Góðar fréttir
3. júní 2016Í rúm 40 ár hefur Amnesty International barist gegn einni stærstu smán mannkyns – pyndingum. Margt hefur áunnist í þeirri baráttu en frá árinu 1980 hefur Amnesty tekið upp mál rúmlega 3000 einstaklinga sem sætt hafa pyndingum og annarri illri meðferð í 50 löndum og landsvæðum og margir þeirra fengu lausn sinna mála.
Samtökin börðust einnig í áratugi fyrir gerð samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu og tók hann gildi í júní árið 1987 á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
Mikill meirihluti ríkja heims hefur fullgilt samninginn, eða 155 ríki, auk þess sem 10 önnur hafa skrifað undir hann en ekki fullgilt hann. Enn á þó baráttan gegn pyndingum og annarri illri meðferð mjög á brattann að sækja. Víða um heim misnota fulltrúar ríkisins vald sitt og pynda varnarlaust fólk. Sorglegar staðreyndir um pyndingar koma fram ár eftir ár í ársskýrslum Amnesty International. Frá janúar 2009 til mars 2014 skráði Amnesty International pyndingar og aðra illa meðferð í 141 ríki. Pyndingar af hálfu ríkisvaldsins eru því hvergi nærri á undanhaldi þrátt fyrir að alþjóðleg lög gegn pyndingum hafi víða verið samþykkt. Hyldýpisgjá er á milli loforða ríkistjórna og efnda. Það er af þessum sökum sem Amnesty International ákvað að ýta herferðinni Stöðvum pyndingar úr vör í maí 2014 því alþjóðalögin ein og sér duga ekki til. Fleira verður að koma til þannig að pyndingar heyri sögunni til.
Varnir gegn pyndingum
Með herferðinni Stöðvum pyndingar var lögð áhersla á að ríki tryggi öfluga varnagla gegn pyndingum og grípi til fyrirbyggjandi aðgerða til að sporna við því að pyndingar og ill meðferð þrífist í eigin landi.
Öflugar varnir gegn pyndingum felast m.a. í því að ríki tryggi að óháðir læknar skoði fanga og lögfræðingar fái að heimsækja fangelsi og séu ávallt viðstaddir yfirheyrslur. Ríki verða jafnframt að tryggja að einangrunarvist og varðhald á leynilegum stöðum fái ekki þrifist og að varðhaldsstofnanir fái reglulegar, ótilkynntar og ótakmarkaðar eftirlitsheimsóknir frá sjálfstæðum og óháðum aðilum. Tilkynna á öllum föngum réttindi sín þegar í stað, m.a. að þeir geti kvartað við yfirvald yfir slæmri meðferð og fengið þegar í stað úrskurð dómara um lögmæti handtökunnar.
Allar kvartanir varðandi pyndingar og illa meðferð skulu rannsakaðar af óháðum aðilum á skjótan, hlutlægan og árangursríkan hátt. Hinir ábyrgu skulu dregnir fyrir rétt og þolendur skulu eiga rétt á skaðabótum. Við þjálfun ætti að gera embættismönnum ljóst að ill meðferð og pyndingar verði aldrei liðnar. Skipun frá yfirmanni ætti aldrei að réttlæta pyndingar eða illa meðferð. Yfirlýsingar, upplýsingar eða játningar sem fengnar eru með pyndingum og illri meðferð ætti aldrei að nota sem sönnunargögn í réttarhöldum og föngum ætti að vera gert kleift að hitta fjölskyldu sína og lögfræðing með reglulegu millibili.
Fimm lönd
Síðustu tvö árin hafa samtökin þrýst á ríki að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að sporna við pyndingum og annarri illri meðferð. Horft var til fimm landa þar sem pyndingar eru útbreiddar: Mexíkó og Filippseyjar þar sem pyndingar eru algengar á lögreglustöðvum, Marokkó og Úsbekistan þar sem dómstólar reiða sig á játningar fólks sem sætt hefur pyndingum og Nígeríu þar sem barsmíðar og sýndarréttarhöld eru dæmi um meðferð sem fólk hlýtur í varðhaldi.
Amnesty International lagði mat á nokkur lönd þar sem pyndingar eru algengar en valdi þessi fimm lönd þar sem samtökin töldu sig geta náð fram áþreifanlegum úrbótum í baráttunni gegn pyndingum innan tímaramma herferðarinnar – í lagasetningu, stefnumálum og verklagi. Samtökin skipulögu hvernig þau gætu best náð markmiðum sínum í hverju landi á tímabili herferðarinnar og mátu hvernig jákvæð áhrif í þessum löndum gætu haft áhrif á nágrannaríkin í heimsálfunum. Amnestu International vonaðist til þess að umrædd lönd innleiddu nýjar og betri varnir gegn pyndingum og tækju upp refsingu fyrir beitingu þeirra – innleiddu þar á meðal óháð eftirlit á varðstöðvum, eftirlit með yfirheyrslum, tafarlausan aðgang að lögfræðingum og réttarhöldum, skilvirka rannsókn á ásökunum um pyndingar sem myndu leiða til ákæra.
Stór hluti herferðarinnar fólst einnig í að berjast fyrir málum einstaklinga sem sætt hafa pyndingum í hverju þessara landa og hvetja félaga til að grípa til aðgerða vegna þeirra.
Ávinningur baráttunnar!
Frá því að herferðinni var ýtt úr vör hafa rúmlega tvær milljónir manna tekið undir ákall Amnesty International til ríkistjórna þessara fimm landa um að stöðva pyndingar og tryggja að þolendur fái réttlætinu fullnægt. Samtals söfnuðust 123.024 undirskriftir Íslendinga, á tveggja ára tímabili, til stjórnvalda sem beita pyndingum sem sýnir hversu mjög almenningur lætur sig málefnið varða. Þessi mikla þátttaka, bæði heima og að heiman, í aðgerðum Amnesty International gegn pyndingum hefur skilað töluverðum ávinningi í baráttunni.
Eftirfarandi árangur, í þeim fimm löndum sem herferðin horfði til, má þakka þessum stöðuga og öfluga þrýstingi frá fólki eins og þér:
Mexíkó:
Einstaklingsmál í Mexíkó:
Claudia Medina er 34 ára gömul kona sem sætti pyndingum af hálfu mexíkóskra hermanna árið 2012, þar á meðal kynferðisofbeldi. Hermennirnir þvinguðu Claudiu til að játa að hún tilheyrði fíkniefnagengi en játning hennar varð síðan grundvöllur ákæra á hendur henni. Samkvæmt framburði Claudiu var henni gefið rafstuð, nauðgað þrisvar, sparkað í hana og hún illa barin af hermönnum á stöðinni. Þann 24. febrúar árið 2015 dróg dómari síðustu ákæruna á hendur Claudiu til baka, á þeim grundvelli að eina sönnunargagnið gegn henni, væri lygi. Mál Claudiu var m.a. tekið fyrir í Netákalli Íslandsdeildar Amnesty International.
Ángel Amílcar Colón Quevedo. Ángel var handtekinn af lögreglu í Tijuana í Norður-Mexíkó þar sem hann ferðaðist frá Hondúras til Bandaríkjanna í mars 2009. Hann sætti pyndingum af hálfu lögreglu og hersins og var m.a. barinn, kæfður og niðurlægður vegna kynþáttar síns. Hann var neyddur til að skrifa undir falska yfirlýsingu sem var notuð til að bendla hann við glæpsamlegt athæfi. Hann dró yfirlýsinguna til baka þegar hann var færður fyrir dómara og tilkynnti yfirvöldum um pyndingar sem hann sætti en þau létu hjá líða að rannsaka. Í október 2014 samþykkti ríkissaksóknari í Mexíkó að fella niður ákærur á hendur Ángel Colón og var hann leystur úr haldi án skilyrða. Tuttugu þúsund einstaklingar skrifuðu undir ákall Amnesty International þar sem lausnar hans var krafist.
Marokkó/Vestur-Sahara:
Einstaklingsmál í Marokkó:
Ali Aarrass var framseldur frá Spáni til Marokkó í desember árið 2010. Honum var haldið af leyniþjónustunni í einangrun í leynilegu varðhaldi í 12 daga, þar sem hann sætti pyndingum og annarri illri meðferð. Hann var hengdur upp á höndum og fótum á járnstöng, barinn á iljum, rafstraumur leiddur í gegnum kynfærin, og brenndur með sígarrettum. Að sögn Ali var hann þvingaður til að játa á sig aðild að hryðjuverkastarfssemi. Hann var dæmdur í 12 ára fangelsi en dómurinn byggði á játningu sem fengin var með pyndingum. Þann 21. maí árið 2014 opnuðu stjórnvöld í Marokkó að nýju rannsókn sína á pyndingum sem Ali Aarrass sætti og fyrirskipuðu aðra læknisskoðun á honum. 216.000 einstaklingar um heim allan gripu til aðgerða vegna Ali.
Filippseyjar:
Einstaklingsmál á Filippseyjum:
Alfreda Disbarro er einstæð móðir frá Filippseyjum. Þann 3. október 2013 sat hún á netkaffihúsi nálægt heimili sínu þegar tveir lögreglumenn komu upp að henni og ásökuðu hana um að vera dópsali. Hún var handtekin og flutt til fíkniefnadeildar lögreglunnar. Þar var hún áreitt kynferðislega af lögreglu, barin með kylfu og potað í augu hennar. Árið 2014 hóf innra eftirlit lögreglu rannsókn á þeim pyndingum sem Alfreda sætti. Þetta er mikilvægt skref í baráttunni fyrir réttlæti en enn á þó eftir að draga hina seku til ábyrgðar.
Jerryme Corre starfaði sem bílstjóri við almenningssamgöngur á Filippseyjum. Hann sætti hræðilegum pyndingum af hendi lögreglu í janúar 2012 í kjölfar ásakana um morð á lögreglumanni. Þann 27. mars afhenti starfsfólk Amnesty International á Filippseyjum undirskriftir frá bréfamaraþoninu 2014 til lögreglunnar þar í landi og kallaði eftir rannsókn á pyndingum sem Jerryme Corre sætti. Strax eftir afhendingu undirskriftanna bárust Jerryme og fjölskyldu hans þær fregnir frá lögreglunni að rannsókn yrði sett af stað líkt og Amnesty International kallaði eftir.
Mánudaginn 6. aprí 2015 var starfsfólk Amnesty International viðstatt fyrstu skýrslutöku rannsóknarinnar ásamt Jerryme Corre og lögfræðingi hans. Í skýrslutökunni var staðfest að Innra eftirlit lögreglunnar hóf rannsóknina vegna bréfa sem bárust frá Amnesty International.
Nígería:
Einstaklingsmál í Nígeríu:
Árið 2015 var Moses Akatugba leystur úr haldi og náðaður, en hann sætti pyndingum og annarri illri meðferð aðeins 16 ára gamall eftir ásakanir um farsímastuld. Hann var dæmdur til dauða með hengingu eftir átta ár í fangelsi. Rúmlega 800.000 Amnesty-félagar sendu bréf á fylkisstjórann á óseyrum Nígerfljóts, Emmanuel Uduaghan, þar sem skorað var á hann að náða Moses. 16.000 undirskriftir bárust frá Íslandi.
Fylkisstjórinn náðaði Moses þann 28. maí 2015 og lét það verða eitt af síðustu verkum sínum áður en hann hætti störfum.
Úsbekistan:
Mannréttindafrömuðir og fjölskyldur fórnarlamba pyndinga tjáðu Amnesty International að þau hafi fundið fyrir miklum stuðningi frá samtökunum, rannsakendum, félögum þeirra og Amnesty-hópum.
Aðgerðir Íslandsdeildarinnar
Íslandsdeildin beitti sér fyrir öllum ofangreindum einstaklingsmálum en sendi einnig út áköll vegna aðgerðasinnans og rithöfundarins Raif Badawi frá Sádi-Arabíu sem dæmdur var til 5000 svipuhögga, vegna blaðamannsins Muhammad Bekzhanov sem sætti pyndingum vegna skrifa sinna og mótmælandans Dmitrii Bulatov sem hengdur var á krossi sem refsing fyrir þátttöku sína í mótmælum. Báðir mennirnir eru frá Úkraínu. Þá var þrýst á stjórnvöld í Dóminíska lýðveldinu að rannsaka pyndingar sem Luis Manuel Lember Martínez og Eduardo Luis Cruz sættu eftir að þeir voru handteknir fyrir að neita að greiða lögreglu mútur. Gripið var til aðgerða vegna ónafngreindrar konu í Indónesíu átti yfir höfði sér hýðingu með staf fyrir hórdóm og Falung Gong samviskufanga í Kína sem sætti illri meðferð. Þetta er aðeins brot af þeim málum sem Íslandsdeildin beitti sér fyrir.
Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International stóð einnig fyrir fjölda aðgerða og uppákoma til að vekja athygli á þeim sára veruleika sem þolendur pyndinga þurfa að lifa við og hvetja almenning til þátttöku í baráttunni gegn pyndingum.
Justine Ijeomah, framkvæmdastjóri mannréttindasamtaka í Port Harcourt í Nígeríu, heimsótti Íslandsdeildina í lok október 2014 og hélt erindi í Norræna húsinu um pyndingar og aðra illa meðferð í Nígeríu sem lögregla og her stunda kerfisbundið gegn konum, körlum og börnum, allt niður í 12 ára aldur.
Þann 16. febrúar 2015 bauð Íslandsdeildin Dr. Anja Bienert, yfirmanni mannréttinda- og löggæslusviðs Amnesty International í Hollandi, til landsins. Hún var heiðursgestur á málþingi sem bar yfirskriftina, Hvernig má staðfesta að pyndingum sé ekki beitt, sem fram fór í Háskóla Íslands.
Á málþinginu sem var mjög vel sótt var rætt mikilvægi valfrjálsrar bókunar við alþjóðlegan samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð og refsingu. Allir ráðherrar og þingmenn fengu sérstakt boð á málþingið. Í aðdraganda málþingsins þrýsti Íslandsdeildin mjög á íslensk stjórnvöld að fullgilda valfrjálsa bókun við samninginn með ýmsum leiðum, bæði á fundi með Utanríkismálanefnd og í bréfi til Ólafar Nordal, innanríkisráðherra. Þess má geta að Íslandsdeildin hefur um áralangt skeið þrýst á stjórnvöld að fullgilda valfrjálsu bókunina sem Ísland samþykkti árið 2003. Sjö mánuðum eftir málþingið var þingsályktunartillaga lögð fram á Alþingi þar sem mælt var fyrir um fullgildingu valfrjálsu bókunarinnar.
Barátta heldur áfram
Margt hefur áunnist í baráttunni gegn pyndingum og annarri illri meðferð á síðustu tveimur árum þó sigurinn sé ekki unninn. Þrátt fyrir að herferðinni, Stöðvum pyndingar, ljúki formlega í lok maí 2016 mun Íslandsdeild Amnesty International halda áfram að berjast gegn pyndingum og annarri illri meðferð með áköllum í gegnum SMS-aðgerðanetið og Netákallið. Þannig er herferð gegn pyndingum viðvarandi og Íslandsdeildin eins og aðrar deildir samtakanna leggja ekki upp laupana fyrr en að síðasti pyndingarklefanum verður lokað og síðasti pyndarinn er sóttur til saka.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu