Fréttir
20. janúar 2026
Írönsk stjórnvöld hafa með öllu lokað á net- og fjarskiptasamband þar í landi allt frá 8. janúar 2026 í þeim tilgangi að leyna raunverulegu umfangi grófra mannréttindabrota og glæpa samkvæmt alþjóðalögum. Brot yfirvalda hafa verið framin í ofbeldisfullum aðgerðum gegn mótmælendum vítt og breitt um landið.
„Írönsk yfirvöld hafa enn á ný vísvitandi lokað fyrir netaðgang innan Írans til að fela raunverulegt umfang alvarlegra mannréttindabrota sem þau fremja í því skyni að bæla niður umfangsmestu mótmæli á landsvísu síðan Konur, Líf, Frelsi-uppreisnin átti sér stað árið 2022.“
Rebecca White, rannsakandi hjá öryggisrannsóknardeild Amnesty International.
„Þessi allsherjarnetlokun felur ekki einungis í sér mannréttindabrot heldur telst lokunin sjálf alvarlegt mannréttindabrot.“
Blóðsúthelling og refsileysi
Sannprófuð myndbönd og áreiðanlegar upplýsingar frá sjónarvottum sýna ólögmæt fjöldamorð sem framin hafa verið í áður óþekktum mæli í skjóli áframhaldandi netlokunar. Frá því að mótmælin brutust út þann 28. desember 2025 hefur beiting banvæns ofbeldis af hálfu yfirvalda stigmagnast og fordæmalaust manntjón orðið á mótmælendum sem flestir hafa gert uppreisn með friðsömum hætti. Tala látinna er 2000 einstaklingar, samkvæmt opinberum tölum.
„Þessum blóðsúthellingum og refsileysi verður að linna. Þrátt fyrir dökka sögu íranskra yfirvalda af stórfelldum mannréttindabrotum og glæpum samkvæmt alþjóðalögum í fyrri mótmælum er umfang og alvarleiki drápanna og kúgunarinnar frá 8. janúar fordæmalaus.“
Agnès Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International.
Samkvæmt gögnum sem Amnesty International hefur safnað hafa öryggissveitir, staðsettar á götum úti og á þökum bygginga, ítrekað skotið á óvopnaða mótmælendur með rifflum og haglabyssum hlöðnum málmkúlum og er skotunum oft beint að höfði og búk. Heilbrigðisstofnanir ráða vart við fjölda særðra, á meðan fjölskyldur leita að horfnum ástvinum meðal yfirfullra líkhúsa og líkamsleifa sem hrúgað hefur verið á pallbíla, flutningsgáma eða í vöruhús.
Viðvarandi netlokun hefur verulega hamlað getu þolenda, fjölmiðlafólks og mannréttindasamtakanna til að skrásetja og rannsaka mannréttindabrot og eykur hættuna á að sönnunargögn glatist.
„Netlokun steypir fólki í stafrænt myrkur og kemur í veg fyrir að þeir sem eru í landinu geti bæði aflað sér upplýsinga og miðlað þeim til umheimsins. Þetta er með öllu gert af ásettu ráði.“
Rebecca White
Kröfur Amnesty International
Amnesty International ítrekar kröfur sínar um tafarlausar, diplómatískar aðgerðir:
„Alþjóðasamfélagið verður að grípa til tafarlausra diplómatískra aðgerða til að vernda mótmælendur gegn frekari fjöldamorðum og takast á við refsileysi sem knýr áfram blóðuga stefnu ríkisins.“
Agnès Callamard
Amnesty International endurvekur kröfu sína til íranskra stjórnvalda um að binda þegar í stað enda á ólögmæta beitingu banvæns ofbeldis, aflétta netlokun að fullu og binda enda á áratugalangt, kerfisbundið refsileysi fyrir glæpi samkvæmt alþjóðalögum.
Leiðtogafærni Íslands fagnað
Sérstakur aukafundur mannréttindaráða Sameinuðu þjóðanna verður haldinn þann 23. janúar næstkomandi í Genf þar sem rædd verður alvarleg staða mannréttinda í Íran í kjölfar víðtækra mótmæla í landinu.
Íslandsdeild Amnesty International fagnar því að Ísland láti mannréttindi í Íran sig enn varða með því að hafa frumkvæði að því að kalla eftir þessum aukafundi í samstarfi við Bretland, Þýskaland, Moldóvu og Norður-Makedóníu. Ísland hefur frá árinu 2021 verið í forystu í mannréttindaráðinu hvað varðar stöðu mannréttinda í Íran.
Framganga Íslands í mannréttindaráðinu er hvetjandi og afar mikilvæg. Enn og aftur sýnir Ísland leiðtogafærni í ráðinu. Deildin hvetur íslensk stjórnvöld að halda áfram að standa vörð um mannréttindi allra á alþjóðavettvangi.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu