SMS

14. júlí 2021

Indó­nesía: Lektor dæmdur fyrir What­sApp skilaboð

Saiful Mahdi, lektor til 25 ára við Syiah Kuala-ríkis­háskólann í Aceh-héraði á Indó­nesíu, var dæmdur í þriggja mánaða fang­elsi fyrir ærumeið­ingar og honum gert að greiða 85 þúsund króna sekt (10 millj­ónir IDR) fyrir að gagn­rýna ráðn­ing­ar­ferli verk­fræði­deildar háskólans.

Hann skrifaði skila­boðin síðla árs 2018 í hópspjalli með 100 lektorum háskólans vegna ráðn­ing­ar­ferlis við verk­fræði­deild háskólans. Saiful hafði verið bent á að aðilinn sem var ráðinn uppfyllti ekki hæfnis­kröf­urnar. Hann skoðaði einkunnir þeirra sem tóku ráðn­ingar­prófið fyrir stöðuna  og tók eftir ósam­ræmi í einkunna­gjöf sem hann taldi að þyrfti endur­skoðun. Saiful deildi þessu í skila­boðum á What­sApp sem síðar var dreift áfram.

Saiful var sagt að skrifa afsök­un­ar­beiðni til verk­fræði­deild­ar­innar, sem hann neitaði að gera. Hann var seinna ákærður fyrir ærumeið­ingar gegn rektor háskólans þó að hann hefði aldrei nefnt nein nöfn í skila­boðum sínum.

Saiful var dæmdur sekur þann 21. apríl síðast­liðinn og þarf að sæta þriggja mánaða fang­elsis­vist ásamt því að greiða 85 þúsund króna sekt (10 millj­ónir IDR). Hæstiréttur Indó­nesíu hafnaði áfrýjun málsins þann 29. júní og stað­festi fyrri dóm.

Stjórn­völd á Indó­nesíu hafa í auknum mæli skert tján­ing­ar­frelsið með því að beita ákvæði um ærumeið­ingar fyrir gagn­rýni á samfé­lags­miðlum og í samskipta­for­ritum.

SMS-félagar Amnesty Internati­onal krefjast þess að forseti Indó­nesíu veiti Saidul Mahdi sakar­upp­gjöf þar sem honum er refsað fyrir það eitt að tjá skoð­anir sínar.

Taktu þátt í starfi Amnesty og skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!

Lestu einnig