Yfirlýsing

20. maí 2022

Skortur á samráði við gerð frum­varps til breyt­inga á lögum um útlend­inga

Alþingi hefur nú lokið fyrstu umræðu um frum­varp dóms­mála­ráð­herra um breyt­ingar á útlend­inga­lögum. Frum­varpið er nú endur­flutt í fjórða sinn en í örlítið breyttri mynd frá því frum­varpi sem birt var til umsagnar í Samráðs­gátt í lok janúar sl. Endur­tekið hefur komið fram fjöldi umsagna um efni frum­varpsins og því ljóst að það er mjög umdeilt. Eftir­taldir aðilar lýsa því yfir áhuga og vilja á því að koma á samráði og samvinnu um mótun laga í mála­flokknum.

Útlend­inga­lög­gjöfina þarf að þróa áfram af ábyrgð og raunsæi til fram­tíðar. Til að tryggja víðtæka sátt er mikil­vægt að auka traust og gagnsæi um ákvarð­anir útlend­inga­yf­ir­valda, sem og móta skýra og heild­stæða stefnu í mála­flokknum, enda væri það í anda stjórn­arsátt­mála núver­andi ríkis­stjórnar og mark­miða hennar.

Alls­herjar- og mennta­mála­nefnd Alþingis hefur nú sent frum­varpið til umsagnar á ný. Núver­andi frum­varp er í megin­at­riðum það sama og áður hefur verið birt til umsagnar í Samráðs­gátt. Í umsögnum um fyrri útgáfu frum­varpsins hafa umsagnar­að­ilar frá stofn­unum og samtökum lýst yfir skorti á samráði við gerð frum­varpsins auk veru­legra vankanta á efni frum­varpsins.

Áríð­andi er að mikil­vægar laga­breyt­ingar eins og þessar séu unnar í samráði og samtali við aðila sem starfa við mála­flokkinn og hafa til þess sérþekk­ingu og reynslu. Við vinnslu núver­andi frum­varps var lítið horft til þess.

Þess ber að geta að lög um útlend­inga sem tóku gildi í upphafi árs 2017 voru unnin í þver­póli­tísku og þverfag­legu samráði og fólu í sér veru­legar rétt­ar­bætur fyrir umsækj­endur um alþjóð­lega vernd á Íslandi. Mikil­vægt er að vernd­ar­kerfið sé í stakk búið til að mæta þeim aðstæðum sem uppi eru hverju sinni en það er ekki síður mikil­vægt að breyt­ingar séu unnar í sátt og samráði við fagaðila.

Í  fyrstu umræðu Alþingis um frum­varpið kom fram að mikil vinna væri fyrir höndum fyrir alls­herjar- og mennta­mála­nefnd og að frum­varpið þurfi að skoða gríð­ar­lega vel, bæta þurfi kerfið og jafnvel kalla til sérfræð­inga ef þörf er á. Við viljum því með þessari sameig­in­legu yfir­lýs­ingu benda á að áður en lög sem þessi eru mótuð og skrifuð teljum við rétt að samráð verði haft við alla þá hags­muna­aðila sem að mála­flokknum koma svo lögin tryggi að rétt­indi þeirra sem sækja um alþjóð­lega vernd séu vernduð og virt í hvívetna. Þá fyrst verður hægt að ná þeirri þverfag­legu sátt sem tókst við mótun fyrri laga.

Við skorum því á ríkis­stjórnina að stíga skref til baka, dýpka samtalið og samráðið og þannig ná faglegri sátt líkt og áður hefur tekist.

 

Alþýðu­sam­band Íslands
Barna­heill – Save the Children á Íslandi
Geðhjálp
Hjálp­ar­starf kirkj­unnar
Íslands­deild Amnesty Internati­onal
Kven­rétt­inda­félag Íslands
Lands­sam­tökin Þroska­hjálp
Mann­rétt­inda­skrif­stofa Íslands
Rauði krossinn á Íslandi
Samtökin 78
Siðmennt
WOMEN in Iceland
UN Women á Íslandi
UNICEF á Íslandi
ÖBÍ

Lestu einnig