Fréttir
30. janúar 2024Samkvæmt Amnesty International er fyrirskipun alþjóðadómstólsins í Haag um bráðabirgðaráðstafanir vegna málsóknar Suður-Afríku á hendur Ísraels um hópmorð mikilvægt skref sem gæti hjálpað til að veita palestínsku fólki á á Gaza vernd gegn þjáningum og óafturkræfum skaða.
Niðurstaða alþjóðadómstólsins felur í sér sex bráðabirgðaráðstafanir. Má þar nefna að Ísrael forðist aðgerðir sem brjóta í bága við sáttmála um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð, hindri og refsi fyrir beina og opinbera hvatningu til hópmorðs og geri skilvirkar ráðstafanir til að tryggja að óbreyttir borgarar á Gaza fái mannúðaraðstoð. Það sem mestu skiptir er að dómstóllinn fyrirskipaði Ísrael að varðveita sönnunargögn um hópmorð og skila inn skýrslu til dómstólsins innan mánaðar um allar þær ráðstafanir sem Ísrael hefur gert.
Tafarlaust vopnahlé
„Niðurstaðan er stjórnvaldsleg áminning um mikilvægi alþjóðalaga til að hindra hópmorð og vernda alla þolendur grimmdarverka. Hún sendir skýr skilaboð um að heimurinn muni ekki standa hljóður á hliðarlínunni á meðan Ísrael heldur áfram grimmilegri hernaðarlegri herferð til að stráfella íbúa á Gaza og valda dauða, hryllingi og þjáningum palestínsks fólks á skala sem á sér ekki fordæmi.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Niðurstaða dómstólsins dugir þó ekki til að binda enda á grimmdarverk og eyðileggingu sem íbúar Gaza búa við. Sterk merki um að hópmorð eigi sér stað á Gaza og svívirðilegt virðingarleysi Ísrael gagnvart alþjóðalögum undirstrika brýna nauðsyn fyrir öflugan og samræmdan þrýsting á Ísrael að stöðva árásir á palestínskt fólk.
Tafarlaust vopnahlé allra aðila er enn frumskilyrði jafnvel þó að dómstóllinn hafi ekki fyrirskipað slíkt. Það er skilvirkasta leiðin til að hrinda í framkvæmd öllum bráðabirgðaráðstöfunum og binda enda á fordæmalausar þjáningar óbreyttra borgara.
Það er mikið í húfi. Bráðabirgðaráðstafanir sem alþjóðadómstóllinn fyrirskipaði gefur til kynna að dómstóllinn lítur svo á að líf palestínsks fólks á Gaza í heild sinni sé í hættu. Ísraelsk stjórnvöld verða að framfylgja niðurstöðum alþjóðadómstólsins í Haag án tafar. Öllum ríkjum, líka þeim sem voru gagnrýnin eða á móti málsókn Suður-Afríku um hópmorð, ber skylda til að tryggja að þessum ráðstöfunum verði framfylgt.
Heimsleiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands og annarra Evrópusambandsríkja verða að gefa til kynna að þeir virði bindandi niðurstöður dómstólsins og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja skyldum sínum til að koma í veg fyrir hópmorð. Að bregðast þessari skyldu gæti haft alvarleg áhrif á trúverðugleika og traust til alþjóðlegs réttarkerfis.
Hætta á hópmorði
Ríki verða að grípa til aðgerða til að hindra yfirstandandi brot á alþjóðalögum, þar á meðal með því að setja alhliða vopnaviðskiptabann á Ísrael og palestínska vopnaða hópa. Amnesty International hefur varað við því að hætta sé á hópmorði á Gaza þar sem tölur um mannfall palestínsks fólks eru sláandi háar, eyðilegging vegna vægðarlausra sprengjuárása Ísraels eru víðtækar og mannúðaraðstoð hefur ekki verið leyfð í skjóli ólögmætrar herkvíar. Allt þetta hefur valdið hörmulegum þjáningum á meðal íbúa Gaza.
Önnur hættumerki eru meðal annars vaxandi hatursfull orðræða hjá sumu ísraelsku embættisfólki, þar á meðal Benjamin Netanyahu forsætisráðherra, ásamt því að saga Ísraels sýnir að palestínskt fólk hefur verið kúgað og því mismunað með aðskilnaðarstefnu. Sé veruleg hætta á að hópmorð eigi sér stað ber ríkjum skylda að hindra slíkt samkvæmt alþjóðalögum.
Rúmlega 26.000 íbúar Gaza, flestir óbreyttir borgarar, hafa verið drepnir í vægðarlausum sprengjuárásum Ísraels á Gaza. Talið er að um tíu þúsund þeirra sem saknað er liggi enn undir rústunum. Að minnsta kosti 1,8 milljónir íbúa Gaza eru vegalausir og hafa ekki fullnægjandi aðgengi að mat, vatni, skýli, hreinlæti eða læknisþjónustu.
Amnesty International kallar eftir því að Ísrael, Hamas og aðrir palestínskir vopnaðir hópar hætti tafalaust öllum hernaðarlegum aðgerðum á Gaza.
Ísrael verður að afnema ólögmæta og ómannúðlega herkví og leyfa án skilyrða nauðsynlega mannúðaraðstoð fyrir palestínskt fólk sem þjáist vegna skipulagðrar hungursneyðar. Að auki er kallað eftir því að Hamas og aðrir vopnaðir hópar sleppi þeim gíslum sem enn eru í haldi.
Bakgrunnur
Suður-Afríka hóf málsókn á hendur Ísrael þann 29. desember fyrir alþjóðadómstólnum í Haag á grundvelli brota á sáttmála um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð vegna ásakana um hópmorð á palestínsku fólki í kjölfar árása sem áttu sér stað 7. október 2023 þar sem 1200 einstaklingar, að mestu óbreyttir borgarar, voru drepnir í Ísrael af Hamas og öðrum vopnuðum hópum ásamt því að 240 gíslar voru teknir. Málið var tekið fyrir í Haag þann 11. og 12. janúar 2024.
Alþjóðadómstóllinn í Haag er aðaldómstóll Sameinuðu þjóðanna. Dómstóllinn tekur ekki fyrir mál einstaklinga heldur er hlutverk hans að útkljá lagalega deilur ríkja í samræmi við alþjóðalög. Það felur meðal annars í sér túlkun, beitingu og uppfyllingu ákvæða úr sáttmála sem varðar hópmorð ásamt því að úrskurða um ábyrgð ríkja á hópmorðum.
Samkvæmt 94. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna eru niðurstöður alþjóðadómstólsins bindandi fyrir alla deiluaðila.
Verði þeim ekki framfylgt ber að fara með málið til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem koma með tilmæli eða ákveða hvaða ráðstafanir þurfi að grípa til svo niðurstöðum verði framfylgt.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu