Fréttir
20. febrúar 2024Ísrael verður að binda enda á grimmilegt hernám Gaza og Vesturbakkans, þar á meðal Austur-Jerúsalem, sem Ísrael hefur viðhaldið síðan 1967, samkvæmt yfirlýsingu Amnesty International nú þegar opinber málsmeðferð hefst hjá Alþjóðadómstólnum í Haag (ICJ) til að kanna lagalegar afleiðingar langvarandi hernáms Ísraels.
Opinber málsmeðferð fer fram í Haag dagana 19. – 26. febrúar 2024 í kjölfar þess að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun í desember 2022 þar sem óskað var eftir ráðgefandi áliti frá Alþjóðadómstólnum (ICJ) um lögmæti stefnu Ísraels á hernumdu svæðunum í Palestínu og þær afleiðingar sem framferði Ísraels hefur á önnur ríki og Sameinuðu þjóðirnar. Rúmlega 50 ríki, Afríkusambandið, Arababandalagið og Samtök um íslamska samvinnu munu taka þátt í málsmeðferðinni.
Eitt lengsta og mannskæðasta hernám heims
„Hernám Ísraels í Palestínu er lengsta og eitt mannskæðasta hernám heims. Í áratugi hefur það einkennst af víðtækum og kerfisbundnum mannréttindabrotum gegn Palestínubúum. Hernámið hefur kynt undir og fest í sessi aðskilnaðarstefnu Ísraels sem þröngvað hefur verið upp á alla Palestínubúa. Í gegnum árin hefur hernám Ísraels þróast í varanlegt hernám sem er gróft brot á alþjóðalögum.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Núverandi átök á Gaza hafa beint sjónum að skelfilegum afleiðingum þess að leyfa alþjóðlegum glæpum Ísraels á hernumdu svæðunum í Palestínu að viðgangast refsilaust í allan þennan tíma. Alþjóðadómstóllinn hefur úrskurðað að þar ríki raunveruleg hætta á hópmorði. Heimurinn verður að horfast í augu við að afnám ólöglegs hernáms Ísraels er forsenda þess að stöðva viðvarandi mannréttindabrot í Ísrael og á hernumdu svæðunum í Palestínu.
Varanlegt hernám
Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum skal hernám svæðis vera tímabundið meðan á átökum stendur. Hernámsríki ber að tryggja hagsmuni íbúa yfirráðasvæðisins meðan á hernáminu stendur og valda sem minnstu uppróti, eins og kostur er, á svæðinu, þar á meðal með því að virða gildandi lög og forðast að innleiða lýðfræðilegar breytingar eða gera miklar breytingar á hernumda landsvæðinu.
Hernám Ísraels samræmist ekki þessum grundvallarreglum alþjóðlegra mannúðarlaga. Sú staðreynd að lengd hernáms Ísraels spannar nú meira en hálfa öld, ásamt ólöglegri, opinberri innlimun yfirvalda á hernuminni Austur-Jerúsalem og að stór hluti Vesturbakkans hafi í raun verið innlimaður með upptöku og stækkun landtökusvæða, gefa skýrar vísbendingar um að ætlun Ísraelsmanna sé að hernámið verði varanlegt og til hagsbóta fyrir hernámsríkið og borgara þess.
Gaza er enn hernumið, jafnvel eftir fráhvarf ísraelska hersins og landtökufólks árið 2005, þar sem Ísrael hefur haldið yfirráðum yfir landsvæðinu og íbúum þess, meðal annars með yfirráðum yfir landamærum þess, landhelgi, loftrými og íbúaskrá. Í 16 ár hefur ólögleg herkví Ísraels á Gaza takmarkað mjög ferðafrelsi og vöruflutninga, lagt efnahag Gaza í rúst með endurteknum árásum þar sem þúsundir óbreyttra borgara hafa látist og særsts og stór hluti innviða og húsnæðis á Gaza hefur verið eyðilagður.
Agnès Callamard hvetur öll ríki til að endurskoða samskipti sín við Ísrael til að tryggja að þau leggi ekki sitt af mörkum til að viðhalda hernáminu eða aðskilnaðarstefnunni. Evrópskir utanríkisráðherrar komu saman í Brussel þann 19. febrúar og undirstrikaði hún á að þörfin fyrir skýra og sameinaða kröfu um afnám hernáms Ísraels hafi aldrei verið brýnni.
Líf undir hernámi
Palestínubúar sæta fjölda mannréttindabrota undir hernámi Ísraels en hernáminu er viðhaldið með stofnanavæddri og kerfisbundinni kúgun og yfirráðum. Lög sem mismuna og kúga tengjast, að því er virðist, hernáminu en þjóna í raun aðskilnaðarstefnu Ísraels þar sem þau hafa sundrað og aðskilið Palestínubúa víðsvegar um hernumdu svæðin í Palestínu á sama tíma og Ísrael rænir auðlindir þeirra, takmarkar réttindi þeirra og frelsi að geðþótta og stjórnar næstum öllum þáttum í lífi þeirra.
Palestínubúar á Gaza hafa orðið fyrir fjölmörgum árásum Ísraelshers, að minnsta kosti sex sinnum á árunum 2008 til 2023, auk þess að sæta herkví sem nær yfir land, loft og sjó sem hefur átt sinn þátt í að viðhalda yfirráðum og hernámi Ísraels á Gaza. Í þessum árásum hefur Amnesty International skrásett ólögmætar árásir, sem jafngilda stríðsglæpum og jafnvel glæpum gegn mannúð. Herkví er hóprefsing þar sem hópi fólks er refsað fyrir aðgerðir einstaklinga.
Á Vesturbakkanum, þar á meðal hernumdu Austur-Jerúsalem, sæta Palestínubúar óhóflegri valdbeitingu, ólögmætu drápi, geðþóttahandtökum, varðhaldi án dómsúrskurðar, þvinguðum brottflutningi, niðurrifi heimila, upptöku á landi og náttúruauðlindum og þeim neitað um grundvallarréttindi og frelsi. Ferðafrelsi Palestínubúa hefur verið skert með fjöldaeftirliti, tálmunum, þar á meðal múrveggjum/girðingum, lagalegum skerðingum, hundruðum eftirlitsstöðvum vegatálmum, leyfisveitingum að geðþótta og þeir sviptir réttindum sínum.
„Í 56 ár hafa Palestínubúar á hernumdu svæðunum í Palestínu verið innilokaðir, sætt kúgun og kerfisbundinni mismunun undir hrottalegu hernámi Ísraels. Sérhverjum þætti í daglegu lífi þeirra hefur verið raskað og stjórnað af ísraelskum yfirvöldum sem hafa skert réttindi þeirra til að ferðast um, afla sér lífsviðurværis, menntunar, sækja um störf við sitt hæfi og njóta mannsæmandi lífsgæða. Auk þess hafa þeir verið sviptir aðgangi að land sínu og náttúruauðlindum.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Grimmileg landtökustefna
Eitt skýrasta dæmið um afdráttarlaust virðingarleysi Ísraels fyrir alþjóðalögum er stofnun og sífelld útbreiðsla ísraelskra landtökubyggða um öll hernumdu svæðin í Palestínu og ólöglega innlimun hernumdu Austur-Jerúsalem í kjölfar stríðsins árið 1967 sem var síðan sett í stjórnarskrá árið 1980. Nú eru a.m.k. 300 ólöglegar ísraelskar landtökubyggðir og útvarðarstöðvar á Vesturbakkanum, þar á meðal í hernumdu Austur-Jerúsalem, þar sem rúmlega 700.000 ísraelskt landtökufólk býr.
„Ísrael hefur einnig viðhaldið grimmilegri landtökustefnu með því að stækka linnulaust ólöglegar landtökubyggðir í bága við alþjóðalög með hrikalegum afleiðingum fyrir mannréttindi og öryggi Palestínubúa. Ofbeldisfullt ísraelskt landtökufólk hefur ráðist á Palestínubúa svo áratugum skiptir í nánast algjöru refsileysi.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Harðneskjulegt stjórnkerfi
Harðneskjulegt stjórnkerfi Ísraels á hernumdu svæðunum í Palestínu felur í sér mikinn fjölda hernaðareftirlitsstöðva, girðinga/múrveggja auk herstöðva og eftirlits ásamt hernaðarlegar fyrirskipanir. Yfirráð Ísraela yfir landamærum á hernumdu svæðunum í Palestínu, íbúaskrá, gjaldmiðli þeirra og aðgengi að vatni, rafmagni, fjarskiptaþjónustu, mannúðar- og þróunaraðstoð hafa haft hörmuleg efnahagsleg og félagsleg áhrif á Palestínubúa.
Yfirráð Ísraels hefur aldrei verið grimmilegra á Gaza á þeim 16 árum sem Ísrael hefur haldið svæðinu í herkví og hefur verið hert enn frekar síðan 9. október 2023. Herkvíin, ásamt endurteknum hernaðaraðgerðum Ísraels, hefur leitt Gaza í eina alvarlegustu mannúðar- og mannréttindaneyð nútímans.
„Sem hernámsríki ber Ísrael skylda til að tryggja vernd og velferð allra þeirra sem búa á yfirráðasvæðinu. Þess í stað hefur Ísrael framið gróf og kerfisbundin mannréttindabrot refsilaust. Ísrael nefnir nauðsyn þess að viðhalda öryggi sem ástæðu fyrir grimmilegri stefnu sinni. En öryggi getur aldrei réttlætt aðskilnaðarstefnu, ólöglega innlimun, landtökubyggðir eða stríðsglæpi gegn íbúum sem njóta verndar. Eina leiðin til að tryggja öryggi Ísraela og Palestínubúa er að standa vörð um mannréttindi allra.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Afnám hernáms
Afnám hernáms felur í sér að endurvekja réttindi Palestínubúa með því að aflétta grimmilegri herkví á Gaza, niðurrif landtökubyggða Ísraela á Vesturbakkanum, þar á meðal í Austur-Jerúsalem, og draga til baka ólöglega innlimun. Palestínubúar fá þá ferðafrelsi þar sem þeir búa og fjölskyldur sem eru aðskildar vegna mismunandi lagalegrar stöðu, eins og dvalarleyfi á mismunandi stöðum í Austur-Jerúsalem, á Vesturbakkanum og Gaza, fengju að sameinast á ný. Það myndi lina þjáningu fjölda fólks og binda enda á víðtæk mannréttindabrot.
Með þessum hætti yrði einnig ráðist á rót vandans vegna endurtekins ofbeldis og stríðsglæpa gegn ísraelsku fólki. Það hjálpar til við að bæta mannréttindavernd og tryggja réttlæti og skaðabætur fyrir þolendur beggja megin átakanna.
Bakgrunnur
Þann 30. desember 2022 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun A/RES/77/247 þar sem óskað var eftir ráðgefandi áliti Alþjóðadómstólsins í Haag á lykilspurningum varðandi lagalegar afleiðingar langvarandi hernáms, landtöku og innlimun á palestínsku landsvæði sem hefur verið hernumið frá 1967 Auk þessa var farið fram á álit Alþjóðadómstólsins á því hvernig stefna og starfshættir Ísraels hafa áhrif á lagalega stöðu hernámsins og hvaða lagalegar afleiðingar þessi staða hefur fyrir öll ríki og Sameinuðu þjóðirnar.
Búist er við að dómstóllinn muni gefa út ráðgefandi álit sitt síðar á þessu ári.
Í sex áratugi hefur Amnesty International skrásett hvernig ísraelskir hermenn hafa framið alvarleg mannréttindabrot í á hernumdu svæðunum í Palestínu refsilaust. Árið 2022 gáfu samtökin út skýrsluna, Aðskilnaðarstefna Ísraels gegn palestínsku fólki: Grimmilegt stjórnkerfi og glæpur geng mannúð. Skýrslan greinir frá því hvernig hernámið og Ísraelsher hafa viðhaldið aðskilnaðarstefnunni. Niðurstöður og tilmæli skýrslunnar undirstrika brýna nauðsyn þess að binda enda á hernám Ísraels sem gerir Ísrael kleift að fremja glæpi gegn mannúð og stríðsglæpi.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu