Fréttir

7. september 2023

Ísland: Afhending undir­skrifta til utan­rík­is­ráð­herra

Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International og Þórunn Pálína Jónsdóttir lögfræðingur deildarinnar afhentu Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra ákall með 1109 undirskriftum þann 4. sept­ember. 

Í ákallinu var vakin athygli á vinnu Sameinuðu þjóð­anna við gerð alþjóð­legra staðla til að koma böndum á viðskipti með vörur sem hægt er að nota til pynd­inga eða annarrar grimmi­legrar, ómann­úð­legrar eða vanvirð­andi meðferðar eða refs­ingar. Amnesty Internati­onal telur að þessi vinna hafi nú náð mikil­vægum áfanga og nauð­syn­legt sé að ríki taki þátt af einhug og þá sérstak­lega þau ríki sem lýst hafa áður yfir stuðn­ingi sínum við þetta framtak. 

Amnesty Internati­onal, sem á í samstarfi við rúmlega 30 frjáls félaga­samtök um allan heim í þessum mála­flokki, telur að gerð alþjóð­legs laga­lega bind­andi samn­ings sé skil­virk­asta leiðin til að koma böndum á alþjóðleg viðskipti með löggæslu­búnað sem er eða getur auðveld­lega verið notaður til pynd­inga eða annarrar illrar meðferðar. Í janúar 2023 komu öll samtökin  saman til að styðja svokallaða Shor­ed­itch-yfir­lýs­ingu og hétu stuðn­ingi við gerð öflugs pynd­inga­lauss viðskipta­samn­ings.  

Undir­skriftum var safnað annars vegar í gegnum netákall deild­ar­innar og í aðgerð sem haldin var 26. júní, á alþjóð­legum degi til stuðn­ings þolendum pynd­inga. Ungl­iðar Íslands­deildar Amnesty Internati­onal stóðu fyrir tákn­rænum gjörn­ingi til að vekja athygli á ákalli um alþjóð­legan samning til að koma böndum á löggæslu­vopn og á skiltum mátti sjá slagorð um að skaða­minni vopn væru ekki skað­laus sem er vísun í skýrslu Amnesty Internati­onal „My eye exploded”. 

Mynd frá afhend­ingu undir­skrift­anna.

Tími til aðgerða 

Amnesty Internati­onal leggur ríka áherslu á að ríki styðji, með virkum hætti í milli­ríkja­sam­skiptum, tillögur um laga­lega bind­andi samning sem felur í sér stuðning við alla undir­bún­ings­vinnu og samþykkt álykt­unnar á alls­herj­ar­þingi Sameinuðu þjóð­anna um stofnun sérfræð­inga­hóps til að koma af stað samn­inga­við­ræðum um pynd­ing­ar­lausan viðskipta­samning í samræmi við tilmæli frá sérfræð­inga­hópi stjórn­valda. 

Hvatti Íslands­deild Amnesty Internati­onal ráðherra til að taka þetta mál upp á fundum sem hún sækir á vegum svæð­is­bund­inna stofnana og hvetja nágranna­ríki til að styðja þetta framtak. 

Mynd frá aðgerð­inni á Austurvelli.

Samtal um önnur mál

Eftir afhend­ingu undir­skrifta áttu full­trúar Íslands­deildar Amnesty Internati­onal gott samtal við utan­rík­is­ráð­herra og Helen Ingu S. von Ernst, sérfræðing á skrif­stofu alþjóðapóli­tískra málefna. 

Samtalið barst meðal annars að rétt­inum til hreins, heil­næms og sjálf­bærs umhverfis og hvatti Íslands­deild Amnesty Internati­onal Ísland til að skila inn grein­ar­gerð til Alþjóða­dóm­stólsins þar sem lögð yrðu fram rök byggð á mann­rétt­inda­lögum til að setja á ríki laga­legar skyldur í tengslum við lofts­lags­breyt­ingar. 

Einnig voru rétt­indi barna í Tælandi rædd en stjórn­völd þar í landi hafa orðið uppvís að grófum mann­rétt­inda­brotum gegn fjölda barna þar í landi sem hafa ekkert til saka unnið annað en að hafa nýtt sér rétt sinn til funda­frelsis og frið­sam­legrar tján­ingar í fjölda­mót­mælum sem hófust 2020. Íslands­deildin hvatti ráðherra til að beita sér fyrir mann­rétt­inda­málum í viðræðum við tælensk stjórn­völd. 

Að lokum var staða mann­rétt­inda­mála í Íran rædd en í skýrslu Amnesty Internati­onal sem var birt 21. ágúst 2023 er skýrt frá því hvernig írönsk yfir­völd hand­taka fjöl­skyldur fórn­ar­lamba og setja þær í varð­hald að geðþótta, koma á grimmi­legum takmörk­unum á frið­samar samkomur við grafreiti og sjá til þess að legsteinar séu eyði­lagðir. 

Lestu einnig