Fréttir

14. desember 2007

Mann­rétt­inda­brot í "stríðinu gegn hryðju­verkum"

Íslands­deild Amnesty Internati­onal sendi öllum alþing­is­mönnum bréf hinn 3. október s.l. þar sem farið var fram á stuðning við áætlun Amnesty Internati­onal um að binda enda á ólög­legt varð­hald í „stríðinu gegn hryðju­verkum“. Íslands­deild Amnesty Internati­onal hafa nú borist undir­skriftir 22 þing­manna úr öllum stjórn­mála­flokkum. Markmið Amnesty Internati­onal er að 1000 þing­menn frá öllum heims­hornum leggi áætl­un­inni lið. Stuðn­ingur íslensku þing­mann­anna er því mikil­vægur í barátt­unni gegn mann­rétt­inda­brotum í „stríðinu gegn hryðju­verkum“ og þakkar Íslands­deildin þeim.

Í nýlegri skýrslu utan­rík­is­ráðu­neyt­isins kemur fram að um Ísland hafi farið fjöl­margar vélar sem tengst hafa leyni­legum flutn­ingum grun­aðra til landa þar sem þeir gætu sætt pynd­ingum og annarri illri meðferð. Íslands­deild Amnesty Internati­onal telur að það sé löngu tíma­bært að íslensk stjórn­völd og þing­heimur allur fordæmi með afdrátt­ar­lausum hætti „manns­hvörf“, pynd­ingar og önnur gróf mann­rétt­inda­brot sem framin eru í hinu svokallaða „stríði gegn hryðju­verkum“ og krefjist þess að banda­rísk yfir­völd bindi enda á ólög­legt varð­hald og önnur mann­rétt­inda­brot.

Áætlun Amnesty Internati­onal til að binda enda á ólög­legt varð­hald í „stríðinu gegn hryðju­verkum“

Banda­ríkin ættu að loka varð­halds­stöð­inni við Guantánamo-flóa.

Binda ætti enda á leyni­varð­halds­kerfi Banda­ríkj­anna undir eins og fyrir fullt og allt. Öllum leyni­legum varð­halds­stöðvum ætti að loka, hvar svo sem þær eru stað­settar.

Öllum föngum í „stríðinu gegn hryðju­verkum“, líka þeim sem haldið er í Guantánamo, ætti að sleppa undir eins nema þeir verði ákærðir og fái réttlát rétt­ar­höld.

Banda­ríkin ættu að lýsa því yfir opin­ber­lega að þau muni ekki stuðla að leyni­legu varð­haldi, „framsali“ eða manns­hvörfum í málum grun­aðra hryðju­verka­manna.

Þeim sem sleppt er skal ekki snúið til landa þar sem hætta er á að þeir sæti alvar­legum mann­rétt­inda­brotum.

Mál hvers fanga ætti að meta á sann­gjarnan og gagn­sæjan hátt til að meta hvort þeir geti snúið aftur til heima­lands síns eða hvort leita ætti annarra úrræða.

Þeir sem sæta rétt­ar­höldum ættu að vera ákærðir fyrir viður­kenndan glæp og hljóta réttlát rétt­ar­höld fyrir sjálf­stæðum og hlut­lausum dómstól, t.d. alrík­is­dóm­stól í Banda­ríkj­unum. Ekki skal dæma ákærðu til dauða.

Engar upplýs­ingar fengnar með pynd­ingum eða annars konar ómann­legri eða vanvirð­andi meðferð eða refs­ingu ættu að teljast leyfi­legar fyrir dómi, nema gegn þeim sem sakaðir eru um pynd­ingar.

Allir banda­rískir embætt­is­menn ættu að hætta að gera ráð fyrir að menn hand­teknir í „stríðinu gegn hryðju­verkum“ séu sekir þar til sakleysi þeirra er sannað.

Lög um herdóm­stóla (Military Comm­issions Act 2006) ætti að afnema eða breyta í samræmi við alþjóðalög þar sem þau tryggja nú ekki réttinn til rétt­látra rétt­ar­halda, neita föngum um habeas corpus og ýta undir refsi­leysi fyrir mann­rétt­inda­brot.

Banda­rísk yfir­völd ættu að bjóða fimm sérfræð­ingum Sameinuðu þjóð­anna (fjórum sérstökum eftir­lits­full­trúum og formanni vinnu­hóps um geðþótta­varð­hald) að heim­sækja Guantánamo og aðrar varð­halds­stöðvar Banda­ríkja­manna án takmarkana. Það ættu ekki að vera neinar hömlur á eins­legum samræðum milli sérfræð­inga og fanga.

Alþjóðleg mann­rétt­inda­samtök, m.a. Amnesty Internati­onal, ættu einnig að fá slíkan aðgang.

Banda­ríkin ættu að veita saklausum föngum bætur, bæði í formi peninga og endur­hæf­ingar.

Lestu einnig