Fréttir

3. nóvember 2023

Ísland: Afhending undir­skrifta til forsætis- og utan­rík­is­ráð­herra

Anna Lúðvíks­dóttir fram­kvæmda­stjóri Íslands­deildar Amnesty Internati­onal og Þórunn Pálína Jóns­dóttir lögfræð­ingur deild­ar­innar afhentu Bjarna Bene­dikts­syni utan­rík­is­ráð­herra ákall með 6944 undir­skriftum þann 3. nóvember. Forsæt­is­ráðu­neytið fékk einnig undir­skrift­irnar en Katrín Jakobs­dóttir forsæt­is­ráð­herra gat ekki veitt þeim viðtöku sökum fjar­veru erlendis 

Í ákallinu er þess krafist að Katrín Jakobs­dóttir forsæt­is­ráð­herra Íslands og Bjarni Bene­diktsson utan­rík­is­ráð­herra leggi sitt af mörkum til að alþjóða­sam­fé­lagið kalli tafar­laust eftir vopna­hléi í átökum Ísraels og Gaza og að bundinn verði endi á mann­úð­ar­neyðina á Gaza­svæðinu. Sjaldan hafa jafn margar undir­skriftir safnast fyrir mál sem Íslands­deildin tekur fyrir. 

Harðnandi átök og blóðbað

Þann 7. október réðust Hamas og aðrir vopn­aðir hópar inn í suður­hluta Ísrael og drápu að minnsta kosti 1400 einstak­linga og tóku 200 gísla sem að sögn ísra­elska yfir­valda voru flestir óbreyttir borg­arar. Frá því að þessar hræði­legu árásir áttu sér stað hefur ísra­elski herinn gert þúsundir loft- og landárása á Gaza­svæðið. Síðan þá hafa harðn­andi átök á milli Ísraels og Hamas og annarra vopn­aðra hópa valdið óbreyttum borg­urum miklum þján­ingum.

Átök á þessu svæði hafa aldrei verið jafn hörð eða mann­fallið jafn mikið.Um 9.000 einstak­lingar hafa verið drepnir á Gaza að sögn palestínska heil­brigð­is­ráðu­neytisins, aðal­lega óbreyttir borg­arar, þar af að minnsta kosti 3.648 börn. Rúmlega 22.240 hafa særst og yfir 2.000 lík eru enn grafin undir rúst­unum. Á sama tíma er heil­brigðis­kerfið í molum. Amnesty Internati­onal krefst þess að allir aðilar í átök­unum semji án tafar um vopnahlé til að binda enda á blóð­baðið og tryggja að mann­úð­ar­að­stoð komist til Gaza.   

Krafa um vopnahlé

Amnesty Internati­onal kallar eftir vopna­hléi í þeim tilgangi að stöðva ólög­mætar árásir allra aðila í átök­unum, fækka dauðs­föllum á Gaza og gera hjálp­ar­stofn­unum kleift að veita lífs­nauð­syn­lega aðstoð  til að lina gífur­legar þján­ingar íbúa. Spít­alar geta þá fengið lífs­nauð­synleg lyf, eldsneyti og búnað sem sárlega vantar og unnið að endur­bótum á þeim sjúkra­deildum sem hafa eyðilagst.   

Alvarleg brot á alþjóð­legum mann­úð­ar­lögum, þar á meðal stríðs­glæpir, af hálfu allra aðila átak­anna hafa fengið að viðgangast af fullum þunga.  

Amnesty Internati­onal bendir á að vopnahlé veitir einnig ráðrúm til að semja um lausn gísla sem er haldið á Gaza og opnar rými fyrir óháðar alþjóð­legar rann­sóknir á stríðs­glæpum allra aðila átak­anna. Slíkar rann­sóknir geta átt þátt í að binda enda á refsi­leysið sem hefur fengið að viðgangast í langan tíma og hefur ýtt undir grimmd­ar­verk. Það er brýnt að ráðist sé á rót vanda þessara átaka með því að binda enda á aðskiln­að­ar­stefnu Ísraels gegn palestínsku fólki.  

Undir­skriftum var safnað í gegnum netákall deild­ar­innar frá 27. október til 3. nóvember.

Undir­skrifta­söfn­unin heldur þó áfram og það er því ekki of seint a skrifa undir. 

Fundur með utanríkisráðherra

Íslands­deild Amnesty hvatti ráðherra til að taka skýra afstöðu með mann­úð­ar­hléi á öllum vígstöðum og beita sér á alþjóða­vett­vangi. Eftir afhend­ingu undir­skrifta áttu full­trúar Íslands­deildar Amnesty Internati­onal gott samtal við utan­rík­is­ráð­herra.

Rætt var um að nota hvert tæki­færi til að koma afstöðu með mannúð og mann­rétt­indum á fram­færi  í milli­ríkja­sam­skiptum Íslands og annarra ríkja. Einnig var rætt um hjásetu Íslands á alls­herj­ar­þingi Sameinuðu þjóð­anna þann 27. október síðast­liðinn, þegar kosið var um ályktun um mann­úð­arhlé. Þrátt fyrir að umrædd ályktun hefði mátt ganga lengra í fordæm­ingu á brotum Hamas-liða annars vegar og Ísrael hins vegar telur Amnesty Internati­onal að álykt­unin hafi verið afdrátt­ar­laus í sinni ríku áherslu á mannúð og afstöðu um að stöðva verði átökin með mann­úðar/vopna­hléi til að vernda óbreytta borgara.

Full­trúar deild­ar­innar ræddu vonbrigði samtak­anna yfir því að Ísland skyldi ekki kjósa með álykt­un­inni og leggja þar með áherslu á mann­úð­ar­sjón­armið um að stöðva verði átökin tafar­laust til að vernda óbreytta borgara. Hægt hefði verið að koma með tillögur að breyt­ingum á texta í grein­ar­gerð með atkvæðinu í stað þess að sitja hjá. Ljóst væri að aðal­at­riðið er að stöðva átökin til að koma í veg fyrir frekara mann­fall og til þess að koma lífs­nauð­syn­legri aðstoð á svæðið.  

Að lokum ítrekuðu full­trúar Amnesty Internati­onal að til að koma í veg fyrir að þessi grimmd­ar­verk endur­taki sig verði að ráðast á rót vanda þessara átaka sem felur meðal annars í sér að binda enda á aðskiln­að­ar­stefnu Ísraels gegn palestínsku fólki.  

Lestu einnig