Fréttir

5. ágúst 2021

Hvíta-Rúss­land: Íþróttir nýr vígvöllur stjórn­valda

Íþrótta­fólk í Hvíta-Rússlandi fórnar nú íþrótta­ferli sínum og frelsi fyrir það eitt að tjá sig um mann­rétt­inda­brot í heimalandi sínu. Amnesty Internati­onal stendur fyrir herferð­inni #StandWit­h­Bel­arus til að sýna íþrótta­fólkinu í Hvíta-Rússlandi stuðning í mann­rétt­inda­bar­áttu þess. Krystsina Tsimanou­skaya, íþrótta­kona frá Hvíta-Rússlandi og þátt­tak­andi á Ólymp­íu­leik­unum í Japan í ár óskaði eftir alþjóð­lega vernd í pólska sendi­ráðinu í Tókýó þann 2. ágúst 2021 í kjölfar þess að hvítrúss­nesk yfir­völd reyndu að þvinga hana aftur til heima­lands síns.

Íþrótta­fólk sem Amnesty Internati­onal hefur rætt við segir að því hafi verið refsað vegna þess að íþróttir eru afar hugleiknar forseta landsins Alyaks­andr Lukashenka. Hann er sjálfur áhuga­leik­maður í íshokkí og þar til í desember 2020 fór hann fyrir Ólymp­íu­nefnd Hvíta-Rúss­lands.

Íþróttafólk lætur heyra í sér

 

„Íþrótta­nefndir í Hvíta-Rússlandi hafa verið undir beinni stjórn ríkis­stjórnar Alyaks­andr Lukahs­henka. Íþrótta­fólk nýtur velvildar ríkisins og virð­ingar samfé­lagsins. Það kemur því ekki á óvart að íþrótta­fólk sem lætur í sér heyra eigi á hættu refs­ingu,”

Heather McGill, rann­sak­andi Amnesty Internati­onal í Austur-Evrópu og Mið-Asíu.

Fjöldi íþrótta­fólks, rúmlega eitt þúsund, skrifaði undir opið bréf í ágúst 2020 þar sem kallað var eftir nýjum kosn­ingum, að beit­ingu pynd­inga og annarri illri meðferð yrði hætt og hand­tökur á frið­sömum mótmæl­endum stöðv­aðar. Það leið ekki langur tími þar til ríkis­stjórnin beitti hefndarað­gerðum.

Samkvæmt Sport Soli­da­rity Foundation, óháðum samtökum til stuðn­ings íþrótta­fólks sem hefur verið refsað fyrir póli­tískar skoð­anir sínar, hafa 95 einstak­lingar í íþróttum verið hand­teknir fyrir þátt­töku í frið­sömum mótmælum í Hvíta-Rússlandi, þar af hafa sjö verið ákærðir fyrir póli­tísk brot vegna frið­samrar andstöðu við ríkis­stjórnina. Auk þess hafa 124 einstak­lingar í íþróttum sætt annars konar kúgun. meðal annars hafa 35 einstak­lingar verið reknir úr lands­liðinu, bæði íþrótta­fólk og þjálf­arar.

 

Sögur tveggja íþróttakvenna

 

Alyaks­andra Herasimienia, þrefaldur ólymp­íu­verð­launa­hafi í sundi sem hefur rekið sund­skóla fyrir börn síðast­liðin tvö ár eftir að hún hætti að keppa fannst hún þurfa að láta í sér heyra á samfé­lags­miðlum en stóð frammi fyrir erfiðu vali. Þetta sagði hún Amnesty Internati­onal:

„Ég hafði val um að láta í mér heyra eða þegja. Við leigjum sund­laugar af ríkinu fyrir námskeiðin okkar. Allar sund­laugar í Hvíta-Rússlandi eru í eigu ríkisins svo ég vissi að ef ég myndi tjá mig fengi samstarfs­fólk mitt að líða fyrir það og börnin líka. Í fyrstu vissi ég ekki hvað ég ætti að gera en eftir nokkra daga áttaði ég mig á því að ég gæti ekki þagað.“ Eins og búast mátti við fékk hún ekki lengur að leigja sund­laugar í Hvíta-Rússlandi.

Alyaks­andra leitaði til Sport Soli­da­rity Foundation sem þrýsti á alþjóð­legu Ólymp­íu­nefndina með góðum árangri því nýr aðili, í stað Alyaks­andr Lukashenka, var fenginn til að taka við sem formaður Ólymp­íu­nefnd­ar­innar í Hvíta-Rússlandi. Einnig var séð var til þess að ýmsir alþjóð­legir íþrótta­við­burðir yrðu ekki haldnir í Hvíta-Rússlandi.

 

Yelena Leuchanka, ein þekkt­asta íþrótta­kona Hvíta-Rúss­lands og tvöfaldur ólymp­íu­verð­launa­hafi í körfu­bolta, fannst hún þurfa tjá sig um það sem væri að gerast í Hvíta-Rússlandi og skrifaði undir opna bréfið til stjórn­valda og tjáði skoð­anir sínar á samfé­lags­miðlum. Hún var hand­tekin þann 20. sept­ember 2020 á flug­vell­inum í Minsk þegar hún var á leið til Grikk­lands í lækn­is­með­ferð vegna íþrótta­meiðsla. Hún var 15 daga í varð­haldi í alræmdri varð­haldsmið­stöð í Minsk og segir Amnesty Internati­onal að séð hefði verið til þess að hún dveldi við slæman aðbúnað í klefa sínum.

„Fyrstu nóttina vorum við með dýnur, vatn og klósett en tveimur dögum síðar breyttist allt. Eftir morg­unmat komu verðir inn og skipuðu okkur að rúlla upp dýnunum. Fyrst héldum við að það væri verið að fjar­lægja dýnurnar til að eyða flóm og veggjalús en við fengum þær aldrei aftur.“

Yelena var 15 daga í fjög­urra manna klefa en mest allan tímann voru fimm einstak­lingar í klef­anum. Hún og klefa­fé­lagar hennar voru neydd til að sofa á rúmgrind­inni og reyndu að nota föt, dagblöð og dömu­bindi til að minnka óþæg­indin. Þeim var sagt af yfir­manni varð­haldsmið­stöðv­ar­innar að þetta væri með vilja gert „til að tryggja að þau myndu ekki koma aftur“.

Lestu einnig