Fréttir

5. febrúar 2024

Íran: Aftökur bera merki um grimmd stjórn­valda

Aftökur tveggja manna eftir svívirði­lega ósann­gjörn rétt­ar­höld bera þess merki að írönsk yfir­völd ganga sífellt lengra í grimmd sinni. Mohammad Ghoba­dlou, 23 ára mótmæl­andi með þroskahömlun, var tekinn af lífi við dögun þann 23. janúar síðast­liðinn í kjölfar leyni­legs málaferlis og úrskurðar.

Sama daga var Fahrad Salimi einnig tekinn af lífi að geðþótta. Hann var kúrdískur súnnímúslimi sem er minni­hlutahópur í Íran. Hann hafði í áratug óskað eftir nýjum, sann­gjörnum rétt­ar­höldum sem vísuðu á bug „játningu sem var fengin með pynd­ingum en beiðnir hans voru huns­aðar.  

Mohammad Ghobadlou

 

Lögfræð­ingi Mohammad Ghoba­dlou var tilkynnt um óvænta og ólög­mæta aftöku skjól­stæð­ings síns með minna en 12 tíma fyrir­vara. Hann var tekinn af lífi þrátt fyrir að hæstiréttur hafi í júlí 2023 fellt úr gildi dauðadóm hans og fyrir­skipað ný rétt­ar­höld. Þau urðu aldrei að veru­leika eftir að Gholam­hossein Mohseni Eje’i, sem er æðsti dómari landsins, kom að málinu.  

Mohammad Ghoba­dlou, var hand­tekinn þegar uppreisnin Konur, líf, frelsi stóð sem hæst í sept­ember 2022. Yfir­völd stað­hæfa að Mohammad Ghoba­dlou hafi keyrt á full­trúa yfir­valda og valdið dauða hans á mótmælum þann 22. sept­ember 2022. Sama ár þann 24. desember var Mohammad dæmdur til dauða fyrir „morð“ í kjölfar ósann­gjarnrar máls­með­ferðar. Hæstiréttur nr. 1 stað­festi sakfell­inguna og dóminn í mars 2023. Hins vegar í júlí 2023 fyrir­skipaði hæstiréttur nr. 39 ný rétt­ar­höld og að sakhæfi Mohammad yrði metið.  

Morðæði íranskra yfir­valda í kjölfar uppreisn­ar­innar Konur, líf, frelsi, hefur leitt til þess að hundruð einstak­linga hafa verið teknir af lífi að geðþótta í kjölfar ósanngjarnra réttarhalda á síðast­liðnu ári. Það undir­strikar nauðsyn þess að endur­nýja umboð sérstaks skýrslu­gjafa Sameinuðu þjóð­anna um ástand mann­rétt­inda í Íran og fram­lengja umboð sendi­nefndar Sameinuðu þjóðanna um söfnun ganga í næst­kom­andi fundalotu mann­rétt­inda­ráðs Sameinuðu þjóð­anna. Það er einnig tími til kominn að ríki hefji glæp­a­rann­sókn á grund­velli alþjóð­legrar lögsögu þar sem ábyrgð hinna grunuðu um brot á alþjóð­legum lögum, þar á meðal ábyrgð æðstu embætt­is­manna Íran, er rann­sökuð.

Diana Elta­hawy, hjá Amnesty Internati­onal. 

Farhad Salimi

Farhad Salimi er fjórði maðurinn frá því í nóvember 2023 sem hefur verið tekinn af lífi að geðþótta úr hópi sjö kúrdískra súnnímúslima. Sjömenn­ing­arnir voru dæmdir til dauða fyrir rúmum áratug síðan í kjölfar ósann­gjarnra rétt­ar­halda sem stóðu aðeins yfir í nokkrar mínútur. Sakfell­ingin var byggð á „játn­ingum“ sem var náð fram með pynd­ingum. Þrír eru enn á lífi úr hópnum, Anwar Khezri, Kamran Sheikheh og Khosrow Basharat, og óttast er að aftökur þeirra séu yfir­vof­andi. 

Farhad Salimi var hand­tekinn í desember 2009 í héraðinu Vestur-Aser­baísjan ásamt hinum sex mönn­unum. Þeir voru sakaðir um að vera hluti af salafi-hópi (armur innan súnní). Í opnu bréfi frá fang­elsinu sögðust menn­irnir hafa sætt pynd­ingum og annarri illri meðferð í þeim tilgangi að neyða þá til að „játa“. Farhad Salimi sagði að ítrekað hafi verið þrýst á hann að gefa út yfir­lýs­ingu sem bendlaði hann við glæp og segja upp óháðum lögfræð­ingi sínum.  

Sjömenn­ing­arnir voru dæmdir til dauða árið 2018  af bylt­ing­ar­dóm­stóli nr. 26. Þeir voru sakfelldir fyrir „spill­ingu á jörðu“. Hæstiréttur felldi dóminn úr gildi vegna ónógra sann­anna og sendi mál þeirra aftur til dómstóla. Bylt­ing­ar­dóm­stóll nr. 15 dæmdi þá að nýju til dauða.  

 

Máls­með­ferð í báðum rétt­ar­höld­unum var gífur­lega ósann­gjörn. Yfir­völd neituðu þeim um aðgang að lögfræð­ingi á rann­sókn­arstigi, dómari bannaði lögfræð­ingum þeirra að hefja máls í rétt­ar­höld­unum og „játn­ingar“ þeirra voru notaðar sem sönn­un­ar­gögn, þrátt fyrir að þeim var náð fram með pynd­ingum.  

Farhad Salimi fór í hung­ur­verk­fall þann 3. janúar 2024 ásamt þremur öðrum úr hópi sjömenn­ing­anna til að mótmæla aftöku Davoud Abdollahi, eins sjömenn­ing­anna, sem var tekinn af lífi 2. janúar 2024. Þeir óttuðust einnig að aftaka þeirra væri yfir­vof­andi. Hinir þrír, Anwar Khezri, Kamran Sheikheh og Khosrow Basharat, eru enn í hugur­verk­falli. Tveir úr hópi sjömenn­ing­anna, Ghasem Abesteh og Ayoub Karimi, voru teknir af lífi í nóvember 2023. Óttast er að þeir þrír sem eftir eru verði teknir af lífi á næst­unni.  

Bakgrunnur

Írönsk yfir­völd hafa beitt dauðarefs­ing­unni sem kúgun­ar­tóli í kjölfar uppreisn­ar­innar fyrir rétt­indum kvenna í þeim tilgangi að bæla niður mótmæli og skapa ótta. 

Amnesty Internati­onal er á móti dauðarefs­ing­unni í öllum tilvikum þar sem hún brýtur á rétt­inum til lífs.  

Lestu einnig