Fréttir

3. nóvember 2016

Mann­rétt­inda­hetjan Moses Akatugba á leið til Íslands

Margir þeirra sem þátt tóku í Bréfam­ara­þoni Íslands­deildar Amnesty Internati­onal árið 2014 muna eftir ótrú­legri sögu Moses Akatugba sem var aðeins 16 ára gamall þegar níger­íski herinn handtók hann og pyndaði í nóvember árið 2005. Moses var þá að bíða eftir niður­stöðum úr prófum í grunn­skóla þegar líf hans tók hamskiptum. Hann var sakaður um að stela þremur símum og eftir átta ár í fang­elsi var hann dæmdur til dauða með heng­ingu. Að tíu árum liðnum á bak við lás og slá var Moses náðaður og er nú frjáls maður. Þrýst­ingur fólks um heim allan sem tók þátt í Bréfam­ara­þoni Amnesty Internati­onal átti stærstan þátt í lausn Moses.

Íslands­deild Amnesty Internati­onal er það einstök ánægja að tilkynna að við verðum þess heiðurs aðnjót­andi að fá mann­rétt­inda­hetjuna Moses til landsins dagana 14. til 17. nóvember næst­kom­andi, ásamt Damian Ugwu yfir­manni rann­sókn­a­starfs hjá Amnesty Internati­onal í Nígeríu. Damian stýrði rann­sókn­ar­skýrslu sem Amnesty Internati­onal gaf út í sept­ember 2014 um pynd­ingar af hálfu lögreglu í Nígeríu. Skýrslan ber heitið, Welcome to hell fire: Torture and other ill-treatment in Nigeria.

Moses Akatugba heldur erindi um reynslu sína sem þolandi grófra mann­rétt­inda­brota og sína eigin baráttu fyrir mann­rétt­indum, í Norræna húsinu, miðviku­daginn 16. nóvember kl. 12 til 13. Damian Ugwu mun einnig fjalla um rann­sóknir sínar á kerf­is­bundnum pynd­ingum af hálfu lögreglu í Nígeríu.
Frítt er inn og allir velkomnir!

NÁNAR UM MOSES

Moses Akatugba var sakaður um að stela þremur símum og öðrum samskipta­búnaði. Hann lýsti því hvernig hermaður skaut hann í höndina við hand­töku og annar barði hann í höfuðið og bakið. Honum var upphaf­lega haldið í hermanna­skála þar sem honum var sýnt lík sem hann var beðinn um að auðkenna. Þegar hann gat það ekki var hann barinn. Eftir að hann var fluttur á Epkan-lögreglu­stöðina sætti hann frekari pynd­ingum og illri meðferð.

Moses greindi frá því að lögreglan hefði barið hann mjög illa með bareflum. Hann var bundinn og hengdur upp á höndum í yfir­heyrslu­her­bergi og töng var notuð til að draga neglur af fingrum hans og tám í þeim tilgangi að þvinga hann til játn­ingar á glæp sem hann stað­fast­lega neitaði að hafa framið. Rétt­ar­höldin fyrir honum fóru fram í hæsta­rétti í Effurum í Delta-ríki. Rann­sókn­ar­full­trúinn mætti ekki við rétt­ar­höldin og sakfell­ingin gegn Moses byggði á mótsagna­kenndum vitn­is­burði og játn­ingum hans sem þving­aðar voru fram með pynd­ingum. Eftir átta ár í fang­elsi var Moses dæmdur til dauða með heng­ingu. Hann fékk aldrei tæki­færi til að bera vitni fyrir rétt­inum um þá illu meðferð og pynd­ingar sem hann sætti. Moses fékk aðeins að hitta fjöl­skyldu sína tvisvar í mánuði á meðan hann beið á dauða­deild.

Enginn á að þurfa að sæta jafn grimmi­legri og ómann­úð­legri meðferð sem þessari og engan skal þvinga til játn­inga með pynd­ingum. Þá skal heldur ekki dæma til dauða neinn sem var undir 18 ára aldri þegar brot á sér stað.

Í febrúar 2014 lét Moses eftir­far­andi orð falla:

„Sárs­aukinn sem ég þurfti að þola við pynd­ing­arnar var óbæri­legur. Ég hélt aldrei að ég myndi lifa til dagsins í dag.“

Mál Moses Akatugba var tekið fyrir á Bréfam­ara­þoni Amnesty Internati­onal árið 2014 og þrýstu rúmlega 300 þúsund manns um heim allan á fylk­is­stjórann á óseyrum Nígerfljóts að náða Moses. Alls bárust 16 þúsund bréf og kort frá Íslandi.

Í maí 2015 lét fylk­is­stjórinn undan og Moses er nú frjáls maður. Hann sat á bak við lás og slá í tíu ár. Hann lét eftir­far­andi orð falla þegar ljóst var að hann yrði náðaður:

„Ég er djúpt snortinn. Ég þakka Amnesty Internati­onal og aðgerða­sinnum fyrir stór­kost­legan stuðning sem gerði mig að sigur­vegara í þessum aðstæðum. Þið eruð hetj­urnar mínar. Án þeirra þúsunda bréfa og undir­skrifta sem send voru til stuðn­ings máli mínu hefði ég mögu­lega aldrei hlotið frelsi. Þið hafið blásið mér í brjóst löng­unina til að gerast aðgerðasinni sjálfur – að berjast fyrir aðra. Viltu ganga til liðs við mig? Viltu berjast fyrir frelsi annarra sem eru rang­lega fang­els­aðir, með þátt­töku í Bréfam­ara­þoni Amnesty?“

Lestu einnig