Skýrslur
29. ágúst 2025Ríkisstjórn Sýrlands þarf að skuldbinda sig skilyrðislaust til að tryggja réttinn til sannleikans, réttlætis og skaðabóta vegna tuga þúsunda horfinna einstaklinga með því að hefja leit þar í landi að þeim sem enn hafa ekki fundist og sjá til þess að gerendur sæti ábyrgð. Þetta kemur fram í skýrslu Amnesty International sem er birt í tilefni af alþjóðadegi fórnarlamba þvingaðra mannshvarfa þann 30. ágúst, og níu mánuðum eftir fall ríkisstjórnar Bashar al-Assads.
Mynd: Ali Haj Suleiman
Rannsóknin
Skýrslan Truth Still Buried: The struggle for justice of disappeared people’s families in Syria greinir frá því hvernig örvæntingafullar fjölskyldur flykktust á fyrrum varðhaldsstöðvar, fangelsi, líkhús og fjöldagrafreiti í kjölfar þess að Bashar al-Assad var steypt af forsetastóli þann 8. desember 2024.
Skýrslan er byggð á viðtölum við 21 viðmælanda: fjölskyldumeðlimi, eftirlifendur og fulltrúa frá samtökum þolenda mannshvarfa, og voru þau tekin á tímabilinu maí til júní 2025.
Þar er gerð grein fyrir djúpum harmi og endurteknum áföllum sem fjölskyldur hinna horfnu hafa mátt þola en hafa enn ekki fengið nein svör þrátt fyrir að hafa lengi vonast eftir því að ástvinir þeirra myndu birtast frá þeim alræmdu varðhaldsstöðvum og fangelsum þar sem þeir voru í haldi.
Varpað er ljósi á þær þjáningar sem fyrrum fangar og fjölskyldur horfinna fanga gengu í gegnum þegar mikilvæg sönnunargögn týndust eða voru eyðilögð eftir fall Assad-stjórnarinnar á sama tíma og meintir gerendur ganga lausir.
Skýrslan lýsir baráttu fjölskyldna horfinna ástvina í baráttunni fyrir réttindum sínum sem meðal annars hafa sett upp „sannleikstjöld“ víðs vegar um Sýrland þar sem fólk getur safnast saman opinberlega, heiðrað ástvini sína og krafist réttlætis.
„Fjölskyldur horfinna ástvina í Sýrlandi hafa þolað rúmlega áratugalanga þjáningu og óvissu. Fall fyrrum stjórnarinnar gefur vonarglætu en óttinn við að bæði meintir gerendur fái að ganga lausir og leitin að þeim sem er saknað verði ófullnægjandi veldur enn frekari áföllum.“
Kristine Beckerle, aðstoðarframkvæmdastjóri svæðisskrifstofu Mið-Austurlanda og Norður-Afríku hjá Amnesty International.
Kröfur
Skýrslan beinir athyglinni að helstu kröfum fjölskyldna horfinna ástvina:
„Rétturinn til sannleikans, réttlætis og skaðabóta fyrir hina horfnu í Sýrlandi þarf að vera settur í forgang hjá ríkisstjórninni, þar með talið með því að tryggja sjálfstæði nýrrar nefndar um málefni hinna horfnu (e. National Commission for the Missing) og tryggja viðeigandi fjármögnun og samstarf milli allra ríkisstofnana. Þjáning fjölskyldna sem bíða eftir svörum um örlög og staðsetningu ástvina sinna eykst með hverjum deginum sem líður“
Kristine Beckerle, aðstoðarframkvæmdastjóri svæðisskrifstofu Mið-Austurlanda og Norður-Afríku hjá Amnesty International.
Á árunum 2011 til 2024 er talið að meira en 100.000 einstaklingar hafi horfið í Sýrlandi. Langflestir hurfu í alræmdum fangelsum og varðhaldsstöðvum undir stjórn Assads. Þúsundir annarra hurfu af völdum vopnaðra hópa stjórnarandstöðunnar.
Stofnun nefndar um málefni hinna horfnu þann 17. maí 2025 var mikilvægt fyrsta skref í átt að sannleika, réttlæti og bótum. Yfirmaður nefndarinnar sagði að kjarnaverkefni ráðsins væru stuðningur [við þolendur mannshvarfanna] og skráningar, sem felur meðal annars í sér uppbyggingu á innlendum gagnagrunni til að halda skrá yfir horfna einstaklinga, safna DNA-sýnum og að byggja upp réttarlæknisfræðilega hæfni innanlands með alþjóðlegu samstarfi.
Sama dag og sýrlenska ríkisstjórnin stofnaði nefndina um málefni hinna horfnu var einnig sett á laggirnar nefnd um réttlæti (e. National Commission for Transitional Justice), sem er ætlað að „afhjúpa sannleikann um alvarleg brot fyrrum stjórnvalda, draga gerendur til ábyrgðar í samvinnu við viðeigandi yfirvöld, greiða þolendum bætur og setja meginreglu til að koma í veg fyrir að brot sem þessi endurtaki sig og ná þjóðarsátt“. Umboð nefndarinnar þarf að útvíkka svo það nái einnig til glæpa sem vopnaðir hópar frömdu og er bannaðir samkvæmt alþjóðalögum.
Réttur til sannleikans, réttlætis og skaðabóta
Wasel Hamideh, bróðir eins sem sætti þvinguðu mannshvarfi, sagði:
„Við fjölskyldur horfinna ástvina krefjumst réttlætis fyrir alla þolendur, þau sem misstu ástvini undir ríkisstjórn Assad og af völdum annarra vopnaðra aðila. Að tryggja réttlæti og draga gerendur til ábyrgðar er eina tryggingin fyrir því að þjáning okkar endurtaki sig ekki. Það er eina leiðin til að tryggja að við búum í landi sem virðir réttarríkið.“
Amnesty International hefur skráð mannrán á níu mánaða tímabili frá því að stjórn Assads var steypt af stóli, þar sem núverandi stjórnvöld hafa brugðist þeirri skyldu að rannsaka málin tafarlaust, ítarlega og óhlutdrægt eða draga gerendur til ábyrgðar.
„Sýrlenska stjórnin verður að fallast á kröfur fjölskyldna þolendanna um að réttur þeirra til sannleikans, réttlætis og skaðabóta verði settur í forgang. Ríkisstjórnir um heim allan sem veita styrki verða einnig að veita fjármögnun og alhliða stuðning til samtaka fjölskyldna og hópa þolenda sem aðstoða þolendur mannshvarfa að fá réttindi sín virt.“
Kristine Beckerle, aðstoðarframkvæmdastjóri svæðisskrifstofu Mið-Austurlanda og Norður-Afríku hjá Amnesty International.
Án sannleikans, réttlætis og skaðabóta munu sár Sýrlendinga aldrei gróa um heilt. Stjórnvöld verða að framkvæma tafarlausar rannsóknir á öllum glæpum sem brjóta alþjóðalög og sjá til þess að þær séu ítarlegar, óháðar, óhlutdrægar og gagnsæjar. Þau verða að tryggja að þolendur og fjölskyldur þeirra fái fullar og fullnægjandi skaðabætur og stuðning með skilvirkum hætti, þar á meðal með endurhæfingu og komið verði í veg fyrir að þetta endurtaki sig.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu