Fréttir
11. febrúar 2020Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar (2019-nCov), sem braust út í lok árs 2019 og á rætur sínar að rekja til kínversku borgarinnar Wuhan í Hubei-héraði.
Áætlað er að frá byrjun febrúar hafi rúmlega 40 þúsund smitast af veirunni um heim allan. Kínversk yfirvöld hafa greint frá rúmlega 900 dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar en flest smit og dauðsföll hafa verið í Hubei-héraði. Veirusýkingin hefur nú dreift sér víða og nær til 24 annarra landa.
„Ritskoðun, mismunun, handtökur að geðþóttaástæðum og önnur mannréttindabrot eiga ekki að líðast í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum. Mannréttindabrot hindra fremur en greiða fyrir réttum viðbrögðum við hættuástandi á sviði heilbrigðismála og grafa undan skilvirkni þeirra.“
Nicholas Bequelin framkvæmdastjóri Austur-og Suðaustur-Asíudeildar Amnesty International.
Ritskoðun í byrjun
Kínversk stjórnvöld hafa gerst sek um margvíslegar og víðtækar tilraunir til að bæla niður upplýsingar um kórónuveiruna og hættuna sem af henni stafar fyrir heilsu almennings. Í lok desember 2019 deildu læknar í Wuhan-borg með samstarfsfólki sínu áhyggjum af sjúklingum sem sýndu samskonar einkenni og þeir sem greindust með SARS- veiruna í suðurhluta Kína árið 2002 og lýsir sér í alvarlegum öndunarfæraerfiðleikum. Þaggað var niður í umræddum læknum þegar í stað og þeim refsað af staðaryfirvöldum fyrir að dreifa sögusögnum.
„Kínverskt heilbrigðisstarfsfólk reyndi að vara við veirunni. Ef stjórnvöld hefðu ekki reynt að gera lítið úr hættunni þá hefði heimurinn getað brugðist skjótar við útbreiðslu veirunnar,“
Nicholas Bequelin.
Mánuði síðar var tilkynning birt á netinu þar sem hæstiréttur Kína gerði athugasemdir við ákvörðun yfirvalda í Wuhan sem margir álitu vera sigur fyrir læknana.
Kínversk stjórnvöld reyndu að gera lítið úr faraldrinum sem sýndi sig þegar þau reyndu að þrýsta af hörku á Alþjóðaheilbrigðisstofnunina um að lýsa ekki yfir neyðarástandi vegna veirunnar.
Réttur til heilsu
Mikið álag er nú á heilbrigðiskerfinu í Wuhan og á heilbrigðisstarfsfólk í erfiðleikum með að ráða við faraldur af þessari stærðargráðu. Mörgum sjúklingum hefur verið vísað frá sjúkrahúsum eftir að hafa beðið klukkustundum saman í röð og skortur er á nauðsynlegum greiningartækjum til að greina kórónuveiruna.
„Kína verður að tryggja að fólk sem smitast af kórónuveirunni hafi aðgang að viðeigandi heilbrigðisþjónustu í Wuhan sem og annars staðar. Að stöðva útbreiðslu veirunnar er mikilvægt en líka að veita læknismeðferð. Þess vegna er nauðsynlegt að viðbrögð taki mið af réttinum til heilsu,“ segir Nicholas Bequelin.
Þó að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafi lofað Kína hástert þá er staðreyndin sú að viðbrögð kínverskra stjórnvalda eru og hafa verið vafasöm. Fjölmiðlar á svæðinu hafa greint frá því að fólk hafi ekki komist nægilega fljótt á sjúkrahús vegna lokunar almenningssamgangna og í sumum tilfellum hefur ekki verið hægt að fjarlægja lík hinna látnu af heimilum.
Réttur til heilsu er tryggður í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal réttur til aðgangs að heilsugæslu og upplýsingum, bann við mismunun á læknisþjónustu og frelsi frá meðferð án samþykkis.
Ritskoðun heldur áfram
Kínversk stjórnvöld vilja stjórna fréttaflutning og kæfa neikvæða umfjöllun og viðhalda þannig ritskoðun á réttmætum upplýsingum um veiruna. Fjöldi greina hafa verið ritskoðaðar, til að mynda á helstu fréttamiðlum.
„Kínversk yfirvöld taka áhættu með því að halda aftur upplýsingum sem gætu hjálpað læknasamfélaginu að takast á við kórónuveiruna og verndað fólk frá smiti. Það að sumar upplýsingar séu ekki tiltækar almenningi eykur hættuna á skaða af völdum kórónuveirunnar og seinkar viðeigandi viðbrögðum.“
Nicholas Bequelin.
Aðgerðasinnar áreittir
Fólk sem hefur reynt að deila upplýsingum um kórónuveiruna á samfélagsmiðlum hefur einnig verið skotmark kínverskra stjórnvalda. Til dæmis tilkynnti lögfræðingurinn Chen Quiushi sem heldur uppi eigin fréttasíðu að hann hefði verið áreittur af yfirvöldum fyrir að setja inn myndband frá sjúkrahúsum í Wuhan. Fang Bin, íbúi í Wuhan, var einnig yfirheyrður af yfirvöldum eftir að hafa sett inn myndband sem sýndi lík fórnarlamba veirunnar.
„Þrátt fyrir að mikilvægt sé að hindra að rangar upplýsingar um veiruna breiðist út þjónar það engum tilgangi fyrir heilsu almennings að loka á réttmætan fréttaflutning og upplýsingar á samfélagsmiðlum.“
Nicholas Bequelin.
Aðgerðir gegn „fölskum fréttum“
Eftir útbreiðslu veirunnar til nærliggjandi landa í Suðaustur-Asíu hafa fleiri ríki reynt að stjórna fréttaflutningi. Fólk hefur verið handtekið eða sektað í Malasíu, Tælandi og Víetnam fyrir „falskar fréttir“ um faraldurinn.
„Stjórnvöld verða að koma í veg fyrir að rangar upplýsingar breiðist út og veita tímabæra og viðeigandi heilsuráðgjöf. En öll skerðing á tjáningarfrelsi verður að vera hæfileg, réttmæt og nauðsynleg. Ef stjórnvöld í Suðaustur-Asíu og annars staðar ættu að draga aðeins einn lærdóm af viðbrögðum Kína varðandi kórónuveiruna þá er það ljóst að takmörkun upplýsingaflæðis og stöðvun rökræðna í nafni öryggis býður hættunni heim og getur haft þveröfug skaðleg áhrif.“
Nicholas Bequelin.
Mismunun og útlendingahatur
Samkvæmt fréttaflutningi hefur fólki frá Wuhan, jafnvel þeim sem eru án einkenna, verið neitað um hótelgistingu, það lokað inni í íbúðum sínum og persónulegum upplýsingum þess verið lekið á netið í Kína.
Í öðrum löndum hafa einnig borist fréttir af útlendingahatri sem beinist að Kínverjum og Asíubúum. Sumir veitingastaðir í Suður-Kóreu, Japan og Víetnam hafa neitað að taka á móti kínverskum viðskiptavinum og kínverskum gestum var sagt af hópi mótmælenda að yfirgefa hótel í Indónesíu. Frönsk og áströlsk fréttablöð hafa einnig verið sökuð um fordóma í fréttaflutningi. Asísk samfélög um heim allan hafa brugðist við og á Twitter hefur myllumerkið #JeNeSuisPasUnVirus (Ég er ekki veira) náð athygli í Frakklandi.
„Kínversk stjórnvöld verða að grípa til aðgerða til að vernda fólk gegn mismunun og stjórnvöld um heim allan verða að bregðast við mismunun gegn fólki af kínverskum og asískum uppruna af fullum þunga. Eina leiðin til að stöðva faraldurinn er með samstöðu og samvinnu á milli landa,“ segir Nicholas Bequelin.
Landamæragæsla og sóttkví
Mörg lönd hafa brugðist við með því að loka á ferðamenn frá Kína eða öðrum asískum löndum á meðan önnur lönd hafa sett á harðar reglur um sóttkví. Áströlsk yfirvöld hafa sent hundruð Ástralíubúa í varðhaldsmiðstöð fyrir innflytjendur á Jólaeyjum en aðstæðum þar hefur áður verið lýst sem ómannúðlegum af áströlsku læknasamtökunum vegna andlegra og líkamlegra þjáninga sem flóttafólk í haldi hefur þurft að þola þar.
Papúa Nýja-Gínea hefur lokað landamærum sínum fyrir fólki sem kemur frá öðrum löndum í Asíu án þess að það takmarkist við staðfest tilfelli kórónuveirunnar. Það þýddi að nokkrir nemendur frá Papúa Nýju-Gíneu urðu fastir á Filippseyjum eftir að þeim var neitað, að fyrirmælum stjórnvalda Papúa Nýju-Gíneu, um að fara um borð í flugvél .
Sóttkví, sem skerðir ferðafrelsi, er aðeins hægt að réttlæta undir alþjóðalögum ef þau eru hæfileg, tímabundin, í lögmætum tilgangi, algjörlega nauðsynleg, af fúsum og frjálsum vilja ef mögulegt er og án mismununar. Sóttkví skal vera sett á með öruggum hætti og af virðingu. Virða þarf og vernda réttindi þeirra sem eru í sóttkví, meðal annars með því að veita aðgang að heilbrigðisþjónustu, mat og öðrum nauðsynjum.
„Stjórnvöld um heim allan standa frammi fyrir erfiðum aðstæðum og þurfa að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar en á sama tíma tryggja að fólk hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.“
Nichoals Bequelin
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu