Góðar fréttir

31. júlí 2023

Mann­rétt­inda­sigrar það sem af er ári 2023

Amnesty Internati­onal og stuðn­ings­fólk okkar hefur átt þátt í að bjarga lífum, breyta lögum og vernda mann­rétt­indi það sem af er árinu 2023. Árangur hefur náðst á ýmsum sviðum. Mann­rétt­inda­sigrar í lofts­lags­málum, tækni, fyrir hinsegin rétt­indi, rétt­indi flótta­fólks, kven­rétt­indi, gegn dauðarefs­ing­unni ásamt því að fangar sem hafa verið rang­lega fang­els­aðir hafa verið leystir úr haldi og stjórn­völd dregin til ábyrgðar.  

Breytingar á lögum

Banda­ríkin 

Amnesty Internati­onal í Banda­ríkj­unum hefur unnið hörðum höndum að því að binda enda á byssu­of­beldi í landinu. Í Illinois og Michigan átti Amnesty Internati­onal þátt í því að lög um byssu­ör­yggi voru samþykkt. Illinois er níunda ríki landsins til að banna árás­ar­vopn og Michigan hefur sett á kröfu um bakgrunns­skoðun fyrir kaup á öllum skot­vopnum. 

Ástr­alía 

Í kjölfar herferðar Amnesty Internati­onal og annarra samtaka var lagt fram frum­varp um hækkun sakhæfis­aldurs úr tíu ára í tólf ára og hækka hann svo í 14 ára aldur í júlí 2025. „Síbrota­börn“ geta þó áfram sætt líkams­leit, rétt­ar­höldum og fang­elsis­vist. Frum­byggja­börn í Ástr­alíu eru í einna viðkvæm­ustu stöð­unni í rétt­ar­kerfinu og er meiri­hluti barna í fang­elsi úr hópi þeirra.   

Evrópu­sam­bandið 

Lönd innan Evrópu­sam­bandsins innleiddu í maí Ljubljana-Haag sátt­málann um alþjóð­legt samstarf um rann­sóknir og saksóknir vegna hópmorða, glæpa gegn mannúð, stríðs­glæpa og annarra alþjóð­legra glæpa. Full­trúar Amnesty Internati­onal voru viðstaddir ráðstefnu um málið til að vekja athygli á vanköntum og koma með tilmæli. 

Þetta er stór sigur fyrir Amnesty Internati­onal sem unnið hefur að sátt­mál­anum í tíu ár. Fjöl­mörg tilmæli frá samtök­unum eru í sátt­mál­anum. 

Dauðarefsingin

Malasía 

Í byrjun júlí voru tekin jákvæð skref í átt að afnámi dauðarefs­ing­ar­innar í Malasíu þegar lög um afnám lögbund­innar dauðarefs­ingu tóku form­lega gildi. Nú er ekki lengur sjálf­krafa dæmt til dauða fyrir ákveðin brot og að auki hefur dauðarefs­ingin verið afnumin fyrir sjö tegundir glæpa. Einnig voru samþykkt lög þess efnis að fangar geti óskað eftir endur­skoðun á dauða­dómi sem var kveðinn upp þegar lögbundin dauðarefsing var enn í gildi. Ekki er enn ljóst hvenær þessi lög taka gildi þar sem ekki er búið að gefa út opin­ber­lega tilkynn­ingu um það. Amnesty Internati­onal hefur lengi barist gegn dauðarefs­ing­unni og fagnar því þessu jákvæða skrefi í Malasíu.  

Gana 

Þingið í Gana samþykkti nú í júlí að afnema dauðarefs­inguna úr lögum. Forseti landsins þarf nú að skrifa undir lögin sem allra fyrst. Amnesty Internati­onal kallar einnig eftir því að stjórn­völd þar í landi afnemi dauðarefs­inguna einnig úr stjórna­skránni.  

Hinsegin réttindi

Ísland 

Í júní voru lög samþykkt sem banna bæling­ar­með­ferð. Þar með er bannað að neyða, blekkja eða hóta einstak­lingum til að fá þá til að undir­gangast meðferð í þeim tilgangi að bæla niður og breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntján­ingu. Ísland bættist í hóp rúmlegra þrjátíu landa sem nú þegar hafa bannað þessa grimmi­legu meðferð.  

Íran 

Zahra Sedighi-Hama­dani var dæmd til dauða árið 2022 fyrir að styðja hinsegin rétt­indi. Amnesty Internati­onal kallaði eftir lausn hennar og eftir rúmt ár í fang­elsi var hún að lokum leyst úr haldi. Mál hennar var í SMS-aðgerðaneti Íslands­deild­ar­innar.  

Ástr­alía 

Queens­land-fylki í Ástr­alíu samþykkti lög í júní um að fjar­lægja hindr­anir við uppfærslu fæðing­ar­skír­teinis. Þessi lög þýða að kynsegin fólk neyðist ekki lengur til að fara í kynleið­rétt­ingu til að leið­rétta kynskrán­ingu sína. Þetta er fagn­að­ar­efni þar sem Amnesty Internati­onal hefur barist fyrir hinsegin rétt­indum í Queens­land-fylki í samstarfi við önnur samtök.  

 

Taívan 

Stórt skref fram á við fyrir rétt­indi hinsegin fólks var tekið í Taívan fyrr á árinu. Þrátt fyrir að Taívan væri eitt af fyrstu löndum í Asíu til að leyfa hjóna­bönd samkyn­hneigðs fólks árið 2019 var ekki leyfi­legt fyrir fólk af sama kyni að gifta sig ef annar aðilinn væri frá landi þar sem slík hjóna­bönd væru bönnuð. Stjórn­völd tilkynntu fyrr á árinu að það væri nú leyfi­legt. Að auki var samþykkt að samkyn­hneigt fólk í hjóna­bandi mætti ættleiða börn. Amnesty Internati­onal í Taívan hefur unnið í þágu hinsegin rétt­inda í samstarfi við aðra hópa til að tryggja þessi rétt­indi þar í landi. 

Eist­land 

Í júní voru lög samþykkt sem leyfa hjóna­band samkyn­hneigðs fólks í Eistlandi.  

 

Suður-Kórea 

So Seong-wook og maki hans Kim Yong-min héldu brúð­kaups­veislu árið 2019 og höguðu lífi sínu eins hjón. En hjóna­bönd samkyn­hneigðs fólks eru ekki lögleg í Suður-Kóreu og því höfðu þeir ekki sömu rétt­indi og gagn­kyn­hneigð hjón, til dæmis þegar kemur að heil­brigð­is­þjón­ustu.  

Í kjölfar herferðar með stuðn­ingi frá Amnesty Internati­onal voru þeir fyrsta samkynja parið til að skrá hvorn annan sem nánasti aðstand­andi í heil­brigðis­kerfinu. Átta mánuðum síðar var skráning þeirra gerð ógild. Farið var með málið fyrir dómstóla og að lokum fyrir­skipaði hæstiréttur í Suður-Kóreu að heil­brigðis­kerfið verði að leyfa samkynja maka að fá sameig­in­legan aðgang að heil­brigð­is­þjón­ustu. Þetta er fram­fara­skref fyrir rétt­indi hinsegin fólks þar í landi.  

 

So Seong-wook og Yong-min Kim fyrir utan hæsta­rétt Suður-Kóreu

Tækni

Alþjóð­legt 

Í mars á þessu ári uppgötvaði tækni­deild Amnesty Internati­onal njósna­hug­búnað sem herjaði á Android-kerfi frá Google og iOS-kerfi iPhone. Google og Apple voru látin vita. Google gat í samstarfi við aðra sölu­aðila Android, eins og Samsung, gert uppfærslu til að vernda notendur gegn þessari hakkárás og Apple gat lagað þetta hjá sér.  

Suður-Kórea 

Hæstiréttur Suður-Kóreu komst að þeirri niður­stöðu eftir níu ára máls­með­ferð að Google yrði að gefa upp hvort að persónu­legar upplýs­ingar baráttu­fólks fyrir mann­rétt­indum, eins og netföng, hefðu verið send til leyni­þjón­ustu Banda­ríkj­anna. Á meðal þeirra voru aðgerða­sinnar Amnesty Internati­onal í Kóreu. Þessar niður­stöður draga fyrir­tæki á borð við Google til ábyrgðar vegna rétt­arins til persónu­verndar. 

Banda­ríkin 

Njósna­hug­bún­aður getur haft áhrif á mann­rétt­indi í fram­tíð­inni. Amnesty Internati­onal hefur kallað eftir alþjóð­legu banni gegn njósna­hug­búnaði. Biden, Banda­ríkja­for­seti, skrifaði undir forseta­til­skipun í mars um að takmarka notkun njósna­hug­bún­aðar hjá stjórn­völdum Banda­ríkj­anna. Þremur dögum síðar tilkynntu 11 ríkis­stjórnir til viðbótar að þær myndu sameina krafta sína til að hindra útbreiðslu og misbeit­ingu njósna­hug­bún­aðar.  

  

Herferðin Þitt nafn bjargar lífi

Simbabve 

Cecillia Chim­biri og Joanah Mamombe voru sýkn­aðar af ákæru um svið­setn­ingu mann­ráns í júní. Þær voru hand­teknar og numdar á brott í kjölfar mótmæla árið 2020. Við fögnum sýknun þeirra en draga þarf gerendur mann­ráns þeirra til ábyrgðar. Mál þeirra var í Þitt nafn bjargar lífi 2022. 

Egypt­land 

Mohamed el-Baqer mann­rétt­inda­lög­fræð­ingur og Parick Zaki rann­sak­andi voru leystir úr haldi í júlí og hafa sameinast ástvinum sínum á ný. Þeir hefðu aldrei átt að sitja í fang­elsi. Mál Mohamed var hluti af okkar árlegu og alþjóð­legu herferð, Þitt nafn bjargar lífi, árið 2021. Enn eru þúsundir rang­lega í haldi fyrir að tjá skoð­anir sínar í Egyptalandi sem stjórn­völd verða leysa úr haldi. 

Tyrk­land 

Í júní var sakfelling Taner Kılıç og Idil Eser, formanni og fyrrum fram­kvæmda­stjóra Amnesty Internati­onal í Tyrklandi, felld úr gildi. Amnesty Internati­onal fylgdist vel með rétt­ar­höldum þeirra og hafði lengi barist fyrir máli þeirra þar sem sakfell­ing­arnar voru af póli­tískum rótum runnar. Mál þeirra var einnig í Þitt nafn bjargar lífi 2017.

 

Cecillia Chim­biri og Joanah Mamombe fagna niður­stöð­unni.

Lausn fanga

Banda­ríkin 

Majid Khan, Ahmed Rahim Rabbani, Abdul Rahim Rabbani, Ghassan al-Sharbi og Said Bakush voru leystir úr haldi úr Gvant­anamó-fanga­búð­unum fyrr á árinu eftir áratuga­langa varð­haldsvist að geðþótta.  

Fyrrum fangi, Mansoor Adayfi, sem var leystur úr haldi og sendur til Serbíu árið 2016 gat einnig ferðast á ný eftir 21 ár til að taka þátt í málþingi í Noregi í júní eftir að Amnesty Internati­onal gat hjálpað honum að fá vega­bréf frá Jemen. 

„Ég vil þakka Amnesty Internati­onal fyrir störf sín í þágu fyrrum fanga Gvant­anamó og í þágu mann­úðar vegna þess að Amnesty Internati­onal er í forystu í barátt­unni gegn pynd­ingum, kúgun, órétt­læti um heim allan. Ég heyrði í fyrsta sinn um Amnesty Internati­onal í Gvant­anamó, lögfræð­ingar komu með skýrslur og bréf handa okkur. Það að vita að einhver þarna úti  standi með manni, berst fyrir mann og kallar eftir lausn manns, hjálpar til við að finnast maður vera mennskur. Það gefur von.“

Mansoor Adayfi 

Bangla­dess 

Fjöl­miðla­mað­urinn Shams­uzzaman Shams var hand­tekinn þann 29. mars fyrir að birta grein um áhrif krepp­unnar í landinu. Ekki var vitað hvar hann var í tíu klukku­stundir þar til lögregla stað­festi að hann væri í haldi á grund­velli grimmi­legra netör­ygg­is­laga. Amnesty Internati­onal greip til skyndi­að­gerðar í máli hans og í byrjun apríl var Shams­uzzaman leystur úr haldi gegn trygg­ingu sem er mjög óvenju­legt þar sem flestir fangar sæta löngu gæslu­varð­haldi. Amnesty Internati­onal hefur lengi barist gegn netör­ygg­is­lög­unum í Bangla­dess.

Íran 

Mótmæl­end­urnir Arshia Takdastan, Mehdi Mohamma­difard og Javad Rouhi voru dæmdir til dauða eftir gífur­lega ósann­gjörn rétt­ar­höld fyrir það eitt að tjá sig um dauða Möhsu Amini sem dó í kjölfar varð­halds. Mál þeirra var hluti af skyndi­að­gerðaneti Amnesty Internati­onal þar sem kallað var eftir því að dauða­dómur þeirra yrði mild­aður. Í maí 2023 felldi hæstiréttur dauða­dóminn úr gildi og dró sakfell­ingu þeirra til baka. Síðar í sama mánuði tilkynnti lögfræð­ingur Arshia á Twitter að hann hefði verið leystur úr haldi gegn trygg­ingu.   

 

 

Íran/Aust­ur­ríki

Kamran Ghaderi og Massud Mossaheb eru með austurískan og íranskan ríkis­borg­ara­rétt og voru í haldi í Íran. Þeir voru leystir úr haldi án skil­yrða í byrjun júní og gátu loks farið aftur til Vínar­borgar til fjöl­skyldna sinna. Þeir voru báðir sakfelldir í kjölfar ósann­gjarnra rétt­ar­halda á grund­velli þving­aðra „játn­inga“ sem fengust með pynd­ingum og annarri illri meðferð. 

„Þið hjálpuðu ekki aðeins við að vekja athygli á órétt­lætinu sem ég sætti heldur veittuð þið mér kjark með því að láta mig vita að í heim­inum eru til gott fólk með samkennd. Vinsam­legast haldið áfram sýna öðru fólki stuðning!“

Massud Mossaheb 

Massud Mossaheb 

Angóla 

Tanaice Neutro er aðgerðasinni frá Angóla sem notar tónlist sína til að mótmæla. Hann var hand­tekinn í janúar 2022 og rang­lega fang­els­aður í rúmt ár. Amnesty Internati­onal vakti athygli á máli hans og að lokum var hann leystur úr haldi í júní.  

„Það sem snerti mig mest er að vita til þess að það þarf ekki að þekkja viðkom­andi persónu­lega heldur er nóg að þekkja sögu hans til að sýna stuðning og samstöðu. Þið þekktuð ekki eigin­mann minn en samt studduð þið hann.“

Teresa, eigin­kona Tanaice Neutro 

„Ég trúi því ekki enn að stærstu mann­rétt­inda­samtök heims ákváðu að taka upp málið mitt. Ég er þakk­látur fyrir allan stuðn­inginn sem ég og fjöl­skyldan mín fengum frá Amnesty Internati­onal.“

Tanaice Neutro  

Venesúela 

Venesú­elski ljós­mynd­arinn Carlos Debiais var rang­lega hand­tekinn í nóvember 2021 þegar hann var að taka upp myndir á dróna við olíu­hreins­i­stöð og meðal annars ásak­aður um hryðju­verk.  Fang­els­is­mála­yf­ir­völd í Venesúela höfðu neitað að fram­fylgja skipun um lausn hans í apríl 2022 og því var hann 14 mánuði til viðbótar í haldi að geðþótta. Hann var loks­leystur úr haldi í júní 2023. Carlos þarf þó að mæta í dómsal á 60 daga fresti þrátt fyrir lausn hans. 

„Þakkir til ykkar allra frá mér og fjöl­skyldu minni fyrir ykkar ótrú­lega starf í að koma máli mínu á fram­færi. Sem betur fer er ég nú frjáls. Þakkir til allra í Amnesty-fjöl­skyld­unni.“

Carlos Debaiais 

Fíla­beins­ströndin 

Í mars voru 26 mótmæl­endur dæmdir í tveggja ára fang­elsi vegna þess að þeir sýndu, með frið­sam­legum hætti, stuðning sinn við stjórn­mála­flokk fyrrum forseta landsins. Amnesty Internati­onal kallaði eftir sann­gjarnri máls­með­ferð fyrir þá og náði málið mikilli athygli í landinu. Stuttu síðar voru mótmæl­end­urnir leystir úr haldi og fengu fjög­urra mánaða skil­orðs­bundinn dóm.  

 

Pakistan 

Mahal Baloch var hand­tekin í febrúar ásamt ungum börnum og öðrum fjöl­skyldu­með­limum. Fjöl­skyldu­með­limir hennar voru leystir úr haldi en hún var áfram í haldi þar til í maí þegar hún fékk lausn gegn trygg­ingu. Lögregla ásakaði hana um að vera hluti af vopn­uðum aðskiln­að­ar­hópi sem hafði framið sjálfs­vígs­sprengju­árásir og sagði hana hafa játað.

Á meðan hún var í haldi var rekin rógs­her­ferð gegn henni og hún þvinguð af yfir­völdum til að mæta í sjón­varps­viðtöl. Amnesty Internati­onal brást hratt við með skyndi­að­gerð og hún var laus úr haldi þremur mánuðum eftir hand­töku.  

 

Malah Baloch frá Pakistan.

Yfirvöld dregin til ábyrgðar

Ástr­alía og Nýja-Sjáland 

Alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bandið FIFA stað­festi í mars að ferða­mála­átak Sádi-Arabíu (Visit Saudi) myndi ekki vera stuðn­ings­aðili heims­meist­ara­móts kvenna í fótbolta í Ástr­alíu og Nýja-Sjálandi. Þetta er stór sigur fyrir aðgerða­sinna og leik­menn sem höfðu talað  máli mann­rétt­inda. 

Fyrir tilkynn­inguna kallaði Amnesty Internati­onal eftir því að íþrótta­mála­ráð­herra Nýja-Sjálands myndi fordæma mann­rétt­inda­brot í Sádi-Arabíu og kalla eftir umbótum þar í landi ásamt því að þrýsta á FIFA að gera slíkt hið sama. Þessi ákvörðun FIFA sýnir að mann­rétt­indi skipta máli í íþróttum. 

Síle 

Rann­sókn á máli Moises Órdenes hófst á ný í febrúar en tveimur mánuðum áður hafði saksóknari hætt rann­sókn á hendur sjö af 13 lögreglu­mönnum sem voru ákærðir fyrir að ráðast á Moises á mótmælum í október 2019. Lögfræð­ingur og fjöl­skylda hans töldu rann­sóknina ekki full­kláraða. Þökk sé ákalli Amnesty Internati­onal er enn verið að rann­saka aðild þessara sjö lögreglu­manna. Mál Moises var eitt af málum í SMS-aðgerðaneti Íslands­deild­ar­innar.  

Slóvakía 

Evrópu­nefndin vísaði máli Slóvakíu til dómstóls Evrópu­sam­bandsins fyrir að brjóta tilskipun sambandsins. Ástæðan fyrir því er að stjórn­völd Slóvakíu hafa ekki brugðist við mismunun sem róma-fólk sætir í skóla­kerfinu með full­nægj­andi hætti. Þetta er í fyrsta sinn sem nefndin ákveður að vísa mál lands til dómstóls fyrir brot á tilskipun sem á að tryggja jafn­rétti og vernd frá mismunun á grund­velli kynþáttar eða uppruna. Amnesty Internati­onal hefur lengi rann­sakað og bent á aðskilnað róma-fólks í skóla­kerfinu og er þetta mikill sigur fyrir málstaðinn.  

Argentína 

Unglings­pilt­urinn Blas Correas tók ranga beygju og var í kjöl­farið skotinn til bana af lögreglu árið 2020. Amnesty Internati­onal hefur stutt fjöl­skyldu hans í þrjú ár til að tryggja rétt­læti í máli hans. Í kjölfar rétt­ar­halda fyrr á árinu voru tveir lögreglu­menn dæmdir í lífs­tíð­ar­fang­elsi og nokkrir í fjög­urra ára fang­elsi en tveir voru sýkn­aðir. Dómstóllinn tók undir ákall Amnesty Internati­onal um nauðsyn aukinnar þjálf­unar innan örygg­is­sveita landsins. 

RÉTTINDI FARAND-OG FLÓTTAFÓLKS

Perú/Venesúela 

Stór­sigur vannst fyrir rétt­indi venesú­elsks farand­fólks í Perú þegar þingið í Perú samþykkti lög um að draga til baka ósann­gjarnar sektir á hendur fólki frá Venesúela sem hefur dvalið lengur en vega­bréfs­áritun segir til um. Þetta er aukin vernd fyrir fólk frá Venesúela sem þarfnast alþjóð­legrar verndar. Amnesty Internati­onal hefur gefið út tvær skýrslur um stöðu fólks frá Venesúela í Perú.

Kanada 

Í kjölfar þrýst­ings frá Amnesty Internati­onal samþykktu fjögur ríki í Kanada að fylgja í fótspor fjög­urra annarra ríkja landsins um að segja upp samn­ingi við alríkið sem kveður á um að halda farand­fólki í varð­haldi í ríkis­fang­elsum.   

Þessi ákvörðun er jákvætt skref í að binda enda á þetta skað­væn­lega kerfi. Í stað þess að setja farand­fólk í varð­hald kallar Amnesty Internati­onal eftir því að landa­mæra­varsla Kanada beiti öðrum mann­rétt­inda­mið­uðum aðferðum en varð­haldi.  

Ástr­alía 

Í kjölfar áralangrar herferðar samþykktu áströlsk stjórn­völd varan­legt dval­ar­leyfi fyrir 19.000 einstak­linga sem höfðu búið við stöðuga óvissu í allt að tíu ár. Nú hefur fólkið mögu­leika á að hitta fjöl­skyldu, stunda nám, ferðast og taka þátt í áströlsku samfé­lagi að fullu. Þessar umbætur voru löngu tíma­bærar og munu breyta lífi fólks sem hefur um árabil aðeins fengið tíma­bundna vernd.  

„Margt fólk eins og ég sem leitaði verndar í Ástr­alíu og hefur búið hér í allt að tíu ár hefur þjáðst að óþörfum vegna langvar­andi og grimmi­legrar stefnu ástr­alskra stjórn­valda um tíma­bundna vernd. Fyrir okkur sem mann­rétt­inda­samtök er það léttir að sjá hamingjuna sem fylgir.“

Zaki Haidari, herferða­stjóri flótta­fólks í Ástr­alíu   

KVENRÉTTINDI

Sviss og Holland 

Sögu­legur mann­rétt­inda­sigur átti sér stað í Sviss þegar gerðar voru breyt­ingar á lögum sem skil­greina nú „kynlíf gegn vilja annarra mann­eskju“ sem nauðgun. Áður var úrelt skil­greining á nauðgun sem fól í sér ofbeldi, hótanir eða þving­anir og aðeins konur voru taldar vera þolendur nauðg­unar. Nú skil­greina lögin að allt kynlíf án samþykkis er nauðgun. Amnesty Internati­onal í samstarfi við aðra aðili unnu hörðum höndum að styðja þessa laga­breyt­ingu. Þetta er mikil­vægur sigur fyrir þolendur kynferð­isof­beldi í Sviss. 

Full­trúa­deild Hollands­þings samþykkti einnig í júlí úrbætur á lögum um nauðgun. Þar er kynlíf án samþykkis skil­greint sem nauðgun. Von er á því að innan níu mánaða verði lögin samþykkt af öldunga­deild­ar­þing Hollands. 

Íran 

Starf Amnesty Internati­onal hafði enn og aftur jákvæð áhrif á fang­els­aðar baráttu­konur fyrir kven­frelsi í Íran. Í febrúar voru Yasaman Aryani og móðir hennar Monireh Arab­shah leystar úr haldi eftir að hafa setið fjögur ár í fang­elsi eftir að hafa hlotið 16 ára fang­els­isdóm. Þær voru hand­teknar að geðþótta árið 2019 fyrir vekja athygli á kúgandi lögum í Íran sem þvinga konur til að bera höfuðslæðu. Mál þeirra var hluti af alþjóð­legu og árlegu herferð okkar, Þitt nafn bjargar lífi, árið 2019. 

Benín 

Fjórar konur voru hand­teknar á sjúkra­húsi í Benín í kjölfar barns­fæð­ingar þar sem þær gátu ekki borgað sjúkra­hús­gjöld sín. Amnesty Internati­onal skrifaði yfir­völdum og kallaði eftir tafar­lausri lausn þeirra og minnti á skyldu ríkisins til að vernda rétt þeirra til heilsu og frelsis. Þremur dögum síðar voru konurnar fjórar leystar úr haldi frá sjúkra­húsinu.  

Japan og Argentína 

Japan hefur samþykkt að leyfa til reynslu sölu á neyð­ar­getn­að­ar­vörn án lyfseðils. Japan hefur nú bæst í hóp um 90 landa þar sem neyð­ar­getn­að­ar­vörn er í boði án lyfseðils. Aðgengi að heil­brigð­is­þjón­ustu er mikil­vægt fyrir kyn-og frjó­sem­is­rétt­indi. Nú er einnig hægt að fá neyð­ar­getn­að­ar­vörn án lyfseðils í Argentínu 

 

Loftslagsmál

Ástr­alía 

Ástr­alía bættist í hóp 132 landa sem studdi framtak Vanuatu að ábyrgð ríkja í lofts­lags­málum yrði tekið upp af Alþjóða­dóm­stólnum í Haag. Amnesty Internati­onal í fleiri löndum ásamt öðrum samtökum hafa unnið að þessu máli til að tryggja skuld­bind­ingu stjórn­valda í lofts­lags­málum. Þetta þýðir að dómstóllinn mun gefa út sitt laga­lega álit um skyldur stjórn­valda til að vernda mann­rétt­indi núver­andi og fram­tíð­arkyn­slóða gegn áhrifum lofts­lags­breyt­inga. 

Lestu einnig