Fréttir

20. mars 2017

Samn­ingur ESB við Tyrk­land: Smán­ar­blettur á samvisku Evrópu

Samn­ingur ESB við Tyrk­land, sem leitt hefur til þján­ingar þúsunda flótta­manna og farand­fólks, er smán­ar­blettur á sameig­in­legri samvisku Evrópu segir Amnesty Internati­onal, nú þegar ár er liðið frá því að samn­ing­urinn tók gildi.

Samn­ing­urinn, sem miðaði að því að endur­senda hælis­leit­endur til Tyrk­lands, á þeirri fölsku forsendu að Tyrk­land sé öruggt ríki, hefur ekki náð tilgangi sínum heldur lokað hælis­leit­endur inni við ömurleg og ótrygg skil­yrði á grísku eyjunum.

„Þetta er myrkur dagur í sögu flótta­manna­vernd­ar­innar, dagur sem vitnar um tilraun þjóð­ar­leið­toga Evrópu til að fría sig frá alþjóð­legum skuld­bind­ingum sínum, í algjöru andvara­leysi gagn­vart þeirri mann­legu neyð sem fylgir samn­ingnum,“ segir John Dalhuisen, fram­kvæmda­stjóri Evrópu­skrif­stofu Amnesty Internati­onal.

„Með einu penn­astriki fyrir ári fóru grísku eyjarnar frá því að vera griðastaður fyrir hælis­leit­endur í það að vera staður þar sem ótti og háski ræður ríkjum. Ári síðar eru þúsundir fastir í hættu­legri, örvænt­inga­fullri og að því er virðist, enda­lausri óvissu.“

Meiri­hluti hælis­leit­enda sem dvelur í flótta­manna­búðum á grísku eyjunum hefur ekki leyfi til að yfir­gefa þær. Hælis­leit­endum er smalað saman, eins og sauðfé, í yfir­fullar og niður­níddar flótta­manna­búðir þar sem þeir sæta oft haturs­glæpum. Fimm flótta­menn á eyjunni Lesbos, þeirra á meðal barn, hafa látið lífið vegna slæmra aðstæðna.

Þrátt fyrir að leið­togar Evrópu hafi haldið fast í þann skáld­skap að Tyrk­land sé öruggt þriðja ríki fyrir hælis­leit­endur og flótta­menn þá eru grískir dómstólar á öðru máli og hafa hingað til bannað allar endur­send­ingar sýrlenskra hælis­leit­enda til Tyrk­lands á þeirri forsendu að landið sé ekki öruggt.
Amnesty Internati­onal hefur hins vegar skráð tilfelli þar sem sýrlenskir hælis­leit­endur hafa verið þving­aðir aftur til Tyrk­lands án þess að fá tæki­færi til að sækja um hæli í Grikklandi eða áfrýja úrskurði um endur­send­ingu. Hvort tveggja gengur í berhögg við alþjóðleg lög. Aðrir hafa snúið aftur til Tyrk­lands sjálf­vilj­ugir vegna ástandsins á grísku eyjunum.

Árs afmæli samn­ingsins ber upp á sama tíma og frestur lögfræð­inga rennur út til að koma viðbót­ar­gögnum á fram­færi til æðsta dómstóls Grikk­lands vegna einstak­lings­máls sem sker úr um hvort Tyrk­land geti talist „öruggt ríki“ fyrir flótta­fólk. Málið varðar Noori, 21 árs hælis­leit­enda, sem hefur verið í ólög­mætu varð­haldi í rúmlega sex mánuði eftir að hælis­um­sókn hans fékk synjun á þeirri forsendu að Tyrk­land væri „öruggt land fyrir hann“. Það veltur á úrskurði æðsta dómstóls Grikk­lands hvort Noori verður sendur aftur til Tyrk­lands. Úrskurð­urinn, sem er vænt­an­legur í þessum mánuði, er að öllum fordæm­is­gef­andi og gæti opnað á flóð­gátt fyrir frekari endur­send­ingar til Tyrk­lands. SJÁ MYND­BAND

Í stað þess að vinna að því að fá hælis­leit­endur og flótta­menn endur­senda til Tyrk­lands ættu ríki ESB að vinna með grískum yfir­völdum að brýnum flutn­ingi hælis­leit­enda til megin­lands Grikk­lands þar sem þeir hljóti aðgang að endur­flutn­ingi til annarra Evrópu­landa eða öðrum laga­legum og öruggum leiðum til Evrópu.
Þrátt fyrir að samn­ingur ESB við Tyrk­land hafi brugðist bæði laga­lega og siðferð­is­lega þá hafa margir leið­togar Evrópu hampað samn­ingnum og sagt hann vera fyrir­mynd að sams­konar samn­ingum við önnur ríki.

„Sú stað­reynd að þjóð­ar­leið­togar Evrópu segi samn­inginn hafa borið góðan árangur, samning sem valdið hefur ómældum sárs­auka, flettir ofan af þeirri stað­reynd að samn­ingur ESB við Tyrk­land hefur ekkert með vernd flótta­fólks að gera en allt að gera með leið til að halda flótta­fólki frá Evrópu,“ segir John Dalhuisen.

„Samn­ingur ESB við Tyrk­land er smán­ar­blettur á samvisku Evrópu. Nú þegar líða tekur á annað ár samn­ingsins ætti ekki að horfa á hann sem forskrift að öðrum samn­ingum heldur uppskrift að hörm­ungum fyrir þúsundir örvingl­aðra einstak­linga sem flýja stríðs­átök í leit að griðastað.“

Lestu einnig