Fréttir
22. mars 2023Öryggissveitir um heim allan misbeita gúmmí- og plastskotum og öðrum vopnum við löggæslu til að bæla niður friðsamleg mótmæli með ofbeldisfullum hætti og valda skelfilegum áverkum og dauða. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International þar sem kallað er eftir strangari takmörkunum með notkun þessara vopna og alþjóðlegum samningi sem kemur böndum á viðskipti með þau.
Skýrsla Amnesty International
Skýrslan, My Eye Exploded, sem gefin var út í samstarfi við samtökin Omega Research Foundation, byggir á rannsókn í rúmlega 30 löndum síðastliðin fimm ár. Skýrslan greinir frá því hvernig þúsundir mótmælenda og sjónarvotta hafa orðið fyrir varanlegum líkamlegum skaða og fjöldi einstaklinga látist vegna gáleysislegrar og oft handhófskenndrar beitingar á skaðaminni vopnum við löggæslu, eins og gúmmískotum, gúmmíhúðuðum haglaskotum og táragassprengjum sem hefur verið beint að mótmælendum.
Amnesty International og Omega Research Foundation eru meðal 30 félagasamtaka sem kalla eftir alþjóðlegum samningi Sameinuðu þjóðanna sem bannar viðskipti og framleiðslu á pyndingartólum og vopnum við löggæslu sem eru í eðli sínu skaðleg ásamt því að setja mannréttindamiðaðar reglur um vopn eins og gúmmí- og plastskot.
“Við teljum að brýn þörf sé á lagalega bindandi alþjóðlegri stýringu á framleiðslu og viðskipti með skaðaminni vopn, þeirra á meðal gúmmí- og plastskotum, ásamt skýrum viðmiðunarreglum um beitingu valds til að berjast gegn stigvaxandi misbeitingu.”
Patrick Wilcken rannsakandi Amnesty International um málefni er lúta að hernaði, öryggi og löggæslu.
Misbeiting á skaðaminni vopnum víða um heim veldur alvarlegum áverkum
Skaðaminni vopn hafa leitt til varanlegrar fötlunar í hundruð tilvika og fjölmörgum dauðsföllum. Ógnvekjandi aukning hefur orðið á ýmis konar áverkum, augnáverkum, þeirra á meðal sjónmissi, bein- og höfuðkúpubrotum, heilaskaða, áverkum á innri líffærum og innvortis blæðingum, sprungum á lungum vegna brotinna rifbeina, áverkum á kynfærum auk sálrænna áfalla.
Í Síle hafa aðgerðir lögreglu á mótmælum frá október 2019 leitt til 440 augnáverka og 30 tilfella þar sem einstaklingar hafa misst sjónina eða skaddast á auga samkvæmt Mannréttindastofnun Síle.
Samkvæmt ritrýndri rannsókn byggð á læknisfræðilegum gögnum um heim allan frá 1990 til júní 2017 létu 53 einstaklingar lífið af völdum öryggissveita sem skutu að mótmælendum með skaðaminni vopnum. Af 1.984 einstaklingum sem særðust urðu 300 fyrir varanlegum skaða. Fjöldinn er þó líklega mun hærri í raun.
Frá þessum tíma hefur aðgengi, framboð og dreifing á skaðaminni vopnum aukist til muna á heimsvísu og ýtt enn frekar undir vopnavæðingu lögreglu á mótmælum. Skýrsla Amnesty International sýnir fram á að þjálfun á landsvísu um notkun á skaðaminni vopnum er sjaldan í samræmi við alþjóðleg viðmið um valdbeitingu. Samkvæmt þeim skal beiting slíkra vopna vera síðasta úrræðið til að verja einstaklinga frá skaða vegna ofbeldis annarra einstaklinga. Lögreglusveitir virða oft þessar reglur að vettugi án þess að sæta ábyrgð.
Reynslusögur víða um heim
Kólumbía
Í apríl 2021 var Leidy Cadena Torres á leið á mótmæli þar sem krefjast átti skattaumbóta í Bógóta í Kólumbíu þegar hún var skotin á stuttu færi með gúmmískoti. Hún missti auga í kjölfarið.
„Ég áttaði mig ekki á því hvað væri að gerast svo ég tók símann minn og tók mynd af sjálfri mér en ég sá ekkert…Reynt er að valda þér sýnilegum áverka, eins og að missa auga, til að hræða fólk svo það fari ekki út [og mótmæli].“
Leidy Cadena Torres
Reynsla Leidy Cadena Torres er ekki einstök heldur er hún óhugnanlega algeng á mótmælum í Suður- og Mið-Ameríku, Evrópu, Mið-Austurlöndum, Afríku og Bandaríkjunum.
Síle
Gustavo Gatica, 22 ára sálfræðinemi, var skotinn af lögreglu með gúmmíhúðuðum stálhöglum í bæði augun á mótmælum í Santiago í Síle þann 8. nóvember 2019. Hann missti í kjölfarið alfarið sjónina. Enn í dag hefur enginn verið látinn sæta ábyrgð.
Hann tjáði Amnesty International nýverið:
„Mér fannst vatn renna úr augunum…en það var blóð.“
Hann vonar að skaðinn sem hann varð fyrir leiði til breytinga, til að forða öðrum einstaklingum frá því að þola slíkt hið sama.
„Ég gaf augu mín svo fólk gæti vaknað.“
Bandaríkin
Í Bandaríkjunum er notkun gúmmískota til að bæla niður friðsöm mótmæli æ algengari. Einn mótmælandi sem varð fyrir skoti í andlitið í Minneapolis í Minnesóta þann 31. maí 2020 tjáði Amnesty International eftirfarandi:
„Auga mitt sprakk við högg sem kom frá gúmmískoti og nefið færðist undir hitt augað. Fyrstu nóttina var ég á spítala þar sem það sem eftir var af auganu var tjaslað saman. Síðan færðu þeir nefið á sinn stað og endurmótuðu það. Ég fékk gerviauga svo núna get ég aðeins séð með einu auga.“
Evrópa
Á Spáni hefur notkun gúmmískota á stærð við tennisbolta leitt til a.m.k eins dauðsfalls af völdum höfuðáverka og 24 alvarlegra áverka, þar af 11 alvarlegra augnáverka, samkvæmt baráttuhópnum Stop Balas de Goma.
Í Frakklandi greindi læknisfræðileg rannsókn frá 21 einstaklingi með alvarlega andlits- og augnáverka af völdum gúmmískota, meðal annars brot og sprungur í kringum augnsvæðið og augnskemmdir sem leiddu til blindu.
Táragassprengjur á mótmælum
Amnesty International hefur einnig skráð tilfelli þar sem táragassprengjum er miðað beint á einstaklinga eða hópa í Síle, Kólumbíu, Ekvador, Frakklandi, Gíneu, Hong Kong, Íran, Írak, Perú, Súdan, Túnis Venesúela og á Gaza.
Í Írak miðuðu öryggissveitir hernaðarlegum táragassprengjum að mótmælendum sem eru tíu sinnum þyngri en hefðbundnar táragassprengjur. Þær hafa valdið skelfilegum áverkum og a.m.k. 24 dauðsföllum síðan október 2019.
Haykal Rachdi, 21 árs, lét lífið í Túnis í janúar 2021 eftir að hafa verið skotinn í höfuðið með táragassprengju.
Verndum mótmælendur. Amnesty International kallar eftir alþjóðlegum samningi sem setur reglur um viðskipti með vopn í löggæslu til að vernda réttinn til að mótmæla.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu