Fréttir
19. maí 2023Fimm ár eru liðin frá upphafi kúgunarstefnu ríkisstjórnar Níkaragva. Ekki sér fyrir endann á þessari stefnu sem miðar að því að kveða gagnrýnisraddir í kútinn. Enn er verið að víkka hana út og finna nýjar leiðir til að brjóta á réttindum. Þetta kemur fram í skýrslu Amnesty International.
Skýrslan, A cry for justice: 5 years of oppression and resistance in Nicaragua, greinir frá mannréttindaneyð sem ríkt hefur í landinu frá því að fólk flykktist út á götur þann 18. apríl 2018 til að mótmæla friðsamlega breytingum á almannatryggingakerfinu. Daniel Ortega, forseti landsins, ákvað að beita valdi til bæla niður óánægju en í kjölfarið lágu rúmlega 300 einstaklingar í valnum, rúmlega 2.000 særðust og hundruð voru handtekin að geðþótta.
Kúgun
Skýrslan greinir frá þeim helstu aðferðum sem ríkisstjórn Daniel Ortega og Rosario Murillo varaforseta hefur beitt án eftirlits eða án þess að sæta ábyrgð. Aðferðum á borð við óhóflega valdbeitingu, árásir á borgaralegt samfélag og þvingaða útlegð. Þessum aðferðum er beitt til að minnka smám saman borgaralegt rými og þagga niður í mannréttindafrömuðum, aðgerðasinnum, fjölmiðlafólki og gagnrýnisröddum sem eru andsnúin stjórnvöldum. Afleiðingar þessara aðferða eru margs konar mannréttindabrot, þar á meðal varðhald að geðþótta, pyndingar, þvinguð mannshvörf, aftökur án dóms og laga og sviptingar ríkisborgararéttar að geðþótta.
„Með skrásetningu mála sem eru lýsandi fyrir mannréttindabrot í landinu sýnum við fram á að kúgun samfélagsins í Níkaragva er samfelld og fólk sem þorir að brýna raust sína sætir mismunandi mannréttindabrotum fyrir að fordæma krísuna í landinu og krefjast réttinda sinna í Níkaragva.“
Erika Guevara-Rosas, framkvæmdastjóri Ameríkusvæðisins hjá Amnesty International.
Amnesty International hefur safnað saman upplýsingum sem sýna að lögreglusveitir hafi beitt óhóflegu valdi, oft í samstarfi við vopnaða hópa sem eru fylgjandi stefnu stjórnvalda, og bera ábyrgð á geðþóttavarðhaldi í þúsundum talið á síðastliðnum fimm árum. Banvænum vopnum hefur verið beitt við aðstæður sem alþjóðalög banna og leitt til dauða hundruð einstaklinga. Eftirlitsaðilar mannréttinda hafa skilgreint þessi dauðsföll sem aftökur án dóms og laga og er glæpur samkvæmt alþjóðalögum.
Amnesty International hefur staðfest með gögnum frá borgaralegum samtökum í Níkaragva og opinberum gögnum um mál frá árunum 2018 til 2023 að dómskerfið hefur verið yfirtekið og í samstarfi við önnur yfirvöld í landinu hafi dómskerfið séð til þess að einstaklingar sem álitnir eru gagnrýnir á ríkisstjórnina hafi fengið ósanngjörn réttarhöld.
Dómskerfið og fjölmiðlar
Málin sem fjallað er um í skýrslunni staðfesta að ríkisstjórnin hefur notað dómskerfið í þeim tilgangi að ná valdi yfir og kúga þá einstaklinga sem eru álitnir stjórnarandstæðingar. Það hefur leitt til fangelsisvistar hundruð einstaklinga fyrir að nýta réttinn til að mótmæla friðsamlega, fordæma misbeitingu yfirvalda og fyrir að verja og efla mannréttindi í Níkaragva.
Í skýrslunni er einnig greint frá kúgun sem ríkisstjórn Níkaragva hefur beitt mannréttindasamtök og sjálfstæða fjölmiðla. Síðustu fimm ár hefur ríkisstjórnin innleitt lög til að skerða tjáningar- og fundafrelsið og hafið rógsherferð gegn mannréttindasamtökum og frjálsum fjölmiðlum ásamt ólögmætum afskiptum af rekstri þeirra og glæpavætt starfsfólk.
Á meðal algengustu aðferðanna gegn umræddum aðilum er að svipta þá réttarstöðu, gera áhlaup á skrifstofur þeirra, gera eignir upptækar og hindra getu þeirra til að sinna starfi sínu. Mannréttindafrömuðir, fjölmiðlafólk og aðgerðasinnar hafa sætt áreitni, hótunum og jafnvel líkamsárásum. Mörg þeirra hafa þurft að flýja land eða ákveðið að hætta störfum sínum tímabundið vegna ótta um öryggi sitt.
Mótmæli í Níkaragva
Óstöðugleiki
Skýrslan greinir einnig frá því hvernig stöðug kúgun veldur félags- og efnahagslegum óstöðugleika og að mannréttindaástandið í Níkaragva frá 2018 hefur þvingað þúsundir til að flýja landið. Amnesty International bendir á að fólki sem hefur verið þvingað að flýja Níkaragva á síðustu fimm árum beri að fá alþjóðlega vernd.
Að lokum fjallar skýrslan um sviptingu ríkisborgararéttar af geðþótta en rúmlega 300 einstaklingar hafa misst hann og margir þeirra eru ríkisfangslausir sem setur þá í viðkvæma stöðu og er alvarleg hindrun til að nýta önnur réttindi á borð við réttinn til heilsu, menntunar og atvinnu. Amnesty International minnir alþjóðasamfélagið á sameiginlega ábyrgð þess að veita þessu fólki alþjóðlega vernd.
Að fimm árum liðnum frá því að mannréttindaneyð í Níkaragva hófst er því viðhaldið með því að grafa undan réttarríkinu, sjálfstæði dómsvaldsins hefur verið rýrt með breytingum á lögum og eftirlitsaðilum mannréttinda er ekki hleypt inn í landið.
Núna er þörfin enn meiri, alþjóðasamfélagið verður að grípa til samhæfðra aðgerða af ákveðni. Ekki aðeins með því að viðurkenna og fordæma kerfisbundin mannréttindabrot undir stjórn Daniel Ortega og Rosario Murillo, heldur einnig með þeim hætti að rétturinn til réttlætis, sannleika og skaðabóta séu tryggð fyrir þúsundir þolenda sem hafa sætt og sæta enn kúgunarstefnu þar sem mannréttindi eru fótum troðin.“
Erika Guevara-Rosas, framkvæmdastjóri Ameríkusvæðisins hjá Amnesty International.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu