Fréttir

16. júní 2020

Filipps­eyjar: Skýrsla SÞ í kjölfar álykt­unar Íslands sýnir brýna þörf á alþjóð­legri rann­sókn

Þann 4. júní síðast­liðinn kom út skýrsla Sameinuðu þjóð­anna um ástand mann­rétt­inda á Filipps­eyjum. Þar er greint frá aftökum án dóms og laga ásamt öðrum mann­rétt­inda­brotum í nafni svokallaðs „stríðs gegn fíkni­efnum“ sem Duterte forseti landsins stendur fyrir auk árása gegn fjöl­miðlum, mann­rétt­inda­fröm­uðum og póli­tískum aðgerða­sinnum.

Í skýrsl­unni er einnig  fjallað  um refsi­leysi vegna aftaka án dóms og laga, fals­anir á sönn­un­ar­gögnum í áhlaupum lögreglu sem gerðar eru án heim­ildar, hvatn­ingu frá æðstu embættum um að fremja  morð í „stríðinu gegn fíkni­efnum“, aðför að tján­ing­ar­frelsinu og mann­rétt­inda­brot annarra aðila en yfir­valda.

Frumkvæði Íslands

Skýrslan var gefin út samkvæmt beiðni þess efnis í ályktun Mann­rétt­inda­ráðs Sameinuðu þjóð­anna sem samþykkt var 11. júlí 2019 vegna stöðu mann­rétt­inda á Filipps­eyjum. Íslensk stjórn­völd áttu frum­kvæði að álykt­un­inni og er hún sú fyrsta af þessari gerð sem er um Filipps­eyjar.

Ísland sýndi leið­toga­færni sína í verki með því að setja fram og koma í gegn álykt­un­inni. Amnesty Internati­onal fagnaði álykt­un­inni en hún kom í kjölfar þrýst­ings ýmissa félaga­sam­taka, þeirra á meðal Amnesty Internati­onal.

„Við vonumst til þess að fordæmi Íslands verði öðrum ríkjum hvatning og sýni að fámennari ríki geti látið til sín taka á alþjóða­vett­vangi og haft jákvæð áhrif á mann­rétt­indi í heim­inum. Hið svokallaða „stríð gegn fíkni­efnum” birtist meðal annars í víðtækum og kerf­is­bundnum aftökum án dóms og laga á almennum borg­urum sem oft tilheyra jaðar­settum hópum. Brotin viðgangast án þess að nokkur sé látinn sæta ábyrgð. Í skýrslu Sameinuðu þjóð­anna kemur fram að yngsta fórn­ar­lambið var fimm mánaða gamalt barn sem sýnir skýrt hversu andstyggileg og vægð­ar­laus þessi brot eru,“

segir Anna Lúðvíks­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Íslands­deildar Amnesty Internati­onal.

Refsileysi

Frá upphafi stjórnar Duterte í júní 2016 hafa þúsundir einstak­linga, flestir fátækir úr jaðar­hópum, verið myrtir af lögreglu eða óþekktum vopn­uðum einstak­lingum en sumir þeirra síðast­nefndu tengjast lögregl­unni.

Þrátt fyrir fordæm­ingu innlendra og erlendra mann­rétt­inda­sam­taka og alþjóða­sam­fé­lagsins hefur Duterte forseti hvatt lögreglu til að fremja morð í formi aftaka án dóms og laga með afdrátt­ar­lausum hætti, lofað þeim frið­helgi og hækkað lögreglu­menn um tign sem bregðast við hvatn­ing­unni.

 

Árásir gegn mann­rétt­inda­fröm­uðum og gagn­rýn­endum stjórn­valda hafa aukist í þessu umhverfi refsi­leysis. Nýlegt dæmi um óhóf­lega vald­beit­ingu stjórn­valda er þegar þau lokuðu einum stærsta sjón­varps- og útvarps­miðli landsins og hótuðu að drepa þá einstak­linga sem brjóta gegn sóttkví og útgöngu­banni í kórónu­veirufar­aldr­inum.

Það hefur nánast enginn verið dreginn til ábyrgðar fyrir þessi alvar­legu brot og forseti landsins og annað hátt­sett embætt­is­fólk hefur haldið áfram að hvetja lögreglu til morða. Refsi­leysi hefur skapað ótta hjá þolendum mann­rétt­inda­brota og öðrum einstak­lingum sem benda á ástandið en lögregla og aðrir aðilar geta haldið áfram aftökum án dóms og laga án þess að sæta ábyrgð.

Ákall Amnesty International

„Skýrslan sýnir svart á hvítu hversu nauð­syn­legt er að rann­saka þessi grimmi­legu mann­rétt­inda­brot enn frekar og draga þá til ábyrgðar sem þau fremja. Ísland tók fyrsta skrefið og fékk þessa ályktun í gegn í Mann­rétt­inda­ráðinu og nú verður að tryggja að alþjóða­sam­fé­lagið snúi bökum saman og tryggi að þessum drápum og öðrum mann­rétt­inda­brotum, sem framin eru undir því yfir­skini að berjast gegn fíkni­efnum, linni,“

segir Anna Lúðvíks­dóttir fram­kvæmda­stjóri Íslands­deildar Amnesty Internati­onal. 

Ályktun Mann­rétt­inda­ráðs Sameinuðu þjóð­anna var mikil­vægt fyrsta skref til að takast á við versn­andi mann­rétt­inda­ástand á Filipps­eyjum síðast­liðin fjögur ár. Það er áríð­andi að Mann­rétt­indaráð Sameinuðu þjóð­anna taki málið föstum tökum í ljósi alvar­legrar niður­stöðu þess­arar skýrslu. Amnesty Internati­onal kallar eftir óháðri alþjóð­legri rann­sókn á aftökum án dóms og laga og öðrum brotum sem framin hafa verið frá árinu 2016 og að henni fylgi tilskipun um að stuðla að ábyrgð­ar­skyldu.

Lestu einnig