Fréttir
24. júlí 2020Ný þjóðaröryggislög fyrir Hong Kong voru samþykkt í Kína þann 30. júní 2020 og tóku gildi sama dag. Kínversk yfirvöld samþykktu lögin án þess að tryggja gagnsæi eða ábyrgðarskyldu, aðeins nokkrum vikum eftir tilkynningu um fyrirætlanir sínar. Farið var fram hjá löggjafarvaldi Hong Kong og orðalagið í lögunum var haldið leyndu fyrir almenningi þar til þau tóku gildi.
Amnesty International greinir frá tíu hættulegum áhrifum þessara laga.
Tíu atriði
1. Ógn við þjóðaröryggi“ getur í raun átt við hvað sem er
Mannréttindastofnuna Sameinuðu þjóðanna hefur lýst yfir áhyggjum sínum yfir þessum þjóðaröryggislögum. Orðalag í lögunum er allt of víðtækt og grefur undan mannréttindavernd í Hong Kong.
Samkvæmt lögunum geta „hryðjuverk“, „niðurrif“, „samsæri við erlend öfl“ og „aðskilnaðarstefna“ varðað lífístíðarfangelsi en þessi brot eru skilgreind allt of vítt þannig að hægt er að beita þeim í pólitískum tilgangi.
Yfirvöld í Hong Kong hafa lengi ásakað einstaklinga og samtök um að vera stjórnað af erlendum öflum vegna mótmæla, styrktarframlaga eða gagnrýni á stjórnvöld. Hættan er sú að það verði hægt að ákæra hvern sem er fyrir „samsæri við erlend öfl“.
Kínversk yfirvöld á meginlandinu hafa ákært fjölmiðlafólk, lögfræðinga, fræðifólk og aðgerðasinna fyrir „niðurrif“ gegn stjórnvöldum með kerfisbundnum hætti. Wu Gan var dæmdur í átta ára fangelsi og var gagnrýni hans á stjórnvöld notuð sem sönnunargagn um „niðurrif“ gegn stjórnvöldum.
2. Lögunum misbeitt frá fyrsta degi
Um leið og lögin tóku gildi hófu yfirvöld í Hong Kong herferð gegn lögmætri og friðsamlegri tjáningu.
Fólk hefur verið handtekið fyrir að bera á sér límmiða, borða með pólitískum slagorðum og fyrir að vera með fána í fórum sínum. Yfirvöld hafa meðal annars sagt að slagorð, stuttermabolir og sönglög geti talist ógn við þjóðaröryggi og leitt til lögsóknar.
Stjórnvöld tilkynntu tveimur dögum eftir að lögin tóku gildi að slagorð mótmælanna 2019, „Frelsum Hong Kong, byltingu okkar tíma“, væri skírskotun í sjálfstæði Hong Kong eða aðskilnað Hong Kong frá Kína. Með þessu var í raun verið að banna slagorðið.
Þetta eru skýr dæmi um hvernig beiting laganna brýtur í bága við alþjóðleg mannréttindalög og -staðla. Þar kemur skýrt fram að friðsamleg tjáning um stjórnkerfi er ekki ógn við þjóðaröryggi.
3. Lögin þrengja að menntun, fjölmiðlum og samfélagsmiðlum
Lögin veita stjórnvöldum í Kína og Hong Kong aukin völd til eftirlits á skólum, samtökum, fjölmiðlum og netinu í Hong Kong.
Fjölmiðlar hafa lýst áhyggjum sínum af áhrifum laganna á fjölmiðlafrelsi í Hong Kong. New York Times hefur þegar ákveðið að færa sumt starfsfólk sitt í Hong Kong til Suður-Kóreu. Fólk óttast einnig að erlent fjölmiðlafólk þurfi nú leyfi frá stjórnvöldum til að geta starfað þar löglega líkt og þarf nú á meginlandinu Kína.
Stjórnvöld í Hong Kong hafa einnig reynt að takmarka tjáningarfrelsi háskólanema. Menntamálaráðherra Hong Kong sagði að nemendur ættu ekki að syngja lög, hrópa slagorð eða vera með aðgerðir með pólitískum skilaboðum. Jafnvel pólitískar umræður í kennslustofu gætu verið áhættusamar.
Lögin veita löggæsluaðilum einnig aukin völd til að fjarlæga efni á netinu eða fá notandagögn án frekari lagaheimildar. Stærstu miðlarnir á netinu eins og WhatsApp, Twitter, Linkedln, Facebook og Google hafa nú þegar hafnað kröfum stjórnvalda Hong Kong um að veita upplýsingar um notandagögn.
4. Grunaðir einstaklingar í hættu á ósanngjörnum réttarhöldum verði þeir fluttir til Kína
Einstaklingar sem liggja undir grun geta verið fluttir til meginlands Kína til að rétta yfir þeim þar. Mál þeirra eru því tekin fyrir í dómskerfi Kína í samræmi við kínversk lög. Þessi hluti laganna var ástæðan fyrir fjöldamótmælunum árið 2019.
Á meginlandi Kína hafa ásakanir um brot gegn þjóðaröryggi leitt til handtöku að geðþótta og jafnvel varðhaldsvistar á leynilegum stað. Ákærðir einstaklingar fá jafnvel ekki að hafa samband við fjölskyldu sína eða velja lögfræðing. Þá eiga þeir á hættu að sæta pyndingum og annarri illri meðferð. Li Heping, mannréttindalögfræðingur í Kína, sætti illri meðferð þegar hann var leynilega handtekinn í herferð stjórnvalda gegn lögfræðingum árið 2015.
5. Lögin ná til alls fólks í heiminum
Orðalag í lögunum er á þann veg að lögsaga þeirra nær einnig til fólks sem hefur aldrei komið til Hong Kong. Það þýðir að hver einasta manneskja í heiminum, óháð ríkisborgararétti eða staðsetningu, gæti strangt til tekið verið talin brotleg við þessi lög og þar með átt á hættu handtöku eða lögsókn innan lögsögu Kína, jafnvel við millilendingu þar.
Erlendum ríkisborgurum, sem eru ekki með dvalarleyfi í Hong Kong, getur verið vísað úr landi án réttarhalda eða dómsúrskurðar verði þeir fyrir slíkum ásökunum.
Samfélagsmiðlafyrirtæki gætu verið beðin um að fjarlæga efni sem kínversk stjórnvöld telja óboðleg, jafnvel þó að færslan hafi verið birt utan Hong Kong eða að skrifstofur og netþjónar fyrirtækjanna séu í öðru landi.
6. Aukin völd yfirvalda til rannsóknar
Lögin veita yfirvöldum leyfi til húsleitar, að setja á ferðatakmarkanir og ferðabönn, frysta eða gera eigur upptækar, ritskoða efni á netinu og halda úti leynilegu eftirliti án dómsúrskurðar.
Að auki geta yfirvöld krafist upplýsinga frá samtökum og einstaklingum jafnvel þó upplýsingarnar bendli viðkomandi við glæp. Ef ekki er farið eftir þessum fyrirmælum er hætta á sekt eða fangelsisvist.
Með þessu er þagnarrétturinn tekinn af þeim en það er undirstaða lagareglunnar um sakleysi uns sekt er sönnuð.
Einstaklingar eiga þagnarrétt og skulu ekki þvingaðir til að vitna gegn sjálfum sér samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum og -stöðlum. Þetta er grundvöllurinn að sanngjörnum réttarhöldum. Réttindin eru víðtæk, þau ná yfir yfirheyrslur lögreglu og við réttarhöld óháð alvarleika glæps. Öll þvingun er með öllu bönnuð hvort sem hún er með beinum eða óbeinum hætti.
7. Þjóðaröryggisstofnun Kína með skrifstofu í Hong Kong
Kínversk stjórnvöld eru um þessar mundir að setja upp skrifstofu fyrir þjóðaröryggisstofnun í Hong Kong. Skrifstofan og starfsfólk hennar falla ekki undir lögsögu Hong Kong. Dómskerfið eða lög á svæðinu ná því ekki yfir aðgerðir þeirra. Starfsfólk skrifstofunnar nýtur í raun algjörrar friðhelgi, óháð glæpum eða mannréttindabrotum sem það er sakað um. Það brýtur á rétti þolenda til að leita réttlætis, fá að vita sannleikann og til skaðabóta.
Þjóðaröryggisaðilar á meginlandi Kína hafa refsilaust brotið á rétti einstaklinga sem ásakaðir eru um brot gegn þjóðaröryggi. Þeir hafa með kerfisbundnum hætti vaktað, áreitt, hótað og handtekið mannréttindafrömuði og gagnrýnendur stjórnvalda og beitt pyndingum og annarri illri meðferð.
8. Ný nefnd án eftirlits
Stjórnvöld í Hong Kong hafa sett á laggirnar nýja nefnd til verndunar þjóðaröryggis. Fulltrúi frá Kína er í nefndinni sem „ráðgjafi“. Nefndin hefur vald til að velja starfsfólk til löggæslustarfa og saksóknara í þjóðaröryggismálum. Fjármagn eða skipun starfsfólks í nafni þjóðaröryggis er án lagalegs eftirlits. Skipun dómara í þjóðaröryggismálum virðist einnig vera með þeim hætti að það grafi undan sjálfstæði dómskerfisins.
Samkvæmt nýju lögunum þarf nefndin ekki að gefa upp hvernig störfum hennar er háttað. Ekki er hægt að fara með ákvarðanir nefndarinnar fyrir dómstóla. Að auki hefur lögreglan í Hong Kong stofnað nýja deild um þjóðaröryggi sem getur haldið úti leynilegu eftirliti án dómsúrskurðar.
Þetta þýðir í raun að almenningur getur ekki leitað til réttarkerfisins vegna misbeitingar valds. Það brýtur í bága við lagalegar skyldur Hong Kong og alþjóðleg mannréttindalög.
9. Mannréttindavernd í hættu
Þrátt fyrir að þjóðaröryggislögin tryggi mannréttindi með vísun í alþjóðlega mannréttindasáttmála þá geta önnur ákvæði í lögunum verið yfirsterkari.
Lögin veita friðhelgi og undanþágur til þjóðaröryggisstofnana og starfsfólks þeirra. Það er sérstaklega tekið fram að þjóðaröryggislögin gildi umfram önnur lög í Hong Kong ef þau stangast á. Í raun er þá hægt að túlka þjóðaröryggislögin á þann hátt að þau ógildi alla mannréttindavernd á svæðinu.
Kína hefur svipað ákvæði um mannréttindi í sínum þjóðaröryggislögum en þrátt fyrir það hafa lögin veitt litla sem enga vernd. Fræðifólk, fjölmiðlafólk, starfsfólk frjálsra félagasamtaka, prestar og lögfræðingar hafa verið sakfelld fyrir brot gegn þjóðaröryggi fyrir að eitt að nýta tjáningarfrelsi sitt og vernda mannréttindi.
Auk þess hefur æðsti ráðamaður Hong Kong ítrekað réttlætt takmarkanir á mannréttindum í nafni þjóðaröryggis í trássi við alþjóðastaðla.
10. Nú þegar hafa ógnvænleg áhrif laganna komið í ljós
Þessi harðneskjulegu lög eru svo óljós að það er ómögulegt að vita hvenær er verið að óhlýðnast þeim.
Margir íbúar Hong Kong sem deildu reglulega fréttum á netinu um mótmælin frá júní 2019 hafa lokað reikningum sínum af ótta við að brjóta lög. Verslanir og veitingastaðir sem höfðu sýnt stuðning við mótmælin með borðum og límmiðum fjarlægðu öll ummerki áður en lögin tóku gildi. Opinber bókasöfn fóru fljótt að taka út bækur sem eru um „viðkvæm“ málefni og skrifaðar af gagnrýnendum stjórnvalda.
Joshua Wong, þekktur aðgerðasinni, sagði sig úr Demosisto, lýðræðissinnuðum hópi sem hann leiddi, klukkustund eftir að lögin tóku gildi. Demosisto tilkynnti að hópurinn hefði verið leystur upp og Nathan Law, sem einnig lék stórt hlutverk í hópnum, tilkynnti að hann hefði flúið Hong Kong af ótta um öryggi sitt. Fleiri pólitískir hópar leystust upp innan viku eftir lögin tóku gildi.
Ótti ríkir meðal fólks í Hong Kong vegna þess hve óljós lögin eru. Það veit ekki hvort það hafi brotið lög um þjóðaröryggi og hvort það eigi hættu á lögsókn, verði flutt til meginlands Kína eða verði vísað frá Hong Kong.
Þrátt fyrir að stjórnvöldum beri skylda til að vernda borgara sína má ekki nota þjóðaröryggi sem afsökun til að brjóta á bak aftur pólitíska gagnrýni eða brjóta á réttindum fólks!
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu