Fréttir

9. nóvember 2023

Ísrael/hernumdu svæðin í Palestínu: Hamas og aðrir vopn­aðir hópar verða að leysa gísla úr haldi

Amnesty Internati­onal ítrekar ákall sitt um að óbreyttir borg­arar í gísl­ingu á hernumdum svæðum á Gaza verði leystir úr haldi án tafar og skil­yrð­is­laust. Á meðal gísla eru börn. Hamas og aðrir vopn­aðir hópar hafa haldið þeim í gísl­ingu í mánuð eða frá 7. október. Þúsundir einstak­linga hafa farið út á götur í Ísrael á síðustu dögum til að gagn­rýna viðbrögð ísra­elskra stjórn­valda og krafist þess að fá ástvini sína aftur heim.

Gíslataka er stríðsglæpur

Í síðustu viku fór á flug mynd­band sem Al Qassam Brigade, hern­að­ar­legur armur Hamas, birti á netinu en það sýndi þrjá gísla sem eru í haldi á Gaza. Gísl­arnir sendu bein skilaboð til ísra­elska forsæt­is­ráð­herrans, Benjamin Netanyahu. Það telst ómann­úðleg og niður­lægj­andi meðferð að taka upp og deila vitn­is­burði gísla.

„Gísla­taka og mannrán óbreyttra borgara eru bönnuð samkvæmt alþjóða­lögum og eru stríðs­glæpir. Meðferð gísla þarf að vera mann­úðleg og í samræmi við alþjóðalög. Það á ekki að sýna þá í mynd­böndum á netinu eða þvinga þá til að flytja yfir­lýs­ingu.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Ísra­elsk yfir­völd hafa sagt að hið minnsta 240 óbreyttum borg­urum og hermönnum sé haldið í gísl­ingu á Gaza en þau hafa ekki gefið upp tölur um fjölda óbreyttra borgara annars vegar og hermanna hins vegar. Á meðal gísla eru 33 börn, eldra fólk, erlendir ríkis­borg­arar, einstak­lingar með tvöfalt ríkis­fang og hermenn. Hamas hefur leyst úr haldi fjóra gísla, allt konur. Tveimur konum með banda­rískan ríkis­borg­ara­rétt var sleppt þann 20. október síðast­liðinn og tveimur öðrum var sleppt þann 24. október.

 

„Í stað þess að nota þjáða óbreytta borgara í gísl­ingu fyrir póli­tískan ávinning ætti Hamas að leysa þá úr haldi tafar­laust og án skil­yrða. Að lágmarki ætti að veita leyfi fyrir því að óháðir eftir­lits­að­ilar fái tafar­laust að hitta gíslana til að tryggja velferð þeirra og auðvelda samskipti við fjöl­skyldu þeirra.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Grimmi­legt umsátur og stöð­ugar sprengju­árásir Ísraels á Gaza halda áfram. Mann­fall óbreyttra borgara eykst stöðugt. Amnesty Internati­onal ítrekar áköll sín um tafar­laust vopnahlé, verndun óbreyttra borgara og greiðan aðgang mann­úð­ar­að­stoðar til Gaza. Stöð­ugar sprengju­árásir á Gaza, þar á meðal ólög­mætar og handa­hófs­kenndar árásir, hafa kostað rúmlega tíu þúsund Palestínubúa lífið, þar á meðal 4200 börn samkvæmt palestínska heil­brigð­is­ráðu­neytinu. Það setur einnig óbreytta borgara, sem haldið er í gísl­ingu á Gaza, í hættu og virðir að vettugi ákall ísra­elskra fjöl­skyldna um að setja velferð gísla í forgang í aðgerðum Ísraels.

Viðmælendur Amnesty

Viðmæl­andi 1

Foreldrum Ella Ben Ami, þeim Raz og Ohad Ben Ami, var rænt í Be’eri þann 7. október. Hún er á meðal þeirra sem hefur slegist í hóp mótmæl­enda í Ísrael. Ella Ben Ami sagði Amnesty Internati­onal að móðir hennar væri sjúk­lingur með skemmdir á heila og mænu:

„Það eru liðnir 30 dagar, mánuður, síðan foreldrar mínir voru numdir á brott af heimili sínu. Við upplifum hrylli­legt hjálp­ar­leysi og gríð­ar­lega óvissu… Ég er ekki með neinar upplýs­ingar um aðstæður þeirra, sem gerir daglegt líf mjög erfitt. Við mótmælum til að athygl­inni sé beint að gísl­unum, til að krefjast þess að hugsað sé um þá og líka að það verði þrýst á um lausn þeirra. Ég bið ríkis­stjórn mína og alla leið­toga heims um að hjálpa okkur. Við viljum sjá foreldra okkar aftur á lífi. Á meðan móðir mín fær ekki lyfin sem hún þarfnast við sjúk­dómi sínum erum við hrædd um að hún lifi ekki af. Við höfum ekki tíma.“

Viðmæl­andi 2

Vivian Silver er 74 ára aðgerðasinni sem berst fyrir friði og fyrrum stjórn­ar­með­limur ísra­elskra mann­rétt­inda­sam­tak­anna B’Tselem. Henni var rænt frá Be’eri Kibbutz í suður­hluta Ísrael þann 7. október síðast­liðinn. Yonatan Zeigen sonur hennar sagði Amnesty Internati­onal eftir­far­andi:

„Ég finn fyrir sorg og sárs­auka vegna móður minnar, allra gísl­anna, samfé­lags okkar og palestínska fólksins. Ég trúi að þetta sé áminning um misheppn­aðar tilraunir beggja aðila til lengri tíma um að ná friði. Ég kalla eftir vopna­hléi og að allir gíslar verði leystir úr haldi sem fyrsta skref í átt að heild­stæðri lausn fyrir svæðið með langvar­andi þátt­töku alþjóð­legra aðila. Öryggi er aðeins hægt að ná fram með friði.“

Viðmæl­andi 3

Moshi Lotem á dóttur, Hagar, sem er haldið í gísl­ingu á Gaza ásamt þremur ungum börnum sínum en yngsta barnið er fjög­urra ára. Hann sagði Amnesty Internati­onal:

„Það sem Hamas og aðrir vopn­aðir hópar gerðu hefur ekki aðeins skaðað nágranna þeirra í Ísrael, sem var einna mest annt um palestínskt fólk og rétt­indi þeirra, heldur einnig skaðað þeirra eigið fólk. Sem faðir og afi, er mjög erfitt fyrir mig að fjöl­skylda mín hafi verið tekin frá mér með þessum hætti og ég hef ekki fengið neinar upplýs­ingar um þau. Ég sakna þeirra svo mikið. Dag hvern sem líður verður það erfiðara. Þau eru í mjög viðkvæmri stöðu og árás­irnar [á Gaza] hræða mig mikið. Ég kalla á alþjóðleg samtök, hvort sem það eru Sameinuðu þjóð­irnar eða Rauði krossinn, að sjá til þess að gísl­unum sé komið aftur heim.“

 

GAN HAIM, Ísrael – 11. október eftir árásir Hamas. Amir Levy/Getty Images

Stríðsglæpur

Genfarsátt­mál­arnir, ásamt viðaukum, og hefð­bundin alþjóðleg mann­úð­arlög  banna gíslatöku sem telst vera stríðs­glæpur.

Rómarsátt­málinn um alþjóð­lega saka­mála­dóm­stólinn skil­greinir gíslatöku sem stríðs­glæp með eftir­far­andi hætti: Einstak­lingur (gísl) er hand­samaður eða í haldi og sætir hótunum um að vera drepinn, meiddur eða haldið áfram í gísl­ingu til að fá þriðja aðila til að grípa til aðgerða eða hætta aðgerðum sem skýr eða óbein skil­yrði fyrir öryggi eða lausn gísla.

 

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að Hamas og aðrir vopn­aðir hópar komi fram við alla einstak­linga í haldi, þar á meðal ísra­elska hermenn, af mannúð og í samræmi við alþjóðleg mann­úð­arlög. Allir gíslar ættu að fá aðgang að alþjóðanefnd Rauða krossins og leyfi til að eiga í samskiptum við fjöl­skyldur sínar. Það verður að veita gíslum sem eru særðir eða veikir lækn­is­með­ferð.

Hamas og aðrir vopn­aðir hópar verða að tryggja að gíslar og aðrir fangar séu ekki stað­settir þar sem hern­að­arleg skot­mörk eru og að hættan  á að þeir verði fyrir sprengju­árás Ísraels sé lágmörkuð. Það má ekki undir neinum kring­um­stæðum nota þá sem skildi til að hlífa hern­að­ar­legum skot­mörkum frá árásum.

Bakgrunnur

Amnesty Internati­onal hefur skráð brot á alþjóða­lögum, þar á meðal stríðs­glæpi, allra aðila í átök­unum. Ísrael hefur hert herkví Gaza frá því að árásir Hamas og annarra vopn­aðra hópa hófust þann 7. október. Lokað hefur verið fyrir vatn, eldsneyti og aðrar lífs­nauð­synjar sem eykur á mann­úð­ar­neyðina.

Ísra­elsher hefur hand­tekið rúmlega 2000 Palestínubúa á hernumda svæðinu á Vest­ur­bakk­anum og beitt auknum pynd­ingum og annarri illri meðferð gegn palestínskum föngum. Ísrael hefur einnig neitað öllum palestínskum föngum, sem eru nú rúmlega 6800 talsins, um fjöl­skyldu­heim­sóknir. Dæmdum föngum hefur einnig verið neitað um aðgang að lögfræð­ingi sínum. Alþjóðanefnd Rauða krossins hefur einnig verið neitað um aðgengi að palestínskum föngum sem Ísrael hefur skil­greint sem „örygg­is­fanga“. Á síðast­liðnum mánuði hafa fjórir palestínskir fangar látið lífið í varð­haldi í Ísrael við aðstæður sem hafa ekki verið ranna­sak­aðar af óháðum aðilum.

Rann­sókn Amnesty Internati­onal hefur leitt í ljós stríðs­glæpi af hálfu Ísra­els­hers , þar á meðal handa­hófs­kenndar sprengju­árásir á Gaza sem hafa lagt íbúð­ar­bygg­ingar í rúst, jafnað heilu hverfin við jörðu og þurrkað út heilu fjöl­skyld­urnar.

Amnesty Internati­onal hefur einnig skráð að þann 7. október hafi Hamas og aðrir vopn­aðir hópar skotið ónákvæmum eldflaugum á Ísrael og aðilar á vegum þeirra drepið og rænt óbreyttum borg­urum. Að minnsta kosti 1400, að mestu óbreyttir borg­arar, voru drepnir samkvæmt ísra­elskum yfir­völdum. Óbreyttir borg­arar verða enn fyrir árásum vegna ónákvæmra eldflauga frá Hamas og öðrum vopn­uðum hópum.

Lestu einnig