Skýrslur
29. maí 2024Fjöldi aftaka rauk upp árið 2023 en á árinu var fjöldi aftaka sá mesti í næstum áratug. Ástæðan er veruleg aukning í Miðausturlöndum. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu Amnesty International um beitingu dauðarefsingarinnar á heimsvísu árið 2023. Í heildina fóru fram 1.153 aftökur á árinu að undanskildum þeim aftökum sem áttu sér stað í Kína sem eru taldar skipta þúsundum. Þetta er rúmlega 30% aukning frá árinu 2022.
Að sama skapi er þetta mesti fjöldi aftaka frá árinu 2015 en á því ári voru 1.634 einstaklingar teknir af lífi. Þrátt fyrir þessa aukningu hefur fjöldi landa sem framkvæmdu aftökur aldrei verið færri samkvæmt skráningum Amnesty International.
Skýrsla Amnesty International um dauðarefsingar 2023
Dauðarefsingarskýrsla Amnesty International
Kína, Íran, Sádi-Arabía, Sómalía og Bandaríkin eru þau fimm lönd sem framkvæmdu flestar aftökur árið 2023. Íran framkvæmdi 74% af öllum skráðum aftökum en Sádi-Arabía 15%. Aftökum fjölgaði bæði í Sómalíu og Bandaríkjunum árið 2023. Á heimsvísu var 20% aukning á dauðadómum í samanburði við árið 2022, samtals 2.428 dómar voru kveðnir upp í fyrra.
„Þrátt fyrir þetta bakslag, aðallega í Miðausturlöndum, fer þeim löndum sem framkvæma enn aftökur sífækkandi. Herferð okkar um afnám þessarar grimmilegu refsingar virkar. Við höldum áfram þar til við höfum náð því að binda algjöran enda á dauðarefsinguna.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International
Aftökum snarfjölgaði í Íran
Írönsk yfirvöld beittu dauðarefsingunni í auknum mæli til að vekja ótta hjá almenningi og ríghalda í völd sín. Fjölmargar aftökur voru framkvæmdar um allt landið. Að minnsta kosti 853 einstaklingar voru teknir af lífi í landinu árið 2023, sem er 48% aukning frá árinu áður þegar fjöldinn var 576.
„Þessi gífurlega aukning á fjölda skráðra aftaka má rekja til Íran. Írönsk yfirvöld sýndu mannslífum algjöra vanvirðingu þar sem aftökum vegna vímuefnabrota fjölgaði til muna og undirstrikar þá mismunun sem beiting dauðarefsingarinnar leiðir til því hún bitnar mest á jaðarhópum og fátækum samfélögum.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International
Minnihlutahópurinn Baluchi fann mest fyrir áhrifunum þar sem hlutfall aftaka á einstaklingum úr þeim hópi var í engu samræmi við fjölda þeirra. Baluchi-minnihlutahópurinn er um 5% af íbúafjölda Íran en hlutfall einstaklinga sem teknir voru af lífi úr hópi Baluchi var um 20%. Að minnsta kosti 24 konur voru teknar af lífi og fimm einstaklingar voru teknir af líf fyrir glæp sem átti sér stað þegar viðkomandi var barn undir 18 ára aldri.
Af skráðum aftökum í Íran voru að minnsta kosti 545 sem voru ólögmætar þar sem þær voru framkvæmdar fyrir brot sem samkvæmt alþjóðalögum má ekki refsa með dauðarefsingu, þar á meðal vímuefnabrot, rán og njósnir. Mikil fjölgun var á aftökum vegna vímuefnabrota í landinu en hlutfall þeirra var um 56% af skráðum aftökum í landinu á árinu 2023. Það er aukning um 89% frá árinu 2022 þegar það voru 255 aftökur.
Bakslag í Bandaríkjunum
„Biden Bandaríkjaforseti verður að hætta að draga það á langinn að standa við loforð um að afnema dauðarefsinguna á vegum alríkisins.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International
Hnökrar voru á þeim jákvæðu framförum sem hafði verið náð fram í Bandaríkjunum því aftökum fjölgaði úr 18 í 24. Frumvarp um að leyfa aftökusveit til að framkvæma aftökur var lagt fram í Idaho og Tennessee og á sama tíma íhugaði ríkisþing Montana að fjölga leyfilegum lyfjum til notkunar í aftökum með banvænni sprautu. Suður-Karólína skrifaði undir ný lög sem halda upplýsingum leyndum um hvaða fólk eða aðilar standa á bak við aftökur.
„Ákveðin ríki innan Bandaríkjanna hafa sýnt dauðarefsingunni hrollvekjandi hollustu og kaldranalegan ásetning um veitingu fjármuna í það að taka fólk af lífi. Ný grimmileg aftökuaðferð sem er enn órannsökuð var skammlaust tekin upp í Alabama þegar köfnunarefni, sem veldur köfnun, var notað til að taka Kenneth Smith af lífi fyrr á þessu ári, aðeins 14 mánuðum eftir að hann þurfti að þola misheppnaða aftökutilraun.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International
Bakslag í Afríku sunnan Sahara
Bakslag átti sér einnig stað í Afríku sunnan Sahara en mikil aukning var á dauðadómum og aftökum á árinu 2023. Skráðar aftökur á því svæði þrefölduðust á milli ára, voru 11 árið 2022 en 38 árið 2023. Allar aftökur áttu sér stað í Sómalíu. Einnig var 66% aukning á milli ára á uppkvaðningu dauðadóma, 298 árið 2022 en 494 árið 2023.
Enn fremur voru engin lönd sem afnámu dauðarefsinguna á þessu svæði árið 2023.
Ríkisleyndarmál
Tölur um dauðarefsinguna eru ríkisleyndarmál í Kína sem er ástæða þess að tölur þaðan eru ekki í samantekt Amnesty International. Kína er samt sem áður það land sem framkvæmir flestar aftökur í heiminum og er talið að þær skipti þúsundum. Engar áreiðanlegar tölur voru að sama skapi að finna frá Norður-Kóreu og Víetnam en þessi lönd eru líka talin beita dauðarefsingunni í miklum mæli.
Þær fáu opinberu tölur sem þessi lönd hafa birt eru skýr skilaboð til fólks í þessum löndum um að það skuli óttast að vera dæmt til dauða fyrir glæpi og andóf. Dauðarefsingunni er beitt sem vopni til að viðhalda valdi og bæla niður andóf.
Í Kína voru birtar skýrslur í ríkismiðlum til að minna fólk á að dauðarefsingin yrði beitt af hörku fyrir brot eins og ólögleg viðskipti með vímuefni og mútur. Norður-Kórea kynnti ný lög um mögulega beitingu dauðarefsingarinnar fyrir það eitt að nota ekki móðurmálið sitt, kóresku. Herstjórn Myanmar hélt einnig áfram að beita dauðarefsingunni í leynilegum og ósanngjörnum réttarhöldum undir stjórn hersins.
Jákvæðar framfarir
Þrátt fyrir bakslög áttu sér áfram framfarir í baráttunni fyrir afnámi dauðarefsingarinnar. Nú hafa 112 lönd afnumið dauðarefsinguna að fullu en samtals 144 lönd hafa afnumið hana bæði í lögum og framkvæmd. Aftökur voru skráðar í 16 löndum sem er lægsti fjöldi landa sem Amnesty International hefur skráð. Engar aftökur voru skráðar í Hvíta-Rússlandi, Japan, Myanmar og Suður-Súdan líkt og árið 2022.
Í Asíu felldi Pakistan úr gildi dauðarefsinguna fyrir vímuefnabrot og í Malasíu er dauðarefsing ekki lengur lögbundin refsing fyrir ákveðna glæpi. Yfirvöld í Srí Lanka staðfestu að forseti landsins hefði ekki í hyggju að skrifa undir heimild fyrir dauðarefsingu sem dregur úr áhyggjum um að aftökur þar í landi hefjist á ný.
„Þau fáu lönd sem enn halda fast í að beita dauðarefsingunni verða að fylgja nýjum tímum og afnema þessa refsingu fyrir fullt og allt. Dauðarefsingin verður enn og aftur á dagskrá hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Amnesty International biðlar til stjórnvalda heims að styðja ákall Sameinuðu þjóðanna um að binda enda á dauðarefsinguna og sýna mikilvæga skuldbindingu við mannréttindi.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International
Myndband
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu