Skýrslur
5. desember 2024Nýútkomin skýrsla Amnesty International leiðir í ljós að nægjanlegur grundvöllur er til þess að álykta að Ísrael hafi framið og haldi áfram að fremja hópmorð gegn Palestínubúum á Gaza.
Skrifaðu undir ákall: Stöðva þarf hópmorðið á Gaza
Skýrslan, ‘You Feel Like You Are Subhuman’: Israel’s Genocide Against Palestinians in Gaza, greinir frá hernaðarlegri sókn Ísraels í kjölfar banvænna árása undir forystu Hamas í suðurhluta Ísraels 7. október 2023. Síðan þá hefur Ísrael blygðunarlaust leitt miklar hörmungar yfir Palestínubúa á Gaza í algjöru refsileysi.
„Skýrsla Amnesty International sýnir að Ísrael hefur framið verknaði, sem eru bannaðir samkvæmt sáttmálanum um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð, í þeim tilgangi að útrýma Palestínubúum á Gaza. Þessir verknaðir fela meðal annars í sér að drepa Palestínubúa á Gaza, valda þeim alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða og þröngva þeim til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að líkamlegri eyðingu þeirra. Í marga mánuði hefur Ísrael komið fram við Palestínubúa eins og um ómennskan hóp sem á ekki skilið mannréttindi og virðingu og þar með sýnt ásetning um líkamlega eyðingu þeirra.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmastjóri Amnesty International
Rannsókn
Samkvæmt alþjóðlegu réttarkerfi er ekki nauðsynlegt að gerendur nái að útrýma viðkomandi hópi, að hluta til eða öllu leyti, til að fremja hópmorð. Hver sem á opinberum vettvangi hvetur með beinum hætti aðra til að fremja hópmorð skal sæta refsingu.
Skýrsla Amnesty International rannsakar brot Ísraels á Gaza yfir níu mánaða tímabil frá 7. október 2023 fram í byrjun júlí 2024. Tekin voru viðtöl við 212 einstaklinga, þeirra á meðal Palestínubúa sem eru þolendur og vitni, yfirvöld á Gaza og heilbrigðisstarfsfólk. Gerð var vettvangsrannsókn og greining á fjöldi rafrænna og sjónrænna sönnunargagna ásamt gervihnattamyndum. Einnig voru yfirlýsingar ísraelsks embættisfólks og heryfirvalda skoðaðar. Samtökin deildu niðurstöðum sínum margsinnis með ísraelskum yfirvöldum en fengu engin svör frá þeim áður en skýrslan var gefin út.
„Niðurstöður okkar verða að leiða til vakningar alþjóðasamfélagsins. Þetta er hópmorð sem verður að stöðva strax.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmastjóri Amnesty International
Umfang án fordæmis
Viðbrögð Ísraels í kjölfar árása Hamas 7. október 2023 hafa leitt til þess að fólkið á Gaza er komið að þolmörkum. Grimmileg hernaðarsókn Ísraels hefur fram til dagsins 7. október 2024 drepið rúmlega 42 þúsund Palestínubúa, þar á meðal rúmlega 13.300 börn og sært rúmlega 97 þúsund. Margir þeirra létu lífið í beinum eða handahófskenndum árásum af ásettu ráði, þar sem jafnvel heilu stórfjölskyldurnar þurrkuðustu út. Eyðileggingin hefur aldrei verið meiri og sérfræðingar segja að umfang og hraði eyðileggingarinnar sé ekki sambærileg neinum öðrum átökum á 21. öldinni, þar sem heilu borgirnar hafi verið jafnaðar við jörðu og mikilvægir innviðir, landbúnaðarland og trúarsvæði hafi verið eyðilögð. Stór svæði Gaza hafa verið gerð óbyggileg.
Ísrael hefur búið til aðstæður á Gaza þar sem Palestínubúar eiga á hættu að hljóta hægfara dauðdaga vegna lífshættulegs samspils vannæringar, hungurs og sjúkdóma. Auk þess hafa Palestínubúar frá Gaza sætt varðhaldi án samskipta við umheiminn, pyndingum og annarri illri meðferð af hálfu Ísraela.
Ljóst er að um er að ræða ásetning um hópmorð þegar horft er á hernaðarlega sókn Ísraels og þær afleiðingar sem stefnur og aðgerðir Ísraels hafa haft í víðu samhengi.
Ásetningur um útrýmingu
Til að sýna fram á ásetning Ísraels um að útrýma Palestínbúum á Gaza gerði Amnesty International heildræna greiningu á framferði Ísraels á Gaza, rýndi í yfirlýsingar ísraelskra embættismanna og heryfirvalda, sérstaklega frá háttsettum aðilum, sem fela í sér afmennskun og hvatningu á hópmorði og skoðaði þetta í samhengi við aðskilnaðarstefnu Ísraels, ómannúðlega herkví á Gaza og ólögmætt hernám Ísraels á palestínsku svæði í 57 ár.
Amnesty International rannsakaði staðhæfingar Ísraels um að ísraelski herinn hefði með lögmætum hætti beint árásum sínum að Hamas og öðrum vopnuðum hópum á Gaza og að fordæmalausa eyðileggingin og synjun á mannúðaraðstoð væri afleiðing ólögmæts framferðis Hamas og annarra vopnaðra hópa á borð við að þeir hafi staðsett hermenn sína innan um óbreytta borgara og hindrað mannúðaraðstoð.
Niðurstaða Amnesty International er sú að þessar staðhæfingar Ísraels eru ekki trúverðugar. Þó að hermenn vopnaðra hópa séu staðsettir nálægt eða í þéttri byggð leysir það Ísrael ekki undan þeirri skyldu sinni að gæta fyllstu varúðar til verndar óbreyttum borgurum og að forðast handahófskenndar árásir eða árásir sem valda óhóflegum skaða.
Rannsóknin leiddi í ljós að Ísrael hefur ítrekað brugðist þessari skyldu sinni og brotið þar með fjölmörg alþjóðalög sem er ekki hægt að réttlæta út frá aðgerðum Hamas. Amnesty International fann enga sönnun þess að hindrun mannúðaraðstoðar af hálfu Hamas gæti gefið skýringu á gífurlegum takmörkunum Ísraels á lífsnauðsynlegri mannúðaraðstoð.
Í greiningunni voru önnur möguleg rök skoðuð, eins og hvort að framferði Ísraels væri vegna gáleysis eða einfaldlega hvort viljinn væri að útrýma Hamas án þess að skeyta nokkru um það hvort Palestínubúum yrði útrýmt í leiðinni, sem væri þá grimmilegt skeytingarleysi fyrir lífi þeirra fremur en ásetningur um hópmorð.
Hvort sem að Ísrael sjái útrýmingu Palestínubúa sem nauðsynlegan þátt í að útrýma Hamas eða sem ásættanlega aukaafleiðingu þessa markmiðs þá er ljóst að það viðhorf að ekki þurfi að taka tillit til Palestínubúa, því þeir skipti ekki máli, í raun sönnun um ásetning um hópmorð.
Í aðdraganda margra ólögmætra aðgerða, sem Amnesty International hefur skráð, höfðu ísraelskir embættismenn hvatt til þeirra. Samtökin skoðuðu 102 yfirlýsingar sem voru gefnar út af ísraelsku embættisfólki, heryfirvöldum og öðrum aðilum frá 7. október 2023 til 30. júní 2024 þar sem kallað var eftir aðgerðum sem teljast til hópmorðs eða slíkar aðgerðir réttlættar.
Af þeim voru 22 yfirlýsingar, frá háttsettu embættisfólki sem stjórnaði árásum, þar sem virtist vera kallað eftir aðgerðum sem geta talist til hópmorð og slíkar aðgerðir réttlættar. Það er bein sönnun fyrir ásetningi um hópmorð. Þessi talsmáti var ítrekaður, meðal annars á meðal ísraelskra hermanna við störf eins og kom fram í hljóð- og myndbandsupptökum sem Amnesty International sannreyndi þar sem hermenn kölluðu eftir því að „þurrka út“ Gaza eða gera það óbyggilegt ásamt því að fagna eyðileggingu heimila, moskna og háskóla.
Dráp og alvarlegur líkamlegur og andlegur skaði
Amnesty International hefur skrásett verknaði sem teljast til hópmorðs þar sem verið er að drepa Palestínubúa og valda þeim alvarlegum andlegum og líkamlegum skaða í þeim tilgangi að útrýma þeim. Amnesty International fór yfir niðurstöður rannsókna á 15 loftárásum frá 7. október til 20. apríl 2024 þar sem 334 óbreyttir borgarar voru drepnir, þar á meðal 141 barn, og hundruð særðust. Amnesty International gat ekki fundið neina sönnun fyrir því að þessar árásir beindust að hernaðarlegum skotmörkum.
Í einni árás, sem er lýsandi dæmi, þann 20. apríl 2024, var gerð loftárás sem eyðilagði hús fjölskyldunnar Abdelal í Al-Jneinah, hverfi í austurhluta Rafah, þar sem þrjár kynslóðir voru drepnar á meðan þau sváfu, þar á meðal börn.
Þó svo að þessar árásir séu aðeins lítið brot af loftárásum Ísraels þá gefa þær til kynna mynstur þar sem ítrekað eru gerðar beinar árásir á óbreytta borgara og borgaralegar eignir eða handahófskenndar árásir af ásettu ráði. Árásirnar voru einnig gerðar þannig að þær myndu að öllum líkindum valda miklu mannfalli og skaða á meðal óbreyttra borgara.
Að skapa lífskilyrði sem miða að líkamlegri eyðingu
Skýrslan greinir frá því hvernig Ísrael hefur af ásetningi skapað lífsskilyrði fyrir Palestínubúa á Gaza sem leiða með tímanum til útrýmingar þeirra. Þessi lífsskilyrði eru þrenns konar sem saman hafa stigvaxandi áhrif:
Í fyrsta lagi, tjón eða eyðilegging lífsnauðsynlegra innviða og annarra ómissandi hluta sem halda íbúum á lífi, í öðru lagi víðtækar og yfirgripsmiklar rýmingar að geðþótta sem voru einnig ruglingslegar þar sem næstum allir íbúar Gaza voru neyddir til brottflutninga og í þriðja lagi hindrun á dreifingu nauðsynlegrar þjónustu, mannúðaraðstoðar og annarra nauðsynja inn á Gaza og innan svæðisins.
Í kjölfar 7. október 2023 var herkví á Gaza hert með því að loka fyrir rafmagn, vatn og eldsneyti. Herkví Ísraels á því níu mánaða tímabili sem var skoðað var ólögmæt og kæfandi þar sem Ísrael stjórnaði aðgengi að allri orku, tryggði ekki mikilvæga mannúðaraðstoð til Gaza og hindraði innflutning á og dreifingu á nauðsynjum og mannúðaraðstoð, sérstaklega á svæðum fyrir norðan Wadi Gaza. Ísrael gerði þar með mannúðarneyðina enn þungbærari.
Í ofanálag eru víðtækar skemmdir á heimilum, sjúkrahúsum, landbúnaðarlandi, mannvirkjum fyrir vatn og hreinlæti ásamt fjölmennum nauðungarflutningum hefur allt þetta leitt til hörmulegs hungurs og aukinnar útbreiðslu á sjúkdómum. Afleiðingarnar eru sérstaklega alvarlegar fyrir smábörn og þungaðar konur eða konur með börn á brjósti og búast má við alvarlegum og langvarandi áhrifum á heilsufar þeirra.
Ísrael hefur ítrekað haft tækifæri til að bæta mannúðarástandið á Gaza. Þrátt fyrir það hafa ekki verið gerðar neinar ráðstafanir, eins og að veita nægjanlegan aðgang að Gaza, létta á ströngum takmörkunum eða greiða leiðina fyrir mannúðaraðstoð. Á sama tíma fer ástandið hraðversnandi.
Ítrekaðar skipanir um rýmingu hafa leitt til þess að nærri 1,9 milljónir Palestínubúa, um 90% íbúa Gaza, hafa þurft að flytjast á svæði þar sem eru ómannúðlegar aðstæður. Sumir íbúar hafa þurft að flytjast á brott allt að tíu sinnum. Þessir nauðungarflutningar hafa skilið marga eftir án atvinnu og í miklu áfalli en áfallið er ekki síst vegna þess að 70% íbúa eru flóttafólk eða afkomendur flóttafólks frá þorpum og bæjum sem Ísrael hrakti á brott árið 1948 á tímum sem eru kallaðir Nakba (hörmungar).
Þrátt fyrir að aðstæður á Gaza séu ómannúðlegar neita ísraelsk yfirvöld að íhuga aðgerðir sem gætu verndað vegalausa óbreytta borgara og tryggt þeim grunnnauðsynjar. Það sýnir ásetning hjá þeim.
Ísraelsk yfirvöld hafa einnig neitað að leyfa vegalausu fólki að snúa aftur á heimili sín í norðurhluta Gaza eða flytja þau til bráðabirgða á önnur svæði á hernumda svæðinu í Palestínu eða í Ísrael. Enn er mörgum Palestínubúum neitað um þann rétt sinn til að snúa aftur til síns heima samkvæmt alþjóðalögum á þau svæði sem þeir voru hraktir frá árið 1948. Þessi neitun kemur þrátt fyrir að vita að Palestínubúar á Gaza hafa engan öruggan stað til að flýja til.
Kröfur Amnesty International
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu