Fréttir

15. maí 2023

Evrópu­ráðið: Ákall Amnesty Internati­onal vegna leið­toga­fundar

Í tilefni af leið­toga­fundi Evrópu­ráðsins sem haldinn er 16. og 17. maí  í Reykjavík kallar Amnesty Internati­onal eftir því eftir því að gripið verði til aðgerða vegna fimm eftir­far­andi atriða sem samtökin hafa fjallað um  sein­ustu vikur: sterkari vernd borg­ara­legra rétt­inda, verndun og styrking óháðra dóms­kerfa, viðnám við bakslagi í jafn­rétti kynj­anna, nýtt framtak til að auka áhrif Evrópu­ráðsins og að gerendur stríðs­glæpa verði dregnir fyrir sjálf­stæða, hlut­lausa og sann­gjarna dómstóla. 

 

Sterkari vernd borgaralegra réttinda

Síðast­liðin ár hafa borg­araleg rétt­indi, þar á meðal tján­ingar- og funda­frelsi, átt undir högg að sækja í Evrópu. Í aðdrag­anda innrásar Rúss­lands í Úkraínu mátti sjá versn­andi stöðu mann­rétt­inda í Rússlandi. Slíka þróun má sjá víðar í Evrópu, eins og til dæmis í Aser­baísjan, Póllandi og Tyrklandi. 

Auknar árásir á mann­rétt­inda­frömuði og borg­araleg samtök hafa átt sér stað í Evrópu undan­farin ár ásamt því að hömlur hafa verið settar á störf þeirra.

Í mörgum ríkjum er sann­gjörn máls­með­ferð í upplausn og hömlur hafa verið settar á félaga-, funda- og tján­ing­ar­frelsi víða í Evrópu.  

Verndun og styrking óháðra dómskerfa

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evrópu er mikil­vægur til að standa vörð um mann­rétt­inda­lög­gjöf í Evrópu en stór­aukinn mála­fjöldi sem ratar til Mann­rétt­inda­dóm­stólsins ber merki þess að sjálf­stæði og hlut­leysi dómstóla aðild­ar­ríkj­anna sé ekki tryggð. Aðild­ar­ríki Evrópu­ráðsins eins og Pólland, Ungverja­land og Tyrk­land hafa þrátt fyrir það ógnað stöðu Mann­rétt­inda­dóm­stólsins og Mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu með því að virða ekki úrskurði. 

Það veikir stöðu Mann­rétt­inda­dóm­stólsins og Mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu að úrskurðum dómstólsins sé ekki fram­fylgt.

Amnesty Internati­onal bendir á að vanefndir á úrskurðum Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evrópu megi ekki verða viðtekin venja og hvetur til fordæm­ingar á neitun Tyrk­lands um að fram­fylgja úrskurðum Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evrópu um að leysa úr haldi mann­rétt­inda­fröm­uðinn Osman Kavala í samræmi við alþjóð­legar skuld­bind­ingar sínar.

Amnesty Internati­onal kallar eftir að leið­toga­fund­urinn fjalli af fullri alvöru um kerf­is­bundnar vanefndir ákveð­inna aðild­ar­ríkja, eins og Tyrk­lands, að öðrum kosti er holur hljómur í öllu tali um að stuðla að auknum mann­rétt­indum innan álfunnar með nýjum skuld­bind­ingum.  

Viðnám við bakslagi í jafnrétti kynjanna

Stjórn­völd um alla Evrópu hafa í auknum mæli á síðustu árum takmarkað kven­rétt­indi og rétt­indi hinsegin fólks. Rúss­nesk og pólsk yfir­völd hafa beitt sér gegn rétt­indum kvenna og hinsegin fólks og Tyrk­land hefur meðal annars sagt sig frá Istan­búl­samn­ingnum.   

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að leið­toga­fund­urinn beiti sér gegn því bakslagi sem á sér stað í jafn­rétti kynj­anna og rétt­indum hinsegin fólks.

Samtökin mælast til að öll aðild­ar­ríki Evrópu­ráðsins skuld­bindi sig til að stað­festa, eftir því sem við á, og fram­fylgja Istan­búl­samn­ingnum. Þá kalla samtökin eftir því að tekið verði á úrsögn Tyrk­lands frá Istan­búl­samn­ingnum sem og andstöðu ákveð­inna aðild­ar­ríkja að fylgja megin­reglum Istan­búl­samn­ingsins. Istan­búl­samn­ing­urinn verður að vera ein helsta skuld­binding Evrópu­ráðsins og krafa fyrir aðild að Evrópu­ráðinu.   

Nýtt framtak til að auka áhrif Evrópuráðsins

Amnesty Internati­onal leggur til að kerfi Evrópu­ráðsins verði bætt og gert skil­virkara og áhrifa­ríkara. Máls­höfð­anir vegna brota á vissum greinum Mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu og andstöðu ríkis við að fram­fylgja úrskurðum ættu að kalla á viðeig­andi viðbrögð í formi alþjóð­legs fundar aðild­ar­ríkja.

Aðild­ar­ríki ættu að lýsa yfir vilja til samvinnu við stofn­anir Evrópu­ráðsins.

Það er óvið­un­andi að sum ríki neiti samvinnu við ákveðna eftir­lits­aðila og komi í veg fyrir heim­sóknir þeirra og skýrslu­gjöf. Slíkur skortur á samvinnu ætti að ávallt að vera á dagskrá funda ráðherra­nefnd­ar­innar, þar á meðal á árlegum ráðherra­fundi.    

Þá leggja samtökin til að Evrópu­sam­bandið samþykki Mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu í samræmi við skuld­bind­ingar Lissabon-sátt­málans og að sambandið stað­festi Istan­búl­samn­inginn og tryggi að aðild­ar­ríki þess geri slíkt hið sama.

Einnig leggja samtökin áherslu á að rétt­urinn til hreins, heil­næms og sjálf­bærs umhverfis sé form­lega viður­kenndur með laga­lega bind­andi bókun í Mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu til að tryggja traustan og samfelldan laga­legan grunn fyrir Mann­rétt­inda­dóm­stól Evrópu er lýtur að umhverf­is­málum. Það auðveldar innleið­ingu og fram­fylgd rétt­arins til hreins, heil­næms og sjálf­bærs umhverfis í aðild­ar­ríkjum Evrópu­ráðsins.    

Gerendur stríðsglæpa verði dregnir fyrir sjálfstæða, hlutlausa og sanngjarna dómstóla.

Í stríði Rúss­lands í Úkraínu hafa glæpir samkvæmt alþjóða­lögum verið framdir í gríð­ar­lega miklum mæli. Amnesty Internati­onal kallar eftir því að gerend­urnir verði dregnir fyrir sjálf­stæða, hlut­lausa og sann­gjarna dómstóla fyrir alla glæpi sem þeir hafa framið í trássi við alþjóðleg lög, þar á meðal glæpi gegn friði. Réttur þolenda verður að vera í forgrunni í rann­sóknum og lögsóknum vegna þessara glæpa og þolendur verða að geta sótt rétt sinn til miska- og skaða­bóta.    

Fjórði leið­toga­fund­urinn er tæki­færi fyrir Evrópu­ráðið til að stíga skref í átt að því að draga Rúss­land til ábyrgðar vegna stríðsins og hinna mörgu brota á alþjóð­legum mann­úð­ar­lögum og mann­rétt­indum í stríðs­átök­unum.

Til að leið­toga­fund­urinn geti hins vegar borið árangur og blásið nýju lífi í Evrópu­ráðið verða aðild­ar­ríkin að setja það í forgang að taka á skeyt­ing­ar­leysi Tyrk­lands gagn­vart skuld­bind­ingum sínum. Einnig ættu aðild­ar­ríkin að nýta leið­toga­fundinn í að setja í forgang baráttuna gegn skerð­ingu borg­ara­legs samfé­lags, verndun og styrk­ingu óháðra og hlut­lausra dómstóla og berjast gegn bakslagi í rétt­indum kvenna og hinsegin fólks. Að undan­skildum rétt­inum til hreins, heil­næms og sjálf­bærs umhverfis ætti leið­toga­fund­urinn að leggja minni áherslu á að koma á fót nýjum stofn­unum og meiri áherslu á að gera núver­andi kerfi skil­virkari og öflugri.          

Evrópu­ráðið í formennskutíð Íslands verður að nýta það mikil­væga tæki­færi sem leið­toga­fundur Evrópu­ráðsins felur í sér og þrýsta á aðild­ar­ríki efli vernd mann­rétt­inda í álfunni. 

Lestu einnig