Fréttir
13. júní 2017Alvarlegir brestir í réttarkerfi Malaví hafa síðustu sex mánuði ýtt undir nýja bylgju morða á og árása gegn fólki með albínisma, viðkvæmum hópi sem nú er varnarlaus gagnvart glæpagengjum, segir Amnesty International en í dag er alþjóðadagur vitundar um málefni albínóa.
Að minnsta kosti tveir einstaklingar með albínisma hafa verið myrtir síðan í janúar á þessu ári og þá hafa sjö einstaklingar til viðbótar tilkynnt um tilraunir til manndráps og mannráns. Þetta er gríðarleg breyting frá síðustu sex mánuðum ársins 2016 þegar engin slík tilvik voru tilkynnt til lögreglu.
„Þrátt fyrir hertari lagasetningu, eins og umbætur í hegningarlöggjöf Malaví, til að taka á árásum gegn fólki með albínisma höfum við séð ógnvænlega aukningu manndrápa og árása gegn þessum viðkvæma hópi á árinu 2017,“ segir Deprose Muchena, svæðisstjóri Amnesty International í Suður-Afríku.
„Þegar framgangur réttvísinnar er svona óbærilega hægvirkur, eins og sjá má í Malaví, og sagan sýnir að árásir á fólk með albínisma eru enn óupplýstar skapar það andrúmsloft refsileysis og hvetur ódæðismenn þessara skelfilegu glæpa áfram.“
Í skýrslu Amnesty International frá júní 2016 sviptu samtökin hulunni af meðferð fólks með albínisma, hvernig það var elt uppi og drepið eins og dýr fyrir líkamshluta þess. Talið er að bein fólks með albínisma séu seld galdralæknum til notkunar í lækningum byggðum á rótgrónum hefðum í Malaví og Mósambík sem verndargripir og í töfraseyði.
Morð á árinu 2017
Eins og áður segir hefur ný bylgja morða og árása gegn fólki með albínisma riðið yfir Malaví það sem af er þessu ári, eftir sex rólegri mánuði síðari hluta síðasta árs.
Þann 28. febrúar síðastliðinn fannst Mercy Zainabu Banda, 31 árs gömul kona með albínisma, myrt í höfuðborginni Lilongwe. Búið var að fjarlægja annan handlegg hennar, hægra brjóst og hár.
Þann 10. janúar síðastliðinn var hinn 19 ára gamli Madalitso Pensulo myrtur eftir að honum var boðið í eftirmiðdagskaffi til vinar síns í þorpinu Mlonda í Thyolo-héraði. Vegfarandi heyrði öskur Pensulo en hann dó áður en lögregla kom á staðinn.
Aðrar árásir
Nýjasta mannránstilfellið átti sér stað þann 28. maí síðastliðinn þegar níu ára gömlum dreng, Mayeso Isaac, var rænt af hópi manna. Ránið átti sér stað í nágrannalandinu Mósambík þangað sem hann hafði ferðast til að heimsækja ættingja. Yfirvöldum í bæði Malaví og Mósambík ber skylda til að tryggja það að rannsókn á hvarfi Mayeso Isaac gangi hratt og örugglega fyrir sig.
Þann 9. mars síðastliðinn slapp Gilbert Daire undan fjórum mönnum sem gerðu tilraun til að bora í gegnum útvegg á heimili hans í Lilongwe á meðan hann svaf. Mennirnir flúðu vettvang þegar nágrannar slógust í leikinn. Einn hinna grunuðu var handtekinn eftir að almennir borgarar sögðu til hans en hann var síðar sýknaður fyrir dómi.
Í apríl slapp hinn tveggja ára gamli Misheck Samson frá mannránstilraun sem átti sér stað þegar hann svaf við hlið móður sinnar í þorpinu Cholwe í Ntchisi-héraði. Þrír menn voru handteknir fyrir áform um rán á drengnum. Þeir játuðu fyrir lögreglu að hafa viljað ræna Misheck Samson því þeir voru fjárþurfi.
Þann 17. febrúar slapp hin 36 ára gamla Emily Kuliunde frá mannránstilraun í borginni Dowa þegar samborgarar hennar handtóku meinta mannræningja og fóru með til lögreglu. Hinir grunuðu sitja enn í varðhaldi.
Réttarkerfið bregst fólki með albínisma
Lögreglan í Malaví hefur vald til að sækja til saka grunaða og sakfella glæpamenn fyrir glæpi, hún líður hins vegar fjárskort og manneklu og fær takmarkaða þjálfun. Fyrir vikið eru flest mál illa rannsökuð og leiða sjaldan til sakfellingar. Meirihluti þeirra mála sem tengjast glæpum gegn fólki með albínisma, þá sérstaklega morðum, eru ekki tekin fyrir af dómstólum vegna fjárskorts og vöntunar á lögfræðiaðstoð fyrir hina grunuðu.
Í þeim málum sem eru tekin fyrir af dómstólum hafa glæpamennirnir oft verið leystir úr haldi vegna galla á rannsókn og skorts á lögmætum sönnunargögnum.
„Eina leiðin til að stoppa þessi morð er að tryggja að farið sé eftir núgildandi lögum landsins, að ákæruvaldið sé skilvirkt og að yfirvöld séu samstillt,“ segir Deprose Muchena.
„Fjölgun svívirðilegra árása gegn fólki með albínisma sýnir að glæpagengi eru orðin ansi kokhraust og viss um að þau verði ekki handsömuð. Þau notfæra sér bresti réttarkerfisins í Malaví. Yfirvöld verða að grípa til afdráttarlausra aðgerða til að binda enda á þessar árásir fyrir fullt og allt.“
Forsaga málsins
Að minnsta kosti 20 einstaklingar með albínisma hafa verið myrtir í Malaví síðan í nóvember 2014. Þar af hafa tveir einstaklingar verið myrtir það sem af er þessu ári.
Samkvæmt malavísku lögreglunni hafa að minnsta kosti 117 mál er tengjast glæpum gegn fólki með albínisma verið tilkynnt síðan í nóvember 2014. Fólkið er skotmark glæpagengja vegna líkamsparta þess en sumir trúa því að líkami fólks með albínisma búi yfir töfrakrafti sem færir fólki heppni.
Á bilinu 7.000-10.000 einstaklingar með albínisma búa í Malaví.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu