Fréttir
12. júní 2024Frumvarp til fyrstu almennu hegningarlöggjafar Sádi-Arabíu, sem er ekki enn búið að opinbera en var lekið var út, gengur í berhögg við alþjóðlega mannréttindastaðla og afhjúpar hræsnina á bak við loforð krónprinsins Mohammed bin Salman um framfarir og umburðarlyndi í landinu. Þetta kemur fram í skýrslu Amnesty International um stöðu mála í Sádi-Arabíu. Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa ekki deilt frumvarpinu með frjálsum félagasamtökum til umsagnar en þarlendir lögfræðingar hafa staðfest að frumvarpið sem var lekið út sé ófalsað.
Í skýrslu Amnesty International er ítarleg greining á frumvarpinu og í núverandi mynd stangast það á við alþjóðalög. Verði frumvarpið að lögum lögfestir það ríkjandi kúgun yfirvalda í stað þess að bæta mannréttindaástandið í landinu.
Vöntun á hegningarlöggjöf
„Vöntun á hegningarlöggjöf hefur löngum leitt til kerfisbundinna mannréttindabrota og óréttlætis í Sádi-Arabíu. Fyrsta skráða hegningarlöggjöfin gæti veitt yfirvöldum í Sádi-Arabíu kjörið tækifæri til að umbylta kúgandi dómskerfi landsins þannig að mannréttindi séu virt. Greining okkar á frumvarpinu leiðir hins vegar í ljós að í raun er það stefnuyfirlýsing um kúgun sem festir mannréttindabrot enn frekar í sessi og bælir niður frelsi.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Eins og frumvarpið til almennra hegningarlaga lítur út núna sýnir það að umbótastefna krónprinsins er aðeins tálsýn. Sádi-Arabía stendur á mikilvægum tímamótum. Á meðan frumvarp til almennra hegningarlaga er enn til skoðunar hjá löggjafanum hafa yfirvöld enn tækifæri til að sýna umheiminum að loforð þeirra um umbætur eru ekki orðin tóm. Brýnt er að yfirvöld ráðfæri sig við óháða sérfræðinga innan borgaralega samfélagsins og breyti frumvarpinu til að tryggja að það sé í samræmi við alþjóðlega staðla og endurskoði gildandi löggjöf til að sjá til þess að hún virði mannréttindi.
Herferð Amnesty International
Amnesty International hefur einnig ýtt úr vör herferð til að krefjast lausnar einstaklinga sem eru ranglega fangelsaðir eða voru dæmdir til dauða fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt vegna kúgunarstefnu stjórnvalda.
„Herferð Amnesty International leitast við að skapa alþjóðlegan þrýsting þar sem krafist er mannréttindaumbóta með því að fletta ofan af þeim grimmilega sannleika sem býr að baki tilraunum Sádi-Arabíu um að hvítþvo ímynd sína á heimsvísu. Vakin verður athygli á átakanlegum málum einstaklinga sem hafa ranglega verið fangelsaðir eða dæmdir til dauða fyrir það eitt að tjá skoðanir sínar friðsamlega. Við munum sýna fram á hrollvekjandi afleiðingar kúgunarstefnu landsins og þrýsta á helstu bandamenn Sádi-Arabíu að kalla eftir raunverulegum umbótum í landinu.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Mikil leynd hefur hvílt yfir frumvarpinu til almennra hegningarlaga sem var fyrst lekið á netið í júlí 2022. Yfirvöld hafa ekki birt frumvarpið eða sett það í umsagnarferli fyrir sérfræðinga eða óháða aðila úr borgaralega samfélaginu.
Amnesty International sendi skriflegt erindi til ráðherranefndar Sádi-Arabíu og mannréttindaráðs landsins þar sem greining og fyrirspurnir samtakanna um frumvarpið voru lagðar fram. Mannréttindaráð Sádi-Arabíu svaraði samtökunum þann 4. febrúar 2024 og vísaði því á bug að frumvarp í höndum Amnesty International væri rétta útgáfan en staðfesti að frumvarp um almenn hegningarlög væri nú í umsagnarferli.
Amnesty International skorar á yfirvöld í Sádi-Arabíu að birta nýjustu útgáfuna af frumvarpinu til umsagnar fyrir borgaralega samfélagið í landinu.
Frelsissvipting
Síðasta áratuginn hafa yfirvöld í Sádi-Arabíu verulega skert tjáningarfrelsið og herjað á stóran hóp gagnrýnenda, meðal annars mannréttindafrömuði, fjölmiðlafólk, baráttufólk fyrir kvenréttindum og trúarleiðtoga. Fólkið hefur sætt frelsissviptingu, útlegð eða ferðabanni. Yfirvöld hafa beitt lagaákvæðum gegn hryðjuverkum og netglæpum til að þagga niður í gagnrýnisröddum og bæla niður frjálsa hugsun.
Í einu skelfilegu máli afplánar doktorsnemi og tveggja barna móðir, Salma al-Shehab, 27 ára fangelsisdóm fyrir að styðja réttindi kvenna á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter).
Í öðru máli dæmdi sérstakur sakamáladómstóll Manahel al-Otaibi, líkamsræktarkennara, bloggara og mannréttindafrömuð í 11 ára fangelsi fyrir að birta myndir af sjálfri sér án abaya (svartur kufl sem nær frá höfði til táar) og fyrir samfélagsmiðlaefni þar sem kúgandi löggjöf um forsjá karlmanna yfir konum í landinu er mótmælt.
Frumvarpið til almennra hegningarlaga festir kúgunarstefnu yfirvalda enn frekar í sessi þar sem meiðyrði, móðganir og efasemdir um dómskerfið eru gerð refsiverð. Hætta er á að frelsi einstaklingsins verði þar með skert enn frekar og andóf áfram kæft í landinu.
Geðþóttavald dómara
Frumvarpið refsivæðir einnig „ólögmætt“ kynlíf (utan hjónabands), samræði milli tveggja karlmanna, „ósiðlega“ hegðun og „að líkja eftir klæðaburði og útliti annars kyns“. Ákvæði sem þessi munu greiða leiðina fyrir ofsóknir og áreitni gagnvart hinsegin samfélaginu. Enda þótt Amnesty International hafi skrásett mál þar sem einstaklingar hafa verið sakfelldir í Sádi-Arabíu fyrir slíkt athæfi þá voru dómarnir kveðnir upp að geðþótta dómara þar sem slíkt athæfi er ekki skilgreint sem glæpur í núverandi lagaramma. Í frumvarpinu eru fangelsisdómar einnig mun harðari en dómarar hafa verið að dæma.
Í skýrslunni er einnig greint frá því að frumvarpið veitir dómurum enn geðþóttavald til að ákvarða hvort sönnunarbyrðin sé næg til að tiltekin refsing í sjaríalögum eigi við.
Þar sem engin hegningarlöggjöf er til staðar í Sádi-Arabíu styðjast dómarar við eigin túlkun á íslömskum lögum (sjaríalög) og innan réttarkerfisins ákvarða þeir hvað telst glæpur og hver refsingin er. Þetta veitir dómurum víðtækt ákvörðunarvald til að úrskurða í dómsmálum þar sem skilgreiningar á glæpum og refsingum eru óljósar og ganga þvert á alþjóðleg mannréttindalög.
Frumvarpið viðheldur kynbundnu ofbeldi
Konur og stúlkur hafa um árabil sætt gífurlegri mismunun í Sádi-Arabíu, bæði í lögum og framkvæmd. Lögin í landinu eru ekki fullnægjandi til að vernda þær gegn kynbundnu ofbeldi.
Það er verulegt áhyggjuefni að í frumvarpinu til almennra hegningarlaga eru einstaklingar sem gerast sekir um verknað í nafni „heiðurs “, þar á meðal árás eða morð, undanþegnir málsókn. Þetta nýja ákvæði veitir í raun ofbeldismönnum friðhelgi sem er svívirðilegt brot á alþjóðalögum.
Frumvarpið setur einnig fram mjög víða og óljósa skilgreiningu á áreitni og viðurkennir ekki nauðgun í hjónabandi sem glæp.
Dauðarefsingin lögfest
Þrátt fyrir loforð krónprinsins Mohammed bin Salman um að takmarka beitingu dauðarefsingarinnar aðeins við allra alvarlegustu glæpina, eins og sjaríalögin mæla fyrir um, hefur orðið óhugnanleg aukning á aftökum í stjórnartíð hans. Má þar nefna fjöldaaftöku þar sem 81 einstaklingur var tekinn af lífi í mars 2022 sem er ein stærsta fjöldaaftaka undanfarinna áratuga.
Frumvarpið til almennra hegningarlaga lögfestir dauðarefsinguna sem helstu refsingu landsins fyrir hina ýmsu glæpi, eins og morð og nauðgun en einnig athæfi án ofbeldis eins og guðlast og að hverfa frá trú. Þetta stríðir gegn alþjóðalögum. Frumvarpið leyfir aftökur á einstaklingum undir lögaldri fyrir tiltekna glæpi. Einnig er sláandi að sakhæfisaldur er miðaður við sjö ára aldur. Sádi-Arabía er aðili að barnasáttmálanum en nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna leggur til að sakhæfisaldur sé ekki undir 12 ára aldur.
Í frumvarpinu verður áfram leyfilegt að beita líkamlegum refsingum, sem geta m.a. verið svipuhögg og aflimun handa, fyrir glæpi eins og framhjáhald og þjófnað. Líkamlegar refsingar teljast sem pyndingar og önnur ill meðferð sem eru bannaðar samkvæmt alþjóðalögum.
„Það er einkar mikilvægt að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna tryggi eftirlit með mannréttindaástandinu í Sádi-Arabíu svo yfirvöld þar í landi geti ekki haldið því til streitu að breiða yfir skelfilegan veruleika í formi kúgunar með því að kaupa þögn heimsbyggðarinnar og breiða út glansmynd um framfarir með rándýrum ímyndarherferðum.“
Ákall
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu