Fréttir

9. júlí 2020

Ísrael/hernumdu svæði Palestínu: Tíu atriði um innlimun Palestínu

Umræða um áætlun Ísraela um innlimun hluta af svæði Vest­ur­bakkans á hernumdu svæði Palestínu hefur verið í deigl­unni eftir stjórn­ar­myndun í Ísrael í apríl 2020. Hluti af stjórn­ar­fyr­ir­komu­lagi Benjamin Netanyahu forsæt­is­ráð­herra og Benny Gantz var að setja af stað ferli um innlimun hluta Vest­ur­bakkans.

Samkvæmt stjórn­ar­sam­komu­laginu var umræðan um innlimun sett á dagskrá ísra­elska þingsins í júlí 2020 en var síðan frestað um óljósan tíma.

Áætlun Ísraela um innlimun kemur í kjölfar yfir­lýs­ingar Donalds Trumps Banda­ríkja­for­seta í janúar 2020 þar sem hann lagði til að hluti af Vest­ur­bakk­anum yrði innlimaður af Ísrael og vísaði til áætl­un­ar­innar sem „samn­ings aldar­innar“. Skýrt hefur verið frá því að áætlun Ísraela myndi ná yfir allt að 33% svæðis Vest­ur­bakkans.

Amnesty Internati­onal telur ljóst að þessi áætlun myndi aðeins gera ástand mann­rétt­inda á svæðinu enn verra og festa í sessi rótgróið refsi­leysi sem hefur ýtt undir stríðs­glæpi, glæpi gegn mannúð og önnur alvarleg brot.

Tíu atriði um innlimun

1.Innlimun er skýrt brot á alþjóða­lögum

Innlimun yfir­ráða­svæðis er þegar land­svæði er tekið yfir með valdi. Slíkt er skýrt brot á alþjóða­lögum. Innlimun breytir ekki laga­legri stöðu hernumdu svæð­anna sem munu áfram vera hernumin samkvæmt lögum. Innlimun hernumdu svæða Palestínu myndi hafa þau áhrif að ísra­elsk lög næðu til svæð­anna og litið væri á svæðið sem hluta af Ísrael.

2. Innlimun er skeyt­ing­ar­leysi gagn­vart alþjóða­lögum

Alþjóðalög eru mjög skýr í þessu máli. Innlimun er ólögmæt. Stefna Ísraels sýnir enn og aftur algjört skeyt­ing­ar­leysi gagn­vart alþjóða­lögum. Stefna Ísra­els­ríkis breytir ekki stöðu land­svæð­isins eða íbúa þess gagn­vart alþjóða­lögum sem hernumið svæði né skyldum Ísraels sem hernáms­aðila samkvæmt alþjóð­legum mann­rétt­inda­lögum. Þess í stað sýnir stefna Ísrael fram á að það er löngu kominn tími á að alþjóða­sam­fé­lagið bindi enda á refsi­leysi fyrir brot á alþjóða­lögum af hálfu Ísraela.

3. Innlimun ýtir enn frekar undir áratuga mann­rétt­inda­brot

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að ísra­elsk stjórn­völd hætti snar­lega við öll áform um innlimun land­svæðis á hernumda svæði Vest­ur­bakkans þar sem það mun aðeins leiða til frekari  mann­rétt­inda­brota gegn Palestínu­búum og svipta þá vernd samkvæmt alþjóð­legum mann­úð­ar­lögum. Auk þess myndi Ísrael brjóta gegn Stofn­sátt­mála Sameinuðu þjóð­anna sem er ófrá­víkj­an­legur og þannig virða að vettugi skyldur sínar samkvæmt alþjóð­legum mann­rétt­inda­lögum.

4. Innlimun festir í sessi kerf­is­bundna mismunun

Samkvæmt ísra­elskum lögum myndi frekari innlimun land­svæðis Palestínu þýða áfram­hald­andi stækkun land­töku­svæðis Ísraela. Innlimun myndi festa enn frekar í sessi stefnu um kerf­is­bundna mismunun og leiða til frekari mann­rétt­inda­brota gegn Palestínu­búum á hernumdu svæð­unum, þar á meðal skerð­ingar á borg­ara­legum og póli­tískum rétt­indum auk skerð­ingar á ferða­frelsi, jafn­rétti og frelsi frá mismunun.

5. Innlimun jafn­gildir stríðs­glæp

Stefna Ísraels um land­töku ísra­elska borgara á hernumdu svæðum Palestínu, þar sem Palestínu­búar eru flæmdir í burtu af land­svæðum sínum, brýtur gegn grund­vall­ar­reglu alþjóð­legra mann­úð­ar­laga.

Í 49. grein Genfarsátt­málans er kveðið á um að hernáms­að­ilar skulu ekki flytja eigin borgara inn á hernumin svæði. Einnig eru nauð­ung­ar­flutn­ingar einstak­linga eða hópa sem njóta alþjóð­legrar verndar á hernumdum svæðum bann­aðir.

Eini tilgangur uppbygg­ingar land­töku­svæða er að setja á lagg­irnar svæði fyrir ísra­elska borgara á hernumdu svæð­unum. Það er stríðs­glæpur samkvæmt Rómarsam­þykkt um Alþjóð­lega saka­mála­dóm­stólinn.

6. Alþjóða­sam­fé­lagið verður að fordæma innlimun Palestínu

Aðilar að alþjóða­sam­fé­laginu verða að fram­fylgja alþjóða­lögum og ítreka að innlimun Vest­ur­bakkans sé ógild. Það þarf einnig að stöðva stækkun og uppbygg­ingu ólög­legra land­töku­svæða Ísraela. Fyrsta skrefið er að hætta öllum viðskiptum við land­töku­svæðin með því að banna vörur frá þeim svæðum og setja bann á starf­semi fyrir­tækja sem hafa aðsetur á land­töku­svæðum.

Alþjóða­sam­fé­lagið þarf að synja svoköll­uðum „samn­ingi aldar­innar“ eða öðrum slíkum tillögum sem grafa undan mann­rétt­indum Palestínubúa, eins og rétti palestínsks flótta­fólks til að snúa til baka. Amnesty Internati­onal styður rann­sókn Alþjóð­lega saka­mála­dóm­stólsins á ástandinu á hernumdu svæðum Palestínu og kallar á ríki heims að styðja að fullu við dómstólinn á meðan hann ákvarðar um lögsögu sína gagn­vart ástandinu í Palestínu.

7. Innlimun breytir ekki skyldum Ísraels sem hernáms­aðila

Innlimun breytir ekki tveimur alþjóð­legum laga­reglum. Alþjóðleg mann­úð­arlög (þar á meðal reglur um hernám) og alþjóðleg mann­rétt­indalög ná áfram yfir hernumdu svæði Palestínu.

Alþjóð­legur refsiréttur nær einnig yfir sum alvar­leg­ustu brotin sem gætu talist til stríðs­glæpa eða glæpa gegn mannúð. Innlimun er ólögmæt samkvæmt alþjóða­lögum og þar af leið­andi ógild á alþjóða­vett­vangi.

Innlimum breytir ekki laga­legri stöðu land­svæða undir hernámi eða skyldum hernáms­aðila samkvæmt alþjóða­lögum. Í 47. grein Genfarsátt­málans kemur fram að einstak­lingar sem njóta alþjóð­legrar verndar á hernumdum svæðum halda sínum rétt­indum undir hernámi.

8. Innlimun getur haft aðrar alvar­legar afleið­ingar

Innlimun getur haft alvar­legar afleið­ingar.

  • Til að mynda er óljóst hver staða Palestínubúa á innlimuðu svæð­unum yrði varð­andi dval­ar­leyfi og ríkis­borg­ara­rétt. Benjamin Netanyahu forsæt­is­ráð­herra Ísraels hefur sagt opin­ber­lega að Palestínu­búar á innlim­uðum svæðum fengju ekki ísra­elskan ríkis­borg­ara­rétt.
  • Innlimun gæti líka orðið til eigna­náms á land­svæði í einka­eigu Palestínubúa og annarra einka­eigna ásamt áfram­hald­andi eigna­námi á ræktuðu landi Palestínubúa á hernumdu svæðum Palestínu.
  • Réttur til full­nægj­andi húsa­skjóls verður í hættu á innlim­uðum svæðum. Samfélög sem eru ekki viður­kennd af Ísrael eiga á hættu að verða rekin á brott eða heimili eyði­lögð.
  • Það myndi einnig leiða til enn frekari skerð­ingar á ferða­frelsi Palestínubúa. Margir þeirra búa nú þegar við takmarkað ferða­frelsi , meðal annars vegna takmarkana sem er ætlað að vernda byggð á land­töku­svæð­unum og viðhalda „hlut­lausu svæði“.
  • Ólögleg herkví á Gaza á hernumdu svæð­unum er aðskilin öðrum hernumdum svæðum og festir enn frekar í sessi aðskilnað íbúa á hernumdu svæð­unum. Sú stað­reynd myndi eiga stóran þátt í að auðvelda innlimun hluta Vest­ur­bakkans.

9. Viðbrögð Palestínu við áætlun um innlimun

  • Utan­rík­is­ráð­herra Palestínu hefur sagt að áætlun um innlimun sé „eitt viður­styggi­leg­asta opin­ber­lega ránið á landi á hernumdum svæðum Palestínu“ og hefur kallað eftir að því að alþjóða­sam­fé­lagið setji á viðskipta­bann við Ísrael.
  • Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, lýsti því yfir í maí að örygg­is­sam­komu­lagi milli palestínskra yfir­valda og Ísraels væri á enda vegna áætl­un­ar­innar.
  • PLO (e. Palest­inian Liberation Organ­isation) hefur kallað eftir alþjóð­legu banda­lagi til að takast á við áætlun Ísraels um innlimun.
  • Salah al-Bardawil, sem er hátt­settur innan Hamas-samtak­anna, sagði á blaða­manna­fundi þann 15. júní á Gaza-strönd­inni að bregðast skyldi við áætlun Ísraela  „með andspyrnu í hvaða formi sem er“ og hefur kallað eftir aðgerðum almennra Palestínubúa gegn áætl­un­inni.
  • Izz al-Din al-Qassam Brigades, frá hersveit Hamas, sagði þann 25. júní að það yrði litið á áætlun Ísraels um innlimun sem stríðs­yf­ir­lýs­ingu gegn Palestínu.
  • Hundruð Palestínubúa mótmæltu þann 1. júlí gegn áætlun Ísraela um innlimun.

10. Þetta hefur gerst áður

Ísrael innlimaði einhliða Austur-Jerúsalem auk 64 ferkíló­metra svæðis utan borg­ar­innar árið 1967.

Innlimun Ísraels á Austur-Jerúsalem, einu af hernumdu svæðum Palestínu samkvæmt alþjóða­lögum, hefur ítrekað verið fordæmd af alþjóða­sam­fé­laginu með mörgum álykt­unum á alls­herj­ar­þingi Sameinuðu þjóð­anna.

Gólan­hæðir í Sýrlandi urðu einnig undir í hernámi Ísraela í stríðinu. Þúsundir Sýrlend­inga urðu fyrir nauð­ung­ar­flutn­ingum frá Gólan­hæðum vegna stríðsins og hernámsins. Ísrael eyði­lagði 100 þorp og tók yfir land­svæði. Árið 1981 samþykkti Ísrael lög um Gólan­hæðir sem útvíkkaði lögsögu Ísraela þannig að ísra­elsk lög næðu til Gólan­hæða. Innlimun Gólan­hæða var fordæmd í ályktun 497 af Örygg­is­ráði Sameinuðu þjóð­anna.

Lestu einnig