Fréttir

20. janúar 2026

Íran: Netlokun hylmir yfir fjölda­morð í harðn­andi kúgun gegn mótmæl­endum

Írönsk stjórn­völd hafa með öllu lokað á net- og fjar­skipta­sam­band þar í landi allt frá 8. janúar 2026 í þeim tilgangi að leyna raun­veru­legu umfangi grófra mann­rétt­inda­brota og glæpa samkvæmt alþjóða­lögum. Brot yfir­valda hafa verið framin í ofbeld­is­fullum aðgerðum gegn mótmæl­endum vítt og breitt um landið.  

Írönsk yfir­völd hafa enn á ný vísvit­andi lokað fyrir netað­gang innan Írans til að fela raun­veru­legt umfang alvar­legra mann­rétt­inda­brota sem þau fremja í því skyni að bæla niður umfangs­mestu mótmæli á landsvísu síðan Konur, Líf, Frelsi-uppreisnin átti sér stað árið 2022.

Rebecca White, rann­sak­andi hjá örygg­is­rann­sókn­ar­deild Amnesty Internati­onal.

„Þessi alls­herj­ar­netlokun felur ekki einungis í sér mann­rétt­indabrot heldur telst lokunin sjálf alvar­legt mann­rétt­inda­brot.“ 

Blóðsúthelling og refsileysi

Sann­prófuð mynd­bönd og áreið­an­legar upplýs­ingar frá sjón­ar­vottum sýna ólögmæt fjölda­morð sem framin hafa verið í áður óþekktum mæli í skjóli áfram­hald­andi netlok­unar. Frá því að mótmælin brutust út þann 28. desember 2025 hefur beiting banvæns ofbeldis af hálfu yfir­valda stig­magnast og fordæma­laust mann­tjón orðið á mótmæl­endum sem flestir hafa gert uppreisn með frið­sömum hætti. Tala látinna er 2000 einstak­lingar, samkvæmt opin­berum tölum.  

„Þessum blóðsút­hell­ingum og refsi­leysi verður að linna. Þrátt fyrir dökka sögu íranskra yfir­valda af stór­felldum mann­rétt­inda­brotum og glæpum samkvæmt alþjóða­lögum í fyrri mótmælum er umfang og alvar­leiki dráp­anna og kúgun­ar­innar frá 8. janúar fordæma­laus.“

Agnès Callamard, fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal. 

Samkvæmt gögnum sem Amnesty Internati­onal hefur safnað hafa örygg­is­sveitir, stað­settar á götum úti og á þökum bygg­inga, ítrekað skotið á óvopnaða mótmæl­endur með rifflum og hagla­byssum hlöðnum málm­kúlum og er skot­unum oft beint að höfði og búk. Heil­brigð­is­stofn­anir ráða vart við fjölda særðra, á meðan fjöl­skyldur leita að horfnum ástvinum meðal yfir­fullra líkhúsa og líkams­leifa sem hrúgað hefur verið á pall­bíla, flutn­ings­gáma eða í vöruhús.  

Viðvar­andi netlokun hefur veru­lega hamlað getu þolenda, fjöl­miðla­fólks og mann­rétt­inda­sam­tak­anna til að skrá­setja og rann­saka mann­rétt­inda­brot og eykur hættuna á að sönn­un­ar­gögn glatist.

„Netlokun steypir fólki í staf­rænt myrkur og kemur í veg fyrir að þeir sem eru í landinu geti bæði aflað sér upplýs­inga og miðlað þeim til umheimsins. Þetta er með öllu gert af ásettu ráði.“

Rebecca White

Kröfur Amnesty International

Amnesty Internati­onal ítrekar kröfur sínar um tafar­lausar, diplóma­tískar aðgerðir:

  • Aðild­ar­ríki Sameinuðu þjóð­anna verða þegar í stað að grípa til samræmdra aðgerða, þar á meðal með því að boða til sérstakra funda í mann­rétt­inda­ráði og örygg­is­ráði Sameinuðu þjóð­anna og íhuga að hrinda af stað saka­mál­a­rann­sóknum og málsóknum í gegnum alþjóð­legt rétt­ar­kerfi.
  • Ríki heims verða einnig að krefjast þess að örygg­isráð Sameinuðu þjóð­anna vísi stöð­unni í Íran til Alþjóð­lega saka­mála­dóm­stólsins.  

„Alþjóða­sam­fé­lagið verður að grípa til tafar­lausra diplóma­tískra aðgerða til að vernda mótmæl­endur gegn frekari fjölda­morðum og takast á við refsi­leysi sem knýr áfram blóðuga stefnu ríkisins.“

Agnès Callamard

Amnesty Internati­onal endur­vekur kröfu sína til íranskra stjórn­valda um að binda þegar í stað enda á ólög­mæta beit­ingu banvæns ofbeldis, aflétta netlokun að fullu og binda enda á áratuga­langt, kerf­is­bundið refsi­leysi fyrir glæpi samkvæmt alþjóða­lögum.

Leiðtogafærni Íslands fagnað

Sérstakur auka­fundur mann­rétt­inda­ráða Sameinuðu þjóð­anna verður haldinn þann 23. janúar næst­kom­andi í Genf þar sem rædd verður alvarleg staða mann­rétt­inda í Íran í kjölfar víðtækra mótmæla í landinu.

Íslands­deild Amnesty Internati­onal fagnar því að Ísland láti mann­rétt­indi í Íran sig enn varða með því að hafa frum­kvæði að því að kalla eftir þessum auka­fundi í samstarfi við Bret­land, Þýska­land, Moldóvu og Norður-Makedóníu. Ísland hefur frá árinu 2021 verið í forystu í mann­rétt­inda­ráðinu hvað varðar stöðu mann­rétt­inda í Íran.

Fram­ganga Íslands í mann­rétt­inda­ráðinu er hvetj­andi og afar mikilvæg. Enn og aftur sýnir Ísland leið­toga­færni í ráðinu. Deildin hvetur íslensk stjórn­völd að halda áfram að standa vörð um mann­rétt­indi allra á alþjóða­vett­vangi.

Lestu einnig