Góðar fréttir
12. febrúar 2025Salma al-Shehab er nú laus úr haldi en hún sat í fangelsi í rúm fjögur ár vegna ákæra á grundvelli laga gegn hryðjuverkum fyrir að birta tíst til stuðnings kvenréttindum.
„Þrautagöngu Salma al-Shehab er loksins lokið. Í meira en fjögur ár hefur hún sætt hverju óréttlætinu á fætur öðru, þar á meðal átti hún um tíma yfir höfði sér 34 ára fangelsisvist fyrir færslur sínar á samfélagsmiðlum. Hún sætti einangrunarvist í næstum 300 daga, var neitað um lögfræðiaðstoð og var síðan ítrekað dæmd á grundvelli laga gegn hryðjuverkum og dæmd til áratugalangrar fangelsisvistar. Aðeins vegna þess að hún tísti til stuðnings kvenréttindum og endurtísti færslum annarra kvenréttindafrömuða Sádi-Arabíu. Yfirvöld í Sádi-Arabíu verða nú að tryggja að hún sæti ekki ferðabanni eða frekari refsiaðgerðum.“
Dana Ahmed, rannsakandi Amnesty International í Miðausturlöndum
Bakgrunnur
Salma al-Shehab, 36 ára doktorsnemi við Leeds háskóla og tveggja barna móðir, var handtekin 15. janúar 2021 fyrir að tísta og endurtísta færslum kvenréttindafrömuða Sádi-Arabíu á Twitter, sem nú heitir X. Hún var meðal annars ákærð fyrir að „raska allsherjarreglu, og raska öryggi samfélagsins og stöðugleika ríkisins.”
Í mars 2022 dæmdi sérstaki sakamáladómstóllinn Salma al-Shehab í sex ára fangelsi. Við áfrýjunarréttarhöld yfir henni í ágúst 2022 krafðist ákæruvaldið harðari refsingar sem leiddi til þess að sérstaki sakamáladómstóllinn herti dóm hennar í 34 ár. Í janúar 2023 var dómnum breytt í kjölfar þess að hæstiréttur vísaði máli hennar aftur til sérstaka sakamáladómstólsins eftir að hún áfrýjaði málinu. Í þetta sinn var hún dæmd í 27 ára fangelsi ásamt 27 ára ferðabanni að lokinni afplánun.
Í september 2024, eftir að hæstiréttur sendi mál hennar aftur til sérstaka sakamáladómstólsins, var fangelsisrefsing hennar lækkuð úr 27 árum í fjögurra ára fangelsi og til fjögurra ára á skilorði. Fjögurra ára fangelsisdómi hennar lauk í desember 2024 og var hún loks látin laus í þessum mánuði.
Dana Ahmed, rannsakandi í Miðausturlöndum
Meðal annarra sem afplána álíka langa dóma má nefna konur eins og Manahel al-Otaibi og Noura al-Qahtani, sem voru dæmdar í fangelsi fyrir að tala fyrir réttindum kvenna og Abdulrahman al-Sadhan, sem dæmdur var í 20 ára fangelsi fyrir háðsádeilutíst.
Við hvetjum yfirvöld í Sádi-Arabíu til að leysa þau úr haldi án tafar og binda enda á vægðarlausa aðför stjórnvalda að tjáningarfrelsinu í eitt skipti fyrir öll.
Lausn Salma hefði ekki verið möguleg án þrotlausrar baráttu aðgerðasinna um allan heim.
Íslandsdeild Amnesty International tók fyrir mál hennar árið 2024 og söfnuðust 1681 undirskrift.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu