Fréttir

3. september 2020

Mann­rétt­inda­fröm­uðir í hættu á tímum kórónu­veirunnar

skýrsla Amnesty Internati­onal sem kom út í ágúst 2020 greinir frá þeim hættum sem mann­rétt­inda­fröm­uðir standa frammi fyrir á tímum kórónu­veirufar­ald­ursins. Hræsni stjórn­valda í löndum eins og Egyptalandi, Indlandi, Íran og Tyrklandi kemur berlega í ljós þegar samviskufangar þjást í fanga­klefum við hörmu­legar aðstæður á sama tíma og stjórn­völd kynna til leiks aðgerðir um að leysa fanga úr haldi vegna farald­ursins.

Kórónu­veirunni er í raun beitt sem enn einni refs­ing­unni gegn mann­rétt­inda­fröm­uðum sem eru rang­lega fang­els­aðir.“

Lisa Maracani, rann­sak­andi Amnesty Internati­onal um mann­rétt­inda­frömuði.

Mannréttindafrömuðir víða í haldi

Skýrslan greinir frá árásum á mann­rétt­inda­frömuði í löndum víða um heim á tímum kórónu­veirufar­ald­ursins. Uppljóstr­arar og gagn­rýn­endur sem benda á viðbragðs­leysi stjórn­valda við faraldr­inum eru á meðal þeirra sem herjað er á.

Amnesty Internati­onal hefur skráð 131 tilfelli þar sem mann­rétt­inda­fröm­uðir hafa verið áreittir, ákærðir, myrtir eða fang­els­aðir undir því yfir­skini að það tengist barátt­unni gegn kórónu­veirufar­aldr­inum. Þessar tölur eru þó að öllum líkindum aðeins topp­urinn á ísjak­anum.

Mann­rétt­inda­stofnun Sameinuðu þjóð­anna hvatti öll ríki heims í mars 2020 að leysa fanga úr haldi sem dúsa á bak við lás og slá  án rétt­mætrar ástæðu, þeirra á meðal samviskufanga og gagn­rýn­endur stjórn­valda, til að bregðast við kórónu­veirufar­aldr­inum.

Samt sem áður hafa nokkur lönd ekki veitt mann­rétt­inda­fröm­uðum lausn úr haldi þrátt fyrir fyrir­heit um að leysa fanga úr haldi til að draga úr þrengslum í fang­elsum.

Í Indlandi eru margir nemendur og aðgerða­sinnar enn í haldi fyrir að mótmæla á frið­sam­legan hátt lögum sem fela í sér mismunun á rétti til að hljóta ríkis­borg­ara­rétt.

Í Egyptalandi hafa stjórn­völd ekki leyst úr haldi mann­rétt­inda­frömuði sem eru í haldi fyrir það eitt að tjá skoð­anir sínar auk þúsunda annarra fanga sem eru í haldi á meðan þeir bíða rétt­ar­halda. Margir þeirra standa frammi fyrir óljósum ákærum um hryðju­verk og óvíst er hvort þeir fái notið sann­gjarnra rétt­ar­halda.

Í Tyrklandi hefur bein­línis verið gengið fram hjá mann­rétt­inda­fröm­uðum sem eru í haldi á meðan þeir bíða eftir rétt­ar­höldum.

Í Íran tilkynntu yfir­völd að þau hafi leyst tíma­bundið úr haldi 85 þúsund fanga en þrátt fyrir það eru margir mann­rétt­inda­fröm­uðirenn í haldi við hræði­legar aðstæður vegna ákæra sem eru af póli­tískum rótum runnar. Þeirra á meðal er Narges Mohammadi, mann­rétt­inda­fröm­uður, sem hefur átt við heilsu­farsleg vandamál að stríða. Yfir­völd neita henni um aðgang að heil­brigð­is­þjónstu þrátt fyrir grun­semdir um kórónu­veiru­smit. Hún hefur ekki fengið niður­stöður úr skimun sem  var gerð 8. júlí. Írönsk stjórn­völd hafa einnig haldið áfram að herja á aðgerða­sinnum með hand­tökum og fanga­vist.

Í mörgum öðrum löndum þar sem fang­elsi eru yfir­full eru stjórn­völd enn að hand­taka mann­rétt­inda­frömuði fyrir rangar sakargiftir. Það ýtir undir þrengsli í fang­elsum og setur fólk í enn frekari hættu.

Í Aser­baíd­sjan hafa stjórn­völd herjað á póli­tíska aðgerða­sinna, fjöl­miðla­fólk og mann­rétt­inda­frömuði sem hafa gagn­rýnt viðbrögð þeirra við faraldr­inum. Tofig Yagublu er einn þeirra sem hefur verið hand­tekinn og rang­lega ákærður fyrir óspektir. Mann­rétt­inda­fröm­uð­urinn Elchin Mammad var hand­tekinn og ákærður fyrir þjófnað nokkrum dögum eftir að hafa gefið út skýrslu um mann­rétt­inda­ástandið í landinu.

Aukin hætta á morði

Amnesty Internati­onal varar einnig við því að mann­rétt­inda­fröm­uðir eru í hættu vegna útgöngu­banns sem heftir ferða­frelsi þeirra og njóta því síður verndar gegn þeim sem vilja þagga niður í þeim. Í Kólumbíu og Mexíkó hefur til dæmis verið dregið úr lögreglu­vernd.

Á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 hafa verið skráð 166 morð á mann­rétt­inda­fröm­uðum af INDEPAZ, borg­ara­legum samtökum í Kólumbíu. Ástandið versnaði í kjölfar kórónu­veirufar­ald­ursins. Samtökin greindu meðal annars frá fjölda hótana, líkams­árása og morða á baráttu­konum fyrir rétt­indum kvenna. Ein af þeim var Carlota Isabel Salinas Pérez sem var myrt fyrir utan heimili sitt í mars 2020.

Í Hond­úras er eitt alvar­leg­asta tilfellið mögu­lega þvinguð manns­hvörf fimm ungra karl­manna sem eru aðgerða­sinnar samtaka um bræðralag svartra í Hond­úras, OFRANEH. Þeir voru teknir af heim­ilum sínum þann 18. júlí af mönnum í lögreglu­bún­ingi. Ekki hefur sést til þeirra síðan.

Það er mikil­vægt að stjórn­völd tryggi öryggi mann­rétt­inda­frömuða og veiti þeim vernd gegn aðilum sem vilja notfæra sér farald­urinn til að þagga niður í röddum þeirra.“

Lisa Maracani, rann­sak­andi Amnesty Internati­onal um mann­rétt­inda­frömuði.

Lestu einnig