Fréttir
21. mars 2025Í kjölfar fjölda árása Ísraels á hernumda Gaza aðfaranótt 18. mars síðastliðinn þar sem minnst 414 Palestínubúar létu lífið, þar á meðal 174 börn og yfir 550 voru lagðir inn á sjúkrahús sagði Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International:
„Í dag er dimmur dagur fyrir mannkynið. Ísrael hóf skefjalausa sprengjuárás á Gaza á ný með þeim afleiðingum að minnst 414 einstaklingar voru drepnir á meðan þeir sváfu, þar á meðal að minnsta kosti 100 börn, og aftur voru heilu fjölskyldurnar þurrkaðar út á nokkrum klukkustundum. Palestíubúar á Gaza, sem hafa varla haft tækifæri til að púsla saman lífi sínu á ný og glíma enn við áföll eftir fyrri árásir Ísraels, vöknuðu enn og aftur við skelfilegan veruleika svæsnra sprengjuárása.”
„Hópmorð og ólögmætar árásir Ísraels hafa þegar valdið fordæmalausri mannúðarneyð á Gaza. Í dag erum við aftur á byrjunarreit. Þann 2. mars fyrirskipaði Ísrael aftur á algert umsátur á Gaza til að hindra að mannúðaraðstoð, lyf og birgðir, þar á meðal eldsneyti og matvæli komist inn á svæðið, sem þverbrýtur alþjóðalög. Ísrael hefur einnig lokað fyrir rafmagn til helstu afsöltunarstöðvar Gaza. Og í dag hefur ísraelski herinn enn á ný gefið út fjöldaskipanir um „rýmingu“ sem þýðir brottflutninga fyrir Palestínubúa.“
„Rannsakendur Amnesty International ræddu við heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur á þremur sjúkrahúsum í Gaza-borg og á Norður-Gaza sem lýsti ólýsanlegum hryllingi snemma morguns. Al-Shifa, stærsta sjúkrahús Gaza hafði aðeins þrjú rúm til að taka á móti hinum særðu þar sem fyrri hernaðaraðgerðir Ísraels höfðu eyðilagt það að mestu.“
„Al-Ahli Arab Baptist sjúkrahúsið í Gaza-borg, eina sjúkrahúsið með starfandi gjörgæsludeild, neyddist til að meðhöndla suma af þeim 80 særðu, sem þangað leituðu aðstoðar, á göngunum og í garði sjúkrahússins. Indónesíski spítalinn er sá eini í norðurhluta Gaza sem er enn starfhæfur að einhverju leyti. Enn er verið að vinna að endurbyggingu hans eftir fyrri árásir Ísraels.“
„Næstum algjört hrun heilbrigðiskerfisins á Gaza, sérstaklega í norðurhlutanum, ásamt átakanlegum skorti á lækningatækjum og vistum sem versnaði vegna ólögmæts umsáturs Ísraels, er í raun dauðadómur yfir mörgum einstaklingum sem eru alvarlega slasaðir eða með sjúkdóma, sem jafnvel væri auðvelt að lækna við eðlilegar aðstæður. Ísraelsk yfirvöld eru enn með mjög strangar takmarkanir á sjúkraflutninga út af Gaza.“
„Þegar árásir Ísraels hófust á ný var líf þeirra 24 ísraelskra gísla sem enn eru í haldi og taldir vera á lífi sett í hættu. Þetta er einnig grimmilegt áfall fyrir gísla og palestínska fanga sem og fjölskyldur þeirra. Við minnum alla aðila á að leysa þarf úr haldi alla gísla og Palestínubúa sem hafa verið handteknir að geðþótta.“
„Heimurinn getur ekki staðið hjá og leyft Ísrael að drepa Palestínubúa á Gaza og valda þeim gífurlegum þjáningum. Við hvetjum öll ríki til að standa við skuldbindingar sínar um að koma í veg fyrir og refsa fyrir hópmorð og tryggja að alþjóðleg mannúðarlög séu virt. Þrýsta þarf á Ísrael að binda enda á árásir sínar og tryggja skilyrðislausa og óhindraðan aðgang að mannúðaraðstoð. Ríki verða að koma saman og krefjast þess að vopnahlé verði komið aftur á, bundinn verði endi á hópmorð Ísraels á Palestínubúum á Gaza og ólögmætt hernám á landsvæði Palestínubúa ásamt aðskilnaðarstefnu Ísraels gegn Palestínubúum verði afnumin.“
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu