Fréttir

3. júní 2021

Síerra Leóne: Geðheil­brigð­is­þjón­usta áríð­andi í kjölfar ebólufar­aldurs og stríðs­átaka

Í nýrri skýrslu Amnesty Internati­onal er greint frá alvar­legum skorti á geðheil­brigð­is­þjón­ustu í Síerra Leóne fyrir fólk sem hefur orðið fyrir sálrænum áföllum í kjölfar grimmi­legrar borg­ara­styrj­aldar og skæðs ebólufar­aldurs.

Á árunum 1991 til 2002 herjaði borg­ara­styrjöld í landinu þar sem tugir þúsunda almennra borgara létu lífið og rúmlega tvær millj­ónir einstak­linga misstu heimili sín. Árið 2014, þegar landið var enn í uppbygg­ingu eftir stríðið, braust ebólufar­aldur út í Vestur-Afríku. Samkvæmt Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­un­inni greindust rúmlega 14 þúsund einstak­lingar með ebólu­veiruna á árunum 2014-2016 og rétt um  4.000 einstak­lingar létu lífið.

Geðheil­brigð­is­þjón­usta í landinu mætir alls ekki þörfum fólks vegna skorts á ríkis­fram­lagi, faglærðu geðheil­brigð­is­starfs­fólki og þjón­ustu í dreif­býli ásamt ófull­nægj­andi fjár­magni frá alþjóð­legum styrktarað­ilum.

 

Í skýrsl­unni ‘They Are Forgetting About Us’: The long­term mental health impact of war and Ebola in Sierra Leone lýsa viðmæl­endur frá því hvernig þeir glíma enn við áhrif hörm­unga og sorgar. Amnesty Internati­onal vann rann­sókn frá nóvember 2020 til maí 2021 og tók viðtöl við 55 einstak­linga, þar af 25 einstak­linga frá Síerra Leóne sem sem sættu ofbeldi í stríðinu eða smit­uðust af ebólu­veirunni. Viðtöl voru einnig tekin við sérfræð­inga innan heil­brigðis­kerf­isins, opin­bert starfs­fólk og full­trúa frá félaga­sam­tökum.

„Síerra Leóne stendur frammi fyrir brotnu heil­brigðis­kerfi og fjár­hagserf­ið­leikum eins og mörg önnur lönd en geðheilsa fólks er ekki munað­ar­vara heldur grund­vall­ar­mann­rétt­indi. Síerra Leóne verður að standa við skuld­bind­ingar sínar sem settar hafa verið fram í stefnum ríkis­stjórn­ar­innar og fjár­festa í umbótum á geðheil­brigð­is­þjón­ustu. Með samstarfi innlendra aðila, styrkjum frá ríkjum og stofn­unum ætti að auðvelda yfir­völdum að veita þá aðstoð sem bráð­vantar til að setja þessa mikil­vægu þjón­ustu í forgang.”

Rawya Rageh, ráðgjafi Amnesty Internati­onal.

Sálræn áföll vegna stríðsátaka

 

Marie tjáði Amnesty Internati­onal að uppreisn­arher hefði ráðist á þorpið hennar í borg­ara­styrj­öld­inni og skorið af henni höndina.

„Ég bað þá, ég sagði vinsam­legast hlífið mér í nafni Guðs“. Þeir sögðu: „Við erum Guð hér og við ráðum því hvort þú lifir eða deyrð.“

Marie segir að þeir hafi skilið hana eftir til að deyja og hún hafi þurft að klára að skera af sér höndina til að lifa af.

 

 

Fólk sem hefur orðið fyrir síend­ur­teknum sálrænum áföllum í stríðs­átökum er líklegra að þróa með sér geðræn vandamál. Einstak­lingar sem lifðu af borg­ara­styrj­öldina tjáðu Amnesty Internati­onal að þeir hafi verið vitni að því að heimili þeirra og þorp voru jöfnuð við jörðu, horft upp á ástvini sína skotna til bana eða fundið lík þeirra á flótta til bjargar lífi sínu. Margt fólk hlaut varan­lega líkam­legan skaða.

Áföll vegna ebólufaraldurs

 

Viðmæl­endur sem lifðu af ebólu­veiruna sögðu Amnesty Internati­onal frá þeim gífur­legu sálrænu áföllum sem þeir hafa upplifað í kjölfar veik­ind­anna. Margir héldu að þeir myndu deyja. Þeir sögðu enn fremur að óreiða, skortur á upplýs­ingum og almennt léleg viðbrögð stjórn­valda við faraldr­inum hafi ýtt undir þján­ingar þeirra.

Fjöl­margir þeirra sem lifðu af misstu fjöl­skyldu­með­limi sína í faraldr­inum. Kaday greindi frá því að hún hafi deilt herbergi með fjórum systkinum eftir að þau smit­uðust öll af ebólu­veirunni árið 2014. Hún sagði:

„Þau dóu öll og ég var sú eina sem gat hulið andlit þeirra. Þótt ég hafi verið með æðalegg þá þurfti ég að skríða á gólfinu og hylja andlit þeirra.“

Meiri­hluti viðmæl­enda sem lifði af ebólufar­ald­urinn er enn að fást við auka­verk­anir, þar á meðal vöðva­verki, mátt­leysi, augn­vandamál, óreglu­legan blóð­þrýsting og minn­is­leysi. Nokkrir sögðu að kórónu­veirufar­ald­urinn hafi vakið upp hræði­legar minn­ingar og endur­vakið stöð­ugan ótta þeirra við dauðann.

Skömm og skortur á aðstoð

„Geðheilsa er ekki aðeins mann­rétt­inda­máli heldur varðar einnig almanna­heill. Ríkis­stjórn Síerra Leóne verður að setja geðheilsu í forgang og óska ​​eftir sérstökum úthlut­unum frá styrktarað­ilum til bæta  geðheil­brigð­is­þjón­ustu. Við biðlum einnig til alþjóð­legra styrktaraðila að styðja við herferðir sem miða að því að berjast gegn fordómum gegn geðrænum vanda­málum. Þetta ástand getur ekki varað  lengur óáreitt.“

 Rawya Rageh, ráðgjafi Amnesty Internati­onal

Í Síerra Leóne fylgir andlegum veik­indum mikil skömm og algengt er að telja slík veik­indi vera tilkomin vegna yfir­nátt­úru­legra orsaka. Þrátt fyrir augljósa þörf á geðheil­brigð­is­þjón­ustu í landinu er hún af skornum skammti. Íbúar í Síerra Leóne eru um 7 millj­ónir en í landinu eru aðeins 20 geðhjúkr­un­ar­fræð­ingar og þrír geðlæknar.

15 af 25 viðmæl­endum Amnesty Internati­onal sögðust ekki vita hvernig hægt væri að leita sér sálrænnar aðstoðar, hvorki á vegum ríkisins né félaga­sam­taka.

Fátækt er annar þáttur sem hefur gífurleg áhrif á geðheilsu fólks. Margt fólk sem lifað hefur af þessar hörm­ungar segja að svikin loforð um félags­legan stuðning og skert lífsaf­koma hafa haft enn frekari neikvæð áhrif á líðan þess. Því finnst að stjórn­völd og alþjóða­stofn­anir sem áður veittu neyð­ar­að­stoð hafi brugðist þeim. „Á svo margan hátt er verið að gleyma okkur,“ segir Mariatu, sem lifði af ebólu­veiruna.

Lestu einnig