Góðar fréttir

25. júlí 2019

Google hætt við ritskoðaða leit­arvél fyrir Kína

Banda­ríski tölvurisinn Google sendi nýverið frá sér yfir­lýs­ingu þess efnis að fyrir­tækið væri hætt við að hleypa af stokk­unum verk­efninu Dragonfly, ritskoð­aðri leit­arvél fyrir Kína. Íslands­deild Amnesty Internati­onal tók upp málið í netákalli og SMS-aðgerðaneti í desember 2018 þar sem krafist var að fallið yrði frá verk­efninu.

Google vann leyni­lega að verk­efninu Dragonfly en í því fólst að hleypa leit­ar­vél­inni aftur af stokk­unum í Kína í samvinnu við kínversk stjórn­völd sem nú þegar hafa virkt eftirlit með netnotkun þar í landi.

Kínverskum Google-notendum átti að vera mein­aður aðgangur að vefsíðum eins og Wikipedia og Face­book og leit­arorð eins og ,,mann­rétt­indi” bönnuð. Kínversk yfir­völd hefðu jafnvel getað njósnað um notendur Google í Kína en þau senda fólk reglu­lega í fang­elsi fyrir það eitt að deila skoð­unum sínum á netinu.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Google hefur stað­fest með skýrum hætti að fyrir­tækið hafi alfarið fallið frá verk­efninu Dragonfly.  Það eru góðar fréttir að hætt hafi verið opin­ber­lega við þetta hörmu­lega verk­efni og má það að mestu leyti þakka kröfu hundraða starfs­manna Google, ríflega 70 mann­rétt­inda­sam­taka og þúsunda einstak­linga um heim allan um að fyrir­tækið virti mann­rétt­indi með því að hverfa frá Dragonfly-verk­efninu.“

Joe Westby, rann­sak­andi á sviði tækni og mann­rétt­inda hjá Amnesty Internati­onal

Í yfir­lýs­ing­unni er ekki minnst á að fallið verði algjör­lega frá ritskoð­aðri leit­arvél og hefur banda­ríska tölvu­fyr­ir­tækið í raun og veru ekki enn útilokað samstarf við Kína í fram­tíð­inni í álíka verk­efnum.

„Google verður að ganga skrefi lengra og skuld­binda sig til að hjálpa ekki Kína við umfangs­mikla ritskoðun og eftirlit. Undan­brögð fyrir­tæk­isins vegna málsins í byrjun hafa skapað rými fyrir misbeit­ingu í fram­tíð­inni. Fram­kvæmda­stjórinn, Sundar Pichai, þarf að senda frá sér yfir­lýs­ingu um að fyrir­tækið taki ekki þátt í verk­efnum með Kína sem grafi á nokkurn hátt undan mann­rétt­indum.“

Joe Westby, rann­sak­andi á sviði tækni og mann­rétt­inda hjá Amnesty Internati­onal

Íslands­deild Amnesty Internati­onal tók upp málið í desember 2018. Þá var mikil ólga innan Google vegna þessara áforma og 530 starfs­menn lýstu yfir andstöðu sinni við verk­efnið. Til að sýna samstöðu með starfs­fólki Google skrifuðu 1792 einstak­lingar undir ákall Íslands­deild­ar­innar þar sem þess var krafist að hætt yrði við verk­efnið.

Við þökkum kærlega fyrir stuðn­inginn!

Lestu einnig