftökum vegna vímu­efna­brota í landinu en hlut­fall þeirra var um 56% af skráðum aftökum í landinu á árinu 2023. Það er aukning um 89% frá árinu 2022 þegar það voru 255 aftökur.

Bakslag í Bandaríkjunum

„Biden Banda­ríkja­for­seti verður að hætta að draga það á langinn að standa við loforð um að afnema dauðarefs­inguna á vegum alrík­isins.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal

Hnökrar voru á þeim jákvæðu fram­förum sem hafði verið náð fram í Banda­ríkj­unum því aftökum fjölgaði úr 18 í 24. Frum­varp um að leyfa aftöku­sveit til að fram­kvæma aftökur var lagt fram í Idaho og Tenn­essee og á sama tíma íhugaði ríkis­þing Montana að fjölga leyfi­legum lyfjum til notk­unar í aftökum með banvænni sprautu. Suður-Karólína skrifaði undir ný lög sem halda upplýs­ingum leyndum um hvaða fólk eða aðilar standa á bak við aftökur.

„Ákveðin ríki innan Banda­ríkj­anna hafa sýnt dauðarefs­ing­unni hroll­vekj­andi holl­ustu og kald­rana­legan ásetning um veit­ingu fjár­muna í það að taka fólk af lífi. Ný grimmileg aftöku­að­ferð sem er enn órann­sökuð var skamm­laust tekin upp í Alabama þegar köfn­un­ar­efni, sem veldur köfnun, var notað til að taka Kenneth Smith af lífi fyrr á þessu ári, aðeins 14 mánuðum eftir að hann þurfti að þola misheppnaða aftöku­tilraun.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal

Bakslag í Afríku sunnan Sahara

Bakslag átti sér einnig stað í Afríku sunnan Sahara en mikil aukning var á dauða­dómum og aftökum á árinu 2023. Skráðar aftökur á því svæði þreföld­uðust á milli ára, voru 11 árið 2022 en 38 árið 2023. Allar aftökur áttu sér stað í Sómalíu. Einnig var 66% aukning á milli ára á uppkvaðn­ingu dauða­dóma, 298 árið 2022 en 494 árið 2023.

Enn fremur voru engin lönd sem afnámu dauðarefs­inguna á þessu svæði árið 2023.

Ríkisleyndarmál

Tölur um dauðarefs­inguna eru ríkis­leynd­armál í Kína sem er ástæða þess að tölur þaðan eru ekki í saman­tekt Amnesty Internati­onal. Kína er samt sem áður það land sem fram­kvæmir flestar aftökur í heim­inum og er talið að þær skipti þúsundum. Engar áreið­an­legar tölur voru að sama skapi að finna frá Norður-Kóreu og Víetnam en þessi lönd eru líka talin beita dauðarefs­ing­unni í miklum mæli.

Þær fáu opin­beru tölur sem þessi lönd hafa birt eru skýr skilaboð til fólks í þessum löndum um að það skuli óttast að vera dæmt til dauða fyrir glæpi og andóf. Dauðarefs­ing­unni er beitt sem vopni til að viðhalda valdi og bæla niður andóf.

Í Kína voru birtar skýrslur í ríkis­miðlum til að minna fólk á að dauðarefs­ingin yrði beitt af hörku fyrir brot eins og ólögleg viðskipti með vímu­efni og mútur. Norður-Kórea kynnti ný lög um mögu­lega beit­ingu dauðarefs­ing­ar­innar fyrir  það eitt að nota ekki móður­málið sitt, kóresku. Herstjórn Myanmar hélt einnig áfram að beita dauðarefs­ing­unni í leyni­legum og ósann­gjörnum rétt­ar­höldum undir stjórn hersins.

Jákvæðar framfarir

Þrátt fyrir bakslög áttu sér áfram fram­farir í barátt­unni fyrir afnámi dauðarefs­ing­ar­innar. Nú hafa 112 lönd afnumið dauðarefs­inguna að fullu en samtals 144 lönd hafa afnumið hana bæði í lögum og fram­kvæmd. Aftökur voru skráðar í 16 löndum sem er lægsti fjöldi landa sem Amnesty Internati­onal hefur skráð. Engar aftökur voru skráðar í Hvíta-Rússlandi, Japan, Myanmar og Suður-Súdan líkt og árið 2022.

Í Asíu felldi Pakistan úr gildi dauðarefs­inguna fyrir vímu­efna­brot og í Malasíu er dauðarefsing ekki lengur lögbundin refsing fyrir ákveðna glæpi. Yfir­völd í Srí Lanka stað­festu að forseti landsins hefði ekki í hyggju að skrifa undir heimild fyrir dauðarefs­ingu sem dregur úr áhyggjum um að aftökur þar í landi hefjist á ný.

„Þau fáu lönd sem enn halda fast í að beita dauðarefs­ing­unni verða að fylgja nýjum tímum og afnema þessa refs­ingu fyrir fullt og allt. Dauðarefs­ingin verður enn og aftur á dagskrá hjá alls­herj­ar­þingi Sameinuðu þjóð­anna. Amnesty Internati­onal biðlar til stjórn­valda heims að styðja ákall Sameinuðu þjóð­anna um að binda enda á dauðarefs­inguna og sýna mikil­væga skuld­bind­ingu við mann­rétt­indi.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal

Myndband

Lestu einnig