Góðar fréttir

8. mars 2019

Fimm sigrar í barátt­unni fyrir rétt­indum kvenna

 

Rétt­indi kvenna og stúlkna er stór þáttur í starfi Amnesty Internati­onal. Hér eru fimm sigrar í málefnum sem Amnesty Internati­onal hefur barist fyrir ásamt mörgum aðgerða­sinnum úr ýmsum grasrót­ar­hreyf­ingum.

Fríar getn­að­ar­varnir og sigur gegn þving­uðum hjóna­böndum í Búrkína Fasó

Frá og með 1. júní 2019 verða getn­að­ar­varnir fríar og ráðgjöf um barneignir gjald­frjáls í Búrkína Fasó. Stjórn­völd tilkynntu um áformin í desember 2018 og eru þau í samræmi við það sem Amnesty Internati­onal kallaði eftir í herferð sinni Minn líkami, minn réttur árið 2015.

Fríar getn­að­ar­varnir hafa gífurleg áhrif á líf kvenna eins Korotimi, „stundum eigum við engan pening fyrir getn­að­ar­vörnum. Það hefur orðið til þess að ég á átta börn,“ tjáði hún Amnesty Internati­onal árið 2015. Þegar fjár­hags­legar hindr­anir eru fjar­lægðar hafa konur betri aðgang að getn­að­ar­vörnum og aukinn sjálfs­ákvörð­un­ar­rétt yfir eigin líkama.

Búrkína Fasó hefur að auki gert það auðveldara að ákæra fyrir þvinguð hjóna­bönd þar sem lögin viður­kenna nú einnig óskráð hjóna­bönd (eins og á við um meiri­hluta þving­aðra hjóna­banda) en ekki aðeins þau hjóna­bönd sem fara í gegnum stjórn­sýslu.

Netof­beldi á Twitter hafði slæm áhrif á viðskiptin

 

Með herferð Amnesty Internati­onal #ToxicTwitter sem hófst í mars 2018 sýndum við hvernig netof­beldi hefur alvar­legar afleið­ingar fyrir tján­ing­ar­frelsi kvenna, þá sérstak­lega fyrir litaðar konur, hinsegin konur og konur sem tilheyra fleiri en einum minni­hluta­hópi. Í kjölfar skýrslu Amnesty Internati­onal kynnti Twitter stefnu sem snýr að haturs­fullri fram­komu þar sem áhersla var á að banna lítilsvirð­andi ummæli og í fyrsta sinn gaf fyrir­tækið út gögn um hvernig það fram­fylgir sínum eigin reglum en það var í samræmi við ákall okkar. Twitter gaf þó ekki út sund­urliðuð gögn svo við tókum málin í okkar eigin hendur og settum af stað okkar eigin „trölla­vakt“, nýstár­legt verk­efni þar sem hópur fólks safnaði gögnum um gríð­ar­legt umfang netof­beldis gegn konum og í hvaða mynd það birtist.

 

Í samstarfi við tækn­isér­fræð­inga og rúmlega 6.500 aðgerða­sinna í 150 löndum bjuggum við til einn stærsta gagna­grunn um netof­beldi gegn konum. Niður­stöður okkar sem voru birtar í desember 2018 voru sláandi. Á hálfrar mínútu fresti verður kona fyrir netof­beldi á Twitter. Svartar konur eru 84% líklegri til að verða fyrir ofbeld­is­fullum tístum heldur en hvítar konur.

Niður­stöður okkar urðu til þess að hluta­bréf Twitter lækkuðu aðeins nokkrum dögum síðar. Enn á ný var netof­beldi á Twitter áber­andi í fjöl­miðlum sem setti enn meiri þrýsting á Twitter til að bregðast við ákalli okkar.

Meðgöngurof á Írlandi

 

Í kjölfar sögu­legrar þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu í maí 2018 var konum á Írlandi loksins veitt aðgengi að meðgöngurofi í janúar 2019 sem var stór sigur fyrir rétt­indi kvenna. Þessi magnaði árangur varð til þess að bann við meðgöngurofi í stjórn­ar­skránni var dregið til baka með því að leyfa það fyrstu 12 vikur meðgöngu og við sérstakar aðstæður.

 

Árang­urinn kom eftir áralanga vinnu fjölda aðgerða­sinna, þar á meðal Amnesty Internati­onal.  Árið 2015 hófum við herferð til að vekja athygli á málefninu. Rann­sókn okkar, aðgerðir og þrýsti­vinna átti þátt í að sann­færa stjórn­völd að leggja málið til þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu og innleiða laga­breyt­ing­arnar.

 

Herferð Amnesty Internati­onal opnaði einnig rými fyrir konur til að deila reynslu sinni af meðgöngurofi til að draga úr skömm og smánun sem fylgdi því á Írlandi. Það varð til þess að áhrifa­ríkar samræður hófust og ýtti undir umræður um meðgöngurof. Á endanum fengu konur þar í landi loks aukna vernd.

Tíma­móta­úrskurður gegn kynferð­isof­beldi í Mexíkó

 

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Ameríku úrskurðaði í nóvember 2018 í máli 11 kvenna sem voru barðar, áreittar og nauðgað af hálfu örygg­is­sveita Mexíkó eftir að hafa verið hand­teknar á kröfu­göngu í maí 2006. Þrátt fyrir að Mexíkó viður­kenndi að hermenn­irnir hefðu notað óhóf­lega vald­beit­ingu var því hafnað að um væri að ræða kerf­is­bundið ofbeldi og skelltu því skuld­inni þess í stað á einstaka gerendur. Dómstóllinn var ekki á sama máli og sagði að stjórn­völd væru ábyrg. Dómstóllinn taldi afdrátt­ar­laust að kynferð­isof­beldið sem konurnar urðu fyrir hefði verið pynd­ingar.

 

Amnesty hefur stutt þessar konur frá árinu 2006 með því að skjalfesta ofbeldið og setja af stað alþjóð­lega herferð. Úrskurð­urinn er ekki aðeins sigur fyrir konurnar heldur er mikil­vægt fordæmi fyrir þolendur kynbundins ofbeldis af hálfu örygg­is­sveita Mexíkó til að byggja mál sitt á.

Samþykki á Íslandi og Svíþjóð

 

Svíþjóð innleiddi ný lög 1. júlí 2018 þar sem kynlíf án samþykkis flokkast sem nauðgun. Þetta er gífur­lega stórt skref fram á við fyrir konur í landinu eftir áralanga baráttu sem var drifin áfram af kven­rétt­inda­sam­tökum og haldið á floti með #MeToo-hreyf­ing­unni. Amnesty átti einnig sinn þátt í að ná fram þessum tíma­móta­breyt­ingum með því að fylgjast með málum og varpa ljósi á glufur í nauðg­un­ar­lögum í Svíþjóð og á öðrum Norð­ur­löndum.

 

Svíþjóð var áttunda landið í Vestur-Evrópu til að innleiða þessi lög um samþykki og fylgdi þannig í fótspor Íslands. Aðgerða­sinnar, þar á meðal frá Amnesty Internati­onal, halda áfram að kalla eftir samþykki. Búist er við því að Danmörk fylgi í fótsporin og yfir­völd í löndum eins og Finn­landi, Grikklandi, Spáni, Portúgal og Slóveníu eru einnig að íhuga slíkar breyt­ingar.

Lestu einnig