Skýrslur
1. september 2022Íranskar og tyrkneskar öryggissveitir hafa ítrekað þvingað afganskt fólk til að snúa aftur til Afganistan þegar það reynir að fara yfir landamærin í leit að öryggi. Meðal aðferða er að skjóta í átt að fólkinu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International, „They don’t treat us like humans“. Einnig er greint frá fjölda tilfella, einkum á írönskum landamærum, þar sem öryggissveitir skutu á fólk þegar það klifraði yfir veggi eða skreið undir grindverk.
Afgansk fólk, sem tekst að komast yfir landamærin til Íran og Tyrklands, er ítrekað handtekið að geðþótta (þ.e. án lögmætrar ástæðu) eða sætir pyndingum eða annarri illri meðferð áður en það er þvingað til baka með ólögmætum hætti.
Rannsókn Amnesty International
Rannsakendur Amnesty International heimsóttu Afganistan í mars 2022 og tóku viðtöl í borginni Herat og landamærabænum Islam Qala. Tekin voru 74 viðtöl við Afgana sem höfðu verið þvingaðir úr landi frá Íran og Tyrklandi. Af þeim sögðu 48 þeirra að skotið hefði verið í áttina að þeim þegar þeir reyndu að fara yfir landamærin. Enginn þeirra gat sótt um alþjóðlega vernd í þessum löndum og meirihlutinn var þvingaður aftur til Afganistan. Það brýtur í bága við alþjóðalög.
„Hætturnar eru ekki aðeins við landamærin. Margir afganskir viðmælendur okkar voru í varðhaldi að geðþótta, annaðhvort í Tyrklandi eða Íran, þar sem þeir sættu pyndingum og annarri illri meðferð áður en þeim var vísað til baka með ólögmætum hætti. Við köllum eftir því að tyrknesk og írönsk yfirvöld hætti án tafar öllum þvinguðum endursendingum og brottvísunum á Afgönum, bindi enda á pyndingar og annarri illri meðferð og tryggi örugga leið fyrir afganskt fólk til að fara úr landi og sækja um alþjóðlega vernd. Öryggissveitir verða hætta að beita skotvopnum með ólögmætum hætti gegn afgönsku fólki á landamærum og draga verður gerendur mannréttindabrota til ábyrgðar fyrir ólögmæt dráp (e.unlawful killing) og pyndingar,“ segir Marie Forestirer Rannsakandi Amnesty International um málefni flótta- og farandfólks.
Amnesty International kallar eftir því að alþjóðasamfélagið styðji fjárhagslega eða með öðrum hætti þau lönd sem hafa tekið á móti miklum fjölda fólks frá Afganistan, þar á meðal Íran og Tyrkland. Mikilvægt er að tryggja að fjármagnið verði ekki nýtt á þann hátt að það stuðli að mannréttindabrotum.
Evrópusambandið hefur nú þegar veitt Tyrklandi fjármagn fyrir nýjum landamæravegg og nokkrum „brottvísunarmiðstöðvum“. Amnesty International hefur staðfest að Afganir hafi verið í haldi í þessum miðstöðvum. Önnur lönd verða einnig að bjóða upp á fleiri tækifæri fyrir endurbúsetu fólks frá Afganistan sem þarfnast verndar.
Löng og hættuleg leið
Hundruð þúsundir Afgana hafa flúið land síðan Talíbanar tóku við völdum þar í landi í ágúst 2021. Nágrannalönd Afganistan hafa lokað landamærum sínum fyrir afganskt fólk án ferðaskilríkja. Fólkið hefur því engra annarra kosta völ en að forðast landamæraeftirlit. Til að fara yfir landamæri Íran með þessum hætti þarf að skríða undir girðingu nálægt landamæraeftirlitinu í Herat-héraðinu í Afganistan eða klifra yfir tveggja metra vegg í Nimroz-héraði.
Þau sem eru ekki handtekin strax af öryggissveit Írans þurfa að halda áfram leið sinni til borga í Íran eða halda áfram að tyrkneskum landamærum sem eru í 2000 km fjarlægð í norðvesturhluta Íran. Fólk frá Afganistan er þvingað til baka með ólögmætum og ofbeldisfullum hætti á báðum landamærum, annars vegar milli Afganistan og Íran þar sem það er þvingað aftur til Afganistan og hins vegar á milli Íran og Tyrklands, þar sem það eru þvingað aftur til Íran.
Rannsakendur Amnesty International fóru til Afganistan og Tyrklands í mars og maí 2022. Tekin voru viðtöl við lækna, starfsfólk frjálsra félaga samtaka og opinbert starfsfólk í Afganistan auk 74 Afgana sem höfðu reynt að fara yfir til Tyrklands eða Íran. Samkvæmt skráningum Amnesty International voru 255 tilfelli um ólögmætar brottvísanir frá mars 2021 til maí 2022.
Drepnir í tilraun sinni til að komast til Íran
Amnesty International tók viðtöl við ættingja sex karlmanna og 16 ára drengs sem voru drepnir af írönskum öryggissveitum í tilraun sinni til að komast yfir landamæri Íran á tímabilinu frá apríl 2021 til janúar 2022. Samtökin hafa skráð 11 dauðsföll af völdum íranskra öryggissveita en að öllum líkindum er talan mun hærri. Skortur er á áreiðanlegum og opinberum tölum.
Í samtali við Amnesty International sögðust afganskir læknar og starfsfólk við mannúðarstörf hafa skráð að minnsta kosti 59 dauðsföll og 31 meiðsli frá ágúst til desember 2021.
Ghulam* lýsti því hvernig 19 ára frændi hans var skotinn til bana í ágúst 2021:
„Hann kom að landamæraveggnum, klifraði upp hann og stakk höfuð sitt upp fyrir vegginn. Hann var skotinn í höfuðið, í vinstra gagnaugað. Hann féll til jarðar á afgönsku landamærunum.“
Sumar skotárásir áttu sér stað á írönsku landsvæði. Sakeena*, 35 ára, sagði að 16 ára sonur hennar hefði verið skotinn til bana þegar þau voru að ganga í burtu frá írönsku landamærunum.
„Ég heyrði son minn hrópa til mín. Hann hafði verið skotinn tvisvar í rifbeinin. Ég veit ekki hvað gerðist eftir að ég féll í yfirlið. Þegar ég komst aftur til meðvitundar var ég í Afganistan. Ég sá að sonur minn var dáinn. Ég sat við hliðina á líki hans í leigubíl.“
Skotárásir af völdum tyrkneskra öryggissveita
Amnesty International tók viðtöl við 35 einstaklinga sem höfðu reynt að fara yfir landamærin til Tyrklands. Af þeim sögðu 23 að skotið hefði verið í áttina að þeim. Rannsakendurnir tóku viðtal við afganskan mann sem sagði að hann hefði orðið vitni að því þegar þrír unglingspiltar voru drepnir af tyrkneskum öryggissveitum. Önnur vitni lýstu áverkum sex karlmanna og þriggja drengja af völdum tyrkneskra öryggissveita. Amnesty International tók einnig viðtal við tvo menn sem hlutu skotsár á tyrkneskum landamærunum.
Aref, fyrrum leyniþjónustumaður í Afganistan, flúði eftir að hafa fengið líflátshótanir frá Talíbönum. Hann sagði að hann hefði séð ung börn sem særðust af völdum tyrkneskra öryggissveita.
„Það var skotið beint í áttina til okkar, ekki í loftið. Ég varð vitni að því að kona og tvö börn særðust. Tveggja ára barn fékk skot í nýrað og sex ára barn fékk skot í handlegginn. Ég var mjög óttasleginn.“
Engin bráð hætta virðist hafa stafað af þeim sem voru drepin eða særðust sem setti öryggissveitir eða annað fólk í hættu. Ekkert gaf til kynna að hætta væri á dauðsfalli eða alvarlegu líkamstjóni sem þýðir að beiting skotvopna í þessum tilfellum var ólögmæt og af geðþóttaástæðum. Í sumum tilfellum virðist sem að íranskar öryggissveitir hafi hleypt af skotum í þeim tilgangi að drepa, til dæmis með því að skjóta beint í áttina að einstaklingum af stuttu færi.
„Rannsaka þarf öll dauðsföll þar sem skotvopni var beitt af ásettu ráði með ólögmætum hætti af fulltrúum yfirvalda sem mögulega aftöku án dóms og laga.“
Marie Forestier, rannsakandi Amnesty International um málefni flótta- og farandfólks.
Refsileysi er algengt fyrir pyndingar, aftökur án dóms og laga og ólögmæt dráp yfirvalda sem er útbreitt í Íran. Amnesty International kallar enn og aftur eftir því að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna tryggi ferli þar sem sönnunargögn verði varðveitt til að hægt verði að rannsaka og draga til ábyrgðar gerendur fyrir alvarlegustu brotin á alþjóðlegum lögum í Íran.
Varðhald og pyndingar
Allir þeir viðmælendur sem náðu að komast inn fyrir landamæri Íran og Tyrklands án þess að vera þvingaðir strax til baka voru handteknir að geðþótta. Varðhaldstími var allt frá einum eða tveimur dögum upp í tvo og hálfan mánuð. Tuttugu og þrír þeirra lýstu meðferð sem telst til pyndinga og annarrar illrar meðferðar á meðan þeir voru í varðhaldi í Íran og 21 lýsti því sama í varðhaldi í Tyrklandi.
Hamid lýsti því hvernig tyrkneskar öryggissveitir börðu hann og vin hans í varðhaldi:
„Einn af lögreglumönnunum barði vin minn með skaftinu á byssunni og síðan settist lögreglumaður á vin minn eins og hann væri stóll. Hann sat þarna og kveikti á sígarettu. Síðan barði hann mig líka með byssunni í fæturna.“
Nokkrir viðmælendur sem voru handteknir í Íran hlutu skotsár. Amir sæðist þegar skot frá tyrkneskum öryggissveitum straukst við höfuð hans. Amir var þvingaður aftur til Íran og þar var hann handtekinn af írönskum öryggissveitarmönnum sem börðu hann í höfuðið.
„Ég var barinn beint í sárið svo það fór að blæða á ný. Eitt skipti sagði ég, vinsamlegast berjið mig ekki í höfuðið og vörðurinn á varðhaldsmiðstöðinni sagði: Hvar? Ég sýndi honum hvar og þá lamdi hann mig á sama stað.“
Ellefu Afganir sem voru þvingaðir til baka með ólögmætum hætti af tyrkneskum yfirvöldum höfðu verið í haldi í einni af sex brottvísunarmiðstöðvum í Tyrklandi sem var að hluta til fjármagnað af Evrópusambandinu.
„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins verður að tryggja að fjármagn sem Tyrklandi er veitt í tengslum við málefni farand- og flóttafólks stuðli ekki að mannréttindabrotum. Haldi Evrópusambandið áfram að fjármagna varðhaldsmiðstöðvar þar sem fólk frá Afganistan er sett í varðhald áður en því er vísað á brott með ólögmætum hætti er hætta á að Evrópusambandið verði samsekt í þessum brotum,“
Marie Forestier, rannsakandi Amnesty International um málefni flótta- og farandfólks.
Neitað um alþjóðlega vernd
Einn mannanna sagði: „Ég sagði að ég væri í hættu í Afganistan. Þeim var sama. Ég var barinn og mér ýtt upp við vegg. Ég féll niður á jörðina. Tveir menn héldu í fótleggi mína og einn settist á bringuna. Tveir aðrir settu fingur mína á blaðið.“
Þessi frásögn er í samræmi við fyrri rannsókn Amnesty International um „sjálfviljuga“ flutninga frá Tyrklandi.
Alþjóðlega meginreglan um að vísa fólki ekki aftur þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu bannar ríkjum að senda fólk til baka á svæði þar sem hætta er á að það verði fyrir ofsóknum eða öðrum alvarlegum mannréttindabrotum. Amnesty International brýnir fyrir tyrkneskum og írönskum yfirvöldum að sinna skyldum sínum og setja fólk ekki í hættu með því að þvinga það til að snúa aftur til Afganistan.
Alþjóðasamfélagið verður að tryggja að fólk í Afganistan sem er í hættu geti fundið örugga leið úr landi og samræmi viðbrögð sín til að deila ábyrgð vegna móttöku á afgönsku flóttafólki.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu