Fréttir

24. júlí 2020

Hong Kong: Tíu atriði um nýju þjóðarör­ygg­is­lögin

Ný þjóðarör­ygg­islög fyrir Hong Kong voru samþykkt í Kína þann 30. júní 2020 og tóku gildi sama dag. Kínversk yfir­völd samþykktu lögin án þess að tryggja gagnsæi eða ábyrgð­ar­skyldu, aðeins nokkrum vikum eftir tilkynn­ingu um fyrir­ætlanir sínar. Farið var fram hjá löggjaf­ar­valdi Hong Kong og orða­lagið í lögunum var haldið leyndu fyrir almenn­ingi þar til þau tóku gildi.

Amnesty Internati­onal greinir frá tíu hættu­legum áhrifum þessara laga.

Tíu atriði

1. Ógn við þjóðarör­yggi“ getur í raun átt við hvað sem er

Mann­rétt­inda­stofnuna Sameinuðu þjóð­anna hefur lýst yfir áhyggjum sínum yfir þessum þjóðarör­ygg­is­lögum. Orðalag í lögunum er allt of víðtækt og grefur undan mann­rétt­inda­vernd í Hong Kong.

Samkvæmt lögunum geta „hryðju­verk“, „niðurrif“, „samsæri við erlend öfl“ og „aðskiln­að­ar­stefna“ varðað lífís­tíð­ar­fang­elsi en þessi brot eru skil­greind allt of vítt þannig að hægt er að beita þeim í póli­tískum tilgangi.

Yfir­völd í Hong Kong hafa lengi ásakað einstak­linga og samtök um að vera stjórnað af erlendum öflum vegna mótmæla, styrktar­fram­laga eða gagn­rýni á stjórn­völd. Hættan er sú að það verði hægt að ákæra hvern sem er fyrir „samsæri við erlend öfl“.

Kínversk yfir­völd á megin­landinu hafa ákært fjöl­miðla­fólk, lögfræð­inga, fræði­fólk og aðgerða­sinna fyrir „niðurrif“ gegn stjórn­völdum með kerf­is­bundnum hætti. Wu Gan var dæmdur í átta ára fang­elsi og var gagn­rýni hans á stjórn­völd notuð sem sönn­un­ar­gagn um „niðurrif“ gegn stjórn­völdum.

2. Lögunum misbeitt frá fyrsta degi

Um leið og lögin tóku gildi hófu yfir­völd í Hong Kong herferð gegn lögmætri og frið­sam­legri tján­ingu.

Fólk hefur verið hand­tekið fyrir að bera á sér límmiða, borða með póli­tískum slag­orðum og fyrir að vera með fána í fórum sínum. Yfir­völd hafa meðal annars sagt að slagorð, stutterma­bolir og sönglög geti talist ógn við þjóðarör­yggi og leitt til lögsóknar.

Stjórn­völd tilkynntu tveimur dögum eftir að lögin tóku gildi að slagorð mótmæl­anna 2019, „Frelsum Hong Kong, bylt­ingu okkar tíma“, væri skír­skotun í sjálf­stæði Hong Kong eða aðskilnað Hong Kong frá Kína. Með þessu var í raun verið að banna slag­orðið.

Þetta eru skýr dæmi um hvernig beiting laganna brýtur í bága við alþjóðleg mann­rétt­indalög og -staðla. Þar kemur skýrt fram að frið­samleg tjáning um stjórn­kerfi er ekki ógn við þjóðarör­yggi.

3. Lögin þrengja að menntun, fjöl­miðlum og samfé­lags­miðlum

Lögin veita stjórn­völdum í Kína og Hong Kong aukin völd til eftir­lits á skólum, samtökum, fjöl­miðlum og netinu í Hong Kong.

Fjöl­miðlar hafa lýst áhyggjum sínum af áhrifum laganna á fjöl­miðla­frelsi í Hong Kong. New York Times hefur þegar ákveðið að færa sumt starfs­fólk sitt í Hong Kong til Suður-Kóreu. Fólk óttast einnig að erlent fjöl­miðla­fólk þurfi nú leyfi frá stjórn­völdum til að geta starfað þar löglega líkt og þarf nú á megin­landinu Kína.

Stjórn­völd í Hong Kong hafa einnig reynt að takmarka tján­ing­ar­frelsi háskóla­nema. Mennta­mála­ráð­herra Hong Kong sagði að nemendur ættu ekki að syngja lög, hrópa slagorð eða vera með aðgerðir með póli­tískum skila­boðum. Jafnvel póli­tískar umræður í kennslu­stofu gætu verið áhættu­samar.

Lögin veita löggæslu­að­ilum einnig aukin völd til að fjar­læga efni á netinu eða fá notanda­gögn án frekari laga­heim­ildar. Stærstu miðl­arnir á netinu eins og What­sApp, Twitter, Linkedln, Face­book og Google hafa nú þegar hafnað kröfum stjórn­valda Hong Kong um að veita upplýs­ingar um notanda­gögn.

4. Grun­aðir einstak­lingar í hættu á ósann­gjörnum rétt­ar­höldum verði þeir fluttir til Kína

Einstak­lingar sem liggja undir grun geta verið fluttir til megin­lands Kína til að rétta yfir þeim þar. Mál þeirra eru því tekin fyrir í dóms­kerfi Kína í samræmi við kínversk lög. Þessi hluti laganna var ástæðan fyrir fjölda­mót­mæl­unum árið 2019.

Á megin­landi Kína hafa ásak­anir um brot gegn þjóðarör­yggi leitt til hand­töku að geðþótta og jafnvel varð­haldsvistar á leyni­legum stað. Ákærðir einstak­lingar fá jafnvel ekki að hafa samband við fjöl­skyldu sína eða velja lögfræðing. Þá eiga þeir á hættu að sæta pynd­ingum og annarri illri meðferð. Li Heping, mann­rétt­inda­lög­fræð­ingur í Kína, sætti illri meðferð þegar hann var leyni­lega hand­tekinn í herferð stjórn­valda gegn lögfræð­ingum árið 2015.

5. Lögin ná til alls fólks í heim­inum

Orðalag í lögunum er á þann veg að lögsaga þeirra nær einnig til fólks sem hefur aldrei komið til Hong Kong. Það þýðir að hver einasta mann­eskja í heim­inum, óháð ríkis­borg­ara­rétti eða stað­setn­ingu, gæti strangt til tekið verið talin brotleg við þessi lög og þar með átt á hættu hand­töku eða lögsókn innan lögsögu Kína, jafnvel við milli­lend­ingu þar.

Erlendum ríkis­borg­urum, sem eru ekki með dval­ar­leyfi í Hong Kong, getur verið vísað úr landi án rétt­ar­halda eða dóms­úrskurðar verði þeir fyrir slíkum ásök­unum.

Samfé­lags­miðla­fyr­ir­tæki gætu verið beðin um að fjar­læga efni sem kínversk stjórn­völd telja óboðleg, jafnvel þó að færslan hafi verið birt utan Hong Kong eða að skrif­stofur og netþjónar fyrir­tækj­anna séu í öðru landi.

6. Aukin völd yfir­valda til rann­sóknar

Lögin veita yfir­völdum leyfi til húsleitar, að setja á ferða­tak­mark­anir og ferða­bönn, frysta eða gera eigur upptækar, ritskoða efni á netinu og halda úti leyni­legu eftir­liti án dóms­úrskurðar.

Að auki geta yfir­völd krafist upplýs­inga frá samtökum og einstak­lingum jafnvel þó upplýs­ing­arnar bendli viðkom­andi við glæp. Ef ekki er farið eftir þessum fyrir­mælum er hætta á sekt eða fang­elsis­vist.

Með þessu er þagn­ar­rétt­urinn tekinn af þeim en það er undir­staða laga­regl­unnar um sakleysi uns sekt er sönnuð.

Einstak­lingar eiga þagn­ar­rétt og skulu ekki þving­aðir til að vitna gegn sjálfum sér samkvæmt alþjóð­legum mann­rétt­inda­lögum og -stöðlum. Þetta er grund­völl­urinn að sann­gjörnum rétt­ar­höldum. Rétt­indin eru víðtæk, þau ná yfir yfir­heyrslur lögreglu og við rétt­ar­höld óháð alvar­leika glæps. Öll þvingun er með öllu bönnuð hvort sem hún er með beinum eða óbeinum hætti.

7. Þjóðarör­ygg­is­stofnun Kína með skrif­stofu í Hong Kong

Kínversk stjórn­völd eru um þessar mundir að setja upp skrif­stofu fyrir þjóðarör­ygg­is­stofnun í Hong Kong. Skrif­stofan og starfs­fólk hennar falla ekki undir lögsögu Hong Kong. Dóms­kerfið eða lög á svæðinu ná því ekki yfir aðgerðir þeirra. Starfs­fólk skrif­stof­unnar nýtur í raun algjörrar frið­helgi, óháð glæpum eða mann­rétt­inda­brotum sem það er sakað um. Það brýtur á rétti þolenda til að leita rétt­lætis, fá að vita sann­leikann og til skaða­bóta.

Þjóðarör­yggis­að­ilar á megin­landi Kína hafa refsi­laust brotið á rétti einstak­linga sem ásak­aðir eru um brot gegn þjóðarör­yggi. Þeir hafa með kerf­is­bundnum hætti vaktað, áreitt, hótað og hand­tekið mann­rétt­inda­frömuði og gagn­rýn­endur stjórn­valda og beitt pynd­ingum og annarri illri meðferð.

8. Ný nefnd án eftir­lits

Stjórn­völd í Hong Kong hafa sett á lagg­irnar nýja nefnd til vernd­unar þjóðarör­yggis. Full­trúi frá Kína er í nefnd­inni sem „ráðgjafi“. Nefndin hefur vald til að velja starfs­fólk til löggæslu­starfa og saksóknara í þjóðarör­ygg­is­málum. Fjár­magn eða skipun starfs­fólks í nafni þjóðarör­yggis er án laga­legs eftir­lits. Skipun dómara í þjóðarör­ygg­is­málum virðist einnig vera með þeim hætti að það grafi undan sjálf­stæði dóms­kerf­isins.

Samkvæmt nýju lögunum þarf nefndin ekki að gefa upp hvernig störfum hennar er háttað. Ekki er hægt að fara með ákvarð­anir nefnd­ar­innar fyrir dómstóla. Að auki hefur lögreglan í Hong Kong stofnað nýja deild um þjóðarör­yggi sem getur haldið úti leyni­legu eftir­liti án dóms­úrskurðar.

Þetta þýðir í raun að almenn­ingur getur ekki leitað til rétt­ar­kerf­isins vegna misbeit­ingar valds. Það brýtur í bága við laga­legar skyldur Hong Kong og alþjóðleg mann­rétt­indalög.

9. Mann­rétt­inda­vernd í hættu

Þrátt fyrir að þjóðarör­ygg­is­lögin tryggi mann­rétt­indi með vísun í alþjóð­lega mann­rétt­inda­sátt­mála þá geta önnur ákvæði í lögunum verið yfir­sterkari.

Lögin veita frið­helgi og undan­þágur til þjóðarör­ygg­is­stofnana og starfs­fólks þeirra. Það er sérstak­lega tekið fram að þjóðarör­ygg­is­lögin gildi umfram önnur lög í Hong Kong ef þau stangast á. Í raun er þá hægt að túlka þjóðarör­ygg­is­lögin á þann hátt að þau ógildi alla mann­rétt­inda­vernd á svæðinu.

Kína hefur svipað ákvæði um mann­rétt­indi í sínum þjóðarör­ygg­is­lögum en þrátt fyrir það hafa lögin veitt litla sem enga vernd. Fræði­fólk, fjöl­miðla­fólk, starfs­fólk frjálsra félaga­sam­taka, prestar og lögfræð­ingar hafa verið sakfelld fyrir brot gegn þjóðarör­yggi fyrir að eitt að nýta tján­ing­ar­frelsi sitt og vernda mann­rétt­indi.

Auk þess hefur æðsti ráða­maður Hong Kong ítrekað rétt­lætt takmark­anir á mann­rétt­indum í nafni þjóðarör­yggis í trássi við alþjóðastaðla.

10. Nú þegar hafa ógnvænleg áhrif laganna komið í ljós

Þessi harð­neskju­legu lög eru svo óljós að það er ómögu­legt að vita hvenær er verið að óhlýðnast þeim.

Margir íbúar Hong Kong sem deildu reglu­lega fréttum á netinu um mótmælin frá júní 2019 hafa lokað reikn­ingum sínum af ótta við að brjóta lög. Versl­anir og veit­inga­staðir sem höfðu sýnt stuðning við mótmælin með borðum og límmiðum fjar­lægðu öll ummerki áður en lögin tóku gildi. Opinber bóka­söfn fóru fljótt að taka út bækur sem eru um „viðkvæm“ málefni og skrif­aðar af gagn­rýn­endum stjórn­valda.

Joshua Wong, þekktur aðgerðasinni, sagði sig úr Demosisto, lýðræð­is­sinn­uðum hópi sem hann leiddi, klukku­stund eftir að lögin tóku gildi. Demosisto tilkynnti að hópurinn hefði verið leystur upp og Nathan Law, sem einnig lék stórt hlut­verk í hópnum, tilkynnti að hann hefði flúið Hong Kong af ótta um öryggi sitt. Fleiri póli­tískir hópar leystust upp innan viku eftir lögin tóku gildi.

Ótti ríkir meðal fólks í Hong Kong vegna þess hve óljós lögin eru. Það veit ekki hvort það hafi brotið lög um þjóðarör­yggi og hvort það eigi hættu á lögsókn, verði flutt til megin­lands Kína eða verði vísað frá Hong Kong.

Þrátt fyrir að stjórn­völdum beri skylda til að vernda borgara sína má ekki nota þjóðarör­yggi sem afsökun til að brjóta á bak aftur póli­tíska gagn­rýni eða brjóta á rétt­indum fólks!

Lestu einnig