Fréttir
8. febrúar 2024Ísraelskar hersveitir hafa síðustu fjóra mánuði beitt palestínskt fólk grimmilegu ofbeldi á hernumda Vesturbakkanum á meðan heimsbyggðin fylgist með ástandinu á Gaza. Hersveitir hafa drepið palestínskt fólk með ólögmætum hætti, meðal annars með óhóflegri og ónauðsynlegri valdbeitingu gegn mótmælendum og við handtöku ásamt því að neita særðu fólki um læknisaðstoð. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Amnesty International.
Amnesty International rannsakaði fjögur tilvik sem er lýsandi fyrir ólögmæta og banvæna valdbeitingu ísraelska hersins. Þrjú þessara tilvika áttu sér stað í október og eitt í nóvember. Í þessum fjórum tilvikum létust 20 palestínskir einstaklingar, þar á meðal sjö börn. Rannsakendurnir tóku viðtöl við 12 viðmælendur, þar af tíu vitni sem voru meðal annars fyrstu viðbragðsaðilar eða íbúar á svæðinu. Tækni-og rannsóknarstofa Amnesty International, Crisis Evidence Lab, sannreyndi 19 myndbönd og fjórar myndir sem tengjast þessum fjórum tilvikum.
Rannsókn Amnesty International
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að ísraelskar hersveitir komu í veg fyrir að lífshættulega særðir einstaklingar fengju læknisaðstoð og gerðu árásir á þá einstaklinga sem reyndu að aðstoða særða palestínska einstaklinga, meðal annars bráðaliða.
Á síðustu mánuðum hefur Ísrael beitt aukinni hörku sem hefur leitt til dauðsfalla á Vesturbakkanum og spennan á svæðinu hefur aukist til muna. Í einu nýlegu tilfelli gerðu ísraelskar hersveitir áhlaup í gervi heilbrigðisstarfsfólks. Á árinu 2023 létust 507 Palestínubúar á Vesturbakkanum, þar af 81 barn. Þetta eru hæstu dánartölur síðan að Samhæfingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) byrjaði að skrá mannfall Palestínubúa árið 2005.
Frá 7. október 2023 hafa ísraelskar öryggissveitir beitt ólögmætri og linnulausri valdbeitingu í lögregluaðgerðum á Vesturbakkanum sem veldur ótta og óhug íbúa. Einnig hefur ólögmætri valdbeitingu verið beitt til að leysa upp mótmæli og samstöðufundi með Gaza þar sem krafist var lausnar palestínskra fanga.
Á tímabilinu 7. október til 31. desember 2023, voru 299 Palestínubúar drepnir, sem er 50% aukning miðað við fyrstu níu mánuði ársins. Að minnsta kosti 61 Palestínubúi var drepinn, þar á meðal 13 börn, á fyrstu 29 dögum ársins 2024 samkvæmt tölulegum upplýsingum frá Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA).
Amnesty International óskaði eftir upplýsingum um tilfellin fjögur hjá ísraelskum fjölmiðlafulltrúum hersins og yfirvöldum í Jerúsalem í nóvember en hefur ekki enn fengið nein svör. Amnesty International heldur áfram að rannsaka önnur tilfelli óhóflegrar valdbeitingar í lögregluaðgerðum og árásum á Vesturbakkanum.
Ísrael hefur lengi beitt óhóflegri og banvænni valdbeitingu til að brjóta á bak aftur mótmæli og sem hluti af aðskilnaðarstefnu gegn palestínsku fólki. Þar hafa ólögmæt dráp, framin af fulltrúum yfirvalda, fengið að þrífast í refsileysi.
Árás á Nour Shams í október
Frá 7. október 2023 hafa ísraelskar hersveitir gert áhlaup af auknum þunga, næstum daglega, á hernumda Vesturbakkanum. Þessi áhlaup eru sögð vera húsleitar- og handtökuaðgerðir. Rúmlega 54% af 4.382 Palestínubúum særðust í slíkum aðgerðum á Vesturbakkanum samkvæmt tölum Samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OCHA).
Ísraelsher og landamærasveit Ísraels beittu óhóflegri valdbeitingu í aðgerð sinni í flóttamannabúðunum Nour Sham í Tulkarem sem hófst þann 19. október og stóð yfir í 30 klukkustundir. Í þessari aðgerð voru 13 Palestínubúar drepnir, þar á meðal sex börn, þar af fjögur undir sextán ára aldri og 15 einstaklingar voru handteknir.
Á fréttamiðlum var haft eftir heimildarmanni ísraelska hersins að einn landamæralögreglumaður hafi verið drepinn og níu aðrir særst eftir að Palestínubúar köstuðu heimagerðri sprengju í átt að þeim.
Íbúi á svæðinu sagði Amnesty International að meðan á aðgerðinni stóð hafi ísraelskir hermenn ráðist inn á 40 heimili þar sem persónulegir munir voru eyðilagðir og holur boraðar í veggi fyrir leyniskyttur. Lokað var fyrir vatn og rafmagn í flóttamannabúðunum og hermenn eyðilögðu opinbera vegi, rafmagnskerfi og vatnsleiðslur með jarðýtum.
Taha Mahamid
Taha Mahamid, 15 ára, var á meðal þeirra sem var drepinn. Hann var skotinn til bana fyrir framan húsið sitt þegar hann var athuga hvort ísraelski herinn hefði yfirgefið svæðið. Taha var óvopnaður og ógnaði ekki ísraelskum hermönnum þegar hann var skotinn, samkvæmt vitnisburði og myndböndum sem Amnesty International skoðaði. Systir hans tók upp myndband sem tækni- og rannsóknarstofa Amnesty International sannreyndi og þar sést Taha kíkja eftir því hvort ísraelskir hermenn væru á svæðinu. Hann hnígur niður á götuna fyrir framan húsið sitt eftir að þrjú skothljóð heyrast.
Fatima, systir Taha, sagði Amnesty International:
„Honum var ekki gefið neitt tækifæri. Á einu augnabliki var bróðir minn drepinn. Þrisvar sinnum var skotið án miskunnar. Fyrsta skotið hæfði hann í fótinn. Annað skotið í magann. Þriðja skotið í augað. Það voru engin árekstrar, engin átök.“
Vitni greindi Amnesty International frá því að faðir Taha, Ibrahim Mahamid, hafi í kjölfarið reynt að halda á syni sínum í öruggt skjól en ísraelskar hersveitir hafi skotið hann í bakið. Myndband sem ein af systrum Taha tók upp og Amnesty International hefur sannreynt sýnir föður þeirra liggja á jörðinni við hliðina á Taha. Fatima Mahamid, systir Taha, sagði:
„Hann [Ibrahim, faðir þeirra] lyfti upp höndum til að sýna þeim [hermönnunum] að hann hefði ekkert í höndum sér. Hann vildi aðeins ná í son sinn. Hann var skotinn með einu skoti og faðir minn féll við hlið Taha.“
Ibrahim Mahamid hlaut alvarlega innvortis áverka og þurfti að færa hann á gjörgæslu. Hvorki Taha né Ibrahim Mahamid ógnuðu hersveitum né öðrum þegar þeir voru skotnir. Þessi óhóflega og banvæna valdbeiting ber að rannsaka sem stríðsglæp þar sem ásetningur er að drepa eða valda miklum þjáningum og skaða á líkama og heilsu.
Skemmdarverk
Um það bil 12 tímum eftir morðið á Taha Mahamid réðst ísraelski herinn inn á heimili fjölskyldu hans og læsti fjölskyldumeðlimi, þar á meðal þrjú ung börn, inn í herbergi undir eftirliti hermanns í um það bil tíu tíma. Hermenn boruðu holur á veggi tveggja herbergja til að staðsetja leyniskyttur. Eitt vitnið sagði þá hafa gert leit á heimilinu, barið fjölskyldumeðlimi og losað þvag við dyraþrepið.
Í myndbandi sem Amnesty International hefur sannreynt sést jarðýta ísraelska hersins skemma þrönga götu í Nour Shams-flóttamannabúðunum. Í myndbandi sem Rauði hálfmáni palestínska samfélagsins birti og tækni-og rannsóknarstofa Amnesty International hefur einnig sannreynt sjást verulegar skemmdir á vegum í Nour Sham-flóttamannabúðunum, sem tafði sjúkrabrottflutninga særðra einstaklinga á meðan á áhlaupi hersins stóð yfir.
Óhófleg valdbeiting gegn palestínskum mótmælendum
Fjölmörg samstöðumótmæli með palestínsku fólki á Gaza hafa farið fram á Vesturbakkanum frá 7. október 2023. Í flestum tilfellum hafa þessar kröfugöngur farið fram friðsamlega en sumir mótmælendur hafa sést kasta steinum sem viðbrögð við harkalegum afskiptum ísraelskra hersveita. Valdbeiting ísraelska hersins vegna grjótkasts ungmenna hefur leitt til dauðsfalla sem er brot á réttinum til lífs, samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum og alþjóðlegum stöðlum um valdbeitingu í löggæslu. Banvænni valdbeitingu skal aðeins beitt þegar líf fólks er í bráðri hættu en hún telst ekki vera hófleg viðbrögð við grjótkasti.
Í einu tilviki, þann 13. október í Tulkarem, greindu tvö vitni Amnesty International frá því að ísraelskar hersveitir, sem staðsettar voru í eftirlitsturni hersins við aðalinngang bæjarins og á þökum heimila í nágrenninu, hafi skotið á hóp sem samanstóð af að minnsta kosti 80 óvopnuðum Palestínubúum sem tóku þátt í friðsamlegum samstöðumótmælum með Gaza.
Tvö vitni sem starfa í fjölmiðlum og voru á svæðinu sögðu hvort um sig við Amnesty International að þau hefðu séð ísraelskar hersveitir skjóta tveimur táragashylkjum í átt að hópi fólks og að stuttu síðar hafi verið skotið úr byssu án viðvörunar. Þau sáu fjóra einstaklinga sem urðu fyrir skoti og særðust við að flýja skotin. Nokkrum mínútum síðar beindu ísraelskar hersveitir skotum sínum í áttina að fjölmiðlafólki þrátt fyrir að það hafi verið vel merkt í vestum. Vitnin tvö földu sig á bak við vegg ásamt þremur börnum og þurftu að bíða þar í tvo tíma.
Á meðan þau voru þar urðu þau vitni að því að palestínskur maður á hjóli særðist þegar ísraelskur hermaður skaut hann. Annað vitnið sá einnig mótmælanda skotinn í höfuðið og greindi frá því að hann hefði verið skotinn skyndilega og fallið til jarðar. Hann lést síðar af sárum sínum.
Harkaleg viðbrögð
Enn eitt atvikið átti sér stað 27. nóvember þegar ísraelskar hersveitir beittu hóp Palestínubúa óhóflegri valdbeitingu í Beitunia, nálægt Ramallah. Hópurinn hafði safnast saman til að taka á móti fanga sem hafði verið leystur úr haldi frá Ofer-fangelsinu í kjölfar samkomulags á milli Ísraels og Hamas í tímabundnu mannúðarhléi á Gaza.
Vitni sögðu Amnesty International frá því þegar ísraelski herinn skaut byssuskotum og gúmmíkúlum í átt að hópnum og varpaði táragashylkjum með drónum. Þau sögðu einnig að ísraelskar hersveitir hefðu keyrt jarðýtum og herjeppum inn í hóp Palestínubúa.
Eitt vitnið sá Yassine Al-Asmar skotinn í bringuna og horfði á þegar sjúkrabílar komust ekki að honum vegna skotárása ísraelskra hersveita. Vinir Yassine gátu aftur á móti komið honum í burtu og farið með hann á sjúkrahús í Ramallah þar sem hann var úrskurðaður látinn skömmu síðar.
Myndbönd sem tækni- og rannsóknarstofa Amnesty Interntional sannreyndi sýna mótmælendur kasta grjóti og brenna dekk og að minnsta kosti eina manneskju kasta bensínsprengju á jarðýtu.
Beiting skotvopna er ekki réttlætanleg viðbrögð við grjótkasti eða dekkjabrennu samkvæmt alþjóðalögum. Það er skýrt í alþjóðalögum að notkun skotvopna er ekki réttlætanleg nema í þeim undantekningartilfellum þar sem um er að ræða bráða lífshættu eða mikla hættu á alvarlegu líkamstjóni.
Þessar skotárásir þarf að rannsaka sem mögulega stríðsglæpi.
Komið í veg fyrir læknisaðstoð
Það að hindra læknisaðstoð er aðferð sem ísraelski herinn á öllum hernumdu svæðunum í Palestínu hefur beitt með kerfisbundnum hætti líkt og Amnesty International hefur skrásett í fjölmörg ár og er hluti af aðskilnaðarstefnu Ísraelsríkis gegn Palestínubúum.
Samkvæmt alþjóðalögum ber ísraelskum hersveitum skylda að tryggja að særðir einstaklingar af völdum hermanna fái aðgang að læknismeðferð.
Amnesty International hefur rannsakað fimm tilvik þar sem ísraelskar hersveitir komu í veg fyrir lífsnauðsynlega læknisaðstoð fyrir særða einstaklinga í mótmælum eða árásum hersins. Einnig var skotið á Palestínubúa sem reyndu að koma hinum særðu til aðstoðar, þar á meðal bráðaliða.
Í Austur-Jerúsalem, í Ein Al-Lozeh í Silwan hverfinu, þann 10. október myrti ísraelskur landamæralögreglufulltrúi Ali Abbasi sem var óvopnaður og var að reyna koma Abd Al-Rahman Faraj til bjargar sem hafði verið skotinn af sömu öryggissveit á svæðinu.
Árekstrar komu upp á milli Palestínubúa og ísraelskrar landamæralögreglu í hverfinu. Palestínubúar notuðu flugelda en ísraelska hersveitin skotvopn. Tækni- og rannsóknarstofa Amnesty International sannreyndi þrjú myndbönd frá mismunandi sjónarhornum sem sýndu flugelda lenda á hlið og aftan á lögreglubíl.
Í þessum átökum var Abd Al-Rahman Faraj skotinn. Stuttu síðar reyndi Ali Abbasi að draga Faraj í öruggt skjól. Vitni, sem af öryggisástæðum óskaði nafnleyndar, sagði Amnesty International að ísraelsk hersveit hefði skotið Ali Abbasi í höfuðið þegar hann reyndi að draga Faraj í burtu.
Vitnið sagði að ísraelskar hersveitir hefðu hótað að skjóta fólk sem reyndi að koma mönnunum tveimur til aðstoðar og hindrað að sjúkrabíll gæti sinnt fórnarlömbum sem voru látin blæða út í rúman klukkutíma. Fórnarlömbin voru síðar sótt af ísraelskum hersjúkrabíl og hafa aðstandendum ekki enn verið afhent lík þeirra.
Tálmun sjúkrabíla
Svipað gerðist í Tulkarem á mótmælum þann 13. október. Vitni sögðu að ísraelskar sveitir hefðu skotið palestínskan mann sem var á reiðhjóli og bráðaliða sem reyndi að bjarga viðkomandi.
„Hann var öskrandi. Og síðan kom einn bráðaliði sjúkrabíls og reyndi að færa hann til að bjarga honum en ísraelsk leyniskytta hélt áfram að skjóta. Ég sá þetta með mínum eigin augum að ísraelskar leyniskyttur skutu á bráðaliða og sjúkrabíl.“
Í þriðja dæminu í Nour Shams þann 19. október sáu þrjú vitni, þar á meðal bráðaliði á vettvangi, að tveir sjúkrabílar voru stöðvaðir við innganginn á flóttamannabúðunum og þeim ekki leyft að komast til særða einstaklinga. Vitnin sögðu að íbúar hefðu neyðst til að flytja þá á spítala í einkabílum.
Fjölskyldumeðlimir, sem urðu vitni að því þegar Ibrahim Mahamid var skotinn þegar hann reyndi að koma syni sínum Taha til bjargar, sögðu að í rúman klukkutíma var komið í veg fyrir að hann fengi læknisaðstoð. Einnig var rætt við bráðaliða sem staðfesti að hann hefði reynt í klukkutíma að komast til Ibrahim Mahamid en ísraelskar hersveitir stöðvuðu sjúkrabílinn við innganginn á flóttamannabúðunum og á meðan blæddi Ibrahim.
Skotið á bráðaliða
Í áhlaupi Ísraelshers í Jenin þann 9. nóvember var ráðist á heilbrigðisstarfsfólk sem reyndi að hlúa að einstakling með skotsár í Jenin-flóttamannabúðunum. Ísraelskar sveitir drápu 13 Palestínubúa í þessari aðgerð sinni sem stóð yfir í 12 tíma, bæði í vopnuðum átökum og loftárásum.
Samkvæmt einu vitni skutu ísraelskar hersveitir Sabreen Obeidi, bráðaliða Rauða hálfmánans, í bakið þegar hún var inn í sjúkrabíl sem var kyrrstæður í Jenin-flóttamannabúðunum.
Í sama áhlaupi þann 9. nóvember skutu ísraelskar sveitir á tvo aðra sjúkrabíla Rauða hálfmánans sem komu inn í Jenin-flóttamannabúðirnar til að sækja særða einstaklinga. Í myndbandi úr myndavél í sjúkrabílnum sem tækni- og rannsóknarstofa Amnesty International sannreyndi sést að skothríð lendir á veginum um það bil 2 metrum fyrir framan bílinn. Bráðaliði í sjúkrabílnum sagði Amnesty International einnig frá því að hann hefði séð leyniskyttu í byggingu á svæðinu skjóta tvo aðra bráðaliða.
Alþjóðalög krefjast virðingar og verndar fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem og fyrir særða og veika einstaklinga. Að hindra læknismeðferð er brot á réttinum til heilsu, réttinum til öryggis, banni við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Að auki er hætta á að brotið sé á réttinum til lífs.
Amnesty International hefur í áraraðir skrásett morð sem ísraelskar hersveitir hafa framið sem hluti af kerfisbundinni aðskilnaðarstefnu gegn palestínsku fólki. Það er tími til kominn að saksóknari alþjóðlega sakamáladómstólsins rannsaki þessi morð og ólögmæta aðskilnaðarstefnu sem Ísrael beitir í rannsókn sinni á ástandinu í Palestínu.
Alþjóðlegir staðlar
Vesturbakkinn er hernuminn af Ísrael og sem hernámsríki ber Ísrael skylda til að fylgja alþjóðalögum ásamt fjórða Genfarsáttmálanum og lögum um hernám.
Við löggæslu á mótmælum og annars konar löggæslu á Vesturbakkanum, eins í húsleitar- og handtökuaðgerðum, verða ísraelskar hersveitir að virða mannréttindi, þar á meðal tjáningar- og fundafrelsi, og réttinn til lífs og öryggis. Að auki ber þeim skylda til að virða alþjóðlega staðla um mannréttindi í löggæslu, eins og í meginreglum Sameinuðu þjóðanna um valdbeitingu og notkun skotvopna við löggæslu.
Þessir staðlar banna valdbeitingu við löggæslu nema að uppfylltum ströngum skilyrðum. Valdbeitingu skal eingöngu beita þegar hún er nauðsynleg til að sinna skyldu við löggæslu. Skotvopn má aðeins nota sem allra síðasta úrræðið. Lögreglufólk og hermenn mega aðeins beita skotvopnum við löggæslu til að vernda sig eða annað fólk frá bráðri lífshættu eða alvarlegu líkamstjóni.
Eingöngu má skjóta fólk til bana þegar það er eina leiðin til að vernda líf annars einstaklings. Morð af ásettu ráði og ásetningur um að valda einstaklingum sem eiga að njóta verndar alvarlegu líkamstjóni eru gróf brot á fjórða Genfarsáttmálanum og teljast stríðsglæpir.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu