Fréttir

26. október 2023

Ísrael: Gögn um stríðs­glæpi og heilu fjöl­skyld­urnar þurrk­aðar út á Gaza

Amnesty Internati­onal hefur rann­sakað og skráð fimm ólög­mætar árásir Ísraels á Gaza, þar á meðal handa­hófs­kenndar árásir þar sem fjöldi óbreyttra borgara lét lífið. Þessar árásir ollu gríð­ar­legri eyði­legginu og í sumum tilfellum þurrk­uðust heilu fjöl­skyld­urnar út. Í öllum fimm árás­unum braut Ísrael alþjóðleg mann­úð­arlög. Amnesty Internati­onal heldur áfram að rann­saka árásir á Gaza.

„Þessar fimm árásir eru aðeins topp­urinn á ísjak­anum á hryll­ingnum sem Amnesty hefur skráð og sýna hrikaleg áhrif loft­árása Ísraels á íbúa Gaza. Í 16 ár hefur ólögmæt herkví Ísraels á Gaza gert svæðið að stærsta fang­elsi í heimi undir berum himni. Nú verður alþjóða­sam­fé­lagið að bregðast tafar­laust við til að koma í veg fyrir að svæðið breytist í risa­stóran grafreit.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal

Lesa má fréttina í heild sinni hér á alþjóð­legu vefsíðu Amnesty Internati­onal.

Rannsóknin

Rann­sókn Amnesty Internati­onal einblínir á fimm ólög­mætar árásir þar sem íbúð­ar­bygg­ingar, flótta­manna­búðir, fjöl­skyldu­heimili og almenn­ings­mark­aður voru sprengd. Rætt var við eftir­lif­endur og vitni að árás­unum, gervi­tungla­myndir voru greindar og ljós­myndir og mynd­bönd sann­reynd til að skrá­setja fimm loft­árásir Ísraels á tíma­bilinu 7.-12. október. Rann­sókn Amnesty Internati­onal byggir á viðtölum við 17 einstak­linga sem lifðu af árásir eða urðu vitni að þeim. Einnig voru tekin síma­viðtöl við sex einstak­linga sem höfðu misst ástvin.

Amnesty Internati­onal hefur ekki fengið leyfi frá ísra­elskum stjórn­völdum til að fara inn í Gaza frá árinu 2012 og því hafa samtökin þurft að reiða sig á rann­sak­endur sem hafa aðsetur í Gaza. Þeir fóru á árás­ar­staðina og söfnuðu vitn­is­burðum.

Ísra­elsher stað­hæfir að árásir þeirra beinist eingöngu að hern­að­ar­legum skot­mörkum en í mörgum tilfellum fann Amnesty Internati­onal engar sann­anir fyrir því að meðlimir vopn­aðra hópa eða hern­að­arleg skot­mörk væru í nágrenni við spreng­ing­arnar. Einnig kom í ljós að Ísra­elsher leitaði ekki allra leiða til að vernda palestínska óbreytta borgara í árás­unum, þar á meðal með því að gefa ekki út tilhlýði­legar viðvar­anir. Í sumum tilvikum fengu óbreyttir borg­arar engar viðvar­anir og í öðrum tilvikum voru þær ekki full­nægj­andi.

Heilu fjölskyldurnar þurrkast út

Árás Ísra­els­hers þann 7. október sprengdi þriggja hæða íbúð­ar­bygg­ingu þar sem þrjár kynslóðir al-Dos fjöl­skyld­unnar bjuggu. Í árás­inni létust 15 fjöl­skyldu­með­limir, þar af sjö börn. Mohammad al-Dos missti fimm ára son sinn Rakan í árás­inni. Hann sagði Amnesty Internati­onal eftir­far­andi:

„Tvær sprengjur féllu skyndi­lega ofan á bygg­inguna sem eyði­lagðist. Við konan mín vorum heppin að lifa af þar sem við vorum á efstu hæðinni. Hún var komin níu mánuði á leið og fæddi barnið á al-Shifa spít­al­anum degi eftir árásina. Allri fjöl­skyldu okkar hefur verið tortímt.“

Í bygg­ing­unni var fjöldi óbreyttra borgara sem styður við vitn­is­burð þeirra sem lifðu af árásina um að Ísra­elsher hafi ekki gefið þeim neina viðvörun. Engar sann­anir voru fyrir því að hern­að­arleg skot­mörk væru á svæðinu. Hafi Ísra­elsher ráðist á íbúð­ar­bygg­ingu vitandi að þar væru aðeins óbreyttir borg­arar er það bein árás á óbreytta borgara sem er stríðs­glæpur. Ísra­elsher gaf enga ástæðu fyrir árás­inni.

Loft­árás Ísraels þann 10. október drap 12 meðlimi Hijazi- fjöl­skyld­unnar og fjóra nágranna þeirra. Þrjú börn voru á meðal hinna látnu. Ísra­elsher sagði að skotið hefði verið á skot­mörk Hamas en gaf engar frekari upplýs­ingar eða sann­anir fyrir því.

Kamal Hijazi missti systur sína, tvo bræður og eigin­konur þeirra, sjö frænkur og frændur í árás­inni.

„Fjöl­skyldu­heimili okkar, þriggja hæða hús, var sprengt klukkan 17:15. Þetta var óvænt, án viðvör­unar. Þess vegna vorum við öll heima.“

Ahmad Khalid Al-Sik, nágranni þeirra lét einnig lífið. Faðir hans lýsti því hvað gerðist.

„Ég var heima í íbúð­inni okkar og Ahmad var á neðri hæðinni þegar húsið á móti [hús Hijazi fjöl­skyld­unnar] var sprengt og hann lét lífið. Hann var að fara í klipp­ingu hjá rakara sem er við hliðina á inngang­inum á bygg­ing­unni okkar. Þegar Ahmad fór til að fara í klipp­ingu gat ég ekki ímyndað mér að ég ætti aldrei eftir að sjá hann aftur. Spreng­ingin var skyndileg og óvænt. Það var engin viðvörun. Fólk var upptekið við að sinna daglegum störfum.“

Ófullnægjandi viðvaranir

Í sumum tilfellum gaf Ísra­elsher ekki út neinar viðvar­anir eða þær voru ófull­nægj­andi. Í engum tilfellum tryggði herinn að óbreyttir borg­arar hefðu öruggt skjól að leita til. Í árás­inni á Jabalia-mark­aðinn hafði fólk yfir­gefið heimili sín vegna viðvör­unar til þess eins að láta lífið þar eftir að hafa flúið staðinn sem það hélt að yrði sprengdur. Í öðru tilfelli var gefin út viðvörun en að fimm tímum liðnum frá því að spreng­ingar áttu að hefjast hafði ekkert gerst. Sumir íbúar fóru þangað til að ná í dót þar sem þeir töldu það óhætt að koma þangað við án þess að dvelja þar. Á þessum stutta tíma féllu sprengjur og börn voru meðal hinna látnu.

Það að hafa gefið út viðvörun í þessu tilfelli fríar ekki herinn ábyrgð. Sérstak­lega í ljósi þess að liðinn hafði verið tölu­verður tími frá uppgefnum tíma. Ef þetta var bein árás á óbreytta borgara þá telst það einnig til stríðs­glæpa.

al-Sahabah stræti, Gaza: Gervi­hnatta­mynd frá 15. október 2023 þar sem bygg­ingar hafa eyðilagst.

Árás á fjölsóttan markað

Jabalia-mark­að­urinn í flótta­manna­búðum er fjöl­sóttur staður í norð­ur­hluta Gaza. Árás var gerð á mark­aðinn þann 9. október. Þennan dag var óvenju margt fólk  þar sem margir höfðu flúið heimili sín vegna viðvör­unar sem Ísra­elsher hafði sent í skila­boðum í síma þeirra.

„Líkin voru brunnin. Ég var hræddur við að horfa. Ég vildi ekki horfa. Ég var hræddur við að horfa á andlit Imads. Líkin voru dreifð um gólfið. Allir voru að leita að börnum sínum í þessum hrúgum. Ég þekkti son minn aðeins út frá buxunum hans. Ég vildi grafa hann strax svo ég hélt á syni mínum og fór með hann út. Ég hélt á honum.“

Svona lýsti Ziyad því sem hann sá í líkhúsinu þar sem hann fann lík sonar síns Imad Hamad sem var 19 ára þegar hann lést. Hann var á leið á mark­aðinn að kaupa brauð ásamt litla bróður sínum sem hann hélt á. Ziyad lýsti því hvernig hann þurfti síðan að halda á líki sonar síns.

Örvænting Ziyad leynir sér ekki:

„Hvað hef ég gert til að eiga þetta skilið? Að missa son minn, að missa húsið mitt, að sofa á gólfinu í kennslu­stofu? Börnin mín pissa undir af skelf­ingu, af ótta, vegna kulda. Við komum ekkert nálægt þessu. Hvað gerði ég rangt? Ég ól barnið mitt upp, alla mína ævi, fyrir hvað? Að sjá hann deyja á meðan hann kaupir brauð.“

Á meðan rann­sak­andi Amnesty Internati­onal talaði við Ziyad í síma féll sprenging í nágrenni við hann.

Kröfur Amnesty International

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að: 

Ísra­elsk stjórn­völd: 

  • Stöðvi tafar­laust allar ólög­mætar árásir og fram­fylgi alþjóð­legum mann­úð­ar­lögum. Það felur meðal annars í sér að leitað sé allra leiða til að draga úr líkum á að óbreyttir borg­arar skaðist eða borg­arleg svæði skemmist, forðast að beina árásum sínum á óbreytta borgara og á borg­araleg svæði og tryggja að árásir séu ekki handa­hófs­kenndar eða óhóf­legar.
  • Tryggi greiðan aðgang mann­úð­ar­að­stoðar til óbreyttra borgara í Gaza. 
  • Aflétti ólög­mætri herkví Gaza í ljósi núver­andi mann­úð­ar­neyðar en hún er hóprefsing þar sem hópi óbreyttra borgara er refsað fyrir aðgerðir einstak­linga og telst sem stríðs­glæpur.
  • Felli úr gildi fyrir­skipun um brott­flutn­inga sem hefur leitt til þess að ein milljón einstak­linga eru á vergangi.
  • Tryggi greiðan aðgang fyrir rann­sókn­ar­nefnd á vegum Sameinuðu þjóð­anna á hernumdu svæð­unum í Palestínu til að hægt verði að safna saman gögnum og vitn­is­burðum sem liggur á að afla.

Alþjóða­sam­fé­lagið, sérstak­lega ríki í banda­lagi við Ísrael, þeirra á meðal Evrópu­sam­bands­ríki, Banda­ríkin og Bret­land:  

  • Grípi til áþreif­an­legra aðgerða til að vernda óbreytta borgara á Gaza gegn ólög­mætum árásum.
  • Banni vopna­við­skipti við alla aðila í átök­unum í ljósi alvar­legra brota á alþjóð­legum lögum. Ríki skuli forðast að útvega Ísrael vopn og hern­að­ar­lega aðstoð, sem felur meðal annars í sér ýmis konar tækni eins og tækni­búnað, efni og vörur, tækni­lega aðstoð, þjálfun, fjár­mögnun eða annars konar aðstoð. Að auki verða ríkin að kalla eftir því að ríki sem útvega palestínskum vopn­uðum hópum vopn láti af því.
  • Forðist að gefa út yfir­lýs­ingu eða grípi til aðgerða sem mögu­lega gætu, jafnvel óbeint, rétt­lætt glæpi og mann­rétt­inda­brot Ísraels í Gaza.
  • Þrýsti á að Ísrael aflétti ólög­mætri herkví sem hefur staðið yfir í 16 ár á Gaza­strönd­inni og telst sem hóprefsing þar sem hópi óbreyttra borgara er refsað fyrir aðgerðir einstak­linga. Slík refsing er stríðs­glæpur og gegnir lykil­hlut­verki í aðskiln­að­ar­stefnu Ísraels.
  • Tryggi að Alþjóðleg saka­mála­dóm­stóllinn haldi áfram rann­sókn sinni á ástandinu í Palestínu með því að veita fullan stuðning og tryggi nauð­syn­legt bolmagn.

Alþjóð­legi saka­mála­dóm­stóllinn 

Flýti rann­sókn sinni á ástandinu í Palestínu og rann­saki meinta glæpi allra aðila, þar á meðal glæpi gegn mannúð og aðskiln­að­ar­stefnu gegn palestínsku fólki. 

Hamas og aðrir vopn­aðir hópar: 

Stöðvi án tafar allar árásir af ásettu ráði á óbreytta borgara, hætti að skjóta ónákvæmum flug­skeytum og bindi enda á gíslatökur. Leysa þarf alla gísla úr haldi án tafar og skil­yrð­is­laust.  

Lestu einnig