Fréttir
20. mars 2017Samningur ESB við Tyrkland, sem leitt hefur til þjáningar þúsunda flóttamanna og farandfólks, er smánarblettur á sameiginlegri samvisku Evrópu segir Amnesty International, nú þegar ár er liðið frá því að samningurinn tók gildi.
Samningurinn, sem miðaði að því að endursenda hælisleitendur til Tyrklands, á þeirri fölsku forsendu að Tyrkland sé öruggt ríki, hefur ekki náð tilgangi sínum heldur lokað hælisleitendur inni við ömurleg og ótrygg skilyrði á grísku eyjunum.
„Þetta er myrkur dagur í sögu flóttamannaverndarinnar, dagur sem vitnar um tilraun þjóðarleiðtoga Evrópu til að fría sig frá alþjóðlegum skuldbindingum sínum, í algjöru andvaraleysi gagnvart þeirri mannlegu neyð sem fylgir samningnum,“ segir John Dalhuisen, framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu Amnesty International.
„Með einu pennastriki fyrir ári fóru grísku eyjarnar frá því að vera griðastaður fyrir hælisleitendur í það að vera staður þar sem ótti og háski ræður ríkjum. Ári síðar eru þúsundir fastir í hættulegri, örvæntingafullri og að því er virðist, endalausri óvissu.“
Meirihluti hælisleitenda sem dvelur í flóttamannabúðum á grísku eyjunum hefur ekki leyfi til að yfirgefa þær. Hælisleitendum er smalað saman, eins og sauðfé, í yfirfullar og niðurníddar flóttamannabúðir þar sem þeir sæta oft hatursglæpum. Fimm flóttamenn á eyjunni Lesbos, þeirra á meðal barn, hafa látið lífið vegna slæmra aðstæðna.
Þrátt fyrir að leiðtogar Evrópu hafi haldið fast í þann skáldskap að Tyrkland sé öruggt þriðja ríki fyrir hælisleitendur og flóttamenn þá eru grískir dómstólar á öðru máli og hafa hingað til bannað allar endursendingar sýrlenskra hælisleitenda til Tyrklands á þeirri forsendu að landið sé ekki öruggt.
Amnesty International hefur hins vegar skráð tilfelli þar sem sýrlenskir hælisleitendur hafa verið þvingaðir aftur til Tyrklands án þess að fá tækifæri til að sækja um hæli í Grikklandi eða áfrýja úrskurði um endursendingu. Hvort tveggja gengur í berhögg við alþjóðleg lög. Aðrir hafa snúið aftur til Tyrklands sjálfviljugir vegna ástandsins á grísku eyjunum.
Árs afmæli samningsins ber upp á sama tíma og frestur lögfræðinga rennur út til að koma viðbótargögnum á framfæri til æðsta dómstóls Grikklands vegna einstaklingsmáls sem sker úr um hvort Tyrkland geti talist „öruggt ríki“ fyrir flóttafólk. Málið varðar Noori, 21 árs hælisleitenda, sem hefur verið í ólögmætu varðhaldi í rúmlega sex mánuði eftir að hælisumsókn hans fékk synjun á þeirri forsendu að Tyrkland væri „öruggt land fyrir hann“. Það veltur á úrskurði æðsta dómstóls Grikklands hvort Noori verður sendur aftur til Tyrklands. Úrskurðurinn, sem er væntanlegur í þessum mánuði, er að öllum fordæmisgefandi og gæti opnað á flóðgátt fyrir frekari endursendingar til Tyrklands. SJÁ MYNDBAND
Í stað þess að vinna að því að fá hælisleitendur og flóttamenn endursenda til Tyrklands ættu ríki ESB að vinna með grískum yfirvöldum að brýnum flutningi hælisleitenda til meginlands Grikklands þar sem þeir hljóti aðgang að endurflutningi til annarra Evrópulanda eða öðrum lagalegum og öruggum leiðum til Evrópu.
Þrátt fyrir að samningur ESB við Tyrkland hafi brugðist bæði lagalega og siðferðislega þá hafa margir leiðtogar Evrópu hampað samningnum og sagt hann vera fyrirmynd að samskonar samningum við önnur ríki.
„Sú staðreynd að þjóðarleiðtogar Evrópu segi samninginn hafa borið góðan árangur, samning sem valdið hefur ómældum sársauka, flettir ofan af þeirri staðreynd að samningur ESB við Tyrkland hefur ekkert með vernd flóttafólks að gera en allt að gera með leið til að halda flóttafólki frá Evrópu,“ segir John Dalhuisen.
„Samningur ESB við Tyrkland er smánarblettur á samvisku Evrópu. Nú þegar líða tekur á annað ár samningsins ætti ekki að horfa á hann sem forskrift að öðrum samningum heldur uppskrift að hörmungum fyrir þúsundir örvinglaðra einstaklinga sem flýja stríðsátök í leit að griðastað.“
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu