Góðar fréttir

29. júlí 2022

Mann­rétt­inda­sigrum sem ber að fagna

Á tímum þegar mann­rétt­indi eru víða fótum troðin í heim­inum er auðvelt að missa sjónar á því jákvæða.  Það má ekki gleyma að fagna þeim mann­rétt­inda­sigrum sem Amnesty Internati­onal hefur stuðlað að með hjálp stuðn­ings­fólks okkar á fyrstu sex mánuðum ársins. Fólk rang­lega í fang­elsi hefur verið leyst úr haldi, órétt­látum lögum hefur verið breytt og valda­fólk hefur verið dregið til ábyrgðar. Hér eru mann­rétt­inda­sigrar til að fagna.

janúar

 

Sýknun þriggja kvenna heldur velli í Póllandi. Þær höfðu verið ákærðar fyrir að  „móðga trúar­skoð­anir“ með dreif­ingu á vegg­spjöldum af Maríu mey með geislabaug í regn­boga­litum líkt og tákn hinsegin fólks. Sýknuninni var áfrýjað og þess krafist að hún yrði felld úr gildi en pólskur dómstóll hafnaði því. Gripið var til rúmlega 276.000 aðgerða í þágu kvenn­anna af stuðn­ings­fólki Amnesty Internati­onal. Mál einnar þeirra var í SMS-aðgerðaneti Íslands­deildar.

Afnám dauðarefs­ing­ar­innar tók gildi í Kasakstan. Þetta er mikil­vægur sigur í baráttu Amnesty Internati­onal gegn dauðarefs­ing­unni. Kasakstan varð 109. ríkið til að afnema dauðarefs­inguna á heimsvísu.  

Háskóla­kenn­arinn, Faizulla Jalal, var hand­tekinn að geðþótta af tali­bönum í Afgan­istan. Hann fékk frelsi á ný í kjölfar herferðar Amnesty Internati­onal. Dóttir Faizulla sagðilausn hans hefði ekki verið möguleg án aðkomu Amnesty Internati­onal. 

 

Varn­ar­mála­ráðu­neyti Banda­ríkj­anna gaf út niður­stöður óháðrar rann­sóknar RAND Corporation sem var fengið til að fara yfir verklag Pentagon um skrán­ingar á mann­falli óbreyttra borgara. Rann­sókn Amnesty Internati­onal um mann­fall óbreyttra borgara af völdum banda­rískra hersveita og banda­manna þeirra í Raqqa í Sýrlandi árið 2017 ýtti undir að farið var fram að á þessi rann­sókn yrði gerð. Vitnað var ítrekað í rann­sókn Amnesty Internati­onal í skýrslu RAND.

Þingið í Gana hafnaði frum­varpi til laga sem leitt hefði til þyngri refs­inga hinsegin fólks. Í frum­varpinu var krafist fang­elsis­vistar fyrir að lýsa stuðn­ingi sínum eða sýna „samúð“ með hinsegin fólki, auk þess sem hvatt var til bæling­ar­með­ferðar á hinsegin fólki og læknisaðgerða á intersex-börnum. Amnesty Internati­onal var á meðal þeirra sem gagn­rýndu frum­varpið. 

Febrúar

 

Eftir nær 30 ára baráttu Amnesty Internati­onal í Slóveníu hefur forseti landsins loks gefið út opin­bera afsökunbeiðni til þúsunda einstak­linga frá öðrum löndum fyrrum Júgó­slavíu sem misstu dval­ar­leyfið sitt eftir að Slóvenía lýsti yfir sjálf­stæði árið 1992. Í kjöl­farið misstu 26.000 einstak­lingar dval­ar­leyfið sitt og rétt­indi í Slóveníu. 

Stjórn­laga­dóm­stóll í Kúveit felldi úr gildi lög sem gerðu það refsi­vert að „herma eftir hinu kyninu“. Amnesty Internati­onal gagn­rýndi þessi lög í ársskýrslu sinni. 

Kólumbía afglæpa­væddi þung­un­arrof fram að 24. viku meðgöngu í kjölfar áratuga­langrar herferðar Amnesty Internati­onal og annarra samtaka. Þessi árangur ýtir enn frekar undir þann meðbyr með kyn-og frjó­sem­is­rétt­indum sem á sér stað að undan­förnu í Rómönsku-Ameríku. Þungun­arrof var lögleitt í Argentínu árið 2020 og afglæpa­vætt í Mexíkó árið 2021.  

Dipti Rani Das, 17 ára stúlka frá Bangla­dess sem tilheyrir minni­hluta­hópi Hindúa, var leyst úr haldi eftir 16 mánuði í fangelsi fyrir Face­book-færslu. Mál hennar var meðal annars eitt af málum SMS-aðgerðanets Íslands­deildar Amnesty Internati­onal.  

 

 

Í Hond­úras voru Guap­inol 8, átta samviskufangar og baráttu­menn fyrir rétt­inum til vatns, leystir úr haldi án skil­yrða eftir tvö og hálft ár í fang­elsi. Amnesty Internati­onal barðist fyrir frelsi þeirra í rúmt ár og vakti athygli á órétt­mæti fang­elsis­vist­ar­innar. 

Mars

 

Mann­rétt­indaráð Sameinuðu þjóð­anna fram­lengdi umboð ráðsins yfir Suður-Súdan. Það er eina leiðin eins og er til að safna saman sönn­un­ar­gögnum svo hægt sé að draga gerendur til ábyrgðar síðar meir. Amnesty Internati­onal þrýsti á að umboðið yrði fram­lengt með opin­berum bréfum og fundum.  

Tveir einstak­lingar úr árlegu herferð Amnesty Internati­onal, Þitt nafn bjargar lífi, voru leystir úr haldi. Bern­ardo Caal Xol, samviskufangi og Maya-frum­byggi í Gvatemala, var leystur úr haldi eftir að hafa verið fang­els­aður fyrir baráttu sína fyrir umhverfinu. Í Suður-Súdan var Magai Matiop Ngong, leystur úr haldi en hann var 15 ára þegar hann var dæmdur til dauða árið 2017. Hann var leystur úr haldi eftir að hæstiréttur komst að þeirri niður­stöðu að hann hefði verið barn að aldri þegar glæp­urinn átti sér stað.

 

Bern­ardo Caal Xol með fjöl­skyldu sinni eftir að hann var leystur úr haldi

Apríl

 

Árið 2018 fór fram herferð í þágu Tayebe Abassi, afganskrar 18 ára stúlku sem bjó í Noregi. Hún og fjöl­skylda hennar stóðu frammi fyrir brott­vísun til Afgan­istan þrátt fyrir að hafa búið í Noregi frá árinu 2012. Í apríl fékk móðir Tayebe loksins dval­ar­leyfi sem veitir henni rétt til að vera nálægt börnum sínum í Noregi. Tayebe deildi þessum skila­boðum til að þakka Amnesty Internati­onal: Ég vildi spyrja ykkur hvort það væri mögu­legt að ég gæti sent þakk­arorð til Amnesty Internati­onal og allra þeirra sem studdu mig og fjöl­skyldu mína í erfiðleikum okkar. 

Papúa Nýja-Gínea afnam dauðarefs­inguna í landinu, 30 árum eftir að hún var tekin upp að nýju árið 1991. Þetta var enn einn sigurinn í baráttu Amnesty Internati­onal fyrir afnámi dauðarefs­ing­ar­innar á heimsvísu. 

Í kjölfar herferðar og þrýst­ings frá Amnesty Internati­onal ásamt öðrum borg­ara­legum samtökum náði Evrópu­sam­bandið póli­tísku samkomulagi um löggjöf um netþjón­ustu (e. DSA, Digital Service Act). Þessi reglu­gerðarrammi markar tímamót þar sem tækn­irisar þurfa að meta og stýra kerf­is­bundinni áhættu í þjón­ustu þeirra, meðal annars því sem tengist hvatn­ingu til haturs og dreif­ingu misvís­andi upplýs­inga.  

Ibramhim Ezz el-Din, samviskufangi, var leystur úr haldi í Egyptalandi. Mál hans var hluti af árlegu herferð okkar, Þitt nafn bjargar lífi 2019. 

Í kjölfar rann­sóknar Amnesty Internati­onal og samstarfs­aðila hófu yfirvöld í Malí að rann­saka aðgerðir gegn hryðju­verkum í borginni Mouraþar sem að minnsta kosti 203 létu lífið. Niður­stöður rann­sóknar Amnesty og samstarfs­aðila, sem byggðar voru á vitn­is­burði sjón­ar­votta, sýndu að tugir óbreyttra borgara létu lífið í aðgerðunum og margir þeirra voru myrtir. 

 

Mansour Atti, fjöl­miðla­maður, bloggari og aðgerðasinni, var leystur úr haldi eftir tíu mánuði í haldi í Líbíu. Hann sætti þvinguðu manns­hvarfi þar sem ekki var vitað um afdrif hans allan þennan tíma. Amnesty Internati­onal gaf út ákall, yfir­lýs­ingu og frétta­til­kynn­ingu um mál hans og hvatti stuðn­ings­fólk til að skrifa undir ákallið, senda bréf og kalla eftir lausn hans á samfé­lags­miðlum.

 

Mansour Atti

Maí

Frum­varp um mikil­vægar aðgerðir til að koma í veg fyrir og ákæra nauðg­anir var samþykkt á spænska þinginu. Kvenhreyf­ingar á Spáni og aðgerða­sinnar Amnesty Internati­onal hafa lengi barist fyrir þeim breyt­ingum að samþykki í forgrunni í lögunum. 

Í Gíneu hófst rann­sókn á fyrrum póli­tískum leið­togum og lögreglu­stjórum fyrir  þvinguð manns­hvörf, varðhöld að geðþótta og pyndingar og brot á rétt­inum til lífs í kjölfar stjórn­ar­kreppu árið 2020. Amnesty Internati­onal hefur ítrekað kallað eftir því að refsi­leysi fyrir þessi mann­rétt­inda­brot verði ekki látið viðgangast og fordæmt morð á mótmæl­endum og geðþótta­hand­tökur póli­tískra aðgerða­sinna. 

 

Örygg­isráð Sameinuðu þjóð­anna fram­lengdi vopna­við­skipta­bann við Suður-Súdan um eitt ár. Amnesty Internati­onal átti þátt í að þetta náðist í gegn með rann­sóknarskýrslu sinni og þrýst­ingi við aðild­ar­ríki á vett­vangi Sameinuðu þjóð­anna. 

Daginn eftir að Amnesty Internati­onal gaf út árlega skýrslu um dauðarefs­inguna tilkynnti forseti Sambíu að hafið væri ferli í átt að afnámi dauðarefs­ing­ar­innar.  

Jákvætt skref fyrir tján­ing­ar­frelsi á Indlandi var tekið þegar hæstiréttur landsins felldi úr gildi 152 ára gömul uppreisn­arlög.   

Júní

 

Stjórn­völd í Malasíu tilkynntu að hafið væri ferli til að afnema lögbundna dauðarefs­ingu fyrir 11 glæpi, þar á meðal fyrir vímu­efna­brot. Þetta er enn einn sigurinn í baráttu Amnesty Internati­onal fyrir afnámi dauðarefs­ing­ar­innar. 

 

Við þökkum öllu stuðn­ings­fólki Amnesty Internati­onal kærlega fyrir stuðn­inginn. Samstaða skiptir máli!

Lestu einnig