Fréttir
15. nóvember 2023Ísraelsk yfirvöld hafa beitt varðhaldi án dómsúrskurðar, sem er ein tegund varðhalds að geðþótta, í auknum mæli gegn palestínsku fólki á hernumda svæðinu á Vesturbakkanum ásamt því að palestínskir fangar hafa sætt ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð frá 7. október síðastliðnum. Tilvik um pyndingar og dauðsföll í varðhaldi síðasta mánuðinn hafa heldur ekki verið rannsökuð af ísraelskum yfirvöldum samkvæmt Amnesty International.
Frá því 7. október síðastliðinn hafa ísraelskar hersveitir handtekið rúmlega 2.200 palestínska menn og konur samkvæmt tölum frá samtökunum Palestínski fangaklúbburinn. Tölur frá mannréttindasamtökunum HaMoked sýna að frá 1. október til 1. nóvember hafi fjöldi palestínsks fólks í varðhaldi án dómsúrskurðar, sem hefur hvorki fengið á sig ákæru eða réttarhöld, aukist úr 1.319 í 2.070.
Rannsókn Amnesty International
„Síðastliðinn mánuð höfum við orðið vitni að verulegri aukningu á beitingu varðhalds án dómsúrskurðar í Ísrael, sem er varðhald án ákæru eða réttarhalda og getur verið framlengt út í hið óendanlega. Rétt fyrir harðnandi átök sem hófust þann 7. október var beitingu þessa varðhalds þá þegar í hámarki ef litið er til síðustu tveggja áratuga.
Heba Morayef, framkvæmdastjóri svæðisdeildar Miðausturlanda og Norður-Afríku hjá Amnesty International.
Vitnisburður fanga sem hafa verið leystir úr varðhaldi og mannréttindalögfræðinga ásamt myndbandsupptökum og myndefni gefa ákveðna mynd af þeim pyndingum og illri meðferð sem fangar hafa sætt af hálfu ísraelskra hersveita síðastliðinn mánuð. Þar á meðal má nefna grófar barsmíðar ásamt niðurlægingu á föngum þar sem þeir eru meðal annars látnir halda lúta höfði, krjúpa á gólfinu við fangatalningu og syngja ísraelsk lög.
Varðhald án dómsúrskurðar er ein helsta leið Ísraels til að halda uppi aðskilnaðarstefnu gegn palestínsku fólki. Vitnisburður og myndbönd benda einnig til fjölda tilvika pyndinga og annarrar illrar meðferðar af hálfu Ísraelshers, þar á meðal barsmíðar og niðurlægjandi meðferð af ásettu ráði gegn palestínsku fólki í haldi við skelfilegar aðstæður.“
Heba Morayef, framkvæmdastjóri svæðisdeildar Miðausturlanda og Norður-Afríku hjá Amnesty International.
Rannsakendur Amnesty International tóku viðtöl við 12 einstaklinga, þar á meðal sex fyrrum fanga, þrjá ættingja fanga og þrjá lögfræðinga sem eru að vinna í málum einstaklinga sem voru nýlega handteknir. Rannsakendur fóru einnig yfir birta vitnisburði annarra fyrrum fanga og rýndu í myndbönd og myndir.
„Aftökur án dóms og laga og gíslataka Hamas og annarra vopnaðra hópa þann 7. október eru stríðsglæpir og ber að fordæma sem slíka en ísraelsk yfirvöld mega ekki nota þessar árásir til að réttlæta ólögmætar árásir sínar og hóprefsingu óbreyttra borgara á umkringda Gaza–svæðinu fyrir gjörðir ákveðinna einstaklinga. Ekki heldur til að réttlæta pyndingar, geðþóttavarðhald og önnur brot á réttindum palestínskra fanga. Bann við pyndingum er með öllu ófrávíkjanlegt og á það meðal annars við um, og þá sérstaklega, á tímum sem þessum.“
Heba Morayef, framkvæmdastjóri svæðisdeildar Miðausturlanda og Norður-Afríku hjá Amnesty International.
Vitnisburður
Amnesty International hefur í áratugi skrásett pyndingar ísraelskra yfirvalda í varðhaldi á Vesturbakkanum. Undanfarið hefur myndböndum og myndum verið deilt á netinu sem sýna grimmilegar aðferðir ísraelskra hermanna þar sem þeir berja og niðurlægja palestínskt fólk í haldi á meðan það er nakið með bundið fyrir augun og hendur bundnar. Þetta sýnir með hrollvekjandi hætti þær pyndingar og niðurlægingar sem palestínskir fangar verða fyrir.
Á einni myndinni sem Amnesty International skoðaði eru þrír palestínskir menn með bundið fyrir augun og naktir við hlið hermanna sem eru klæddir ólífugrænum búningi eins og ísraelski landherinn notar. Rannsókn Haaretz-dagblaðsins sem birtist 19. október komst að því að myndin var tekin þann 12. október.
Einn af þremur þolendunum á myndinni sagði Amnesty International að landtökufólk hefði haldið honum í byrjun og barið hann en tveimur tímum síðar kom ísraelskur jeppi:
„Einn af ísraelsku liðsforingjunum sem komu, kom til mín og sparkaði í mig vinstra megin. Síðan hoppaði hann á höfuðið mitt með báðum fótum sem ýtti andliti mínu lengra ofan í moldina og hann hélt áfram að sparka í mig þar sem ég var með andlitið í moldinni með hendurnar bundnar aftur fyrir bak. Hann tók síðan upp hníf og reif öll fötin af mér fyrir utan nærbuxurnar og notaði hluta af rifnu fötunum mínum til að binda fyrir augun mín.
Hann bætti við:
Barsmíðarnar hættu ekki, á einum tímapunkti byrjaði hann að hoppa á bakinu á mér, þrisvar eða fjórum sinnum, á meðan hann öskraði: „drepstu, drepstu ruslið þitt“. Á endanum, rétt áður en þetta loksins hætti, pissaði annar liðsforingi á andlitið og líkama á meðan hann öskraði að við ættum að deyja.“
Harkalegar yfirheyrslur
Amnesty International talaði einnig við tvær konur sem voru handteknar að geðþótta og þeim haldið í 14 klukkustundir á lögreglustöð á hernumda svæðinu í Austur-Jerúsalem. Þar voru þær niðurlægðar, gerð líkamsleit á þeim, hæðst að þeim og þær beðnar um að bölva Hamas. Þær voru seinna leystar úr haldi án ákæru.
Í myndbandi sem Amnesty International rýndi í og var fyrst birt á samfélagsmiðlum þann 31. október sjást níu menn í haldi. Þeir voru að öllum líkindum palestínskir vegna greinanlegs hreims. Sumir eru alveg naktir en aðrir hálfnaktir, bundið er fyrir augu þeirra og þeir í handjárnum. Í kringum þá eru að minnsta kosti 12 hermenn í ólífugrænum búningum og með hríðskotariffla. Bæði búningarnir og vopnin eru staðalbúnaður ísraelska landhersins. Einn hermaðurinn sést sparka í höfuðið á einum fanganum.
Einn palestínskur fyrrum fangi sem var nýverið leystur úr haldi frá hernumda svæðinu í Austur-Jerúsalem ræddi við Amnesty International með því skilyrði að hann yrði nafnlaus. Hann sagði að lögreglumenn sem sáu um yfirheyrslur hefðu barið hann af hörku ásamt öðrum sem voru í haldi með þeim afleiðingum að hann var allur marinn og með þrjú brotin rifbein.
Hann lagði áherslu á að ísraelsku lögreglumennirnir sem yfirheyrðu hann hafi barið þá ítrekað í höfuðið og öskrað á þá að þeir ættu alltaf að lúta höfði, á sama tíma skipuðu þeir þeim að „lofsama Ísrael og bölva Hamas“.
Dauðsföll í varðhaldi
Samkvæmt ísraelskum yfirvöldum hafa fjórir palestínskir fangar látið lífið frá 7. október við kringumstæðum sem hafa ekki enn verið rannsakaðar með hlutlausum hætti. Tveir fanganna voru verkamenn frá hernumda svæðinu á Gaza og voru í haldi án samskipta við umheiminn af hálfu Ísraelshers í varðhaldsmiðstöð á vegum hersins. Dauðsfall þeirra var aðeins opinberað eftir að ísraelska dagblaðið Haaretz sendi fyrirspurn.
Pyndingar og ill meðferð á einstaklingum, sem njóta verndar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum á hernumdum svæðum, eru stríðsglæpir. Varðhald einstaklinga sem njóta verndar utan hernumdra svæða, eins og í tilfelli palestínskra fanga frá hernumdu svæðunum sem er haldið í Ísrael er einnig brot á alþjóðlegum mannúðarlögum þar sem það telst þvingaður flutningur.
Ómannúðleg og niðurlægjandi meðferð í fangelsum
Fangelsismálastofnun Ísraels upplýsti mannréttindasamtökin HaMoked um að þann 1. nóvember hafi 6.809 palestínskir fangar verið í haldi. Ísraelsk yfirvöld framlengdu neyðaraðgerðir í fangelsum þann 31. október sem gefur þjóðaröryggisráðherra Ísraels nánast óhindrað vald til að neita dæmdum föngum heimsókn frá lögfræði eða fjölskyldu, að halda föngum í yfirfullum klefum, neita þeim um útivist og grípa til grimmilegra hóprefsinga á borð við að loka fyrir vatn og rafmagn klukkutímum saman. Þessar neyðaraðgerðir valda því að meðferð fanga verður enn grimmilegri og ómannúðlegri sem er brot á banni við pyndingum og illri meðferð.
Sanaa Salameh, eiginkona fangans Walid Daqqah sem er með banvænan sjúkdóm, sagði Amnesty International að frá 7. október hafi hvorki hún né lögfræðingur hans fengið leyfi til að hitta hann eða fá upplýsingar um heilsu hans. Hún segir.
„Ég veit ekki hvort hann fái þá læknismeðferð sem hann þarfnast. Ég er ekki í neinu sambandi við hann. Ég er ekki einu sinni með örlitlar upplýsingar mér til huggunar.“
Palestínski lögfræðingurinn Hassan Abadi sem hefur heimsótt að minnsta kosti fjóra fanga í hverri viku frá 7. október sagði Amnesty International að palestínskum föngum hefði verið neitað um útivist og ein þeirra niðurlægjandi meðferða sem þeir sæta er að krjúpa á gólfinu á meðan það er fangatalning.
Hann bætti einnig við að allar eigur palestínskra fanga væri teknar af þeim og jafnvel brenndar, þar á meðal bækur, dagbækur, bréf, föt, matur og fleira. Dömubindi palestínskra kvenna hafa einnig verið fjarlægð af fangelsismálayfirvöldum. Samkvæmt Abadi er hann með skjólstæðing, konu sem var handtekin og svo bundið fyrir augun á henni á lögreglustöð nálægt Hebron þar sem einn lögreglumaðurinn hótaði henni með nauðgun.
Aukning á geðþóttavarðhaldi
Beiting varðhalds án dómsúrskurðar gegn palestínsku fólki hefur aukist á árinu 2023 en veruleg aukning varð eftir 1. október. Palestínskir fangar sem eru skilgreindir af Ísrael sem „öryggisfangar“ eru oft í haldi án ákæru eða réttarhalda. Í flestum tilfellum eru þeir settir í varðhald án dómsúrskurðar sem hægt er að framlengja ótakmarkað á sex mánaða fresti.
Varðhald án dómsúrskurðar er varðhald þar sem einstaklingar eru í haldi af yfirvöldum ríkis á grundvelli leynilegs öryggis sem hvorki sakborningur né lögfræðingur hans geta skoðað forsendurnar fyrir. Það þýðir í reynd að einstaklingar fá ekki sanngjarna málsmeðferð sem allir fangar eiga rétt á samkvæmt alþjóðalögum. Amnesty International hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ísrael noti varðhald án dómsúrskurðar sem leið til að ofsækja palestínskt fólk en ekki sem forvarnaraðgerð sem er aðeins beitt við sérstakar kringumstæður.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu