Fréttir
28. janúar 2020Myndbönd, ljósmyndir og frásagnir þolenda og vitna sem Amnesty International hefur undir höndum staðfesta að íranskar öryggissveitir hafa beitt ólögmætum aðgerðum gegn friðsömum mótmælendum víðsvegar um Íran eftir að yfirvöld viðurkenndu að hafa skotið niður farþegaflugvél frá Úkraínu þann 8. janúar síðastliðinn.
„Það er skelfilegt að íranskar öryggissveitir beiti ofbeldi gegn friðsömum mótmælendum sem krefjast réttlæti fyrir 176 farþega flugvélannar sem létust og fyrir að sýna reiði sína gagnvart írönskum stjórnvöldum sem reyndu fyrst að hylma yfir málið,“
segir Philipp Luther, yfirmaður rannsóknar- og aðgerðadeildar Miðausturlanda og Norður-Afríku.
Ólögmætar aðgerðir
Frásagnir vitna og ljósmyndir sem eru í fórum Amnesty International benda til þess að öryggissveitir hafi skotið smákúlum á mótmælendur sem valda kvalafullum áverkum og hafa margir þurft að gangast undir skurðaðgerð til að fjarlægja þær. Þessar smákúlur eru notaðar til að veiða smádýr og eru með öllu óviðeigandi í löggæslu.
„Það var svo mikið tárgas, ég var svo í miklu uppnámi og uggandi að ég áttaði mig ekki á því í fyrstu að ég hefði verið skotin. Öryggissveitarmenn eltu mig þegar þeir sáu að ég var að taka upp mótmælin og það var þá sem ég var skotin í fótlegginn með smákúlu. Ég er mjög verkjuð,“segir kona sem tók þátt í mótmælum í Tehran.
Fjölmörg myndbönd hafa einnig verið sannreynd af Amnesty International. Eitt af myndböndunum sýnir tvær særðar konur í Tehran liggjandi á jörðunni þar sem þeim blæðir. Annað myndband sýnir konu liggjandi á jörðunni í blóðpolli, veinandi af sársauka. Fólk sem aðstoðar þær í myndbandinu talar um að þær hafi verið skotnar. Amnesty International hefur þó ekki getað fundið út hvers konar skotfæri voru notuð.
Amnesty International hefur að auki í fórum sínum tvær röntgenmyndir sem sýna smákúlur fastar í hnjáliði hjá einum mótmælenda og í ökkla hjá öðrum. Einnig hefur Amnesty International fengið skilaboð frá nokkrum særðum mótmælendum með myndum af sárum sínum en þeir sögðust ekki hafa farið í meðferð á spítala til að láta fjarlægja smákúlurnar þrátt fyrir miklar kvalir, af ótta við handtöku.
Öryggissveitir og leyniþjónusta Írans hafa verið mikið inn á sjúkrahúsum sem veldur áhyggjum um hvort handtaka eigi mótmælendur sem leita sér læknismeðferðar. Sumar læknastofur og sjúkrahús í Tehran hafa vísað særðum mótmælendum frá með þeim orðum að þeir verði handteknir ef öryggissveitir og leyniþjónusta komist að því að þeir hafi verið að mótmæla.
Amnesty International hefur upplýsingar um að í a.m.k. tveimur borgum Amol og Tehran, hafi stjórnvöld neitað að veita fjölskyldum upplýsingar um staðsetningu einstaklinga sem hafa verið handteknir en það telst vera þvingað mannshvarf og er glæpur samkvæmt alþjóðalögum.
Bakgrunnur
Mótmæli hófust 11. janúar eftir að írönsk yfirvöld viðurkenndu að hafa óvart skotið niður úkraínska farþegaflugvél til að krefjast réttlætis og pólitískra breytinga.
Þessi mótmæli koma í kjölfarið á mótmælum sem fóru fram dagana 15. til 18. nóvember þar sem rúmlega 300 mótmælenda féllu og þúsundir einstaklinga voru handteknir í grimmilegum aðgerðum íranskra stjórnvalda.
Amnesty International kallar eftir því að Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna haldi sérstakan fund um Íran til að gerð verði rannsókn á ólögmætum aftökum á mótmælendum, handtökum, þvinguðum mannshvörfum og pyndingum fanga sem hafa átt sér stað í Íran frá 15. nóvember síðastliðnum.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu