Góðar fréttir
24. janúar 2025Mannréttindabaráttan leiðir til jákvæðra breytinga. Sigrarnir eru margs konar. Breytingar eru gerðar á löggjöf sem bæta stöðu mannréttinda, einstaklingar sem eru ranglega fangelsaðir fá frelsi á ný og réttlæti nær fram að ganga. Hér má lesa um fjölmarga sigra frá seinni helmingi ársins 2024 sem ber að fagna.
Júlí
Sýrland:
Sjálfstæð yfirvöld í norðausturhluta Sýrlands tilkynntu sakaruppgjöf fyrir karlmenn, konur og börn sem voru dæmd í afar ósanngjörnum réttarhöldum fyrir hryðjuverk. Um var að ræða sömu tilmæli og Amnesty International hafði kallað eftir í skýrslu sinni um norðausturhluta Sýrlands í apríl. Þessi sakaruppgjöf leiðir til þess að um 4.200 Sýrlendingar sem höfðu ekki framið ofbeldisglæpi verða leystir úr haldi eða dómur þeirra styttur um helming.
Gambía:
Gambíska þingið hafnaði frumvarpi um að fella úr gildi lög frá árinu 2015 sem banna limlestingu á kynfærum kvenna. Í samvinnu við borgaraleg samtök í Gambíu þrýsti Amnesty International á yfirvöld að hafna frumvarpinu með því að senda frá sér fréttatilkynningu, fara í fjölmiðlaviðtöl og skrifa yfirvöldum bréf.
Suður-Kórea:
Tímamótaniðurstaða hæstaréttar Suður-Kóreu staðfesti að nýju rétt samkynhneigðra para til heilsutryggingar til jafns við gagnkynhneigð pör í kjölfar áfrýjunar. Hæstiréttur hafði áður komist að þessari niðurstöðu en málinu var áfrýjað og var fyrri niðurstaða staðfest. Amnesty International í Suður-Kóreu fagnaði árangrinum eftir að hafa fylgt málinu eftir með því að senda hæstarétti umsögn.
©Amnesty í Suður-Kóreu
Rússland:
Dmitry Skurikhin var leystur úr haldi í Rússlandi eftir að hafa afplánað 18 mánaða dóm fyrir að mála skilaboð fyrir framan búð sína þar sem hann mótmælti stríðinu í Úkraínu. Í ágúst árið 2022 útbjó Dmitry skilti með áletruninni: „Rússland, vaknið! Stöðvið þessa vitfirrtu, fölsku, fyrirlitlegu, skammarlegu hernaðaraðgerð!“ og hengdi upp fyrir framan verslun sína.
Hann fékk 18 mánaða dóm fyrir brot á ritskoðunarlögum um hernað sem sett voru á stuttu eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Eitt af ákvæðum laganna gerir það refsivert „að koma óorði á herafla Rússlands“. Mál hans var eitt af málunum í netákalli Íslandsdeildar Amnesty International í apríl 2024.
Dmitry Skurikhin var leystur úr haldi 26. júlí 2024.
Ágúst
Benín:
Amnesty International vakti athygli að því í byrjun ágúst 2024 að fangar í Benín þyrftu að dúsa í skítugum og yfirfullum fangaklefum og að þeim væri neitað um hreint vatn og læknismeðferð. Að minnsta kosti 46 fanga létu lífið í fjórum fangelsum frá janúar til júlí árið 2023 samkvæmt gögnum Amnesty International. Fjölmiðlar jafnt innanlands sem og erlendis fjölluðu um málið.
Þann 19. ágúst lagði fjöldi þingmanna úr stjórnarandstöðu fram spurningar til stjórnvalda um dauðsföll í fangelsum, aðgengi fanga að heilbrigðisþjónustu og varðhald lengur en þau fimm ár sem lög heimila. Í september staðfesti forstjóri fangelsismálastofnunar slæmar aðstæður í yfirfullum fangelsum. Í sama mánuði fengu fangelsisstjórar og heilbrigðisstarfsfólk þjálfun í meðferð á föngum til samræmis við Bangkok-reglur Sameinuðu þjóðanna.
Taívan:
Fjölskyldumeðlimum 24 víetnamskra umsækjanda um alþjóðlega vernd í Taívan sem drepnir voru af taívanska hernum í Kinmen árið 1987 var boðið af ríkisstjórninni í sáttaleiðangur til Taívan. Amnesty International í Taívan studdi mál þeirra.
Mósambík:
Árið 2020 slösuðust sex mótmælendur alvarlega eftir að lögregla beitti skotvopnum gegn þeim nálægt Bahine-þjóðgarðinum. Ári síðar birti Amnesty International gögn um málið þar sem kallað var eftir ítarlegri rannsókn á atburðinum af hálfu yfirvalda. Það leiddi til þess að stjórnvöld gripu til lagalegra aðgerða og endaði með því að í ágúst 2024 voru sex lögreglumenn dæmdir fyrir óhóflega beitingu skotvopna.
Pólland:
Eftir áralanga baráttu hugrakkra kvenna í Póllandi voru lög samþykkt þar sem skilgreining á nauðgun var breytt. Nauðgun er nú skilgreint sem kynlíf án samþykkis án skilyrðis um beiting ofbeldis. Pólland er 19. landið í Evrópu til að skilgreina nauðgun með þessum hætti úr hópi 31 lands sem Amnesty International hefur skoðað.
Tæland:
Stjórnvöld drógu til baka fyrirvara á 22. grein Barnasáttmálans í ágúst 2024. Þar með var réttur flóttabarna til viðeigandi verndar og mannúðlegrar aðstoðar tryggður.
Rússland:
Aleksandra (Sasha) Skochilenko er listakona sem gagnrýndi stríðið í Úkraínu. Hún fékk frelsi á ný í ágúst í sögulegum fangaskiptum í kjölfar mikils þrýstings. Þýskaland, Noreg, Pólland, Slóveníu og Bandaríkin sömdu við Rússland og Belarús um fangaskiptin.
Rússnesk yfirvöld handtóku Söshu í apríl 2022 í kjölfar þess að hún skipti verðmiðum í matvöruverslun út fyrir upplýsingum um innrás Rússlands í Úkraínu. Hún var ákærð fyrir að dreifa „fölskum upplýsingum um beitingu herafla Rússlands.“
„Ég vil lýsa yfir gífurlegu þakklæti til Amnesty International. Það er erfitt að koma orðum að þakklæti mínu því að stórum hluta er það ykkur að þakka að ég sé hér.“
Aleksandra Skochilenko
Maung Sawyeddollah
Mjanmar:
Í ágúst 2017 hóf herinn í Mjanmar að fremja þjóðernishreinsanir á Róhingjum. Af ótta um líf sitt flúði Maung Sawyeddollah, 15 ára gamall, með fjölskyldu sinni til Bangladess í Cox´s Bazar flóttamannabúðirnar.
Sawyeddollah hefur barist fyrir því að fyrirtækið Meta, sem á Facebook, taki ábyrgð á hlut sínum sem leiddi til grimmdarverka gegn Róhingjum. Hatursorðræða þar sem hvatt var með beinum hætti til ofbeldis og mismununar gegn Róhingjum fékk víðtæka dreifingu á Facebook sem kynti undir ofbeldi hersins í Mjanmar.
Árið 2023 var öryggi Sawyeddollah ógnað í flóttamannabúðunum. Amnesty International, í samstarfi við tvö önnur samtök, vann að því að koma honum í öruggt skjól. Í ágúst 2024 fékk Sawyeddollah námsmannaáritun til Bandaríkjanna og stundar hann nú nám við háskólann í New York. Hann er fyrsti Róhinginn úr flóttamannabúðunum í Bangladess til að fá námsmannaáritun.
September
Búlgaría:
Amnesty International í Búlgaríu, ein nýjasta deild samtakanna, fagnaði tveimur sigrum í september í kjölfar þrýstings frá deildinni. Frumvarp um skráningu erlendra ríkiserindreka sem hefði haft veruleg áhrif á frjáls félagasamtök var fellt í menningar- og fjölmiðlanefnd þingsins. Þingið hafnaði einnig breytingum á lögum sem hefði gert meðferð við kynama barna refsiverða.
Tógó:
Amnesty International gaf út fréttatilkynningu sumarið 2023 sem vakti athygli á manneklu og skorti á sjúkravörum á ákveðnum heilsugæslustöðvum sem sinna þunguðum konum og nýburum. Í september 2024 tilkynntu stjórnvöld um fjölgun starfsfólks og í ágúst var búið að bæta við 7.700 rúmum og 100 fæðingarbekkjum ásamt sjúkrabílum og talstöðvum fyrir fæðingardeildir.
Japan:
Löngu tímabær dómsúrskurður var gefinn út þegar Hakamada Iwao, fangi sem vistaður hefur verið lengst á dauðadeild í heiminum, var sýknaður. Hann var næstum hálfa öld ranglega fangelsaður eftir að hafa verið dæmdur til dauða. Auk þess beið hann í tíu ár eftir nýjum réttarhöldum. Úrskurðurinn er mikilvæg viðurkenning á óréttlætinu sem hann mátti þola hálfa ævi sína. Þar með lauk langri baráttu systur hans fyrir hreinsun nafns hans. Amnesty International barðist í 15 ár fyrir því að hann fengi ný réttarhöld.
Iwao Hakamada frá Japan. Mynd: KAZUHIRO NOGI/AFP via Getty Images
Október
Frakkland:
Amnesty International gaf út skýrslu áður en Ólympíuleikarnir í París hófust sem sýnir hvernig það brýtur í bága við alþjóðleg mannréttindalög að frönskum íþróttakonum sé bannað að nota höfuðslæðu í keppnisíþróttum. Í október vísuðu Sameinuðu þjóðirnar í skýrsluna þegar kallað var eftir því að bannið yrði dregið til baka þar sem það mismunaði fólki og teldist óhóflegt.
Alþjóðlegt:
Í lok október hafði alþjóðlegur neyðarsjóður Amnesty International stutt um 4.700 einstaklinga í 79 löndum með því að veita fjárstuðning fyrir fólk í hættu meðal annars með því að greiða fyrir lögfræðiþjónustu, læknisþjónustu og sálrænan stuðning og öryggisráðstafanir. Auk þess studdi sjóðurinn baráttufólk í mannréttindabaráttu.
Sádi-Arabía:
Amnesty International vakti athygli á brotum á vinnurétti í stórmörkuðum undir nafni Carrefour í Sádi-Arabíu. Í kjölfarið gerði franski stórmarkaðsrisinn Carrefour og sérleyfishafinn Majid Al Futtaim rannsókn á meðferð erlends verkafólks á vegum þeirra. Majid Al Futtaim sagðist hafa fært starfsfólk í nýtt húsnæði og verið væri að yfirfara stefnur um yfirvinnu og ráðningargjald ásamt því að veita starfsfólki aðgang að hjálparlínu. Amnesty International heldur áfram að þrýsta á Carrefour að sjá til þess að starfsfólk geti leitað réttar síns þar sem líkur eru á að sumt starfsfólk hafi verið þvingað til vinnu eða þolendur mansals.
Argentína:
Pierina Nochetti, hinsegin aðgerðasinni frá Necochea í Argentínu, var ákærð fyrir veggjakrot þar sem skrifað var: Hvar er Tehuel? Tilgangurinn var að kalla eftir réttlæti fyrir Tehuel de la Torre, ungs trans manns sem hvarf árið 2021. Þessi skilaboð voru skrifuð þegar gleðiganga hinsegin fólks átti sér stað árið 2022. Þrátt fyrir að veggurinn sem skrifað hafi verið á sé mikið notaður fyrir opinbera tjáningu var herjað á Pierina. Hún átti yfir höfði sér fangelsisvist fyrir „alvarlegt skemmdarverk“. Amnesty International studdi mál hennar og lagði áherslu á tjáningar- og fundafrelsið. Ákærur voru felldar niður og málinu var lokað.
Pierina Nochetti
Nóvember
Tyrkland:
Frumvarp um njósnalög var dregið til baka þökk sér baráttu Amnesty International í Tyrklandi í samvinnu við önnur borgaraleg samtök. Tyrkneska borgaralega samfélagið stóð saman gegn frumvarpinu sem hefði haft alvarlegar afleiðingar fyrir starf frjálsra félagasamtaka og samfélagsins í heild.
Danmörk:
Í kjölfar þrýstings frá Amnesty International getur Danmörk lögsótt stríðsglæpamenn að fullu innan eigin lögsögu vegna nýrra laga. Lögunum er ætlað að hindra að stríðsglæpamenn sleppi undan refsingu. Lögin veita dönskum dómstólum heimild til að lögsækja einstaklinga fyrir alþjóðlega glæpi eins og pyndingar, stríðglæpi og glæpi gegn mannúð.
Fílabeinsströndin:
Viðamiklar aðgerðir hófust í janúar 2024 til að rífa niður hverfi og flytja á brott íbúa þess. Þessi aðgerð var hluti af stórri aðgerðaáætlun um að rífa niður 176 svæði og hverfi sem talin eru í flóðahættu. Í ágúst vakti Amnesty International athygli á mannréttindabrotum sem tengdust tugi þúsunda einstaklinga.
Þvinguðu brottflutningarnir áttu sér stað án viðunandi og sanngjarns fyrirvara. Í sumum tilfellum var ofbeldi beitt. Þúsundir fjölskyldna höfðu í lok árs ekki fengið nýtt húsnæði eða bætur fyrir húsnæðismissinn í kjölfar þvingaðra brottflutningana. Í nóvember á þessu ári höfðu engin önnur svæði af þessum 176 í aðgerðaáætluninni verið rifin niður og yfirvöld tilkynntu að hætt yrði við frekari brottflutninga.
Indland:
Í kjölfar þrýstings frá Amnesty International urðu tímamót þegar hæstiréttur Indlands úrskurðaði í tveimur málum að það væri ólögmætt að rífa niður heimili og eignir fólks í refsingarskyni. Yfirvöld hafa beitt þessum aðgerðum einna helst gegn múslímskum minnihlutahópum á Indlandi. Þessi sigur er mikilvægur til að koma í veg fyrir slíkar ólögmætar aðgerðir.
Rústir vegna niðurrifs. Mynd: Raj K Raj/Hindustan Times via Getty Images
Suður-Kórea:
Í kjölfar skýrslu Amnesty Internationalþar sem lýst var yfir áhyggjum af mannréttindum í tengslum við endurhlaðanlegar rafhlöður fór teymi frá Amnesty International til Suður-Kóreu, Taívan og Japan til að hitta bíla- og rafhlöðuframleiðendur ásamt því að ræða við fulltrúa löggjafarvalds og borgaralegs samfélags. Jongdeok Jeon, fulltrúi löggjafarvalds i Suður-Kóreu skrifaði á Facebook eftir fundinn við Amnesty International: „Ríkisstjórnin verður að taka sig á og tryggja að fyrirtæki taki á mannréttindabrotum með skynsamlegum og virkum hætti. “ Árið 2025 stendur til að leggja fram frumvarp í Suður-Kóreu um lögboðna áreiðanleikakönnun um mannréttindi og umhverfismál.
Þýskaland:
Ný lög tóku gildi í Þýskalandi sem veita trans fólki, kynsegin fólki og intersex fólki rétt til að skrá kyn sitt í þjóðskrá. Amnesty International í Þýskalandi barðist fyrir þessum réttindum. Nýju lögin koma í stað laga frá 1980 sem skyldaði trans fólk til að gangast undir geðmat og fara með mál fyrir dómstóla til að breyta kynskráningu.
Bandaríkin:
Amnesty International átti þátt í að tillaga 139 var samþykkt af íbúum Arizona með 62% atkvæða. Um er að ræða breytingartillögu sem tryggir rétt til þungunarrofs í stjórnarskrá Arizona. Breytingartillagan ógildir takmarkanir á þungunarrofi og bannar refsingu fyrir að aðstoða við þungunarrof. Þessi sögulegi árangur sýnir mikilvægi grasrótar, samtakamáttar og stuðnings Amnesty International því aldrei áður hafa safnast jafnmargar undirskriftir frá atkvæðisbærum íbúum Arizona.
Mótmæli Amnesty International í Bandaríkjunum í mars 2024.
Desember
Belgía:
Söguleg þáttaskil urðu þegar Belgía var dæmt fyrir glæpi gegn mannúð á nýlendutímum. Í kjölfar þrýstings Amnesty International og African Futures Lab viðurkenndi áfrýjunardómstóll Brussel að belgíska ríkið bæri ábyrgð á mannráni og kynþáttaaðskilnaði Métis-barna á nýlendutíma Belgíu. Fimm Métis-konur fæddar á árunum 1948-1952 í Belgísku Kongó hófu málsókn gegn belgíska ríkinu. Þær töpuðu málinu fyrst árið 2021 en fóru með mál sitt fyrir áfrýjunardómstól Brussel til að ná fram réttlæti og krefjast skaðabóta.
Alþjóðlegt:
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York innleiddi ályktun án kosninga sem fyrirskipar formlegar samningaviðræður um sáttmála til að fyrirbyggja og refsa fyrir glæpi gegn mannúð. Um er að ræða mál sem Amnesty International hefur lengi þrýst á innan Sameinuðu þjóðanna. Áætlað er að vinna að sáttmálanum verði á tímabilinu 2026-2029. Slíkur sáttmáli verður til þess að styrkja alþjóðlegt réttlæti og tryggja nýjar leiðir og samvinnu milli ríkja gegn glæpum gegn mannúð. Að auki tryggir sáttmálinn færri „örugga staði“ fyrir gerendur og verður mikilvægur til að draga úr refsileysi.
Simbabve:
Forseti Simbabve skrifaði undir lög um afnám dauðarefsingarinnar á lokadegi ársins 2024. Amnesty International fagnar þessu mikilvæga skrefi en þykir miður að í lögunum er ákvæði um að endurvekja megi dauðarefsinguna í neyðarástandi. Nú hafa 24 lönd í Afríku afnumið dauðarefsinguna að fullu og 113 lönd a heimsvísu.
Angóla:
Forseti Angóla tilkynnti á jóladag náðun Neth Nahara og fjögurra annarra gagnrýnenda stjórnvalda. Neth Nahara er TikTok-stjarna sem gagnrýndi forsetann opinskátt á TikTok í ágúst 2023. Mál hennar var eitt málanna í árlegri og alþjóðlegri herferð okkar, Þitt nafn bjargar lífi, í lok árs 2024. Neth Nahara var leyst úr haldi á nýársdag eftir 16 mánaða fangelsisvist. Hinir gagnrýnendurnir sem voru handteknir í september 2023 voru leystir úr haldi 6. janúar 2025. Amnesty International kallaði eftir lausn þeirra allra.
Neth Nahara
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu