Fréttir
13. nóvember 2020Gustavo Gatica var 21 árs þegar hann blindaðist í mótmælum í Síle af völdum lögreglu. Mál hans er eitt af málunum okkar í ár í árlegri herferð okkar Þitt nafn bjargar lífi. Í fyrstu vildu yfirvöld ekki taka ábyrgð og gáfu til kynna að mótmælendur hefðu sjálfir slasað Gustavo. Amnesty International rannsakaði harkaleg viðbrögð yfirvalda við fjöldamótmælin sem hófust í október 2019. Í kjölfarið hóf ríkissaksóknari að rannsaka málið. Gustavo skrifar hér um málið sitt. Hann lýsir því hversu mikið stuðningur hefur skipt hann máli og hvernig það er að venjast nýju lífi.
Krefjumst réttlætis fyrir Gustavo Gatica. Skrifaðu undir hér. það er mikilvægt að halda þrýstingnum áfram í máli hans. Það hefur sýnt sig að það virkar!
Grein eftir Gustavo Gatica
Lögreglan refsar okkur fyrir að mótmæla
Líf mitt gjörbreyttist þann 8. nóvember á síðasta ári. Ég er sálfræðinemi í háskóla frá Santiago í Síle og á þessum tíma átti háskólinn hug minn allan.
Þennan umrædda dag tók ég þátt í fjöldamótmælum. Ég var skotinn í bæði augun af Carabinero-lögreglu og missti í kjölfarið alveg sjónina
Hvers vegna var ég skotinn? Vegna þess að ég nýtti rétt minn til að taka þátt í mótmælum.
Mótmælin hófust þann 18. október 2019 þar sem við kröfðumst kerfisbreytinga vegna ójöfnuðar í samfélaginu. Það er alltaf ákveðin áhætta að fara út á götu til að krefjast réttinda sinna í Síle. Það er ekki hægt að vera viss um að komast heim heilu og höldnu.
Samkvæmt opinberum tölum mannréttindastofnunarinnar í Síle létust að minnsta kosti fjórir einstaklingar og 12.500 særðust af völdum öryggissveita á fyrstu sex vikum mótmælanna. Amnesty International greindi frá því að haglaskotum og táragassprengjum var vísvitandi miðað á efri hluta líkama mótmælenda með þeim afleiðingum að minnsta kosti 460 mótmælendur hlutu augnáverka á þeim fjórum mánuðum sem mótmælin stóðu yfir.
Ásetningur yfirvalda var augljós. Hann var sá að refsa okkur fyrir að mótmæla.
Framfarir í málinu
Síðan þetta gerðist hefur margt fólk víða að boðist til að hjálpa mér og við höfum byggt upp stórt tengslanet. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning og samhug sem mér hefur verið sýndur. Það gefur mér styrk til að halda áfram.
Ég hef ávallt trúað á mikilvægi réttlætis, sannleikans og skaðabóta fyrir þolendur mannréttindabrota á tímum alræðisstjórnar hersins á 20. öld í Síle. Ég trúi því að það sé mikilvægt að nota þetta stóra stuðningsnet til að berjast fyrir réttlæti enn og aftur.
Yfirvöld hafa upplýst mig um framvindu rannsóknar á máli mínu. Það voru miklar tafir en í ágúst, eftir níu mánuði, var Claudio Crespo, liðsforingi Carabinero-lögreglusveitinni handtekinn fyrir grun um að hafi valdið áverkum mínum. Ég er ánægður með þessar framfarir en nú bíð ég eftir því að dómskerfið virki og ákæri þá einstaklinga sem gáfu Carabineors-lögreglumönnum leyfi til að skjóta okkur dag eftir dag.
Ég vil þakka Amnesty International fyrir stuðninginn þar sem hann hefur skipt gríðarlegu máli fyrir framvindu í máli mínu. Alþjóðlegur stuðningur skiptir sköpum þar sem stjórnvöld í Síle bregðast frekar við þrýstingi erlendis frá heldur en frá eigin fólki.
Breytt líf
Það hefur verið erfitt að venjast því að hafa misst sjónina. Fyrstu dagana var mjög erfitt fyrir mig að halda á gaffli til að borða. Ég varð að læra það alveg upp á nýtt. Með tímanum hef ég náð aukinni færni til að halda áfram að lifa lífinu. Núna get ég gert hluti eins og að elda mat, jafnvel þó það sé illa gert þá get ég það. Ég er líka að læra að spila á trommur og píanó.
Það sem hefur verið erfiðast er að fara út og nota blindrastaf. Það er mjög taugatrekkjandi út af hávaðanum og umhverfinu. Þrátt fyrir það fór ég aftur að mótmæla á torginu þar sem ég var skotinn. Það var mikilvægt fyrir mig að vera þar og finna hlýhug fólksins. Margt fólk þakkaði mér fyrir. Mér þótti vænt um það þótt mér fyndist það skrítið.
Enn brotið á mótmælendum
Ég hef haldið mig að mestu heima með fjölskyldu minni út af heimsfaraldrinum. Við höfum verið eins lítið úti og mögulegt er til að taka ekki neina áhættu. Því miður á kúgun sér enn stað í Síle. Hermenn eru á götum úti, vopnaðir rifflum og haglabyssum, til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar. Ég átta mig ekki á því af hverju þetta á sér stað í Síle. Ég skil ekki tilganginn með því að hermenn séu vopnaðir á götum úti á tímum kórónuveirufaraldursins.
Hermenn eru ekki þjálfaðir í að halda stillingu meðal almennings á mótmælum. Þeir eru þjálfaðir fyrir stríð. Fyrir nokkrum mánuðum var karlmaður skotinn og hlaut hann alvarlegan augnáverka. Því miður eru þessir hlutir enn að gerast í kórónuveirufaraldrinum. Afstaða stjórnvalda til mannréttindabrota hefur ekki breyst.
Ég mun eftir bestu getu ávallt styðja við þolendur mannréttindabrota. Það verður að halda áfram að krefjast réttlætis og skaðabóta þegar brotið er á mannréttindum.
Kúgunin sem við stóðum frammi fyrir í Síle í fyrra má ekki endurtaka sig.
Stytt grein eftir Gustavo Gatica.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu