Fréttir

9. desember 2025

Hópmorð Ísraels heldur áfram þrátt fyrir vopnahlé

Þrátt fyrir að vopnahlé var tilkynnt í byrjun október og öllum ísra­elskum gíslum sem voru enn á lífi hefur verið sleppt halda ísra­elsk yfir­völd  áfram að fremja hópmorð á Palestínu­búum á Gaza.  Palestínu­búum er áfram þröngvað til að búa við lífskil­yrði sem miða að líkam­legri eyðingu hópsins, og ísra­elsk yfir­völd hafa ekki sýnt nein merki um að ásetn­ingur þeirra hafi breyst.

Mynd: Abed Rahim Khatib/Anadolu via Getty Images

Amnesty Internati­onal gaf út skýrslu í lok nóvember þar sem fram kemur lagaleg á hópmorðinu sem enn á sér stað ásamt vitn­is­burði frá íbúum, heil­brigð­is­starfs­fólki og hjálp­ar­starfs­fólki og varpar ljósi á hrylli­legar aðstæður Palestínubúa á Gaza.

„Hætta er á að vopna­hléið verði að hættu­legri tálsýn um að lífið á Gaza sé aftur orðið eðli­legt. Á sama tíma og ísra­elsk yfir­völd og hersveitir hafa dregið úr umfangi árása og hleypt mann­úð­ar­að­stoð inn á Gaza þá má heim­urinn ekki láta blekkja sig. Hópmorði Ísraels er ekki lokið.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

 

 

 

 

mannúðaraðstoð takmörkuð

Í lok nóvember höfðu að minnsta kosti 347 einstak­lingar verið drepnir í árásum Ísraels frá því að vopnahlé var tilkynnt 9. október og þar af voru 136 börn. Ísrael heldur áfram að takmarka aðgang að lífs­nauð­syn­legri mann­úð­ar­að­stoð og nauð­syn­legum vörum, eins og sjúkra­vörum og búnaði, til að gera við lífs­nauð­syn­lega inni­viði. Þetta brýtur gegn fyrir­skipun Alþjóða­dóm­stólsins í Haag um að Ísrael tryggi Palestínu­búum aðgang að hjálp­ar­gögnum í máli sem Suður-Afríka lagði fram til að koma í veg fyrir hómorð Ísraels.

Ísrael takmarkar einnig dreif­ingu mann­úð­ar­að­stoðar, meðal annars með því að setja hömlur á hvaða samtök mega dreifa aðstoð á Gaza. Fjölgun vöru­bíla inn á svæðið er ekki nóg. Samkvæmt OCHA fá heimili nú tvær máltíðir á dag (í stað einnar máltíðar í júlí) en mataræðið er einhæft og næring­ar­ríkur matur á borð við græn­meti, ávexti og prótein er enn utan seil­ingar fyrir margar fjöl­skyldur.

 

Ísrael heldur áfram af fullum krafti að hrekja Palestínubúa kerf­is­bundið frá frjó­sömu landi. Ísra­elski herinn er stað­settur á 54-58% af slíku landi á Gaza. Ísrael setur enn miklar takmark­anir á aðgangi Palestínubúa að sjó. Engar ráðstaf­anir hafa verið gerðar til að draga úr áhrifum eyðingar á rækt­un­ar­landi og búfénaði á síðustu tveimur árum. Þegar þetta er allt tekið saman er ljóst að Palestínu­búar hafa næstum engin tæki­færi til að afla sér lífs­við­ur­væris.

 

 

Alþjóðasamfélagið

Undan­farnar vikur hafa sést merki um það að alþjóða­sam­fé­lagið hafi dregið úr þrýst­ingi á Ísrael til að binda á enda brot sín. Ný ályktun Sameinuðu þjóð­anna um framtíð Gaza felur ekki í sér skuld­bind­ingar um að virða mann­rétt­indi og tryggja að gerendur séu dregnir til ábyrgðar. Nýlega vísaði þýska ríkis­stjórnin í vopna­hléið þegar hún aflétti banni á ákveðnum vopna­flutn­ingum til Ísraels. Hætt var við kosn­ingar hjá Evrópu­sam­bandinu um að segja upp viðskipta­samn­ingi við Ísrael.

Alþjóða­sam­fé­lagið getur ekki leyft sér að verða sinnu­laust um stöðu mála. Ríki verða að halda áfram að þrýsta á Ísrael að leyfa fullan aðgang að mann­úð­ar­að­stoð, aflétta ólög­mætri herkví og stöðva hópmorðið. Fyrir­tæki verða tafar­laust að hætta allri starf­semi sem stuðlar að eða tengist með beinum hætti hópmorði Ísraels.

 

„Núna er ekki tíminn til að draga úr þrýst­ingi á ísra­elsk yfir­völd. Heims­leið­togar verða að sýna að þeir eru sann­ar­lega tilbúnir að sinna skyldu sinni til að hindra hópmorðið og binda enda á það refsi­leysi sem hefur knúið áfram brot Ísraels síðustu áratugi á hernumda svæðinu í Palestínu. Þeir þurfa að stöðva alla vopna­flutn­inga til Ísraels þar til Ísrael hefur hætt að brjóta alþjóðalög. Það verður að þrýsta á ísra­elsk yfir­völd að veita mann­rétt­inda­eft­ir­liti og fjöl­miðla­fólki aðgang að Gaza til að tryggja gagnsæi í frétta­flutn­ingi um áhrif aðgerða Ísraels á Gaza.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

 

Lestu einnig