Fréttir
9. desember 2025
Þrátt fyrir að vopnahlé var tilkynnt í byrjun október og öllum ísraelskum gíslum sem voru enn á lífi hefur verið sleppt halda ísraelsk yfirvöld áfram að fremja hópmorð á Palestínubúum á Gaza. Palestínubúum er áfram þröngvað til að búa við lífskilyrði sem miða að líkamlegri eyðingu hópsins, og ísraelsk yfirvöld hafa ekki sýnt nein merki um að ásetningur þeirra hafi breyst.
Mynd: Abed Rahim Khatib/Anadolu via Getty Images
Amnesty International gaf út skýrslu í lok nóvember þar sem fram kemur lagaleg á hópmorðinu sem enn á sér stað ásamt vitnisburði frá íbúum, heilbrigðisstarfsfólki og hjálparstarfsfólki og varpar ljósi á hryllilegar aðstæður Palestínubúa á Gaza.
„Hætta er á að vopnahléið verði að hættulegri tálsýn um að lífið á Gaza sé aftur orðið eðlilegt. Á sama tíma og ísraelsk yfirvöld og hersveitir hafa dregið úr umfangi árása og hleypt mannúðaraðstoð inn á Gaza þá má heimurinn ekki láta blekkja sig. Hópmorði Ísraels er ekki lokið.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
mannúðaraðstoð takmörkuð
Í lok nóvember höfðu að minnsta kosti 347 einstaklingar verið drepnir í árásum Ísraels frá því að vopnahlé var tilkynnt 9. október og þar af voru 136 börn. Ísrael heldur áfram að takmarka aðgang að lífsnauðsynlegri mannúðaraðstoð og nauðsynlegum vörum, eins og sjúkravörum og búnaði, til að gera við lífsnauðsynlega inniviði. Þetta brýtur gegn fyrirskipun Alþjóðadómstólsins í Haag um að Ísrael tryggi Palestínubúum aðgang að hjálpargögnum í máli sem Suður-Afríka lagði fram til að koma í veg fyrir hómorð Ísraels.
Ísrael takmarkar einnig dreifingu mannúðaraðstoðar, meðal annars með því að setja hömlur á hvaða samtök mega dreifa aðstoð á Gaza. Fjölgun vörubíla inn á svæðið er ekki nóg. Samkvæmt OCHA fá heimili nú tvær máltíðir á dag (í stað einnar máltíðar í júlí) en mataræðið er einhæft og næringarríkur matur á borð við grænmeti, ávexti og prótein er enn utan seilingar fyrir margar fjölskyldur.
Ísrael heldur áfram af fullum krafti að hrekja Palestínubúa kerfisbundið frá frjósömu landi. Ísraelski herinn er staðsettur á 54-58% af slíku landi á Gaza. Ísrael setur enn miklar takmarkanir á aðgangi Palestínubúa að sjó. Engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að draga úr áhrifum eyðingar á ræktunarlandi og búfénaði á síðustu tveimur árum. Þegar þetta er allt tekið saman er ljóst að Palestínubúar hafa næstum engin tækifæri til að afla sér lífsviðurværis.
Alþjóðasamfélagið
Undanfarnar vikur hafa sést merki um það að alþjóðasamfélagið hafi dregið úr þrýstingi á Ísrael til að binda á enda brot sín. Ný ályktun Sameinuðu þjóðanna um framtíð Gaza felur ekki í sér skuldbindingar um að virða mannréttindi og tryggja að gerendur séu dregnir til ábyrgðar. Nýlega vísaði þýska ríkisstjórnin í vopnahléið þegar hún aflétti banni á ákveðnum vopnaflutningum til Ísraels. Hætt var við kosningar hjá Evrópusambandinu um að segja upp viðskiptasamningi við Ísrael.
Alþjóðasamfélagið getur ekki leyft sér að verða sinnulaust um stöðu mála. Ríki verða að halda áfram að þrýsta á Ísrael að leyfa fullan aðgang að mannúðaraðstoð, aflétta ólögmætri herkví og stöðva hópmorðið. Fyrirtæki verða tafarlaust að hætta allri starfsemi sem stuðlar að eða tengist með beinum hætti hópmorði Ísraels.
„Núna er ekki tíminn til að draga úr þrýstingi á ísraelsk yfirvöld. Heimsleiðtogar verða að sýna að þeir eru sannarlega tilbúnir að sinna skyldu sinni til að hindra hópmorðið og binda enda á það refsileysi sem hefur knúið áfram brot Ísraels síðustu áratugi á hernumda svæðinu í Palestínu. Þeir þurfa að stöðva alla vopnaflutninga til Ísraels þar til Ísrael hefur hætt að brjóta alþjóðalög. Það verður að þrýsta á ísraelsk yfirvöld að veita mannréttindaeftirliti og fjölmiðlafólki aðgang að Gaza til að tryggja gagnsæi í fréttaflutningi um áhrif aðgerða Ísraels á Gaza.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu