Fréttir

22. mars 2023

Misbeiting lögreglu á gúmmí­skotum hefur leitt til dauðs­falla og alvar­legra áverka

Örygg­is­sveitir um heim allan misbeita gúmmí- og plast­skotum og öðrum vopnum við löggæslu til að bæla niður frið­samleg mótmæli með ofbeld­is­fullum hætti og valda skelfi­legum áverkum og dauða. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty Internati­onal þar sem kallað er eftir strangari takmörk­unum með notkun þessara vopna og alþjóð­legum samn­ingi sem kemur böndum á viðskipti með þau.

  • Misbeiting lögreglu á gúmmí­skotum og öðrum skaða­minni vopnum gegn frið­sömum mótmæl­endum færist sífellt í aukana með auknum skaða og fjölgun dauðs­föllum, samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty Internati­onal.
  • Auðveldara aðgengi að gúmmí­skotum og öðrum skaða­minni vopnum hefur leitt til frekari vald­beit­ingar lögreglu gegn mótmæl­endum með þeim afleið­ingum að gífurleg aukning hefur orðið á varan­legum líkam­legum skaða.
  • Brýn þörf er á alþjóð­legum samn­ingi til að setja reglur um viðskipti með vopn í löggæslu til að vernda réttinn til að mótmæla.

Skýrsla Amnesty International

Skýrslan, My Eye Explodedsem gefin var út í samstarfi við samtökin Omega Rese­arch Foundation, byggir á rann­sókn í rúmlega 30 löndum síðast­liðin fimm ár. Skýrslan greinir frá því hvernig þúsundir mótmæl­enda og sjón­ar­votta hafa orðið fyrir varan­legum líkam­legum skaða og fjöldi einstak­linga látist vegna gáleys­is­legrar og oft hand­hófs­kenndrar beit­ingar á skaða­minni vopnum við löggæslu, eins og gúmmí­skotum, gúmmí­húð­uðum hagla­skotum og tára­gassprengjum sem hefur verið beint að mótmæl­endum.

Amnesty Internati­onal og Omega Rese­arch Foundation eru meðal 30 félaga­sam­taka sem kalla eftir alþjóð­legum samn­ingi Sameinuðu þjóð­anna sem bannar viðskipti og fram­leiðslu á pynd­ing­ar­tólum og vopnum við löggæslu sem eru í eðli sínu skaðleg ásamt því að setja mann­rétt­inda­mið­aðar reglur um vopn eins og gúmmí- og plast­skot.

“Við teljum að brýn þörf sé á laga­lega bind­andi alþjóð­legri stýr­ingu á fram­leiðslu og viðskipti með skaða­minni vopn, þeirra á meðal gúmmí- og plast­skotum, ásamt skýrum viðmið­un­ar­reglum um beit­ingu valds til að berjast gegn stig­vax­andi misbeit­ingu.”

Patrick Wilcken rann­sak­andi Amnesty Internati­onal um málefni er lúta að hernaði, öryggi og löggæslu.

Misbeiting á skaðaminni vopnum víða um heim veldur alvarlegum áverkum

Skaða­minni vopn hafa leitt til varan­legrar fötl­unar í hundruð tilvika og fjöl­mörgum dauðs­föllum. Ógnvekj­andi aukning hefur orðið á ýmis konar áverkum, augná­verkum, þeirra á meðal sjón­missi, bein- og höfuð­kúpu­brotum, heilaskaða, áverkum á innri líffærum og innvortis blæð­ingum, sprungum á lungum vegna brot­inna rifbeina, áverkum á kynfærum auk sálrænna áfalla.

Í Síle hafa aðgerðir lögreglu á mótmælum frá október 2019 leitt til 440 augná­verka og 30 tilfella þar sem einstak­lingar hafa misst sjónina eða skaddast á auga samkvæmt Mann­rétt­inda­stofnun Síle.

Samkvæmt ritrýndri rann­sókn byggð á lækn­is­fræði­legum gögnum um heim allan frá 1990 til júní 2017 létu 53 einstak­lingar lífið af völdum örygg­is­sveita sem skutu að mótmæl­endum með skaða­minni vopnum. Af 1.984 einstak­lingum sem særðust urðu 300 fyrir varan­legum skaða. Fjöldinn er þó líklega mun hærri í raun.

Frá þessum tíma hefur aðgengi, framboð og dreifing á skaða­minni vopnum aukist til muna á heimsvísu og ýtt enn frekar undir vopna­væð­ingu lögreglu á mótmælum. Skýrsla Amnesty Internati­onal sýnir fram á að þjálfun á landsvísu um notkun á skaða­minni vopnum er sjaldan í samræmi við alþjóðleg viðmið um vald­beit­ingu. Samkvæmt þeim skal beiting slíkra vopna vera síðasta úrræðið til að verja einstak­linga frá skaða vegna ofbeldis annarra einstak­linga. Lögreglu­sveitir virða oft þessar reglur að vettugi án þess að sæta ábyrgð.

Reynslusögur víða um heim

Kólumbía

Í apríl 2021 var Leidy Cadena Torres á leið á mótmæli þar sem krefjast átti skattaum­bóta í Bógóta í Kólumbíu þegar hún var skotin á stuttu færi með gúmmí­skoti. Hún missti auga í kjöl­farið.

„Ég áttaði mig ekki á því hvað væri að gerast svo ég tók símann minn og tók mynd af sjálfri mér en ég sá ekkert…Reynt er að valda þér sýni­legum áverka, eins og að missa auga, til að hræða fólk svo það fari ekki út [og mótmæli].“

Leidy Cadena Torres

Reynsla Leidy Cadena Torres er ekki einstök heldur er hún óhugn­an­lega algeng á mótmælum í Suður- og Mið-Ameríku, Evrópu, Mið-Aust­ur­löndum, Afríku og Banda­ríkj­unum.

 

Leidy Cadena Torres

Síle

Gustavo Gatica, 22 ára sálfræð­inemi, var skotinn af lögreglu með gúmmí­húð­uðum stál­höglum í bæði augun á mótmælum í Santiago í Síle þann 8. nóvember 2019. Hann missti í kjöl­farið alfarið sjónina. Enn í dag hefur enginn verið látinn sæta ábyrgð.

Hann tjáði Amnesty Internati­onal nýverið:

„Mér fannst vatn renna úr augunum…en það var blóð.“

Hann vonar að skaðinn sem hann varð fyrir leiði til breyt­inga, til að forða öðrum einstak­lingum frá því að þola slíkt hið sama.

„Ég gaf augu mín svo fólk gæti vaknað.“

Banda­ríkin

Í Banda­ríkj­unum er notkun gúmmí­skota til að bæla niður friðsöm mótmæli æ algengari. Einn mótmæl­andi sem varð fyrir skoti í andlitið í Minn­ea­polis í Minn­esóta þann 31. maí 2020 tjáði Amnesty Internati­onal eftir­far­andi:

„Auga mitt sprakk við högg sem kom frá gúmmí­skoti og nefið færðist undir hitt augað. Fyrstu nóttina var ég á spítala þar sem það sem eftir var af auganu var tjaslað saman. Síðan færðu þeir nefið á sinn stað og endur­mótuðu það. Ég fékk gerviauga svo núna get ég aðeins séð með einu auga.“

Evrópa

Á Spáni hefur notkun gúmmí­skota á stærð við tenn­is­bolta leitt til a.m.k eins dauðs­falls af völdum höfuð­á­verka og 24 alvar­legra áverka, þar af 11 alvar­legra augná­verka, samkvæmt baráttu­hópnum Stop Balas de Goma.

Í Frakklandi greindi lækn­is­fræðileg rann­sókn frá 21 einstak­lingi með alvar­lega andlits- og augná­verka af völdum gúmmí­skota, meðal annars brot og sprungur í kringum augn­svæðið og augn­skemmdir sem leiddu til blindu.

Gúmmí­skot sem var notað á mótmæli á Spáni

Táragassprengjur á mótmælum

Amnesty Internati­onal hefur einnig skráð tilfelli þar sem tára­gassprengjum er miðað beint á einstak­linga eða hópa í Síle, Kólumbíu, Ekvador, Frakklandi, Gíneu, Hong Kong, Íran, Írak, Perú, Súdan, Túnis Venesúela og á Gaza.

Í Írak miðuðu örygg­is­sveitir hern­að­ar­legum tára­gassprengjum að mótmæl­endum sem eru tíu sinnum þyngri en hefð­bundnar tára­gassprengjur. Þær hafa valdið skelfi­legum áverkum og a.m.k. 24 dauðs­föllum síðan október 2019.

Haykal Rachdi, 21 árs, lét lífið í Túnis í janúar 2021 eftir að hafa verið skotinn í höfuðið með tára­gassprengju.

Verndum mótmæl­endur. Amnesty Internati­onal kallar eftir alþjóð­legum samn­ingi sem setur reglur um viðskipti með vopn í löggæslu til að vernda réttinn til að mótmæla.

Lestu einnig