Fréttir
4. maí 2023Í tilefni af leiðtogafundi Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 16.-17. maí kallar Amnesty International eftir vernd og styrkingu óháðra dómskerfa í löndum Evrópuráðsins til að standa vörð um mannréttindi. Mannréttindadómstóll Evrópu er mikilvægur til að standa vörð um mannréttindalöggjöf í Evrópu en stóraukinn málafjöldi sem ratar til Mannréttindadómstólsins ber merki þess að sjálfstæði og hlutleysi dómstóla aðildarríkjanna sé ekki trygg.
Aðildarríki Evrópuráðsins hafa þrátt fyrir það ógnað stöðu Mannréttindadómstólsins og Mannréttindasáttmála Evrópu með því að virða ekki úrskurði.
©Kerem Uzel/NARPHOTOS – Osman Kavala, aðgerðasinni, í haldi yfirvalda í Tyrklandi þrátt fyrir úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu.
Ögrun
Stjórnlagadómstóll Rússlands ögrar Mannréttindadómstól Evrópu
Árið 2015 komst stjórnlagadómstóll Rússlands að þeirri niðurstöðu að aðeins væri hægt að framfylgja úrskurðum Mannréttindadómstólsins ef þeir samræmdust stjórnarskrá Rússlands. Þessi niðurstaða leiddi til þess að Rússland lýsti því yfir að sumar ákvarðanir dómstólsins væru „óframkvæmanlegar“. Með þessu ögraði Rússland Mannréttindadómstól Evrópu, þvert á skuldbindingar sínar við Mannréttindasáttmála Evrópu en einu viðbrögð annarra aðildarríkja var væg gagnrýni. Viðbrögð sem virðast hafa hvatt önnur ríki til að feta í fótspor Rússlands. Merki þess má sjá í öðrum löndum Evrópu, m.a. í Póllandi, Ungverjalandi og ekki síst Tyrklandi.
Pólland hlýtir ekki úrskurðum Mannréttindadómstóls Evrópu
Stjórnlagadómstóll Póllands úrskurðaði að 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um réttinn til sanngjarnrar málsmeðferðar samræmdist ekki stjórnarskrá landsins. Úrskurðurinn leiddi til þess að Marjia Pejčinović Burić, aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, lýsti því yfir í nóvember 2022 að ráðherranefnd Evrópuráðsins þyrfti að fjalla um misbresti Póllands við að framfylgja úrskurðum Mannréttindadómstóls Evrópu.
Vanefndir
Vanefndir á skuldbindingum Ungverjalands
Í Ungverjalandi hafa dómarar og saksóknarar sætt refsiaðgerðum og lögsóknum og sviptingum réttinda. Það var fordæmt í úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Baka gegn Ungverjalandi sem enn hefur ekki verið framfylgt. Tyrkneska dómskerfið gefur rými fyrir tilhæfulausar rannsóknir, ákærur og sakfellingar.
Vanefndir á skuldbindingum Tyrklands
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að tilgangurinn með því að takmarka réttindi í þessum löndum er að grafa undan starfi mannréttindafrömuða og þagga niður í gagnrýnisröddum. Ráðherranefndin hefur kallað eftir úrbótum til að „tryggja fullt sjálfstæði og hlutleysi dómskerfisins í Tyrklandi“ til að binda enda á endurtekin brot Tyrklands gegn Mannréttindasáttmála Evrópu, þar á meðal pólitískar ofsóknir, óréttmætt varðhald og ósanngjörn réttarhöld.
Ákall
staða mannréttindadómstóls og mannréttindasáttmála Evrópu
Þegar úrskurðum Mannréttindadómstóls Evrópu er ekki framfylgt hefur það gríðarlegar afleiðingar, bæði á réttindi fólks í viðkomandi ríki og er árás á trúverðugleika dómstólsins.
Amnesty International bendir á að vanefndir á úrskurðum Mannréttindadómstóls Evrópu megi ekki verða viðtekin venja og hvetur til fordæmingar á neitun Tyrklands um að framfylgja úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu um að leysa úr haldi mannréttindafrömuðinn Osman Kavala í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Það veikir stöðu Mannréttindadómstólsins og Mannréttindasáttmála Evrópu að úrskurðum dómstólsins sé ekki framfylgt.
Ákall Amnesty International vegna vanefnda á úrskurðum
Amnesty International kallar eftir að leiðtogafundurinn fjalli af fullri alvöru um kerfisbundnar vanefndir ákveðinna aðildarríkja, eins og Tyrklands, að öðrum kosti er holur hljómur í öllu tali um að skuldbinda sig á nýjan leik um að stuðla að mannréttindum innan álfunnar.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu