Fréttir
18. febrúar 2019Einstaklingar sem fæðast með líffræðileg kyneinkenni sem eru ekki dæmigerð fyrir karlmenn eða konur sæta hindrunum í aðgengi að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það stofnar líkamlegri og andlegri heilsu þeirra í hættu, að sögn Amnesty International. Sumir einstaklingar með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni fæðast með kyneinkenni sem teljast ekki algjörlega karl- eða kvenkyns, eru sambland af karl- og kvenkyns einkennum, eða eru hvorki karl- né kvenkyns. Margt fólk með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni kýs að kalla sig intersex, aðrir vilja hins vegar ekki nota það hugtak.
Í niðurstöðum nýrrar skýrslu Amnesty International, No Shame in Diversity: The right to health for people with variations of sex characteristics in Iceland, kemur fram að þegar einstaklingar með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni og fjölskyldur þeirra leita eftir þjónustu í íslenska heilbrigðiskerfinu þá dregur skortur á skýru mannréttindamiðuðu verklagi og þverfaglegri nálgun, ásamt ónógum félagslegum stuðningi, úr möguleikum þeirra til að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.
Frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði, sem áætlað er að lagt verði fyrir Alþingi í febrúar, ætti að skapa tækifæri til að vernda réttindi intersex barna og fullorðinna en í núverandi drögum að frumvarpinu er vöntun á mikilvægri vernd fyrir intersex börn. Þá sérstaklega hvað varðar ákvæði til að koma í veg fyrir ónauðsynlegar, óafturkræfar og inngripsmiklar aðgerðar á börnum sem fæðast með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni.
Amnesty International bendir á að þrátt fyrir að jöfnuður milli kynjanna sé, samkvæmt Alþjóðaefnahagsráðinu, hvergi meiri en hérlendis og að Ísland tróni í efsta sæti yfir kynjajöfnuð níunda árið í röð, þá bregðast íslensk stjórnvöld enn því hlutverki sínu að koma á mannréttindamiðuðu verklagi innan heilbrigðisþjónustunnar og tryggja einstaklingum með ódæmigerð kyneinkenni þeirrar þjónustu sem þeir þurfa á að halda.
„Ísland er þekkt fyrir jafnrétti kynjanna. Engu að síður veldur það miklum áhyggjum hvernig heilbrigðiskerfið á Íslandi sinnir intersex fólki. Litið er á intersex börn og fullorðna sem vandamál sem þurfi að laga og sú staðreynd að þau skortir heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af mannréttindum þeirra, getur valdið líkamlegri og andlegri þjáningu, lífið á enda,“ segir Laura Carter rannsakandi innan deildar sem sinnir málefnum er varða kynhneigð og kynvitund hjá aðalstöðvum Amnesty International.
„Viðmælendur okkar greindu frá því að þeim fyndist sem læknar hlustuðu ekki á hvað þeir vildu fyrir sjálfa sig eða börnin sín heldur kysu frekar að grípa til þess að lagfæra líkama intersex einstaklinga með skurðaðgerð eða hormónameðferð. Á síðustu árum hefur orðið mikil vitundarvakning um þessi mál, sem fyrst og síðast er að þakka þrotlausri vinnu intersex aðgerðasinna en þar sem villandi upplýsingar og fordómar eru enn við lýði verður intersex fólk enn fyrir skaða.
Amnesty International skorar á íslensk yfirvöld að koma á skýrum mannréttindamiðuðum viðmiðunarreglum og skilvirkum félagslegum stuðningi við einstaklinga með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni þannig að þeir njóti líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.
Áætlað er að í kringum 68 börn fæðist með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni á hverju ári á Íslandi, þ.e. hormónastarfsemi, kynkirtla, kynlitninga eða kyn- og æxlunarfæri sem eru með einhverju móti öðruvísi en hjá flestum konum og körlum sem þýðir að heildarfjöldi einstaklinga með ódæmigerð kyneinkenni er um 6000 manns.
Amnesty International fann dæmi þess að fólk með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni á erfitt með að nálgast heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af mannréttindum þeirra sem í sumum tilvikum hefur valdið langvarandi skaða.
Einstaklingar sem Amnesty International ræddi við segja að skortur á viðeigandi meðferð hafi haft skaðleg áhrif á lífsgæði þeirra til margra ára. Í sumum tilvikum var um að ræða erfiðleika við að nálgast læknaskýrslur og skort á upplýsingum um hvað hafi verið gert við líkama þeirra.
„Heilbrigðisþjónusta fyrir intersex fólk er alls ekki nægilega góð því það er litið á okkur sem frávik sem þarf að laga … stór hluti heilsufarsvandans er vegna læknismeðferðar sem við hlutum sem börn. Það væru ekki öll þessi dæmi um beinþynningu eða beinrýrð ef við hefðum ekki verið látin sæta kynkirtlatöku sem börn og ófullnægjandi hormónameðferð sem unglingar,” segir Kitty, stofnandi og formaður samtakanna Intersex Ísland.
Hún bætir við:
„Ég vil sjá að þessi breytileiki sé jafn eðlilegur og hvað annað. Ég vil ekki að fólk þurfi að fara í felur eða skammast sín. Ég vil sjá skilning og viðurkenningu á fjölbreytileikanum, að hann sé af hinu góða.“
Íslandsdeild Amnesty International fagnar þeim skrefum sem ríkisstjórn Íslands er nú að taka í átt að því að koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex fólks.
Amnesty International skorar á íslensk yfirvöld að tryggja og vernda jafna meðferð einstaklinga með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni bæði í lögum og framkvæmd. Fyrirliggjandi frumvarp um kynrænt sjálfræði veitir tækifæri til þess að takast á við þessa áskorun en eins og drögin líta út í dag er tækifærið ekki nýtt til þess að koma í veg fyrir ónauðsynleg læknisfræðileg inngrip sem miða að því að laga líkama barna að stöðluðum kynjahugmyndum með skurðaðgerðum, ófrjósemisaðgerðum og öðrum meðferðum á intersex börnum án upplýsts samþykkis þeirra, án þess að fela í sér hegningarákvæði.
Amnesty International skorar einnig á íslensk yfirvöld að koma á sérhæfðri og þverfaglegri nálgun á meðferð einstaklinga með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni og móta og innleiða skýrt mannréttindamiðað verklag til að tryggja að börn og fullorðnir með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni njóti mannréttindaverndar sem tryggir friðhelgi líkama þeirra, sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétt. Yfirvöld skulu tryggja að ekkert barn með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni sæti skaðlegum, óafturkræfum og ónauðsynlegum inngripum í líkama þeirra.
Hér má lesa skýrsluna:
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu