Viðburðir
30. júní 2023Helgina 24.-25. júní hélt ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International mannréttindasmiðju fyrir ungt fólk á aldrinum 15 til 18 ára. Í smiðjunni, sem var haldin á Elliðavatnsbæ í Heiðmörk, lærðu þrettán ungmenni um skipulagningu aðgerða í þágu mannréttinda undir leiðsögn Árna Kristjánssonar ungliða- og aðgerðastjóra, Asks Hrafns Hannessonar forseta ungliðahreyfingarinnar og Írisar Bjarkar Ágústsdóttur forseta Háskólafélags Amnesty International.
Þátttakendur fengu fræðslu um herferð Amnesty International gegn misbeitingu á löggæsluvopnum og skipulögðu aðgerð til að vekja athygli á ákalli Amnesty International um gerð alþjóðlegs samnings til að koma böndum á viðskipti með löggæsluvopn.
Lesa má nánar um ákallið hér.
Skaðaminni vopn, varanlegar afleiðingar
Þann 26. júní, á alþjóðlegum degi til stuðnings þolendum pyndinga, héldu þátttakendur mannréttindasmiðjunnar á Austurvöll ásamt ungliðum Íslandsdeildar Amnesty International. Þar stóð hópurinn fyrir táknrænum gjörningi til að vekja athygli á ákalli um að stöðva misbeitingu á löggæsluvopnum.
Aðgerðin var í tveimur hlutum, annars vegar buðu hvítklæddar manneskjur með bundið fyrir augun vegfarendum að taka þátt í lautarferð og hins vegar, í seinni hluta gjörningsins, var vegfarendum boðið að skjóta hvítklæddu manneskjurnar með rauðum vökva úr vatnsbyssum eða vatnsblöðrum. Úr varð lifandi málverk af afleiðingum misbeitingu löggæslubúnaðar.
Á sama tíma var undirskriftum safnað til stuðnings ákalli um alþjóðlegan samning til að koma böndum á löggæsluvopn og á skiltum mátti sjá slagorð um að skaðaminni vopn væru ekki skaðlaus sem vísar í skýrslu Amnesty International „My eye exploded”.
Löggæsluvopn, sem geta þjónað lögmætum tilgangi þegar þeim er beitt í samræmi við alþjóðlega mannréttindastaðla um valdbeitingu, geta verið og er oft misbeitt af lögreglu til að pynda fólk. Á það meðal annars við um kylfur, piparúða og hefðbundin handjárn. Um allan heim hafa fangar verið barðir með kylfum, neyddir í álagsstöður með fjötrum eða pyndaðir með rafstuðbúnaði.
Þúsundir mótmælenda hafa hlotið augnskaða vegna gáleysislegrar notkunar gúmmíkúlna, og enn aðrir hafa orðið fyrir táragassprengjum eða óhóflegu magni ertandi efnablandna. Þessi misbeiting hefur valdið mannréttindafrömuðum, mótmælendum og jaðarsettum hópum varanlegum líkamlegum og sálrænum skaða og grefur undan alþjóðlegu banni gegn pyndingum og annarri illri meðferð.
Viðburðurinn vakti athygli vegfarenda á Austurvelli en hópurinn gekk svo að Stjórnarráðshúsinu og hélt áfram að safna undirskriftum á leiðinni.
Alþjóðleg herferð
Afrakstur ungliðanna úr mannréttindasmiðjunni er framlag til alþjóðlegrar herferðar til að vekja athygli á vinnu Sameinuðu þjóðanna við gerð alþjóðleg samnings til að koma böndum á viðskipti með löggæslubúnað sem hægt er að nota til pyndinga eða annarrar grimmilegrar, ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar („önnur ill meðferð“).
Amnesty International telur að þessi vinna hafi nú náð mikilvægum áfanga og nauðsynlegt sé að ríki taki þátt í þessari vinnu af einhug og þá sérstaklega þau ríki sem lýst hafa yfir stuðningi sínum við þetta framtak áður.
Íslandsdeild Amnesty International hvetur Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra, að styðja þetta mikilvæga málefni fyrir hönd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, sem haldið verður í janúar.
Svipmyndir
Svipmyndir frá Mannréttindasmiðjunni og aðgerðinni á alþjóðlegum degi til stuðnings þolendum pyndinga
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu